Allt um réttindi leigjenda á næsta Dropanum

Réttindi leigjenda er umfjöllunarefni á næsta Dropa. Þau Einar Bjarni Einarsson og Kolbrún Arnar Villadsen lögfræðingar Neytendasamtakana munu fræða okkur um málið. Ekki missa af erindi þeirra á fimmtudaginn kl. 10. Hefurðu spurningu til þeirra? Ekki hika við að senda spurningar fyrirfram á
efling@efling.is eða í gegnum facebooksíðu Eflingar. Vegna hertra sóttvarnaraðgerða verður viðburðurinn eingöngu í gegnum streymi á facebooksíðu stéttarfélagsins facebook.com/efling.is Viðburðurinn fer fram á íslensku en erindið mun síðar verða sett á facebook síðu félagsins með enskum texta.

Lengri afgreiðslutími á miðvikudögum fellur niður tímabundið

Athygli Eflingarfélaga er vakin á því að lengri opnunartími stéttarfélagsins fylgir opnun móttöku skrifstofunnar í Guðrúnartúni. Ekki verður því boðið upp á lengri opnunartíma á miðvikudögum á meðan móttakan verður lokuð vegna sóttvarna í tengslum við Covid-19.  Eflingarfélagar eru hvattir til að nýta sér rafrænar leiðir til samskipta við starfsmenn. 
Sjá hér. Við vonumst til að geta opnað fyrir afgreiðslu móttökunnar innan fárra vikna og þar með boðið upp á lengri afgreiðslutíma á miðvikudögum að nýju.

Orlofshús Eflingar og Covid 19

Efling hvetur félagsmenn í ljósi aðstæðna vegna covid 19 til að fara að tilmælum Almannavarna um að ferðast ekki á milli landshluta. Á meðan að þessi tilmæli eru í gildi gefst leigutökum orlofshúsa kostur á að afpanta þau fram á síðasta dag og fá leiguverð að fullu endurgreitt. Félagsmenn þurfa þá að senda póst á
orlof@efling.is með upplýsingum um reikningsnúmer leigutaka ásamt nafni og kennitölu. Við minnum á að óheimilt er að nýta orlofshúsin til sóttkvíar og mikilvægi þess að þrífa vel húsin og sótthreinsa sameiginlega snertifleti eftir notkun.

Tímamótafundur hjá trúnaðarráði á Zoom

Góð mæting var á trúnaðarráðs- og félagsfund Eflingar sem haldinn var í gær fimmtudaginn 15. október 2020 á fjarfundaforritinu Zoom. Má segja að um tímamótafund hafi verið að ræða þar sem þetta er í fyrsta sinn í sögu Eflingar sem trúnaðarráðsfundur er haldinn rafrænt. Er þetta gert vegna hertra sóttvarnaraðgerða en áður hefur þurft af þeim sökum að fresta og aflýsa fundum sem fyrirhugað var að halda með hefðbundnu sniði. Gekk fundurinn vonum framar og voru þátttakendur ánægðir. Vel gekk að virkja félagsmenn til þátttöku í umræðuhópum en fólki var skipt niður í hópa til að ræða um málefni fundarins. Venjum varðandi fundarstjórn var fylgt og verður að mati félagsins vel hægt að halda fundi löglega með þessu sniði í framtíðinni. Að loknum formlegum fundi var kynning og undirbúningur fyrir þingfulltrúa Eflingar á komandi þingi Alþýðusambands Íslands sem fram fer 21. október næstkomandi.  

Að virða samninga

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Ingólfur B. Jónsson, aðstoðarsviðsstjóri kjaramálasviðs Eflingar rituðu grein í Morgunblaðið þar sem þau fara yfir það hvernig víðtæk kjarasamningsbrot grafa undan trausti á vinnumarkaði og það beri að taka á launaþjófnaði á íslenskum vinnumarkaði. Sorglegt er að sjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á síðum Morgunblaðsins gera lítið úr þessum staðreyndum og uppnefna það „ómálefnalegt“ og „veruleikafirrt“ að vekja athygli á þeim. Að virða samninga Í dag starfrækir Efling – stéttarfélag tíu manna deild, Kjaramálasvið, sem sinnir því verkefni að aðstoða félagsmenn vegna réttindabrota sem þeir verða fyrir á vinnumarkaði. Á síðasta ársfjórðungi, eða í júlí, ágúst og september 2020, tók kjaramálasvið við yfir 3.500 símtölum frá félagsmönnum, 1.300 tölvupóstum og tæplega 700 heimsóknum á skrifstofur félagsins. Kjaramálasvið sinnir einnig fræðslu, vinnustaðaeftirliti og öðrum verkefnum, en meginverkefni þess er að aðstoða félagsmenn  við gerð launakrafna. Launakrafa er gerð þegar laun hafa verið vangreidd eða önnur kjarasamningsbundin réttindi ekki virt til fulls. Algeng brot eru til dæmis þegar vaktaálag er ranglega greitt í stað yfirvinnuálags, áunnið orlof er ekki gert upp við starfslok, desemberuppbót er ekki greidd og svo mætti lengi telja. Á síðasta ársfjórðungi skráði Kjaramálasvið yfir 260 ný mál sem varða ýmis réttindabrot. Þar af voru 87 launakröfur að heildarupphæð rúmar 65 milljónir. Nokkrir af þeim atvinnurekendum sem kröfurnar snúa að eru með meira en tíu opnar launakröfur, en sjá má nöfn þessara fyrirtækja og heildarupphæðir krafna á heimasíðu Eflingar í nýútgefinni ársfjórðungsskýrslu Kjaramálasviðs. Þessar kröfur endurspegla raunveruleg brot á réttindum félagsmanna, ekki mistök í launabókhaldi sem flestir atvinnurekendur ná að leiðrétta  án afskipta stéttarfélags. Efling sendir ekki út launakröfur fyrir hönd félagsmanna nema þær séu studdar gögnum á borð við ráðningarsamning, launaseðil, tímaskráningar og kvittanir fyrir greiðslu launa. Mjög sjaldgæft er að launakröfum Eflingar sé hnekkt og yfirleitt fást þær greiddar að endingu, oft með aðstoð lögmanna félagsins. Vandamálið er hins vegar að innheimtuferli launakröfunnar getur tekið óratíma. Stundum þarf að fara með kröfur fyrir dóm, í gegnum þrotabú gjaldþrota fyrirtækja eða í gegnum Ábyrgðarsjóð launa. Atvinnurekandi fær engar sektir og launamaðurinn fær engar bætur, jafnvel þótt atvinnurekandinn sé dæmdur sekur fyrir dómi. Í millitíðinni ber launamaðurinn allan kostnað af því að hafa verið snuðaður um sín laun. Hann getur ekki beðið um frest á greiðslu húsaleigu eða annarra reikninga vegna þess að launum hafi verið stolið. Óprúttnir atvinnurekendur hafa lært inn á þetta kerfi. Þeir nýta sér æ grimmar þann fjárhagslega hvata  til launaþjófnaðar sem refsileysið býr til. Heildarupphæð launakrafna Eflingar hefur vaxið um 40% á ári síðustu fimm ár. Launaþjófnaður á íslenskum vinnumarkaði er í veldisvexti. Nú er svo komið að kröfurnar nema um milljón á dag. Hafa ber í hug að þetta eru eingöngu tilkynnt brot og sterkar vísbendingar eru um að margir félagsmenn veigri sér við að leita réttar síns af ótta við uppsögn. Sorglegt er að sjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á síðum Morgunblaðsins gera lítið úr þessum staðreyndum og uppnefna það „ómálefnalegt“ og „veruleikafirrt“ að vekja athygli á þeim. Fyrir fólk á lægstu launum er launaþjófnaður ekki aðeins sár niðurlæging heldur efnahagslegt stórtjón. Meðalupphæð launakröfu sem Efling setti í innheimtu árið 2019 er yfir hálf milljón. Það segir sig sjálft hvað slík upphæð þýðir fyrir láglaunamanneskju. Þær tillögur sem Efling og ASÍ hafa lagt fram til að stemma stigu við þessum vanda eiga sér fyrirmynd í núgildandi kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við Sjómannasamband Íslands og í danskri vinnumarkaðslöggjöf. Það er með öllu óskiljanlegt hvað framkvæmdastjóri SA telur „óraunhæft“ við þær lausnir. Það er til lítils að gera kjarasamninga séu þeir ekki virtir. Efling heldur því að sjálfsögðu ekki fram að launaþjófnaður einstakra atvinnurekenda sé skipulagður af Samtökum atvinnulífsins, en víðtæk kjarasamningsbrot grafa undan trausti á vinnumarkaði og það er vandi sem samtök atvinnurekenda ættu að hafa áhyggjur af. Viðsemjandi með sjálfsvirðingu hlýtur að styðja að brot á þeim samningum sem hann gerir séu tekin alvarlega. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags Ingólfur B. Jónsson, aðstoðarsviðsstjóri kjaramálasviðs Eflingar Birt í Morgunblaðinu 16.10.2020.

Ársfjórðungsskýrsla Kjaramálasviðs komin út

Kjaramálasvið Eflingar sendi frá sér launakröfur fyrir hönd 87 félagsmanna upp á 65,5 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs að því er fram kemur í nýútkominni Ársfjórðungsskýrslu sviðsins. Nokkrir atvinnurekendur eru með 10 eða fleiri opnar launakröfur gagnvart Eflingarfélögum. Meðal þeirra eru Bryggjan-brugghús, City-Park Hotel, Capital-Inn og Messinn. Launaþjófnaður er sívaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði. Efling sendi frá sér kröfur fyrir hönd 700 félagsmanna að upphæð 345 milljónir króna á síðasta ári. Upphæð launakrafna nam samtals rúmum milljarði síðustu fimm árin. Oft tekur langan tíma að innheimta launakröfurnar með þeim afleiðingum að félagsmenn eiga erfitt með að standa skil á skuldbundingum sínum. Engin viðurlög eru við launaþjófnaði á Íslandi þrátt fyrir loforð stjórnvalda þar um fyrir einum og hálfu ári síðan. Efling berst nú fyrir því að slík viðurlög verði sett hið fyrsta.
Ársfjórðungsskýrsla Kjaramálasviðs Eflingar

Vertu með okkur í jóga

Í Dropanum næstkomandi fimmtudag þann 15. október mun Alicja Natalia Wacowska, jógakennari, leiða okkur í gegnum það hvernig jóga getur stuðlað að bættu jafnvægi, auðveldað okkur að slaka á og eflt okkur á þeim tímum sem við lifum í dag. Alicja er jógakennari og einn af stofnandi Yoga Friends Pop Up. Vegna hertra sóttvarnaraðgerða verður viðburðurinn eingöngu í gegnum streymi á facebooksíðu stéttarfélagsins facebook.com/efling.is Viðburðurinn fer fram á ensku. Við vonumst svo til að geta opnað húsið aftur upp á fulla gátt áður en langt um líður. Ef þið hafið spurningar til fyrirlesara ekki hika við að skrifa þær í spjallið undir útsendingunni á fimmtudaginn.

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði – einungis á netinu

Vegna hertra reglna um samkomur verður viðburðurinn Réttindi og skyldur á vinnumarkaði sem á að fara fram í kvöld kl. 19.00 einungis á netinu. Vinsamlegast ýtið á þennan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu:
https://www.facebook.com/efling.is Námskeiðið er liður í því að veita félögum í Eflingu upplýsingar um réttindi þeirra á vinnumarkaði og hjá stéttarfélaginu. Sérfræðingar Eflingar í kjaramálum fara yfir helstu atriði kjarasamninga, s.s. veikindarétt, uppsagnarfrest og fleira ásamt því að kynna réttindi félagsmanna í sjóðum félagsins.  

