Reglugerð Orlofssjóðs

1. gr. Nafn sjóðsins, heimili og sjóðfélagar

Sjóðurinn heitir Orlofssjóður Eflingar-stéttarfélags.

Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

Sjóðfélagar eru þeir sem greitt er af til sjóðsins.

2. gr.Tilgangur og markmið

Tilgangur sjóðsins er að gera sjóðfélögum kleift að njóta orlofs með því að að koma upp og reka orlofshús og orlofsíbúðir og semja um hagstæð kjör á orlofsferðum og gistingu bæði innanlands og utan. Sjóðnum er heimilt að ganga til samstarfs við önnur stéttarfélög í framangreindum tilgangi.

3. gr. Tekjur sjóðsins

Tekjur sjóðsins eru:

a) Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.

b) Leigutekjur af orlofsheimilunum.

c) Vaxtatekjur og aðrar tekjur er til falla.

4. gr. Stjórn sjóðsins

Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum og tveim til vara. Skulu þrír aðalmenn og tveir varamenn kosnir af trúnaðarráði en tveir aðalmenn sem skipi stöðu formanns og varaformanns sjóðsins kosnir beint af félagsstjórn.

Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Skal hún skipuð á síðasta fundi trúnaðarráðs og aðalstjórnar fyrir aðalfund sama ár og formaður félagsins er kosinn. Ný stjórn tekur við þegar kjöri hennar hefur verið lýst á aðalfundi.

Stjórnin annast vörslu sjóðsins og ávöxtun hans og rekstur og umsjón eigna.

Sjóðnum skal stjórnað í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.

Sjóðsstjórn setur sér starfsreglur þar á meðal um rétt til úthlutunar.

5. gr. Reikningar og endurskoðun

Halda skal bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum félagsins. Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins skulu skráðar á nafn hvers sjóðfélaga.

Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram endurskoðaðir og áritaðir af skoðunarmönnum reikninga félagsins og löggiltum endurskoðenda fyrir aðalfund félagsins.

6. gr. Ávöxtun sjóðsins

Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:

  1. a) Í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum tryggðum með öruggum fasteignaveðum.
  2. b) Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum.
  3. c) Í bönkum og sparisjóðum.
  4. d) Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan og veitir jafn góða ávöxtun og liðum a-c. Ávallt skal þess gætt að varsla og ráðstöfun fjármuna sjóðsins fari eigi í bága við markmið hans og verkefni.

7. gr. Reksturskostnaður

Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu félagsins. Allan beinan kostnað við rekstur ber sjóðurinn sjálfur. Kostnað vegna afgreiðslu og skrifstofuhalds skal ákveða í samkomulagi milli stjórna sjóðsins og félagsstjórnar.

8.gr. Málskot

Heimilt er að vísa ágreiningi vegna úthlutunar til úrskurðar félagsstjórnar.

9. gr. Breytingar á reglugerðinni

Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda sé þess getið í fundarboði að reglugerðarbreytingar séu á dagskrá og ennfremur skulu breytingarnar áður hafa verið ræddar á almennum félagsfundi minnst viku fyrir aðalfund. Tillögum til reglugerðarbreytinga, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skilað til félagstjórnar eigi síðan er fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nægir til þess að reglugerðarbreyting teljist samþykkt.

10. gr. Gildistími

Reglugerðinni var síðast breytt á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 30. apríl 2002 og gildir frá þeim tíma.

Reglugerðin var samþykkt á framhaldsaðalfundum Dagsbrúnar og Framsóknar-stéttarfélags 12. nóvember 1998, Starfsmannafélagsins Sóknar 3. nóvember 1998 og Félags starfsfólks í veitingahúsum 15. nóvember 1998. Reglugerðin var gefin út í desember 1998 og á félagsfundi Iðju, félagi verksmiðjufólks 24. nóvember 1999.

Reglugerðinni var breytt á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 10. maí 2001.

Reglugerðinni var breytt á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 30. apríl 2002.