Aðalfundi lokið með mikilli samstöðu – „Besti aðalfundur Eflingar“

24. 05, 2024
Sólveig Anna ávarpar fundinn

Fjölmennur og afar vel heppnaður aðalfundur Eflingar stéttarfélags var haldinn í gær á Hótel Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum var ársskýrsla félagsins fyrir árið 2023-2024 lögð fram og kynnt, ársreikningar afgreiddir, auk hefðbundinni aðalfundarstarfa.

Mikil eindrægni ríkti á fundinum og í færslu á Facebook-síðu sinni lýsti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, honum sem „besta aðalfundi Eflingar ever“. 

Settum markmiðum náð

Perla Ösp Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri segir að hún sé afar ánægð með þann árangur sem náðist í starfi Eflingar á síðasta ári. „Við náðum öllum þeim megin markmiðum sem við settum okkur í upphafi árs, hvað varðar þjónustu, styrkingu innviða og upplýsingatækni, í mannauðsmálum og síðast en ekki síst í rekstri.“ 

Perla segir að umbreytingar sem hófust árið 2022 hafi skilað sér í bættri þjónustu við félagsfólk, skilvirkni og auknum afköstum starfsfólks og fjárhagslegum ávinningi fyrir félagsfólk. „Ég vil þakka stjórn, stjórnendum og öllu starfsfólki Eflingar fyrir framúrskarandi starf á liðnu ári. Við höldum ótrauð áfram á árinu 2024.

Við erum Efling.“

Perla Ösp framkvæmdastjóri fer yfir starfsemi Eflingar.

Sólveig Anna segist vera afar ánægð með fundinn, á honum hafi komið vel fram hversu árangursrík stefna stjórnar Eflingar hafi reynst. „Stefna okkar heldur áfram að skila frábærum árangri, eins og sjá má í ársskýrslunni. Rekstur skrifstofu félagsins gengur einstaklega vel í kjölfar nauðsynlegra skipulagsbreytinga sem að framkvæmdar voru 2022. Og vegna þrautseigju og baráttuvilja Eflingafólk er félagið í dag eitt fremsta hreyfiafl samfélagslegra breytinga á landinu.“

Þakklát fyrir að fá að vera formaður Eflingar

Í fyrrnefndri færslu sinni á Facebook lýsti Sólveig Anna því að fundurinn hefði einkennst af frábærri samstöðu, með frábæru fólki. „Ég er þakklát fyrir að fá að vera formaður í félaginu okkar. Eflingarfólk er besta fólkið í bænum.

Áfram Efling, alla leið!“

Sólveig Anna að fundinum loknum ásamt félagskonunum Eflingar, þeim Alexu Patrizi, Innocentiu Fiati Fridgeirsson, Körlu Barralaga Ocón og Guðmundu Valdísi Helgadóttur.

Á næstunni verður haldið áfram að greina frá því sem fram fór á aðalfundinum hér á síðu Eflingar, auk þess sem fjallað verður um helstu atriði sem fram koma í ársskýrslu síðasta árs, og um ársreikninga félagsins. Hér að neðan má nálgast ársskýrsluna sem inniheldur ávarp formanns, inngang framkvæmdastjóra og umfjöllun um öll svið rekstrar félagsins. Þá eru ársreikningar Eflingar stéttarfélags fyrir síðasta ár aftast í ársskýrslunni.