Hlaðmaður sér um að ferma og afferma flugvélar, fyrir og eftir flugtak eða lendingar. Í starfinu felst að passa upp á að allur farangur skili sér á réttan stað þar sem farþegar geta sótt hann eða hann fari á rétta vél ef um millilendingu er að ræða. Hlaðmaður tekur einnig við vörum í vöruflutningum og kemur þeim í geymslu þar sem þær eru tilbúnar til afhendingar.
Hlaðmenn aðstoða einnig stundum við þrif og varúðarráðstafanir vegna ísingar. Einnig gefa hlaðmenn flugstjóra merki um að hann megi starta hreyflum flugvélarinnar, að hann megi aka af stæði, að hann megi aka inn á stæði og þá hvaða stæði og beina með merkjum rétta leið inn á stæði. Þá tryggja hlaðmenn öryggi farþega á flugvellinum og ganga frá flugvélum í enda dags.
Starfið fer fram í flugvallabyggingum, vörugeymslum og utandyra, óháð veðri. Hlaðmaður þarf að klæðast endurskinsfatnaði, eyrnahlífum og öryggisskóm.
Helstu verkefni:
- taka við, flokka og sjá til þess að réttur farangur rati í réttar vélar
- nota ökutæki, hleðslutæki og færibönd til að koma farangri til og frá flugvélum
- koma vörum í réttar vörugeymslur
- hlaða farangri á færibönd í komusal
- tilkynna farangur sem orðið hefur fyrir skemmdum eða er grunsamlegur