Þrefalt fleiri en nokkru sinni taka þátt í kjarakönnun – svarhlutfall hæst hjá erlendum félögum

20. 10, 2022

Úrvinnsla svara er nú hafin í kjara- og viðhorfskönnun Eflingar sem lauk í síðustu viku. 4562 félagar svöruðu könnuninni sem er margfalt meiri þátttaka en áður í sambærilegum könnunum félagsins.

Í eldri kjarakönnunun var svörun hæst árið 2016 eða 1294 svör, en hafa ber í huga að í fyrri könnunum var úrtak miklu minna, eða allt niður í 3000, og auk þess náðu kannanir til félagsfólks í öðrum verkalýðsfélögum á Suðvesturhorninu. Að opna úrtakið fyrir öllum Eflingarfélögum gerði ásamt öðru miklu meiri þátttöku mögulega að þessu sinni.

Þátttaka í kjarakönnun Eflingar frá 2014:

Ár Fjöldi svara 
2014 1122 
2015 997 
2016 1294 
2017 1193 
2018 1016 
2022 4562 

Sú ákvörðun að þýða könnunina á 10 algengustu tungumál félagsfólks hafði mjög jákvæð áhrif á svörun. Úrtak könnunarinnar var tæplega 36 þúsund kennitölur og var svarhlutfall í heild 12,79%. Þátttaka félagsfólks af íslenskum uppruna var rétt undir þessu meðaltali eða 12%, en miklu hærri hjá mörgum hópum erlendra félaga. Hér má sjá nokkra hópa aðfluttra þar sem svarhlutfall var yfir meðaltali:

Land Hlutfall Fjöldi svara 
Filipseyjar 25% 96 
Tæland 24% 51 
Víetnam 22% 56 
Litháen 16% 295 
Portúgal 15% 53 
Pólland 15% 941 
Lettland 14% 126 

„Með breyttri aðferðafræði hefur okkur tekist að ná margfalt betri þátttöku félagsfólks í þessari könnun sem er gríðarlega mikilvæg í undirbúningi kröfugerðar fyrir kjarasamninga. Allt félagsfólk gat tekið þátt í könnuninni rafrænt á 10 mismunandi tungumálum. Þetta hefur skilað ótvíræðum árangri. Ég get ekki lýst ánægju minni með svo háa þátttöku aðflutts félagsfólks. Þau hafa svo sannarlega sýnt að þau ætla að láta raddir sínar heyrast í komandi kjaraviðræðum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar um leið og þær liggja fyrir.