Yfirlýsing frá stjórn Eflingar

Stjórn Eflingar hittist á fundi í dag, 4. nóvember. Á fundinum var afsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur úr embætti formanns Eflingar afgreidd. Kjörinn varaformaður, Agnieszka Ewa Ziólkowska, tekur við embætti formanns og gegnir því fram að næstu formanns- og stjórnarkosningum, sem samkvæmt lögum félagsins fara fram fyrir lok mars á næsta ári. Varaformaður var kjörinn af stjórn og tekur Ólöf Helga Adolfsdóttir við því embætti.

Stjórn Eflingar leggur áherslu á að tryggja órofa starfsemi félagins. Efling býr að ríkri sögu sem nær aftur til upphafs verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Hjá Eflingu vinnur stór hópur fólks sem þjónustar félagsmenn á hverjum degi. Félagið veitir upplýsingar og aðstoð vegna launaútreikninga og kjaramála, það veitir námsstyrki og leigir félagsmönnum orlofshús. Efling rekur öflugan sjúkrasjóð þar sem m.a. er hægt að sækja greiðslur vegna langvarandi veikinda en einnig ýmsa aðra styrki sem snúa að heilsueflingu. Efling veitir lögfræðiaðstoð vegna ágreinings við atvinnurekendur og sinnir umfangsmiklu fræðslustarfi. Þessi starfsemi verður eftir sem áður kjarninn í starfi Eflingar með  hagsmuni félagsmanna alltaf í forgrunni. 

Félagsins bíður það mikla verkefni undirbúa næstu kjarasamningsviðræður en samningar eru lausir í lok næsta árs. Í þessu verkefni mun Efling áfram vera sterkur málsvari verkafólks. Stjórn Eflingar vill þakka Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Viðari Þorsteinssyni fyrir þeirra störf í þágu félagsins á þeim tæplega fjórum árum sem þau hafa verið í forystu. Framlag þeirra í þágu láglaunafólks, kvenna og fólks af erlendum uppruna á Íslandi verður seint fullþakkað.

Stjórn Eflingar mun nú einbeita sér að þeim verkefnum sem henni ber að sinna. Formaður mun starfa með skrifstofunni að því að greiða úr þeim vandamálum sem hafa komið upp í starfsemi félagsins. Þrátt fyrir þann ágreining sem ratað hefur í fjölmiðla eru stjórn og starfsfólk einhuga í því að tryggja þjónustu við félagsmenn Eflingar.