Í nóvember 2021 leitaði stjórn Eflingar til sálfræði- og ráðgjafastofunnar Lífs og sálar, með ósk um aðkomu að vinnustaðagreiningu. Markmiðið var að fá óháða könnun unna af fagaðilum með það fyrir augum að bæta starfsumhverfið á skrifstofu Eflingar.
Gerð var almenn athugun á innra starfsumhverfi skrifstofu Eflingar, þ.e líðan, starfsanda, streitu, álagi og stjórnun. Viðtöl voru tekin við 48 starfsmenn og stuðst við spurningar um sálfélagslega áhættuþætti. Viðtöl fóru fram í nóvember, desember og byrjun janúar s.l. Niðurstöður voru kynntar á starfsmannafundi þann 3. febrúar.
Fjórir sálfræðingar tóku að sér að vinna verkefnið fyrir hönd Lífs og sálar. Í niðurstöðum kom fram að það væri mat þeirra að starfsfólk á skrifstofum Eflingar brenni fyrir störfum sínum og upplifi að það sé að gera gagn og taka þátt í mikilvægu starfi. Metnaður og væntumþykja gagnvart vinnustaðnum sé ráðandi. Stutt sé þó í kvíða, óöryggi og særðar tilfinningar eftir atburði síðasta árs. Stjórnarhættir hafi valdið kvíða og vanlíðan meirihluta starfsfólks.
Það er mat greiningaraðila Lífs og sálar að það sé mjög mikilvægt að starfsfólk geti byggt upp öryggi og traust gagnvart stjórnendum og samstarfsfólki.
Samkvæmt framkvæmdastjóra Eflingar, Lindu Drafnar Gunnarsdóttur, verður þeirri vinnu sem hafin var, m.a. með innleiðingu verkferla, auknu upplýsingaflæði og teymisvinnu, haldið áfram. Hún segir það jafnframt ákveðinn létti fyrir skrifstofuna að vinnustaðaúttekin sé komin fram. Skrifstofa Eflingar búi yfir dýrmætum mannauði sem starfar af miklum heilindum og því mikilvægt að nýta öll verkfæri til að stuðla að bættu vinnuumhverfi. Fram hafi komið í greiningunni að starfsfólk sé almennt ánægt með framþróun og umbætur að undanförnu og því sé mikilvægt að horfa fram á veginn. Það sé brýnt að læra af erfiðri reynslu síðasta árs og ára og þróa uppbyggilegar leiðir til að leysa ágreining. Þar sé mikil vinna framundan og mikilvægt að hún sé leidd með faglegum og skýrum hætti.