Samninganefnd Eflingar

Samninganefnd Eflingar er nefnd félagsfólks sem hefur það mikilvæga hlutverk að leiða kjaraviðræður Eflingar. Nefndin starfar á meðan kjarasamningar eru lausir og þangað til þeim er lokið. 

Stjórn Eflingar á sjálfkrafa sæti í samninganefnd og formaður Eflingar er formaður hennar. 

Í kjarasamningalotunni sem nú stendur yfir hefur félagið lagt mikla áherslu á að samninganefndin sé stór og að störf hennar séu opin og gagnsæ gagnvart félagsfólki. 

Hér að neðan má finna upplýsingar um störf nefndarinnar. Ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið sent þær á felagsmal@efling.is.

Tilnefning til setu í samninganefnd við SFV.

Hlutverk og störf samninganefndar

Hlutverk samninganefndar er að koma fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samninganefnd hefur meðal annars umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins, gera áætlun um skipulag viðræðna, gera tillögur að samningum, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara um samningaumleitanir og undirrita kjarasamninga. Þá samþykkir nefndin verkfallsboðanir áður en þær eru settar í atkvæðagreiðslu. 

Nefndin situr samningafundi við viðsemjendur en heldur einnig sína eigin fundi sem boðað er til og stjórnað af formanni. Seta í nefndinni felur í sér talsverða vinnu, en nefndarmenn þurfa ekki að endilega að sitja hvern einasta fund. Samninganefndarmenn geta átt rétt á sitja fundi án launataps frá atvinnurekanda (sjá hér fyrir neðan). 

Fjallað er um hlutverk samninganefndar í lögum Eflingar og í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Tilnefning í samninganefnd

Auglýst var eftir tilnefningum um setu í samninganefnd þann 20. september 2022 og var fyrsta skipun samninganefndar samþykkt á fundi trúnaðarráðs þann 22. október. 

Samninganefnd er heimilt að kalla félagsfólk til starfa með sér eins og hún telur þörf á hverju sinni. Samkvæmt ákvörðun stjórnar þann 3. nóvember 2022 er öllu félagsfólki heimilt að tilnefna sig sem varamenn í samninganefnd á meðan hún starfar. Jafnframt eru allir löglega skipaðir trúnaðarmenn félagsins sjálfkrafa varamenn í samninganefnd. Formaður kallar varamenn til þátttöku í starfi nefndarinnar eftir því sem þörf krefur. 

Félagsmenn sem vilja tilnefna sig eru beðnir um að fylla út eyðublaðið hér.

Kröfugerðir

Samninganefnd hefur samþykkt kröfugerð á SA. Hana má lesa í pdf skjali hér

Kröfugerðir á ríkið og vegna lífeyrissjóðakerfisins eru í vinnslu.

Fréttir

Með því að smella á þennan tengil má sjá allar fréttir af vefsíðu félagsins sem fjalla um samninganefnd og tengd mál: Fréttir af kjaraviðræðum.

Launatap vegna starfa í samninganefnd

Réttur félagsfólks til þátttöku í starfi samninganefndar án launataps fer eftir ákvæðum kjarasamninga. 

Almenni vinnumarkaðurinn – trúnaðarmenn

Löglega skipaðir trúnaðarmenn á almenna vinnumarkaðinum (einkageiranum) hafa samkvæmt grein 13.2 í kjarasamningi Eflingar við SA heimild til að verja tíma til starfa sinna sem trúnaðarmenn án launaskerðingar. Ber þeim að eiga samráð við verkstjóra. Heimildin nær til starfa sem trúnaðarmönnum eru falin af stéttarfélagi vegna stöðu þeirra sem trúnaðarmenn, en þar undir falla störf samninganefndar. Þetta þýðir að trúnaðarmenn eiga rétt á launuðu leyfi úr vinnu falli fundir samninganefndar á vinnutíma þeirra. 

Almenni vinnumarkaðurinn – ekki trúnaðarmenn 

Samninganefndarmenn af almenna vinnumarkaðinum sem ekki eru trúnaðarmenn eiga ekki rétt á launuðu leyfi úr vinnu falli fundir samninganefndar á vinnutíma þeirra.  

Opinberi geirinn 

Samningar Eflingar við ríkið (16.6), Reykjavíkurborg (gr. 15.8), önnur sveitarfélög (gr. 14.2.), hjúkrunarheimili (gr. 16.6) og einkarekna leikskóla eru með ákvæðum um að þeir sem skipaðir eru í samninganefnd skuli fá leyfi til að sinna því verkefni án skerðingar á reglubundnum launum. Tilkynna ber yfirmanni um slíkar fjarvistir með eðlilegum fyrirvara. Heimildin er ekki takmörkuð við trúnaðarmenn, en trúnaðarmenn búa til viðbótar að opinni heimild til að sinna störfum sem þeim eru falin af stéttarfélagi.

Fundir

Um fundi nefndarinnar

Fundargerðir og fundargögn vistuð hjá skrifstofu Fræðslu- og félagsmála. Nánari upplýsingar hjá felagsmal@efling.is.

24. október 2022

Fundur samninganefndar haldinn í Félagsheimili Eflingar.

26. október 2022

Fundur samninganefndar haldinn í Félagsheimili Eflingar.

27. október 2022

Fundur samninganefndar haldinn í Félagsheimili Eflingar.

30. október 2022

Fundur samninganefndar haldinn í Félagsheimili Eflingar.

2. nóvember

Fundur samninganefndar haldinn í Félagsheimili Eflingar.

4. nóvember

Samningafundur með fulltrúum SA. Haldinn í Félagsheimili Eflingar.