Nýr samningafundur í dag – Kjarasamningar runnir út

Nýr samningafundur Breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara hefst klukkan níu í dag. Samninganefndir beggja aðila sátu á samningafundi allan gærdaginn. Ekki er hægt að segja neitt um stöðu deilunnar að svo komnu máli. Kjarasamningar losnuðu um liðin mánaðamót. 

Ríkissáttasemjari setti í gær á fjölmiðlabann sem nær til samninganefndanna beggja. Af þeim sökum er ekki hægt að upplýsa um hvað fór fram á fundinum né hvort að sjáist til lands í deilunni. 

Stjórn Eflingar fundar í dag til að ræða saman og fara yfir stöðuna í viðræðunum. Samninganefnd félagsins hefur verið boðuð til fundar á mánudaginn til að gera slíkt hið sama. Efling mun eftir sem áður leitast við að halda félagsfólki sínu upplýstu eftir fremsta megni um gagn viðræðnanna.