Skilmálar og úthlutunarkerfi

Skilmálar

Orlofshús – sameign alls félagsfólks Eflingar

Reglur og ábyrgð félagsfólks:

• Leigutaki er ábyrgðaraðili fyrir orlofshúsinu/íbúðinni og afhendast lyklar til hans. EKKI er leyfilegt að framselja leigurétt sinn til  annarra

• Tjón af völdum leigutaka eða gesta hans eru að fullu á ábyrgð leigutaka

• Leigutaka ber að tilkynna umsjónarmanni strax ef eitthvað er ábótavant eða tjón hefur valdist á meðan á dvöl stendur

• Bannað er hafa gæludýr nema að annað sé tekið fram á leigusamningi

• Virða ber hversu margir geta gist í hverju orlofshúsi

• Leigutaki er ábyrgur fyrir þrifum og umgengni og ber að kynna sér húsreglur. Ávallt skal skila húsi vel hreinu

• Virða skal friðhelgi annarra á svæðinu. Öll óþarfa umferð og hávaði eftir kl. 24:00 er óheimil

• Nauðsynlegt er að leigutaki kynni sér innihald leigusamnings varðandi frekari upplýsingar

• Leigutaki þarf að kanna færð á vegum á vetrartíma, þar sem ekki er hægt að tryggja snjómokstur alla daga

Punktakerfi og úthlutanir

Úthlutunartímabil eru tvö, yfir páskana og sumartímann. Leigutímabil yfir páska er ein vika frá miðvikudegi til miðvikudags og sumartímabilið hefst um mánaðarmót maí/júní og er 13 vikur og þá eru húsin leigð út í vikuleigu frá föstudegi til föstudags. Upplýsingar um umsóknartímabil og úthlutanir eru kynntar í upphafi árs á miðlum Eflingar. Skila þarf inn umsókn á auglýstum umsóknartímabilum.

Sérstakt orlofshúsakerfi Eflingar heldur utan um allar úthlutanir félagsins, þar safnast réttindi upp í formi punkta á hvern félagsmann og lífaldur getur jafnframt haft áhrif á úthlutanir. Fjöldi punkta markast af greiðslum til félagsins en reynt er að búa út sem mestan jöfnuð í kerfinu þannig að þeir sem hafa lægri tekjur eigi einnig góða möguleika á að fá úthlutað íbúðum og orlofshúsum.

Tölvukerfið úthlutar þannig að öllum umsóknum er raðað eftir punktaröð, þ.e. þeir umsækjendur sem hafa flesta punkta eru efst í röðinni og svo koll af kolli.
Lífaldur ræður ef punktar tveggja eru jafnir þ.e. sá sem er eldri fær fyrst úthlutað. Kerfið les sig síðan í gegn um allar umsóknirnar og skoðar hvert val fyrir sig.

Aðeins ein úthlutun verður og er hún fyrir alla félagsmenn með réttindi. Þetta á bæði við um sumar- og páskaúthlutun. Punktastaða ræður niðurstöðu úthlutunar.

Fyrstur nær fyrstur fær
Eftir páskaúthlutun opnast bókunarvefurinn fyrir alla félagsmenn til að bóka þau hús sem enn eru laus. Eftir sumarúthlutun opnast bókunarvefurinn í tveimur skrefum, út frá punktainneign félagsmanna, til að bóka þau hús sem laus eru hverju sinni:
Fyrst í 3 daga fyrir þá sem eiga 100 punkta og meira í kerfinu.
Fyrir alla félagsmenn með réttindi óháð punktastöðu.

Punktasöfnun

Hingað til hafa punktar safnast þannig að fyrir u.þ.b. ¼ starfshlutfalls fæst 1 punktur á mánuði en 2 fyrir allt umfram það. Breytingin felst í því að nú er miðað við ¼ af tekjutryggingu og undir gefur 1 punkt, frá því að fullri tekjutryggingu 2 punkta og 3 fyrir allt umfram það.
Einnig verður nú ekki lengur hámark á punktasöfnuninni 12 ár eða 288 punktar eins og verið hefur heldur safnast punktar eins lengi og viðkomandi greiðir til félagsins.

Punktar dragast frá við leigu yfir sumartímann, páska og vetrarleigu. Athugið að punktar segja aðeins til um forgang í úthlutun en koma ekki í stað greiðslu.

Félagsfólk í atvinnuleit sem greiða félagsgjöld af atvinnuleysisbótum viðhalda rétti sínum til að leigja orlofshús enda hafi viðkomandi verið sjóðfélagi í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en hann varð atvinnulaus. Sama gildir um félagsfólk með fullgilda félagsaðild sem komið er á eftirlaun eða örorku og hafði greitt félagsgjöld til félagsins við starfslok og í a.m.k. 5 næstu ár þar á undan.

Bókanir utan úthlutunartímabila

Tímabil vetrarleigu hefst um mánaðarmót ágúst/september og þá er bókað beint, engar umsóknir (að undanskildum  páskum). Á vetrartímanum er leigutíminn sveigjanlegri og þá er hægt að bóka bæði helgar- og vikuleigu. Opnað er fyrir vetrarleigu í tveimur skrefum: um miðjan ágúst opnast fyrir bókanir fram að jólum og fyrsta virka dag í  nóvember opnast fyrir bókanir eftir áramót og fram að sumartímabili. Opnað er fyrir bókanir á Mínum síðum kl. 9.00 á opnunardegi. Félagsfólk getur hringt á skrifstofuna í síma 510 7500 eða farið inn á Mínar síður til að bóka.

Almenn réttindi

Félagsfólk þarf að eiga minnst 6 mánaða samfellda félagasögu og hafa náð 20 ára aldri. Gildir það ákvæði almennt um umsækjendur orlofshúsa. Fyrstu leigu þarf að bóka í gegnum skrifstofu þar sem farið er yfir reglur og leiguskilmála orlofshúsa. Hver félagsmaður með réttindi getur bókað orlofshús einu sinni fyrir áramót og einu sinni eftir áramót. Hægt er að skrá sig inn á bókunarvefinn með rafrænum skilríkjum eða nota lykilorð til að skrá sig inn. Þeir sem ekki eru með rafræn skilríki geta haft samband við skrifstofu og fengið leiðbeiningar í gegnum tölvupóst orlof@efling.is