Íslandshótel krafin um að láta af ólöglegum hótunum

27. 01, 2023

Efling – stéttarfélag hefur sent eftirfarandi bréf til Íslandshótela þar sem þau eru krafin um að láta af ólöglegum hótunum í garð starfsfólks:


Íslandshótel hf. og Fosshótel Reykjavík ehf.
Sigtúni 28, 105 Reykjavík

Afrit:
Samtök atvinnulífsins og Ríkissáttasemjari

Reykjavík, 27. janúar 2023

Efni:   Íslandshótel krafin um að láta af ólöglegum hótunum í garð starfsfólks

Til Eflingar – stéttarfélags hafa leitað félagsmenn sem starfa á hótelum Íslandshótela. Þeir hafa afhent félaginu afrit af ódagsettu bréfi/veggspjaldi þar sem fyrirtækið notfærir sér hótanir um tekjumissi til að hafa áhrif á skoðanir og kosningahegðun starfsfólks í verkfallskosningu sem nú stendur yfir.

Jafnframt skyldaði fyrirtækið alla Eflingarfélaga á vinnustaðnum til að mæta á fund þar sem sams konar skilaboðum var komið áleiðis með einhliða og villandi hætti.

Þá hafa félaginu borist kvartanir frá starfsfólki Íslandshótela vegna afskipta stjórnenda af félagsfólki varðandi yfirstandandi verkfallskosningu. Starfsfólk upplifir að atvinnuöryggi þeirra sé ógnað, auk vanlíðunar vegna álags og þrýstings sem þessi afskipti skapa.

Slíkur þrýstingur á starfsfólk vegna stéttarfélagsmálefna og vinnudeilna er með öllu óheimill samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Texti 4. gr. laganna er svohljóðandi:

„Atvinnurekendum … er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með … uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn [eða] fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“

Efling – stéttarfélags krefst þess að Íslandshótel láti þegar í stað af ólöglegum tilraunum sínum til að setja þrýsting á starfsfólk vegna yfirstandandi verkfallskosningar með hótunum um tekjumissi og/eða loforðum um peningagreiðslur.

Félagið mun eftir atvikum leita til Félagsdóms og gera kröfu um sektir.

Móttaka óskast staðfest.

______________________________
Sólveig Anna Jónsdóttir
formaður Eflingar – stéttarfélags


Viðauki – Bréfið/veggspjaldið sem starfsmenn Íslandshótela afhentu Eflingu: