Lög og reglugerðir Eflingar

Lög Eflingar

I. KAFLI
NAFN OG TILGANGUR

1. gr.

Félagið heitir Efling stéttarfélag og nær starfssvið þess yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu að Botnsá, Grímsnes og Grafningshrepp, Hveragerðisbæ og Sveitarfélagið Ölfus. Starfssvið félagsmanna sem starfa á veitinga- og gististöðum og við iðnað nær auk þess yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Bessastaðahrepp. Starfssvið félagsmanna sem starfa á Vífilsstöðum og í heimaþjónustu nær auk þess yfir Garðabæ.

Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er aðili að Alþýðusambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.

2. gr.

Tilgangur félagsins er sá að efla og styðja hag félagsmanna og menningu og stuðla að því að verkafólk taki virkan þátt í stjórnmálum lands og sveitarfélaga í þágu hagsmuna þess. Félagið skal kappkosta að ákveða vinnutíma, kaupgjald, vinnuskilmála, tryggja öryggi við vinnu og vinna að öðrum hagsmunamálum verkafólks með því að skipuleggja innan félagsins allt það verkafólk sem starfar á félagssvæðinu og hafa sér til lífsframfæris vinnu í eftirtöldum og öðrum hliðstæðum starfsgreinum:

a) Við fermingu og affermingu skipa og hvers konar annarra flutningstækja svo og móttöku og afhendingu farms.

b) Við húsbyggingar og efnisflutninga vegna byggingaframkvæmda.

c) Við hafnargerð, vegagerð, skurðgröft, landbúnaðarstörf og efnisflutninga sem tengjast áðurnefndum starfsgreinum.

d) Í þjónustu ríkis og sveitarfélaga.

e) Í heimaþjónustu, á leikskólum, við umönnun á sjúkrahúsum og stofnunum, í þvottahúsum og saumastofum sjúkrastofnana.

f) Við ræstingar, hreinlætisstörf, efnalaugar og þvottahús.

g) Við mötuneytisstörf.

h) Við varðstörf, öryggisvörslu og fjármunaflutninga.

i) Á veitinga- og gististöðum.

j) Við vinnslu og sölu sjávarafurða og landbúnaðarafurða.

k) Í iðnaði og í verksmiðjum svo sem járnsmíði, skipasmíði, blikksmíði (tunnugerð), garðyrkju, byggingar- og þungaiðnaði.

l) Við móttöku og afhendingu vara, þar með taldir bifreiðastjórar.

m) Við olíu-, bensín-, smur-, bón- og ryðvarnarstöðvar og hjólbarðaverkstæði.

n) Við stjórn vöruflutningabifreiða í þjónustu annarra og við stjórn á stórvirkum vinnutækjum, svo sem ýtum, vélskóflum og vélkrönum.

o) Við orkufrekan iðnað, jarðgangnagerð, virkjanir og aðrar stórframkvæmdir sem eru sambærilegar og við hliðstæðar nýjar starfsgreinar.

p) Við hvers konar önnur framleiðslu- og flutningastörf.

q) Við sjómannastörf og siglingar

II. KAFLI
SKYLDUR OG RÉTTINDI

3. gr.

Félagið er opið öllu verkafólki.

Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:

a) Starfa, hafa starfað eða eru að hefja störf í einhverri þeirra starfsgreina, er um getur í 2. gr.

b) Eru fullra 16 ára að aldri.

c) Eru hvorki skuldugir né standa í óbættum sökum við félagið eða önnur verkalýðsfélög innan Alþýðusambands Íslands.

d) Hafi ekki atvinnurekstur á hendi eða komi á annan hátt fram gagnvart verkafólki, sem fulltrúar eða umbjóðendur atvinnurekanda.

Þeir sem verið hafa félagsmenn og hafa aflað sér viðbótarmenntunar á starfssviði sínu hafa rétt til að vera áfram í félaginu.
Komi í ljós, að maður sem tekinn hefur verið inn í félagið hafi ekki átt rétt til inngöngu í það eða að hann hafi gefið villandi upplýsingar um atvinnu sína eða annað, missir hann þegar í stað öll félagsréttindi og verður ekki tekinn í félagið að nýju fyrr en úr er bætt að fullu.

4. gr.

