Miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA hefur verið samþykkt

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara var samþykkt í dag í atkvæðagreiðslum félagsfólks Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Samþykkt miðlunartillaga felur í sér að kauptaxtar aðalkjarasamnings hækka afturvirkt á bilinu 35.000 krónur til 52.258 krónur og er meðalhækkun um 42.000 krónur. Hlutfallsleg hækkun á kauptaxta er að meðaltali um 11%. Afturvirkar launahækkanir frá 1. nóvember 2022 eru gildar samkvæmt samþykktri miðlunartillögu. Allar hækkanir (líka kjaratengdir liðir eins og bónusar) gilda frá 1. nóvember 2022.

Kauptaxtar verðar uppfærðir á vefsíðu Eflingar og er áætlað að sú vinna klárist á morgun, fimmtudaginn 9. mars.

Nýtt starfsheiti, Almennt starfsfólk gistihúsa, bætist við samkvæmt samþykktri miðlunartillögu. Starfsheitið raðast í launaflokk 6 að loknum þriggja mánaða reynslutíma. 

Mánaðarlaun félagsfólks sem tekur ekki laun samkvæmt kauptöxtum kjarasamnings hækka um 33.000 krónur frá 1. nóvember 2022.

Þar sem að miðlunartillaga hefur verið samþykkt hækkar ábati sem greiddur er hjá Samskipum um 28%. Einnig er launaflokkur bílstjóra hjá Samskipum með réttindi til aksturs með hættuleg efni (ADR) hækkaður úr launaflokki 13 í 14.

Einnig fá félagsmenn Eflingar sem að starfa hjá Skeljungi og Olíudreifingu sérstaka greiðslu vegna aksturs með hættuleg efni (ADR).

Greiðslan nemur 175 kr. á allar unnar vinnustundir og kemur til framkvæmdar frá og með 1. febrúar 2023. Greiðslan bætist við önnur umsamin ráðningarkjör og aðrar hækkanir sem kveðið er á um í miðlunartillögunni.