Vextir húsnæðislána: Ísland og umheimurinn

20. 02, 2024

Stefán Ólafsson skrifar.

Flestir vita að vextir húsnæðislána eru mjög háir á Íslandi og að svo hefur lengi verið. En ég held að fáir viti hversu virkilega afbrigðilegt vaxtastigið hefur verið og er nú hér á landi.

Bæði nafnvextir og raunvextir húsnæðislána hafa lengst af verið óvenju háir hér. Það er raunar að mestu óháð því hvort verðbólgan er há eða lág. Ísland er paradís fyrir banka því þetta tryggir þeim mikinn hagnað í venjulegu árferði. Almenningur er hins vegar mergsoginn að staðaldri.

Raunvextir lækkuðu reyndar nokkuð hér á Kóvid árinu (2020) en hafa síðan hækkað hratt aftur. Nú nálgast raunvextir verðtryggðra húsnæðislána 4% (umfram verðbólguna) og nafnvextir óverðtryggðra lána eru yfir 10%. Raunvextir húsnæðislána í Danmörku eru nú um eða undir 1%.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig nafnvextir húsnæðislána með fasta vexti til 20 ára eru um þessar mundir. Tölurnar koma frá Numbeo. Ég er einnig með tölur víðar að sem svipar til þessara.

Vextir Husnaedislana I Evropu Midad Vid Fasta Nafnvexti A Lani I Februar 2024 Til 20 Ara

Ísland er með 3. hæstu nafnvexti húsnæðislána í þessum flokki, næst á eftir stríðshrjáðri Úkraínu og Rússlandi. Á eftir okkur koma Ungverjaland, Rúmenía, Pólland og Serbía – sem eru almennt ekki lönd sem við berum okkur saman við.

Hin Norðurlöndin eru langt fyrir neðan okkur, með á bilinu 3% til 4,7% á móti 10,6% hér. Þetta skapar gríðarlegan kjaramun milli okkar og hinna Norðurlandanna.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.

Greinin birtist fyrst á Heimildinni 17. febrúar 2024.