Sá sem vill verða félagsmaður skal senda eða afhenda á skrifstofu félagsins inntökubeiðni undirritaða með eigin hendi á þar til gerðu eyðublaði eða staðfesta hana með öðrum hætti og er hann þá fullgildur félagsmaður og á rétt á félagsskírteini að því tilskyldu að hann uppfylli skilyrði 3. gr. og hafi greitt félagsgjöld í þrjá mánuði.

Ákvörðun um synjun á félagsaðild skal tekin á stjórnarfundi. Hafi manni verið synjað um inngöngu í félagið, má ekki bera upp inntökubeiðni hans aftur fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.

Synji stjórnarfundur einhverjum inngöngu í félagið, má skjóta málinu til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands en úrskurður stjórnar gildir þar til að annar úrskurður er felldur.

5. gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og afhendast skrifstofu félagsins.

Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni.

Enginn getur sagt sig úr félaginu meðan viðræður um kjarasamninga, vinnudeila sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanna stendur yfir. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hefur niður vinnu vegna vinnudeilu.

6. gr.

Réttindi fullgildra félagsmanna eru:

a) Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum og við allsherjaratkvæðagreiðslur ásamt kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra félagasambanda sem það er aðili að.

b) Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við reglur þeirra.

c) Réttur til að vinna þau störf sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim kjörum sem samningar ákveða hverju sinni.

d) Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum eftir því sem reglugerðir og samþykktir félagsins ákveða hverju sinni.

e) Réttur til að sækja fræðslustarf á vegum félagsins eða samtaka sem það er aðili að.

f) Réttur til aðstoðar vegna vanefnda á kjarasamningum, ráðningarkjörum og til annarrar þjónustu sem félagið veitir.

7. gr.

Skyldur félagsmanna eru:

a) Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum og halda í einu og öllu samninga er félagið hefur gert við atvinnurekendur og aðra.

b) Að greiða félagsgjöld.

c) Að veita stjórn félagsins og starfsmönnum þess upplýsingar um kaupgjald og vinnuskilmála hjá þeim atvinnurekendum sem þeir vinna eða hafa unnið hjá.

d) Enginn getur, nema hann beri fram afsökun, sem félagsfundur eða trúnaðarráðsfundur metur gilda, skorast undan að taka á móti kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins.

e) Að taka á móti endurkosningu eða gegna einhverju starfi sem hann er skipaður eða kosinn í næstu 4 ár en að þeim tíma liðnum getur hann fengið sig undanþeginn starfanum næstu 4 ár.

f) Að skýra starfsmönnum félagsins eða formanni frá því ef félagsmaður verður þess vís að lögbrot hafi átt sér stað í félaginu.

g) Að stuðla að því eftir mætti að verkafólk gangi í félagið.

8. gr.

Hafi félagsmaður brotið lög, reglugerðir eða fundasamþykktir félagsins, bakað því tjón eða unnið félaginu ógagn með öðrum hætti er trúnaðarráði félagsins heimilt að veita viðkomandi félagsmanni áminningu eða víkja honum úr félaginu ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað sem áminnt hefur verið fyrir áður. Einnig getur trúnaðarráð svipt viðkomandi rétti til að sinna trúnaðarstörfum.

Ef félagsmaður er sakaður um brot samkvæmt 1. málsgrein skal trúnaðarráð úrskurða í málinu eftir að hafa gefið stjórn félagsins og viðkomandi einstaklingi tækifæri til þess að tjá sig um málið.

Úrskurði trúnaðarráðs má skjóta til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Úrskurður trúnaðarráðsfundar gildir þar til annar úrskurður er felldur. Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki  afturkvæmt í það nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á fundi stjórnar eða á félagsfundi.

Félagsgjald

9. gr.

Félagsgjald og greiðsluform þess skal ákveðið á aðalfundi fyrir það ár sem yfir stendur og vera tiltekinn hundraðshluti af launum. Tillögu um breytingu á félagsgjaldi skal leggja fram 7 dögum fyrir aðalfund ella sé það óbreytt milli ára. Tillaga um breytingu á félagsgjaldi nær því aðeins samþykki að 2/3 atkvæða séu með henni.

a) Hver sá félagsmaður sem hættir störfum á starfssviði félagsins, nýtur ekki fullra félagsréttinda s.s. atkvæðisréttar og kjörgengis, nema sannað sé að veikindi, starfsmenntun, atvinnuleysi, heimilisaðstæður, barnsburðarleyfi eða aðrar gildar ástæður séu orsök þess að hann hafi ekki unnið á starfssvæði félagsins.

b) Þeir sem ekki hafa greitt til félagsins síðustu 12 mánuði skulu strikaðir út af félagsskrá, nema undantekningarástæður samkvæmt a. lið eigi við.

c) Félagsmenn 67 ára og eldri sem hættir eru störfum halda félagsréttindum þó þeir greiði ekki félagsgjöld enda hafi þeir verið fullgildir félagsmenn við starfslok.


