Barnabætur og húsnæðisbætur hækka – Sérstakur vaxtastuðningur kemur til 

Hluti þeirra aðgerða sem stjórnvöld samþykktu að ráðast í, í tengslum við kjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði, hafa nú tekið gildi. Þannig hefur nú verið opnað á sérstakan vaxtastuðning til heimilanna, barnabætur hafa verið hækkaðar og húsnæðisbætur hækkuðu um síðustu mánðamót. Þá eru fleiri aðgerðir nú í farvatninu.

Í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum lagði Efling stéttarfélag snemma á það áherslu að ná samstöðu meðal aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að koma sameinuð að samningaborðinu. Leggja ætti áherslu á að hið opinbera velferðarkerfi yrði endurreist til að hægt yrði að ná samkomulagi um langtíma kjarasamninga með hóflegum launahækkunum. 

Af þessu samfloti varð og gekk Breiðfylking stéttarfélaga því sameinuð að samningaborðinu. Mikilvægur árangur náðist í kjarasamningunum og meðal annars urðu stjórnvöld við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um aðgerðir í þágu heimilanna í landinu. Frá því að kjarasamningar náðust, í mars síðastliðnum, hefur Alþingi haft til umræðu og afgreiðslu frumvörp sem tengjast þeim aðgerðum sem stjórnvöld boðuðu í yfirlýsingu samhliða kjarasamningum. 

Fólk ráðstafi vaxtastuðningi

Til að mæta aukinni vaxtabyrði heimila hefur verið ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur vegna íbúðarhúsnæðis og var það gert við álagningu ríkisskattstjóra. Þessi sérstaki vaxtastuðningur verður ekki greiddur út heldur verður honum ráðstafað inn á húsnæðislán einstaklinga. Ýmist er hægt að ráðstafa stuðningnum inn á höfuðstól láns eða nýta hann til að lækka afborganir. Þetta þarf fólk hins vegar að gera sjálft, inni á þjónustuvef ríkisskattstjóra. Eru öll hvött til að fara inn á þjónustuvefinn, kynna sér það sem þau kunna að hafa borið úr býtum og gera þær ráðstafanir sem þeim henta best. Geri fólk það ekki verður vaxtastuðningurinn greiddur inn á höfuðstól þess láns sem hæstar eftirstöðvar ber. 

Þá samykkti alþingi í lok apríl breytingar á barnabótakerfinu sem innibera hækkun grunnbóta, hækkun skerðingarmarka og lægri tekjuskerðingar. Þær breytingar hafa þegar tekið gildi og munu hækka barnabætur á þessu ári umtalsvert. Hægt er að reikna barnabætur út hér. 

Þá hafa húsnæðisbætur verið hækkaðar, frá og með síðustu mánaðarmótum, um fjórðung. Áhrif breytinganna ráðast af fjölskyldustærð en hægt er að reikna þær út hér. 

Þá eru til umræðu á alþingi nú, fyrir þinglok, fleiri mál er tengjast yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga. Meðal annars eru þar um að ræða breytingar á húsaleigulögum, aukið fjármagn í fæðingarorlofssjóð og umræða um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. 

Lesa má frekar um aðgerðir stjórnvalda á vefsíðu ASÍ.