Yfir jólahátíðina þarf að huga vel að því að réttindi starfsfólks séu virt, sérstaklega þeirra sem vinna í vaktavinnu á hótelum og veitingahúsum. Helstu brotin yfir hátíðarnar snúa að því að fólk fái ekki vinnu í samræmi við starfshlutfall og að breytingum á vaktaplani.
Vaktavinnufólk sem vinnur skv. kjarasamningi Eflingar og hótel og veitingahúsa ætti að hafa þessi atriði í huga yfir hátíðarnar:
- Vaktir þurfa að endurspegla starfshlutfall í ráðningarsamningi.
- Ekki má breyta vöktum eða taka af vaktir ef það skerðir starfshlutfall og hefur þ.a.l. neikvæð áhrif á laun.
- Ef fyrirtæki lokar yfir hátíðarnar þarf að tilkynna starfsfólki um það með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Æskilegt er að þessi ákvörðun liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl. Að öðrum kosti á starfsfólk sem þegar hefur tekið orlofið sitt hugsanlega rétt á launum á meðan lokað er.
- Starfsfólk í vaktavinnu á að fá greitt álag á stórhátíðardaga og aðra frídaga um jólin.
Frídagar um jól og áramót eru:
aðfangadagur eftir kl. 12.00 – 90% álag
jóladagur – 90% álag
annar í jólum – 45% álag
gamlársdagur eftir kl. 12.00 – 90% álag
Vaktavinnufólk á rétt á 12 vetrarfrísdögum fyrir vinnu á helgidögum sem fellur á mánudag til föstudaga.
Félagsmenn geta alltaf haft samband við kjaramálasvið í gegnum tölvupóst á kjaramal@efling.is , í síma 510-7500 eða komið á skrifstofu Eflingar, Guðrúnartúni 1.