III. KAFLI
STJÓRN -TRÚNAÐARRÁÐ – DEILDIR – TRÚNAÐARMENN – SAMNINGANEFND

A. Stjórn

10. gr.

Stjórn félagsins skipa 15 stjórnarmenn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og 11 meðstjórnendur.

Skoðunarmenn reikninga eru tveir og einn til vara.
Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár.
Formaður skal kosinn til tveggja ára í senn.
Af öðrum stjórnarmönnum skulu kosnir 7 aðalmenn í einu til tveggja ára og ganga 7 stjórnarmenn úr stjórn á víxl. Skoðunarmenn reikninga eru kosnir til tveggja ára og skulu þeir kosnir sama ár og kosning formanns fer fram.
Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga skal fara fram eigi síðar en fyrir lok mars ár hvert.

11.gr.

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfundar sbr. 28. gr. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á fjárreiðum félagsins og eignum þess. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að gögn og aðrar upplýsingarsem tengjast sögu félagsins séu sem best varðveittar. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra, vinnuskilyrði og starfsvið með ráðningarsamningum. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varðar.

Stjórn félagsins er heimilt að velja heiðursfélaga og heiðra með gullmerki félagsins. Til samþykkis þarf ¾ stjórnarinnar. Heiðursfélagar eru undanskildir ársgjaldi félagsins.

12. gr.

Stjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir mánaðarlega. Formaður kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund ef minnst fjórir stjórnarmenn óska eftir því. Hann undirritar gerðir félagsins og gætir þess, að allir starfsmenn þess geri skyldu sína. Hann ber ábyrgð á starfsemi félagsins og fylgist með því að lögum þess sé fylgt og reglum í öllum greinum. Varaformenn skulu í hvívetna aðstoða formann í starfi hans og taka við skyldum hans í forföllum.

13. gr.

Ritari ber ábyrgð á að gerðarbækur félagsins séu haldnar og sér um að í þær séu færðar allar fundargerðir, lagabreytingar og aðalreikningur. Hann undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins, en fundargerðir skulu engu að síður skráðar. Ritari ber ásamt formanni ábyrgð á að skjöl félagsins og önnur gögn séu varðveitt með skipulegum hætti.

14. gr.

Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókhaldi eftir nánari fyrirmælum stjórnar. Kjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara samþykktir og reikninga félagsins fyrir hvert reikningsár sem er almanaksárið og gera athugasemdir ef þörf er á.

B. Trúnaðarráð

15. gr.

Í félaginu skal starfa trúnaðarráð sem hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli félagsfunda sé ekki annars getið í lögum þess. Trúnaðarráðið skipa stjórn félagsins ásamt 115 fulltrúum félagsmanna. Fullskipað trúnaðarráð er 130 manns. Um kosningu trúnaðarráðs fer samkvæmt 26. gr.

Kjörtímabil trúnaðarráðs er tvö ár og hefst 1. janúar eftir kosningar. Kosning 115 fulltrúa félagsmanna skal fara fram fyrir nóvemberlok annað hvert ár, sama ár og formaður er kosinn. Stjórn félagsins skipar varamenn í forföllum aðalmanna. Við val á varamanni skal þess gætt að hann starfi á sama eða sambærilegum vinnustað og aðalmaður. Varamaður skal skipaður í stað aðalmanns sem hætt hefur störfum.

Allar fastanefndir, sem starfa í félaginu skulu kosnar af trúnaðarráði, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum. Fundir skulu haldnir í trúnaðarráði að jafnaði einu sinni í mánuði á tímabilinu 1. október til 1. maí. Annars boðar stjórn félagsins til fundar þegar hún telur þess þörf eða þegar minnst 1/4 hluti trúnaðarráðs óskar þess skriflega og greini frá fundarefni. Fundir skulu boðaðir bréflega með tilgreindri dagskrá með 7 daga fyrirvara. Heimilt er að boða fund með auglýsingum í fjölmiðlum eða úthringingum með skemmri fyrirvara gerist þess þörf. Formaður stjórnar fundi.

