Sigurvegari í ljósmyndasamkeppni Eflingar

13. 09, 2021

Efling efndi til ljósmyndasamkeppni í vor meðal félagsmanna sinna en myndin átti að endurspegla frí innanlands. Góð þátttaka var í keppninni í ár og margar frábærar myndir sendar inn. Dómnefnd hefur nú komist að niðurstöðu og bar Katarzyna Wieczorek sigur úr býtum fyrir myndina Foss í linsukúluWaterfall in a lensball. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar afhenti Katarzynu verðlaunin í dag, 25.000 kr, en í dómnefnd sátu auk Sólveigar Önnu, Þórunn Hafstað og Rakel Pálsdóttir starfsmenn Eflingar.

Í umsögn dómnefndar segir:

Myndin Foss í linsukúluWaterfall in a lensball er landslagsmynd, tekin á sólríkum sumardegi við foss í íslenskri náttúru. Myndefnið sjáum við í gegnum svokallaða linsukúlu sem ljósmyndarinn hefur vandlega stillt upp í forgrunni myndarinnar. Ef rýnt er í kúluna má sjá börn gera sig líkleg til að stökkva í ána. Ólíkt þeim sóttvarnarkúlum sem við höfum öll neyðst til að vera í á undanförnum misserum, langar áhorfandann ekkert meira en að hverfa inn í þessa kúlu; í þessa veröld þar sem sólin skín, tilverunni er snúið á hvolf og sjálft þyngdaraflið skorað á hólm. Falleg mynd sem endurspeglar allt það besta við gott sumarfrí.

Sigurmynd ljósmyndasamkeppni Eflingar Foss í linsukúluWaterfall in a lensball