Sigurmyndir ljósmyndakeppni Eflingar 2023

11. 09, 2023

Efling stéttarfélag efndi til ljósmyndasamkeppni í sumar á meðal félagsfólks. Myndirnar áttu að endurspegla frí innanlands. Þátttakan var góð í keppninni í ár og gat dómnefnd valið úr mörgum frábærum myndum. Í dómnefnd sátu Sólveig Anna Jónsdóttir, Magdalena Kwiatkowska og Ragnheiður Hera Gísladóttir. Dómnefnd kemst að eftirfarandi niðurstöðu um sigurvegara keppninnar.

Fyrsta sætið hlýtur Piotr Miazga fyrir mynd sína af fjölskyldu í nestisferð.
Piotr hlýtur 50.000 kr gjafakort.

Í umsögn dómnefndar segir: Myndin sýnir fjölskyldu sem situr á litlum grasblett að borða nesti. Í kringum grasblettinn er íslenskt hraun svo langt sem augað eygir. Myndin sýnir magnaðar andstæður þar sem hlýleikinn á græna blettinum með samveru fjölskyldunnar mætir hinu stórkostlega en kuldalega landslagi. Hún gefur einstöku landslaginu sviðsljósið um leið og hún hlýjar áhorfandanum um hjartarætur og minnir á að samheldni er það sem skiptir mestu máli.

Annað sætið hlýtur Sigrún Erna Óladóttir fyrir mynd sína af þvottasnúru við íslenskan sveitabæ. Sigrún Erna hlýtur 25.000 kr gjafakort.

Í umsögn dómnefndar segir: Myndin sýnir hringrás náttúruaflanna við íslenskan sveitabæ þar sem þvotturinn þornar á snúrunni. Hún sýnir augnablik þar sem sólargeislarnir verma bæinn og draga fram hlýja tóna náttúrunnar. Á sama tíma má sjá skýin bíða átekta fyrir ofan eftir að þeirra tími komi til að vökva jörðina. Myndin er hlý um leið og hún hefur drungalegan eiginleika. Þessi fallega og spennuþrungna mynd minnir á hverfulleika augnabliksins og mikilvægi þess að njóta hvers augnabliks á meðan það varir. 

Efling þakkar félagsfólki fyrir góða þátttöku og óskar sigurvegurum innilega til hamingju. Þar sem dómnefnd bárust margar glæsilegar myndir ákvað nefndin að birta nokkrar af þeim bestu sem að þó hlutu ekki verðlaun. Þær eru eftirfarandi:

Anton Gabriel: „The eye of Sauron“:

Piotr Miazga: Þrjár kindur í íslenskri náttúru:

Jared Almacen: Hjartahlýtt við ísinn: