Spurt og svarað um skipulagsbreytingar á skrifstofum Eflingar árið 2022

Eru þessar breytingar nauðsynlegar?

Já, að mati stjórnar Eflingar er það nauðsynlegt að gera breytingar á mönnun, verkaskiptingu og hæfniskröfum starfsfólks og tímabært að ráðast í breytingar á úreltum ráðningarkjörum. Breytingarnar miða að því að efla starfsemi félagsins og eru gerðar að vel athuguðu máli. Baráttulistinn gaf það út í kosningabaráttunni í febrúar 2022 að hann vildi gera breytingar á þessum atriðum.

Var óhjákvæmilegt að grípa til hópuppsagnar?

Já. Samkvæmt íslenskum vinnurétti krefst innleiðing nýrra ráðningarkjara þess að fyrri ráðningarkjörum og þar með ráðningarsamningi sé sagt upp. Þar sem verið er að breyta ráðningarkjörum allra starfsmanna þarf að segja upp öllum ráðningarsamningum. Vegna þess að breytingarnar fela einnig í sér annars vegar breytingu á störfum (störf lögð niður, ný störf sköpuð, hæfniskröfum starfa breytt o.s.frv.) og hins vegar fækkun á heildarfjölda stöðugilda var ekki hægt að bjóða öllum starfsmönnum að ganga að sínu fyrra starfi. Fremur en að handvelja eða semja við hvern og einn úr starfsmannahópnum er farin sú leið að auglýsa öll störf og hvetja starfsfólk til að sækja um, sem er fagleg og skynsamleg leið.

Er markmiðið að lækka laun starfsfólks eða rýra kjör þeirra?

Nei. Með breytingunum fækkar stöðugildum en markmiðið er ekki að lækka laun starfsfólks. Breytingarnar miða að því að gera launakjör á skrifstofunni gagnsæ og að bæði laun og önnur kjör séu ákveðin á málefnalegum grunni fyrir hvert starf. Í þeim tilgangi er sett saman nýtt launakerfi og skilmálar varðandi yfirvinnu, ökutækjastyrki og fleira endurskoðaðir í heild sinni.

Miðað er við að laun séu samkeppnishæf samkvæmt bestu fyrirliggjandi upplýsingum um laun fyrir sambærileg störf á almennum vinnumarkaði, t.d. launakönnun VR.

Stjórn mun innleiða þá nýjung að fastsetja ákveðið hámarkslaunabil milli hæstu og lægstu launa starfsfólks skrifstofunnar.

Hvernig er réttinda starfsfólks gætt í þessu ferli?

Starfsfólk skrifstofu Eflingar hefur kosið sér trúnaðarmenn sem gæta réttinda þeirra. Samráð var haft við þá í ferlinu. Þeir geta leitað aðstoðar og ráðgjafar sinna stéttarfélaga. Annað þeirra stéttarfélaga sem um ræðir er VR og hitt er Efling. Starfsmönnum sem eru félagsmenn í Eflingu stendur til boða að fá sömu aðstoð og aðrir félagsmenn í sams konar tilviki hjá öðrum atvinnurekanda.

Ég hef heyrt misvísandi fréttir um það hvort samráð hafi í raun farið fram við trúnaðarmenn starfsfólks. Hvað er rétt?

Samráð var haft við trúnaðarmenn starfsfólks líkt og gert er ráð fyrir í lögum um hópuppsagnir. Ákvörðun stjórnar um að ráðast í breytingarnar var með fyrirvara um samráð við trúnaðarmenn. Samráðið fór fram á fundum mánudaginn 11. apríl og þriðjudaginn 12. apríl og er skjalfest í fundargerðum. Lögmaður fékk umboð stjórnar Eflingar til að annast samráðið.

Afurð samráðsins við trúnaðarmenn var bókun þar sem komist var að samkomulagi um ákveðin atriði í framkvæmd uppsagna, nánar tiltekið ívilnanir varðandi lengd uppsagnarfrests, eftirgjöf á vinnuskyldu á uppsagnarfresti um einn mánuð og sveigjanleika gagnvart þeim leita annars starfs.

Í ferlinu lýstu trúnaðarmennirnir andstöðu sinni við skipulagsbreytingarnar og kemur það fram í bókuninni. Engu að síður fór samráðið fram og það skilaði sér í samkomulagi um viss atriði.

Er það rétt að starfsmenn hafi fyrst heyrt af uppsögn í gegnum fjölmiðla?

Stjórn ræddi breytingarnar og samþykkti þær með fyrirvara um samráð við trúnaðarmenn á fundi sínum eftir hádegið mánudaginn 11. apríl. Samráð við trúnaðarmenn hófst strax að loknum þeim fundi, en það samráð á samkvæmt lögum að fara fram í trúnaði. Minnihluti stjórnar virti hins vegar ekki þann trúnað heldur lak upplýsingum um málið til fjölmiðla, sem leiddi til þess að fjölmiðlar sögðu frá málinu strax að kvöldi 11. apríl meðan samráð stóð ennþá yfir. Að sjálfsögðu stóð ekki til að tilkynna starfsfólki um breytingarnar með þessum hætti. Það er mjög miður að trúnaður ríki ekki innan stjórnar félagsins.

Eru breytingarnar fyrirsláttur til að bola einstaklingum úr starfi sem stjórn líkar ekki við?

Nei, breytingarnar eru gerðar til að efla starfsemi félagsins og uppfæra úrelt og gölluð ráðningarkjör. Ekki er gert upp á milli starfsmanna að neinu leyti og sama gildir um alla: ráðningarsamningum allra er sagt upp og allir starfsmenn hvattir til að sækja um. Ráðningarstofa mun annast nýráðningar í gegnum faglegt ferli þar sem hæfni umsækjenda ræður för.

Er það ekki slæmt að verkalýðsfélag ráðist í hópuppsagnir og hefur ekki Efling gagnrýnt þær áður?

Stjórn Eflingar tekur sínar ákvarðanir, þar með talið varðandi rekstur skrifstofunnar, út frá hagsmunum félagsins og félagsmanna. Ákvarðanir sem snerta starfsmenn þurfa að sjálfsögðu ávallt að vera innan þess ramma sem lög og reglur vinnumarkaðarins setja.

Þótt hópuppsögn sé viðkvæmt mál þá hefur verið staðið rétt og löglega að henni og réttindi allra starfsmanna eru virt. Efling hefur gagnrýnt hópuppsagnir atvinnurekenda í tilvikum þar sem þær voru framkvæmdar til að koma sér hjá því að standa við kjarasamningsbundnar launahækkanir hjá láglaunafólki og þar sem uppgefnar ástæður breytinga voru tylliástæður. Hvorugt á við í tilviki þessara hópuppsagna. Efling mun áfram bjóða sínu starfsfólki góð og sanngjörn kjör í fullu samræmi við kjarasamninga og þær breytingar sem uppsagnirnar eru liður í eru bæði nauðsynlegar og raunverulegar.

Hvers vegna var varaformanni Eflingar sagt upp, er hún ekki kosin fremur en ráðin? Verður formanni líka sagt upp?

Engin undantekning er gerð á því að öllum ráðningarsamningum er sagt upp, þar með talið ráðningarsamningi varaformanns. Það hefur engin áhrif á lögbundið hlutverk hennar og skipun sem varaformaður. Launað starf varaformanns á skrifstofunni byggir á ráðningarsamningi og er aðskilið frá félagslegri skipun hennar í stöðu varaformanns sem hún var kosin til að gegna.

Núverandi formaður Eflingar var einnig með ráðningarsamning en sagði upp þáverandi ráðningarsamningi sínum við félagið í nóvember síðastliðnum og hefur ekki undirritað nýjan samning síðan þá. Ef formaður hefði ekki þegar sagt upp ráðningarsamningi sínum þá hefði hópuppsögnin einnig náð til hennar ráðningarsamnings.

Mun þjónusta við félagsfólk skerðast vegna þessara breytinga?

Þar sem um er að ræða skipulagsbreytingar er alls ekki ætlast til þess að starfsfólk hverfi af vinnustaðnum. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að allir starfsmenn haldi áfram störfum sínum og fái greidd laun fram í júlí og mögulega til frambúðar ef starfsfólk sækir um starf og er ráðið á ný. Mögulegt er að breytingum kunni þó til skamms tíma að fylgja tafir í þjónustu. Hluti af þeirri aðstoð sem ráðningarstofa, lögmannsstofa og rekstrarráðgjafi veita félaginu vegna breytinganna er að stuðla að sem minnstri röskun á þjónustu. Stjórn er þess fullviss að breytingar muni ganga farsællega í gegn. Markmið breytinganna til lengri tíma er að stuðla að betri þjónustu fyrir félagsmenn.

Hvað kosta þessar breytingar?

Stjórn hefur samþykkt að ganga til samstarfs við ráðningarstofu, lögmannsstofu og ráðgjafa sem veita aðstoð við breytinguna. Samanlagður kostnaður við þessa aðkeyptu þjónustu gæti numið allt að 25 milljónum króna, en fer eftir magni útseldrar vinnu. Kostnaður við óunninn mánuð í uppsagnarfresti, sem var liður í samkomulagi við trúnaðarmenn starfsfólks, gæti numið um 50 milljónum króna.

Minnkun á launakostnaði til lengri tíma í kjölfar breytingarinnar gæti numið allt að 120 milljónum á ári, sem vegur á móti kostnaði vegna breytingarinnar.

Er það rétt að verið sé að breyta kröfum um tungumálafærni starfsfólks? Hvaða áhrif hefur það á þjónustu við erlenda félagsmenn?

Já, kröfum um tungumálafærni er breytt þannig að krafa er almennt gerð um bæði íslensku- og enskukunnáttu. Það er gert til að allir starfsmenn geti jöfnum höndum þjónustað félagsmenn á þessum tveimur tungumálum. Þá er kunnátta í fleiri tungumálum nefnd sem kostur í hæfniskröfum.

Stjórn samþykkti sérstaka áréttingu þann 24. apríl á því að krafa um „góða færni“ jafngildir ekki kröfu um að umsækjendur tali viðkomandi tungumál reiprennandi. Stjórn áréttaði jafnframt að kröfur um tungumálafærni eru ekki ætlaðar til að hamla því að núverandi starfsmenn teljist hæfir til starfa hjá félaginu, og biður stjórn ráðningarstofu um að sýna sveigjanleika gagnvart þessu.

B-listinn hefur síðan 2018 gert byltingu í aðgengi erlendra félagsmanna að upplýsingum og þjónustu félagsins. Kappkostað hefur verið að efla þjónustu á sem flestum þeim tungumálum sem félagsmenn skilja, og hafa verið ráðnir starfsmenn sem hafa tungumál Eflingarfélaga að móðurmáli. Að sjálfsögðu verður haldið áfram á þessari braut.