Trúnaðarráð setur sér starfsreglur og fundarsköp innan þess valdsviðs er lög þessi leyfa.

C. Starfsgreinahópar

16.gr.

Stjórn félagsins er heimilt í samráði við trúnaðarráð að setja á stofn starfsgreinahópasem vinni að hagsmunamálum viðkomandi hópa. Stjórnin setur hópunum nánari markmið og starfsreglur.

D. Trúnaðarmenn

17.gr.

Stjórn félagsins er rétt og skylt að skipa trúnaðarmenn á öllum vinnustöðum þar sem fimm félagsmenn eða fleiri vinna og samningar félagsins við atvinnurekendur taka til. Trúnaðarmenn skulu kosnir af þeim félagsmönnum sem starfa á viðkomandi vinnustöðum. Félagsstjórninni er heimilt að skipa trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur verði kosningu á vinnusvæði ekki við komið. Trúnaðarmenn skulu starfa eftir erindisbréfi er stjórn félagsins setur þeim. Trúnaðarmenn skulu hafa eftirlit með því að lögum félagsins, samþykktum og samningum sé hlýtt í hvívetna. Trúnaðarmenn skulu vera tengiliðir milli félagsstjórnar og starfsmanna félagsins og þess verkafólks sem vinnur á viðkomandi vinnustað og eiga þeir rétt á aðstoð stjórnar og starfsmanna í störfum sínum. Að öðru leyti fer um starfsemi, réttindi og skyldur trúnaðarmanna að lögum og kjarasamningum félagsins.

E. Samninganefnd

18.gr.

Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Nefndina skipar stjórn félagsins en hún skal að öðru leyti kosin af trúnaðarráði. Formaður samninganefndar skal vera formaður félagsins. Í forföllum aðalmanna í samninganefnd félagsins skal stjórninni heimilt að velja varamenn úr hópi trúnaðarmanna af vinnustöðum. Listi með nöfnum samninganefndarmanna skal liggja fyrir eigi síðar en 14 vikum áður en samningar eru lausir. Umboð samninganefndar fellur niður þegar aðalkjarasamningar og tengdir sérkjarasamningar hafa verið samþykktir. Við val á samninganefnd skal þess gætt að í henni eigi sæti fulltrúar úr deildum félagsins.

Samninganefnd kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samninganefnd hefur meðal annars umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins, gera áætlun um skipulag viðræðna við endurnýjun kjarasamninga, gera tillögur að samningum, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara um samningaumleitanir og undirrita kjarasamninga.

Samninganefndinni er heimilt:

a) Að fela stjórn félagsins umboð sitt til gerðar kjarasamnings og undirritunar hans.

b) Að skipta með sér verkum eftir samningssviðum og deildum og gera sérkjarasamninga um hvert starfssvið eða við einstaka vinnustaði.

c) Að kalla hvern þann félagsmann til starfa með sér sem hún telur þörf á hverju sinni.

d) Að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti.

e) Að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.

f) Að aflýsa vinnustöðvun eða fresta boðaðri vinnustöðvun einu sinni eða oftar um allt að 28 sólarhringa samtals eða fela stjórn félagsins umboð sitt til þess.

Komi til atkvæðagreiðslu í samninganefndinni ræður einfaldur meirihluti. Ákvarðanir samninganefndar um að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga umboð sitt um sameiginlegar atkvæðagreiðslur og um að aflýsa eða fresta vinnustöðvun eru því aðeins lögmætar og bindandi að þær hafi verið samþykktar með 3/4 hlutum greiddra atkvæða á lögmætum samninganefndarfundi. Samninganefnd er þó óheimilt að framselja sameiginlegri samninganefnd umboð sitt til að undirrita kjarasamninga og ákveða sameiginlegar atkvæðagreiðslur um þá. Um fundi, ákvarðanir og önnur atriði varðandi störf samninganefndar gilda sömu reglur og um störf trúnaðarráðs.

IV. KAFLI
ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA

19. gr.

Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa:

a) Um kosningu stjórnar, skoðunarmanna reikninga og trúnaðarráðs.

b) Um vinnustöðvun. Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til.

c) Um miðlunartillögu ríkissáttasemjara eftir því sem við á.

d) Þegar trúnaðarráð félagsins eða lögmætur félagsfundur, samþykkir að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu um tiltekin mál. Slíkar atkvæðagreiðslur er þó aðeins hægt að viðhafa um mál, sem lögð eru þannig fyrir að hægt er að svara með já eða nei eða kjósa þurfi milli tveggja tillagna og skulu þá útbúnir greinilegir atkvæðaseðlar um málið, svo að kjósandi þurfi aðeins að krossa við já eða nei, eða við aðra tillöguna ef tvær eru.

e) Við allsherjaratkvæðagreiðslu skal fara eftir reglugerð A.S.Í. þar að lútandi eftir því sem við á. Í stað allsherjaratkvæðagreiðslu á kjörfundi er stjórn félagsins heimilt að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.

V. KAFLI
KJÖRSTJÓRN

20.gr.

Kjörstjórn skal skipuð fimm félagsmönnum. Skulu fjórir kosnir af trúnaðarráði og sá fimmti tilnefndur af A.S.Í og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir af sömu aðilum. Kjörstjórn skal skipuð í október og er kjörtímabil hennar tvö ár. Hún skal kosin á sama ári og formaður. Hlutverk kjörstjórnar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna og kosninga samkvæmt lögum félagsins. Kjörstjórn annast prentun allra atkvæðaseðla er gilda við allsherjaratkvæðagreiðslur á kjörfundi og við póstatkvæðagreiðslur og sér um að atkvæðagreiðslan fari löglega fram og að fullkomin leynd sé á því hvernig menn greiða atkvæði. Hún telur atkvæði þegar að lokinni atkvæðagreiðslu og úrskurðar um vafaatkvæði.

Kjörstjórn heldur gerðabók og skal í hana fært áður en kosning hefst:

a) Hvenær hún hafi móttekið tillögur.

b) Ákvarðanir um hvenær atkvæðakassi er innsiglaður.

c) Fjölda atkvæðaseðla.

Þegar atkvæðagreiðslu eða kosningu er lokið skal fært í gerðabók:

a) Hve margir hafa greitt atkvæði.

b) Hve margir seðlar eru ónotaðir.

c) Úrslit atkvæðagreiðslunnar.

Kjörstjórn skal þegar eftir að talningu atkvæða er lokið í hvert skipti, afhenda formanni félagsins gerðabókina, sem skal undirrituð af kjörstjórn og umboðsmönnum lista eða afrit af úrslitum atkvæðagreiðslu.

21. gr.

Stjórn félagsins skal láta gera skrá yfir alla félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa í sérstaka kjörskrá. Kjörskrá skal liggja frammi eigi síðar en viku fyrir kjördag. Kærufrestur er til loka kjörfundar. Nýir félagsmenn geta gengið í félagið allt til loka kjörfundar. Umboðsmönnum þeirra sem standa að framboðum við kosningu stjórnar og trúnaðarmanna skal heimill aðgangur að félagaskrá einum mánuði fyrir kjördag.

VI. KAFLI
KOSNINGAR

A. Kosning stjórnar og
skoðunarmanna reikninga

22. gr.

Í félaginu skal starfa fimm manna uppstillingarnefnd. Þrír nefndarmanna skulu kosnir af trúnaðarráði en tveir af félagsfundi. Jafnmargir skulu kosnir til vara og með sama hætti. Varamenn taka sæti í nefndinni í forföllum aðalmanna. Nefndin skal kosin fyrir 10. október til tveggja ára í senn á sama ári og formaður. Nefndin skal hefja störf eigi síðar en í nóvember.Formaður félagsins kallar nefndina saman í fyrsta sinn eftir að hún hefur verið kosin. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi. Hún gerir tillögur um hverjir skipi stjórn og skoðunarmenn reikninga og leggur þær fyrir trúnaðarráð til samþykktar. Ef tillögur koma fram á trúnaðarráðsfundi um fleiri en uppstillingarnefnd gerir tillögur um, skal trúnaðarráð kjósa á milli þeirra.

Uppstillingarnefnd skal skila endanlegum tillögum til kjörstjórnar eigi síðar en 14 dögum fyrir kjördag og skal listinn merktur bókstafnum A. Tillaga A skal liggja frammi á skrifstofu félagsins og auglýst félagsmönnum til sýnis 8 dögum áður en kosning hefst. Öðrum listum skal skilað eigi síðar en 7 sólarhringum fyrir kjördag. Komi aðeins fram einn listi þarf kosning ekki að fara fram.

Við val á félagsmönnum til trúnaðarstarfa skal gætt jafnræðis milli kynja og milli starfsgreina.

