Trúnaðarráð ályktar

12. 11, 2021

Trúnaðarráð Eflingar ályktaði á fundi sínum í gær, þann 11. nóvember.

Ályktun um að flýta kosningum til stjórnar og aðalfundi

Samkvæmt 10. og 29. gr. laga Eflingar – stéttarfélags skal kosning stjórnar fara fram ár hvert fyrir lok mars og aðalfundur haldinn í síðasta lagi í lok maí. Ekki er kveðið á um hversu snemma megi halda stjórnarkosningu og aðalfund. 

Trúnaðarráð telur að í ljósi aðstæðna beri að halda stjórnarkosningu og aðalfund árið 2022 eins fljótt og auðið er. 

Trúnaðarráð mælist til þess að kosning stjórnar árið 2022 fari fram fyrir 15. febrúar og að aðalfundur verði haldinn fyrir 15. mars.

Ályktun um fráfarandi formann félagsins

Sólveig Anna Jónsdóttir gaf fyrirheit um breytingar í Eflingu í kosningabaráttu vorið 2018. Við þau fyrirheit hefur hún staðið. Í formannstíð Sólveigar Önnu hefur þjónusta félagsins tekið miklum framförum.

Mikilvægust er þó umbreyting félagsins yfir í baráttusamtök. Með því að virkja félagsfólk til þátttöku í verkfallsaðgerðum, samninganefndum, fjöldafundum og opinberum málflutningi hefur félagið tekið algjörum stakkaskiptum.

Sólveig Anna sýndi að Efling gæti ekki aðeins leitt endurnýjaða baráttu verka- og láglaunafólks heldur náð raunverulegum árangri í þeirri baráttu. Þetta er rækilega staðfest í tölum yfir launaþróun síðustu ára.

Trúnaðarráð þakkar Sólveigu Önnu fyrir linnulausa baráttu hennar fyrir hagsmunum Eflingarfélaga og harmar brotthvarf hennar.