Starfsfólk Grundarheimilanna hitti ráðherra 

Í morgun, miðvikudaginn 8. nóvember, átti Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar ásamt fulltrúum starfsfólks Grundarheimilanna í Hveragerði fund með Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra.  

Sólveig Anna, ásamt Áslaugu Einarsdóttur, Hildi Ýr Tryggvadóttur, Erla Pálmadóttur og Angeliu Róbertsdóttur ræddu við Willum Þór um áhrif hópuppsagnar stjórnar Grundarheimilanna á starfsfólkið í Hveragerði. 

Þær greindu frá því að gríðarlega mikil óánægja væri í Hveragerði með hópuppsögnina. Einnig var rætt um óánægju heimilisfólks á Ási vegna óréttlætanlegrar ákvörðunar stjórnar Grundarheimilanna 

Krafa Eflingar og félagsfólks Eflingar er að uppsögnin verði dregin tilbaka. Hún hefur þær afleiðingar að hátt í 30 Eflingarfélagar, sumir með ríflega 30 ára starfsreynslu hafa misst vinnuna. Útvistun starfanna gerir það að verkum að störfin þeirra lenda í höndum einkarekinna þrifafyrirtækja sem bjóða starfsfólki verri kjör og lakari réttindi. 

 
Efling og starfsfólk Grundarheimilanna í Hveragerði þakka heilbrigðisráðherra fyrir góðan fund. Félagið vonar að hann beiti áhrifum sínum til að uppsögnin verði dregin til baka.