Samninganefnd samþykkir verkfallsboðun – Yfirlýsing

29. 02, 2024

Samtök atvinnulífsins hafa sýnt Breiðfylkingunni og Eflingu vanvirðingu, rofið samkomulag og unnið gegn yfirlýstum markmiðum kjarasamningsgerðarinnar. Saminganefnd Eflingar samþykkti einróma tillögu að verkfallsboðun á fundi sínum í gær og er gert ráð fyrir að greidd verði atkvæði um hana meðal félagsfólks næstkomandi mánudag. Það er nú í höndum Samtaka atvinnulífsins að koma í veg fyrir að til verkfallsaðgerða komi og er samninganefnd Eflingar tilbúin að koma til fundar, hafi samtökin eitthvað fram að færa sem mætti verða til þess.

Samninganefnd Eflingar samþykkti á fundinum eftirfarandi yfirlýsingu sem send var Samtökum atvinnulífsins:

Samtök atvinnulífsins
Sigríður Margrét Oddsdóttir
framkvæmdastjóri

Reykjavík, 28. febrúar 2024

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags lýsir miklum vonbrigðum með þær ógöngur sem Samtök atvinnulífsins hafa leitt yfirstandandi kjaraviðræður í. SA hafa sýnt Breiðfylkingunni mikla vanvirðingu með því að rjúfa fyrirliggjandi samkomulag við hana um þá launastefnu sem marka átti í samningunum, sem mikil áhersla var á að myndu styðja við lækkun vaxta og verðbólgu.

Samtökin rufu þetta samkomulag, og kusu þannig að vinna gegn yfirlýstum markmiðum samningsgerðarinnar, með því að bjóða hærra launuðum hópum innan Alþýðusambandsins, sem hótað höfðu verkfallsaðgerðum, viðbætur við prósentuhækkanir. Var þetta gert án viðræðna við Breiðfylkinguna.

Samtök atvinnulífsins sýndu Eflingu einnig sérstaka vanvirðingu með því að hafa neitað, á sama tíma og gengið var að kröfum hálaunahópa, öllum kröfum félagsins um löngu tímabærar lagfæringar á ákvæðum kjarasamninga og stillt upp bráðnauðsynlegri leiðréttingu á kjörum ræstingafólks þannig að hún kalli á launalækkun annarra hópa Eflingarfélaga.

Samninganefnd Eflingar telur framgöngu SA sérstaklega sorglega í ljósi þess að Efling hefur í gegnum allar viðræðurnar leitast við að sýna samningsvilja í verki. Það lýsir sér m.a. í því að samninganefndin hefur samþykkt mjög hófstilltar launahækkanir, til að styðja við markmið um lækkun vaxta og verðbólgu. Enn fremur hefur Efling sýnt samningsvilja sinn í verki með því að hafa hingað til forðast alfarið að vekja máls á verkfallsaðgerðum.

Samninganefnd telur eina rökrétta viðbragðið við þeirri stöðu sem upp er nú komin að bjóða félagsfólki að taka afstöðu til verkfallsaðgerða. Af þeim ástæðum hefur samninganefnd samþykkt einróma tillögu að verkfallsboðun, sem auglýst verður næstkomandi föstudag, með það í huga að atkvæðagreiðsla um hana hefjist meðal félagsfólks síðdegis á mánudag.

Verkfallsaðgerðir myndu hefjast 18. mars og yrðu þær meðal ræstingafólks, þess hóps á íslenskum vinnumarkaði sem býr við erfiðastar aðstæður og sem Efling ásamt félögum sínum í Breiðfylkingunni hefur frá byrjun lagt áherslu á að berjast fyrir í þessum kjaraviðræðum. Samkvæmt könnun sem félagið gerði fyrr í mánuðinum eru rúm 80% félagsfólks í ræstingastörfum tilbúin að styðja verkfallsaðgerðir.

Samninganefnd ítrekar að hún telur þó ekki útséð um að til þessara verkfallsaðgerða þurfi að koma. SA hafa það í hendi sér hvort svo verður eða ekki.

Hafi SA eitthvað fram að færa sem samtökin telja að eigi erindi við Eflingarfélaga er samninganefnd reiðubúin að koma til fundar við SA. Samninganefnd mun að loknum þeim fundi meta hvort að ástæða sé til að fresta undirbúningi verkfallsaðgerða.

F.h. samninganefndar Eflingar

______________________________
Sólveig Anna Jónsdóttir
formaður Eflingar – stéttarfélags