Stéttabarátta er kvennabarátta

25. 10, 2023

Tugir þúsunda kvenna og kvára komu saman á baráttufundi kvenna á Arnarhóli í gær í fjölmennasta kvennaverkfalli sem haldið hefur verið frá kvennafrídeginum árið 1975. Á fundinum var þess m.a. krafist að gripið yrði til sértækra aðgerða til að leiðrétta kjör kvenna og kvára, að ráðist yrði í átak til þess að útrýma fordómum gagnvart minnihlutahópum, og að kynbundnu ofbeldi yrði útrýmt.

Margar Eflingarkonur gátu þó ekki mætt á baráttufundinn þar sem vinnuveitendur þeirra veittu ekki launað leyfi frá vinnu. Eflingarkonur eru verkakonur í láglaunastörfum. Þær sinna undirstöðu störfum samfélagsins og knýja áfram hjól atvinnulífsins. Þær eru algerlega ómissandi en á sama tíma búa þær við verstu kjör sem finnast á íslenskum vinnumarkaði.  

Í niðurstöðum könnunar sem Varða – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins lagði fyrir félagsfólk ASÍ og BSRB í febrúar fyrr á þessu ár sést með skýrum hætti hversu erfið staða verkafólks er á Íslandi. Þegar sjónum er beint að Eflingarkonum koma í ljós einstaklega slæmar aðstæður. 63% Eflingarkvenna á erfitt með að ná endum saman. Rúmur helmingur þeirra er að sligast undan húsnæðiskostnaði. Jafn stór hópur getur ekki mætt óvæntum 80.000 kr útgjöldum. Helmingur Eflingarkvenna metur andlega heilsu sína slæma og ríflega 53% Eflingarkvenna sýna einkenni kulnunar,  sem er umtalsvert meira en hjá öðrum félögum. Eflingarfólk sem er af erlendu bergi brotið er líklegast allra til að verða fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði, en hátt í 52% aðfluttra Eflingarkvenna hafa orðið fyrir einu eða fleiri slíkum brotum.

  • Um 63% Eflingarkvenna á erfitt með að ná endum saman.
  • Meira en helmingur Eflingarkvenna býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði.
  • Um 55% Eflingarkvenna geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr útgjöldum.
  • Um 50% Eflingarkvenna býr við slæma andlega heilsu.
  • Eflingarkonur mælast hæstar allra í kulnunareinkennum, en ríflega 53% Eflingarkvenna sýna merki kulnunar.
  • Hátt í 52% aðfluttra Eflingarkvenna hafa orðið fyrir brotum á vinnumarkaði.

Lesa má niðurstöður könnunarinnar um stöðu Eflingarfólks í heild sinni HÉR.

Staða verkakvenna er skömm á samfélagi okkar. Ráðast þarf samstundis í að laga kjör þeirra. Ómissandi konur eiga skilið mannsæmandi laun og líf laust við heilsuspillandi áhyggjur og álag.
Berjumst saman fyrir bættum kjörum verka og láglaunakvenna!