Samninganefnd gerir SA tilboð um taxtahækkanir á bilinu 57 til 65 þúsund

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags hefur gert Samtökum atvinnulífsins tilboð um endurnýjun kjarasamninga. Samþykkt var einróma að leggja tilboðið fram á fjölsóttum fundi samninganefndar í gær. Tilboðið er í viðhengdu.

Samþykkt er að hagvaxtarauki sem bætast átti ofan á laun í apíl 2023 falli niður en aðrar launaliðshækanir komi í staðinn.

Hækkanir á töxtum verða bilinu 57.500 til 65.558 kr að meðtalinni flatri 15.000 kr. framfærsluuppbót. Gerðar eru breytingar á hlutföllum innan launatöflu.

Meginforsendur tilboðsins eru að lægstu taxtalaun hækki nægilega til að ná til baka kaupmáttarrýrnun síðan í apríl 2022 og að tryggja kaupmátt taxtalauna fram að lokum samningstíma. Þá er horft til þess að samningur sé raunverulegt framhald Lífskjarasamningsins í þeim skilningi að hækkanir lægstu launa og taxtalauna séu ekki miklu lægri en hækkanir þeirra sem ofar eru í launastiganum. Jafnramt miðar samningurinn að því að hlutdeild launa í hagvexti og góðri afkomu fyrirtækja sé tryggð.

Þá er það ein lykilforsenda tilboðsins að tekið sé tillit til hás húsnæðiskostnaðar á Höfuðborgarsvæðinu, til að mynda 45% hærri leigukostnaðar en á landsbyggðinni, sem og að horft sé til samsetningar félagsmannahóps Eflingar, þar sem meðalstarfsaldur hjá sama fyrirtæki er annar og skipting milli atvinnugreina er önnur en á landsbyggðinni.

Með tilboði þessu víkur samninganefnd Eflingar frá fyrra tilboði og kröfugerð, og nálgast sjónarmið Samtaka atvinnulífsins. Tilboðið er lagt fram í góðri trú um að sátt geti náðst hratt og örugglega, þannig að undirrita megi kjarasamning fyrir jól.

Tilboð þetta verður kynnt nánar á samningafundi með SA undir stjórn Ríkissáttasemjara klukkan 9:00 22. desember. Tilboðið gildir til loka dags þann dag.

Tilboðið í PDF skjali hér.

Launatafla tilboðsins í PDF skjali hér.

Samninganefnd Eflingar