Fundað hjá ríkissáttasemjara í dag – „Þurfum að sjá hvernig málin æxlast“

31. 01, 2024

Breiðfylkingin og Samtök atvinnulífsins munu hittast á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan 14:00 í dag. Er það fyrsti fundurinn sem fer fram frá því að kjaradeilunni var vísað til sáttasemjara fyrir viku síðan, 24. janúar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir miður hversu mikil óvissa hafi skapast um kjarasamningsgerðina að undanförnu. Kröfur Breiðfylkingarinnar séu hófsamar og sanngjarnar og aðgengilegar bæði atvinnurekendum og ríkinu. Hægt hefði verið að ganga hratt og örugglega frá kjarasamningum á grunni þeirra. 

Breiðfylkingin, sem er bandalag stærstu landssambanda og stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði, sendi frá sér yfirlýsingu samhliða því að deilunni var vísað til ríkissáttasemjara. Þar kom fram að eftir fjölda funda fram eftir janúar mánuði væri orðið ljóst að Samtök atvinnulífsins (SA)  hygðust ekki fallast á hófsama nálgun Breiðfylkingarinnar. Var harmað að SA skyldi ekki grípa það tækifæri sem bauðst til að gera langtímasamninga sem miðuðu að því að ná niður verðbólgu og vöxtum, og sem hefðu í för með verulega lægri kostnað fyrir atvinnurekendur en verið hefði í fyrri kjarasamningum. 

Myndi gagnast öllum

Má segja að staðan sem komin er upp nú sé vonbrigði í ljósi bjartsýni í upphafi árs. Þann 9. janúar sagðist Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þannig vera bjartsýn á að takast mætti að gera hér sögulega kjarasamninga, til hagsbóta öllu launafólki. Á fyrsta samningafundi Breiðfylkingarinnar með SA milli jóla og nýárs hefði verið sleginn jákvæður tónn og á málflutningi SA hefði mátt skilja að samtökin væru líkleg til að styðja við tillögur Breiðfylkingarinnar. 

Þær tillögur hverfast í stuttu máli um að tilfærslukerfi hins opinbera, barnabóta-, vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfin, verði endurreist. Takist að fá stjórnvöld með í þá vegferð geta hærri greiðslur úr þeim kerfum að töluverðu leyti komið í stað launahækkana, ekki síst vegna þess að þær greiðslur eru skattfrjálsar. Síðan yrði samið um hóflegar krónutöluhækkanir launa í langtímasamningum. Með því myndu skapast aðstæður hér á landi til þess að verðbólga hjaðni hratt og vextir lækki. Það kæmi öllu launafólki til góða. 

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, hefur sýnt fram á að með endurreisn tilfærslukerfanna verði unnt að skila láglaunafólki, og upp í millitekjuhópa, skattfrjálsum kjarabótum að verðmæti á bilinu 30 til 50 þúsund krónum á mánuði. Ofan á það kæmu síðan til hófsamar, flatar krónutöluhækkanir, svo að launafólk með 500 þúsund krónur eða minna á mánuði í tekjur mætti eiga von á hækkun sem jafngilti um 60 þúsund krónum á mánuði. Megnið af þeirri upphæð, um 40 þúsund krónur, kæmi úr tilfærslukerfunum. Til þess þyrfti að tvöfalda útgjöld ríkisins til kerfanna. 

Mikil tækifæri til staðar

Sólveig Anna greindi frá því að átt hefðu sér stað jákvæð samtöl við ríkisstjórnina um aðkomu þeirra. Hins vegar tók að bera á málflutning frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins seinni hluta janúar í þá veru að vegna fyrirséðs kostnaðar ríkissjóðs vegna náttúruhamfaranna í Grindavík væri ekki svigrúm til að koma til móts við kröfur Breiðfylkingarinnar. Slíkan málflutning hefur hins vegar ekki mátt heyra frá ráðherrum annarra flokka í ríkisstjórn, og raunar hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, talað á öðrum nótum. 

„Ég tel að bæði Vinstri græn og Framsókn sjái að það eru mikil tækifæri fólgin í því að ganga frá góðu samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Ég tel að á endanum muni Sjálfstæðisflokkurinn hætta þessu ideológíska þrasi sínu, jarðtengjast og liðsinna öllum hér að ganga frá góðum kjarasamningi,“ sagði Sólveig Anna í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni á dögunum. 

Stefán Ólafsson hefur jafnframt bent á að ríkið ráði vel við verkefnið í Grindavík, meðal annars með fé úr Náttúruhamfaratryggingasjóði og baktryggingum. Þá muni ríkið spara mun meira í útgjöldum en sem nemur aukningunni í tilfærslukerfin, ef takist að ná hér kjarasamningum sem muni stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta með skjótum hætti. 

Kröfugerðin er mjög aðgengileg

Því miður varð viðsnúningur hjá SA á leiðinni sem olli því að Breiðfylkingin sá ekki annan kost í stöðunni en að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara, sem fyrr segir. Sólveig Anna sagði í fyrrnefndu viðtali á Samstöðinni að hún teldi ástæðuna ekki vera yfirlýsingar ráðherra Sjálfstæðisflokksins um stöðuna í Grindavík, heldur hafi líklega ekki verið innistæða innan baklands SA fyrir þeim jákvæðu viðtökum sem birtust í upphafi.

Sem fyrr segir funda deiluaðilar hjá ríkissáttasemjara um miðdegið í dag. Sólveig Anna segist engu geta spáð fyrir um hvert sá fundur muni leiða. „Það er miður hversu mikil óvissa hefur skapast á síðustu dögum og vikum um framhaldið. Ég hefði viljað sjá viðræður halda áfram á grunni kröfugerðar Breiðfylkingarinnar, enda er sú kröfugerð mjög aðgengileg bæði Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum. Það hefði verið hægt að ganga hratt og örugglega frá samningum á þeim grunni. Nú þurfum við að sjá hvernig málin æxlast. Ég mun eins og áður leggja mikla áherslu á að halda félagsfólki upplýstu um gang viðræðna.“