Ert þú lipur sjálfstætt starfandi þýðandi eða túlkur?

Skrifstofa Eflingar – stéttarfélags óskar eftir að bæta á útkallslista sjálfstætt starfandi þýðendum og túlkum með tök á ensku, íslensku og pólsku sem gengið geta í verkefni með skömmum fyrirvara.

Þýðingar

Félagið leitar að vandvirkum og fljótum þýðendum til að þýða ritmál frá félaginu úr íslensku á ensku og á pólsku (pólsku má þýða úr ensku). Í þýðingunum reynir oft á fagorðaforða tengt vinnumarkaðsmálum, verkalýðshreyfingunni og kjarasamningum. Félagið veitir aðgang að fagorðasafni.

Mestmegnis er um að ræða efni á vefsíðu félagsins. Mikill kostur er að þýðandinn geti skilað af sér hratt, því oft er tímapressa að koma efni út á rafræna miðla þegar frumtexti er tilbúinn. Einnig er í boði að semja um þýðingar á stærri textasöfnun sem vinna má skv. áætlun nokkrar vikur fram í tímann.

Túlkun

Félagið hefur síðustu ár notast við texta-túlkun á fundum félagsfólks, sem gefist hefur vel. Túlkur slær þá jafnóðum inn texta með þýðingu þess sem fram fer og birtist þýðingin á skjá eða tjaldi. Notast er við sérstakan hugbúnað sem félagið setur upp á tölvu sem túlkur fær afnot af. Þessi tegund túlkunar er ólík tal- eða hvísltúlkun og krefst sérstakrar þjálfunar eða reynslu. Félagið getur veitt milligöngu um þjálfun. Eingöngu er um að ræða túlkun á íslensku og ensku, en á sama fundinum getur þurft að túlka í báðar áttir. Skipulagi funda er háttað þannig að túlkur fái lágmarks hlé. Trúnaðar er krafist.

Áhugasömum þýðendum og túlkum er boðið að hafa samband við félagið með því að skrifa tölvupóst á netfangið felagsmal@efling.is með upplýsingum um reynslu, staðfesta færni og gjaldskrá.