Kosið um verkfallsboðanir á hótelkeðjum og í vörubílaakstri og olíudreifingu

31. 01, 2023

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags samþykkti á fundi sínum í gær verkfallsboðanir sem taka til annars vegar hótelkeðjunnar Berjaya Hotels og hótelsins The Reykjavík Edition og hins vegar til starfa við vörubifreiðaakstur og olíudreifingu. Atkvæðagreiðslur meðal félagsfólks sem boðanirnar taka til verða auglýstar á vef Eflingar fyrir hádegi í dag.

Verkfallsboðun á Berjaya Hotels nær til á fjórða hundrað Eflingarfélaga. Er um að ræða hótel sem áður voru rekin undir nafninu Icelandair Hotels, m.a. Hótel Natura við Nauthólsveg og Hilton Nordica á Suðurlandsbraut. Á The Reykjavík Edition starfa vel á annað hundrað Eflingarfélagar. Samþykki þessar hópar verkfall koma þeir til viðbótar við þá tæpu 300 Eflingarfélaga sem þegar hafa samþykkt verkfall á Íslandshótelum.

Verkfallsboðun hjá Samskip tekur til alls vörubifreiðaaksturs sem gerður er út frá höfuðstöðvum fyrirtækisins við Sundahöfn. Verkfallsboðun hjá Olíudreifingu og Skeljungi nær til aksturs og annarra starfa við olíudreifingu, en þessi fyrirtæki annast allan flutning á olíu frá stærstu olíubirgðastöð landsins í Örfirisey. Verkfallsboðuninni fylgir bókun um undanþágunefndir, sem skulu fjalla um undanþágubeiðnir frá verkfallsboðun í þágu almannaöryggis.

Samninganefnd áréttaði á fundi sínum í gær stuðning við kröfur félagsmanna hjá Samskip, Olíudreifingu og Skeljungi, en á vinnustöðunum falla sum kjör undir sérkjarasamninga. Nefndin hefur þegar sett fram kröfu um launaflokkahækkanir fyrir bílstjóra.

Atkvæðagreiðslur um þessar verkfallsboðanir hefjast klukkan 12 á hádegi föstudaginn 3. febrúar og þeim lýkur klukkan 18 á þriðjudaginn 7. febrúar.