Sérfræðingar vinnuréttindasviðs Eflingar stéttarfélags leystu á síðasta ári úr 457 málum sem stofnað var til eftir að Eflingarfélagar leituðu til félagsins. Rúmur þriðjungur málanna var vegna gjaldþrota fyrirtækja en tveir þriðju vegna annarra krafna. Í flestum tilvikum var um að ræða launakröfur.
Flest málanna sem um ræðir, þriðjungur, tengdust hótel- eða veitingageiranum. Alls voru þau mál 152 talsins og þar af voru 43 vegna gjaldþrota en 109 byggðu á öðrum kröfum. Þá leituðu Eflingarfélagar sem starfa í byggingariðnaðinum til vinnuréttindasviðs í 74 tilfellum á síðasta ári. Af þeim málum stöfuðu 22 af gjaldþrotum fyrirtækja en 52 mál voru vegna annarra þátta. Vinnuréttindasvið aðstoðaði þá í 24 tilvikum félagsfólk sem starfaði við ræstingar og þrif. Mál tengd öðrum atvinnugreinum voru færri.
Sé horft frekar til þess hvaða Eflingarfélagar nýttu sér þjónustu vinnuréttindasviðs á síðasta ári má sjá að karlar leituðu aðstoðar sviðsins í meira mæli en konur. Karlar stóðu að baki 60 prósent þeirra mála sem um ræðir en konur 40 prósenta. Þá voru Eflingarfélagar með erlent ríkisfang í meirihluta þeirra sem nutu aðstoðar vinnuréttindasviðs.
Fjöldi þeirra mála sem komu á borð vinnuréttindasviðs á síðasta ári var töluvert meiri en árið áður, en málafjöldinn ríflega tvöfaldaðist milli ára. Á sama tíma tókst sviðinu engu að síður að ná markverðum árangri við að stytta málsmeðferðartíma. Á síðasta ári var hann að meðaltali 99 dagar, sem er 13 dögum skemmra en árið 2022.