Efling stéttarfélag stendur fyrir skemmtiviðburðinum Matur og menning öðru sinni, sunnudaginn 29. september. Óhætt er að hvetja félagsfólk til að taka daginn frá því að viðburðurinn sló í gegn á síðasta ári þegar hann var haldinn í fyrsta skipti.
Á Mat og menningu koma Eflingarfélagar saman og njóta dýrindis heimatilbúins matar sem aðrir félagar hafa útbúið og á uppruna sinn í heimalöndum þeirra. Í fyrra var boðið upp á mat frá 13 þjóðlöndum en af nægu er að taka þar eð Eflingarfélagar koma frá um 140 mismunandi upprunalöndum.
Óhætt er að segja að viðburðurinn hafi slegið algjörlega í gegn hjá þeim mikla fjölda Eflingarfélaga sem hann sóttu í fyrra. Viðburðurinn verður auglýstur frekar á síðu félagsins á næstu vikum auk þess sem opnað verður fyrir skráningu fyrir þá Eflingarfélaga sem vilja koma með mat. Félagar eru hvattir til að merkja við 29. september í dagatalinu því Matur og menning er viðburður sem enginn Eflingarfélagi vill missa af!