23. gr.

Lista skulu fylgja meðmæli 120 félagsmanna. Skrifleg viðurkenning þeirra manna, sem í kjöri eru, skal jafngilda meðmælum. Á engan lista má taka upp nöfn manna sem gefa skriflegt leyfi til þess að nafn þeirra sé sett á annan lista.

24. gr.

Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga skal vera skrifleg og leynileg og fara fram á kjörfundi sem standa má í allt að tvo daga samkvæmt nánari ákvörðun kjörstjórnar.

Kjörstjórn afhendir félagsmanni kjörseðil á kjörfundi eftir að hafa gengið úr skugga um að hann sé á kjörskrá og merkt við nafn hans. Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan þann lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.

Kjörseðill er gildur ef hann ber greinilega með sér hvern eða hverja kjósandi hafi ætlað að kjósa og engin sérstök einkenni eru á honum er sýni hver kosið hefur. Ávallt skal einn maður, tilnefndur af kjörstjórn, vera kjörstjóri.

Hverju framboði er skylt að tilnefna tvo umboðsmenn sem komi fram fyrir hönd þess gagnvart kjörstjórn og er þeim heimilt að vera viðstaddir talningu. Óheimilt er að viðhafa nokkurn kosningaáróður á kjörstað, né við hann, né hafa þar tillögur, áskoranir eða hvatningar um kosninguna aðrar en leiðbeiningar samkvæmt lögum félagsins.

25. gr.

Kjörstjórn innsiglar atkvæðakassa að viðstöddum fulltrúum listanna eftir að hún hefur gengið úr skugga um að þeir séu tómir. Þegar félagsmaður hefur greitt atkvæði skal hann láta atkvæðaseðilinn í lokaðan atkvæðakassa. Kosning má aðeins standa yfir fyrirfram auglýstan tíma daglega. Umboðsmönnum þeirra, er að listum standa, er ávallt heimilt að vera viðstaddir kosninguna.

Kjörstjórn ber ábyrgð á því að atkvæðakassar séu geymdir hjá lögreglu milli kjörfunda standi kosning lengur en einn dag. Talning atkvæða skal fara fram strax að loknum kjörfundi.

Kjörstjórn skal tilkynna úrslit allsherjaratkvæðagreiðslna um leið og talningu er lokið. Úrslitum kosninga skal lýst á aðalfundi. Úrslitum annarra allsherjaratkvæðagreiðslna skal lýst á næsta félagsfundi eftir atkvæðagreiðsluna.

B. Kosning trúnaðarráðs

26. gr.

Uppstillingarnefnd gerir tillögu um hvaða félagsmenn skipi trúnaðarráð. Nefndin skal leita eftir tilnefningum frá stjórn og félagsmönnum og leitast við að skapa einingu um listann. Við val á trúnaðarráðsmönnum skal þess gætt að í ráðinu sitji fulltrúar sem flestra starfsgreina félagsins.

Uppstillingarnefnd skal skila endanlegum tillögum sínum til kjörstjórnar og skal listinn merktur bókstafnum A. Tillaga A skal liggja frammi á skrifstofu félagsins og auglýst til sýnis 8 dögum áður en kosning hefst. Öðrum listum skal skilað eigi síðar en 7 sólarhringum fyrir kjördag. Komi aðeins fram einn listi þarf kosning ekki að fara fram.

Að öðru leyti gilda ákvæði A-liðar 6. kafla laga þessara.

C. Kosning stjórna sjóða félagsins

27.gr.

Stjórnir sjóða, annarra en félagssjóðs, skulu skipaðar fimm mönnum og tveimur til vara. Skulu þrír aðalmenn og tveir varamenn kosnir af trúnaðarráði en tveir aðalmenn sem skipa stöðu formanns og varaformanns vera kosnir beint af félagsstjórn. Kjörtímabil sjóðstjórna er tvö ár. Skulu þær kosnar á síðasta fundi trúnaðarráðs og aðalstjórnar fyrir aðalfund sama ár og formaður félagsins er kosinn.

Nýjar stjórnir taka við þegar kjöri þeirra hefur verið lýst á aðalfundi. Kosning fulltrúa á ársfund Gildis Lífeyrissjóðs fer fram samkvæmt reglugerð lífeyrissjóðsins.

VII. KAFLI
FUNDIR

28. gr.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í lok maí ár hvert. Hann skal boðaður með auglýstri dagskrá með minnst 7 daga fyrirvara og er hann lögmætur sé löglega til hans boðað.

