Réttindi trúnaðarmanna

Trúnaðarmenn stéttarfélaga og vernd þeirra gegn uppsögnum

Trúnaðarmenn á vinnustöðum njóta sérstakrar verndar skv. ákvæðum laga og ekki er heimilt að segja trúnaðarmanni upp vegna starfa hans sem trúnaðarmanns. Að öllu jöfnu gengur hann fyrir öðrum um vinnu þurfi atvinnurekandi að fækka starfsfólki.

Í ákvæði kjarasamnings Eflingar og SA nr. 12.3.3. segir að takmörkun uppsagnarheimildar skv. lögum eigi m.a. við um trúnaðarmenn og er þar jafnframt vísað í lögin nr. 83/1983 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í 11 gr. laganna kemur vernd trúnaðarmanna gegn uppsögnum skýrt fram:

„Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu, vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn anna hátt gjalda þess, að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum, og skal þá trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.“

Í 4 gr. laganna segir einnig að atvinnurekendur megi ekki reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir starfsmanna eða afstöðu og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu.

Í ákvæði nr. 12.3.3. í kjarasamningi Eflingar og SA segir jafnframt að þegar starfsmaður nýtur uppsagnarverndar skv. lögum, ber atvinnurekanda að rökstyðja skriflega hvaða ástæður liggja að baki uppsögn. Brot gegn ákvæðum trúnaðarmannakaflans í kjarasamningi geta varðað bótum skv. almennum reglum skaðabótaréttar skv. gr. 12.3.4.

Til þess að segja trúnaðarmanni upp störfum þurfa sakir að vera nokkrar og þarf atvinnurekandi að hafa áminnt eða aðvarað trúnaðarmann og gert honum grein fyrir að það komi til uppsagnar láti hann ekki af tiltekinni háttsemi. Um þetta hafi nokkrir dómar Félagsdóms fallið.

Sjá hér Félagsdóma 1/1965 og 1-1966. Í báðum þessum dómum var trúnaðarmönnum sagt upp störfum, og aðallega borið við óstundvísi. Báðar uppsagnirnar voru dæmdar ólögmætar þar sem áminning hafði ekki verið gefin. Sjá einnig Félagsdóma 4/1966, 4/1974 og 5/1989 þar sem uppsagnir voru dæmdar ólögmætar vegna þess að áminning var ekki gefin.