Fastir liðir á dagskrá aðalfundar skulu vera þessir:

a) Skýrsla stjórnar.

b) Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

c) Lýst kjöri stjórnar, trúnaðarráðs, stjórna sjóða og skoðunarmanna reikninga.

d) Lagabreytingar ef tillögur liggja fyrir.

e) Ákvörðun félagsgjalds, ef tillaga um breytingu liggur fyrir.

f) Önnur mál.

Aukaaðalfundur

Stjórn félagsins er heimilt að boða til aukaaðalfundar ef brýna nauðsyn ber til.

29. grein

Félagsfundir

Félagið heldur fundi þegar stjórn félagsins eða trúnaðarráð telur þess þörf þó eigi sjaldnar en einu sinni á ársfjórðungi á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. Félagsfund er skylt að halda ef minnst 300 félagsmenn krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Formaður skipar dyraverði.

Allir félagsfundir eru lögmætir ef til þeirra hefur verið boðað með þriggja sólarhringa fyrirvara eða meira í minnst einu dagblaði, ríkisútvarpinu eða bréflega. Ef brýna nauðsyn ber til svo sem í sambandi við vinnudeilur og kjarasamninga má boða fundi  með skemmri fyrirvara en að framan greinir en áhersla skal þá lögð á að boða þá svo vel sem tök eru á.

30. gr.

Fundum skal stjórna eftir fundarsköpum félagsins.

Vafaatriði um fundarsköp úrskurða fundir í hvert sinn. Að öðru leyti fer fundarstjóri eftir því sem honum þykir best henta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum nema þar sem lög þessi ákveða annað. Óski félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.

VIII. KAFLI
FJÁRMÁL

31. gr.

Sjóðir félagsins eru eftirtaldir:

Félagssjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður, Fræðslusjóður, Vinnudeilusjóður og Jóhönnu- og Vilborgarsjóður.

Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu starfa samkvæmt reglugerðum samþykktum af aðalfundum. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans, hvernig stjórn hans skuli háttað og annað er sjóðinn varðar.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, ríkistryggðum skuldabréfum, í bönkum eða sparisjóðum eða skuldabréfum, tryggðum með veði í fasteign eða á annan hátt sem stjórn félagsins metur öruggan.

32. gr.

Af tekjum félagsins skulu greidd öll útgjöld við störf þess, svo sem húsnæðiskostnaður, prentunarkostnaður, starfsmannalaun og annar kostnaður, sem stafar af löglegum samþykktum félagsfunda, trúnaðarráðs, deilda eða stjórnar félagsins.

33. gr.

Komi fram tillögur á félagsfundi um fjárframlög úr sjóðum félagsins geta þær aðeins komið til atkvæða á þeim fundi ef meirihluti stjórnarinnar er þeim meðmæltur. Stjórnin getur einnig látið fresta málinu til frekari athugunar milli funda.

34. gr.

Skylt er að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins. Reikningar skulu lagðir fyrir aðalfund áritaðir af endurskoðanda og skoðunarmönnum reikninga og liggja frammi á skrifstofu þess félagsmönnum til sýnis sjö dögum fyrir aðalfund.

IX. KAFLI
LAGABREYTINGAR

35. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda sé þess getið í fundarboði að lagabreytingar séu á dagskrá og ennfremur skulu breytingarnar áður hafa verið ræddar á almennum félagsfundi minnst viku fyrir aðalfund. Tillögum til lagabreytinga, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skila til félagsstjórnar eigi síðar en fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

Til þess að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum koma þá fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og stjórn Sjómannasambands Íslands hafa staðfest þær.

Gildistími

Lögin taka gildi í maí 2024 og hafi þá hlotið staðfestingu miðstjórnar ASÍ.

Ferill lagabreytinga frá 1998

Lögin voru samþykkt á aðalfundi Dagsbrúnar og Framsóknar-stéttarfélags 28. maí 1998, samþykkt á framhaldsaðalfundi Starfsmannafélagsins Sóknar 3. nóvember 1998 og samþykkt á aðalfundi Félags starfsfólks í veitingahúsum 28. maí 1998. Lögin voru gefin út í desember 1998 sem lög sameinaðs stéttarfélags framangreindra félaga og staðfest á stofnfundi félagsins 5. desember 1998.

Lögin voru samþykkt með breytingum vegna sameiningar við Iðju, félag verksmiðjufólks á framhaldsaðalfundi Eflingar-stéttarfélags 5. október 1999.

Félagsfundur Iðju, félags verksmiðjufólks samþykkti lögin 24. nóvember 1999. Þannig breytt voru lögin gefin út í desember 1999.

Samþykkt með breytingum á aðalfundi árið 2000.

Samþykkt með breytingum á aðalfundi Eflingar 10. maí 2001.

Samþykkt með breytingum á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 30. apríl 2002.

Samþykkt með breytingum og bráðabirgðaákvæðum á aðalfundi 29.04.2003.

Breytingar voru kynntar á trúnaðarráðsfundi/félagsfundi Eflingar 16. apríl 2008.

Samþykkt með breytingum og bráðabirgðaákvæðum á aðalfundi 23.04.2008.

Samþykkt með breytingum á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 23. maí 2024.

Reglugerð vinnudeilusjóðs Eflingar

Sjá nánar:

1.gr. Nafn sjóðsins og heimili.
Sjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður sameinaðs stéttarfélags og er eign félagsins.

2.gr. Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn í verkföllum eða verkbönnum
þegar félagið á í vinnudeilum. Einnig er heimilt a greiða úr sjóðnum kostnað
vegna vinnudeilna og verkfallsvörslu og styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í
vinnudeilum.

3.gr. Tekjur sjóðsins eru:
Framlag til sjóðsins nemi 15% af félagsgjöldum.
Vaxtatekjur og arður.
Gjafir, framlög og styrkir.
Aðrar tekjur sem aõalfundur félagsins kann að ákveőa hverju sinni.

4.gr. Stjórn sjóðsins
Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum og tveim til vara. Skulu þrír
aðalmenn og tveir varamenn kosnir af trúnaðarráði en tveir aðalmenn sem
skipi stöðu formanns og varaformanns sjóðsins kosnir beint af félagsstjórn.
Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Skal hún skipuð á síõasta fundi
trúnaðarráðs og aðalstjórnar fyrir aðalfund sama ár og formaður félagsins er
kosinn. Ný stjórn tekur við þegar kjöri hennar hefur verið lýst á aðalfundi.
Sjóðnum skal stjórna í samræmi við almennar stjórnsýslureglur.
Sjóðstjórn setur sér starfsreglur.

5. gr. Reikningar og endurskoðun
Halda skal bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum félagsins.
Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram endurskoðaðir og áritaðir af félagslegum
skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðenda fyrir aðalfund félagsins og
afgreiddir þar.

6 gr. Ávöxtun sjóðsins

Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:

a) Í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum tryggðum með öruggum fasteignaveðum.
b) Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum.
c) Í bönkum eõa sparisjóðum.
d) Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan og veitir jafn góða ávöxtun og samkvæmt liðum a til c.
Ávallt skal þess gætt að varsla og ráðstöfun fjármuna sjóðsins fari eigií bága við markmiõ hans eõa verkefni.

7.gr. Gerðabók
Stjórn sjóðsins skal ávallt halda gerðabók yfir styrkbeiðnir og styrkveitingar.

8.gr. Málskotsréttur
Heimilt er a vísa ágreiningi vegna úthlutunar til úrskurðar félagsstjórnar.

9.gr. Breytingar á reglugerðinni
Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda sé þess getið í
fundarboði að reglugerðarbreytingar séu á dagskrá og ennfremur skulu
breytingarnar áður hafa verið ræddar á almennum félagsfundi minnst viku
fyrir aðalfund. Tillögum til reglugerðarbreytinga, sem einstakir félagsmenn
vilja koma á framfæri, skal skilað til félagsstjórnar eigi síðar en fyrir lok
marsmánaðar ár hvert.

10.gr. Gildistími
Reglugerð þessi tekur gildi frá og með aðalfundi Eflingar 10. maí 2001.

Reglugerðin var sampykkt á framhaldsaðalfundum Dagsbrúnar og Framsóknar-
stéttarfélags 12. nóvember 1998, Starfsmannafélagsins Sóknar 3. nóvember 1998 og
Félags starfsfólks í veitingahúsum 15, nóvember 1998. Reglugerðin var gefin út í
desember 1998.
Reglugerð var breytt á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags 10. maí 2001.

gbị/ph 1806 01

Reglugerð sjúkrasjóðs

Reglugerð orlofssjóðs