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði – einungis á netinu

Vegna hertra reglna um samkomur verður viðburðurinn Réttindi og skyldur á vinnumarkaði sem á að fara fram í kvöld kl. 19.00 einungis á netinu. Vinsamlegast ýtið á þennan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu:
https://www.facebook.com/efling.is Námskeiðið er liður í því að veita félögum í Eflingu upplýsingar um réttindi þeirra á vinnumarkaði og hjá stéttarfélaginu. Sérfræðingar Eflingar í kjaramálum fara yfir helstu atriði kjarasamninga, s.s. veikindarétt, uppsagnarfrest og fleira ásamt því að kynna réttindi félagsmanna í sjóðum félagsins.

Viltu líta framtíðina björtum augum?

Næsta fyrirlestri Dropans verður streymt þann 8. október kl. 10 en þá beinir Ásgeir Jónsson, ráðgjafi, sjónum sínum að því jákvæða og uppbyggilega í umhverfinu í fyrirlestri undir yfirskriftinni Heimur batnandi fer. Vegna hertra sóttvarnaraðgerða verður fyrirlesturinn eingöngu í gegnum streymi á facebooksíðu stéttarfélagsins facbook.com/efling.is Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og verður textaður á ensku. Við vonumst svo til að geta opnað húsið aftur upp á fulla gátt áður en langt um líður. Ef þið hafið spurningar til fyrirlesara ekki hika við að skrifa þær í spjallið undir útsendingunni á fimmtudaginn.

Jóna S Gestsdóttir kvödd og þökkuð vel unnin störf

Við fámenna athöfn í gær var Jóna S Gestsdóttir kvödd eftir farsælt starf hjá Eflingu. Henni voru þökkuð störf sín fyrir félagið og samstarfið í gegnum árin. Jóna starfaði sem þjónustufulltrúi á skrifstofu Eflingar í Hveragerði frá því að Verkalýðs- og Sjómannafélagið Boðinn og Efling – stéttarfélag sameinuðust í byrjun árs 2009 en hún hafði áður starfað hjá Boðanum um langt árabil. Jóna var mikil fagmanneskja og frábær vinnufélagi og færði Berglind Rós Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skrifstofu- og mannauðssviðs henni kveðjugjöf frá félaginu og starfsmannafélaginu.

Dropanum streymt á morgun

Í ljósi fjölda Covid-19 smita eru Eflingarfélagar hvattir til að fylgjast með næsta fyrirlestri í Dropanum í gegnum streymi á facebooksíðu stéttarfélagsins facbook.com/efling.is á morgun, fimmtudag 1. október kl. 10. Helga Arnardóttir, félags- og heilsusálfræðingur, fjallar um leiðir til sjálfsumhyggju. Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og verður textaður á ensku. Við vonumst svo til að geta opnað húsið aftur upp á fulla gátt áður en langt um líður. Ef þið hafið spurningar til fyrirlesara ekki hika við að skrifa þær í spjallið undir útsendingunni á fimmtudaginn.

Kjarasamningur við Rótina undirritaður

Í morgun skrifaði Efling undir kjarasamning við Rótina sem tekur til félagsmanna sem starfa í  Konukoti sem er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur. Rótin tekur við rekstri Konukots frá 1. október nk. Kjarasamningurinn tekur mið af kjarasamningi Eflingar við Reykjavíkurborg.      

Skattkerfið á Íslandi - einungis á netinu

Vegna hertra reglna um samkomur verður viðburðurinn Skattkerfið á Íslandi sem á að fara fram í kvöld kl. 19.00 einungis á netinu. Vinsamlegast ýtið á þennan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu:
https://zoom.us/j/94648546671?pwd=eStSUmdYaVZZRFRSUXovaXpBc3RQZz09 Leiðbeinandi á námskeiðinu er Helgi Guðnason og þýðandi á pólsku er Wieslawa Vera Lupinska.

Skattkerfið á Íslandi

Athygli pólskumælandi Eflingarfélaga er vakin á því að ákveðið hefur verið að streyma aðeins frá námskeiði  um skattkerfið á Íslandi á facebooksíðu Eflingar fimmtudaginn 24. september kl. 19-21. Ekki verður því hægt að fylgjast með námskeiðinu í húsakynnum Eflingar við Guðrúnartún eins og áður hafði verið auglýst. Þess ákvörðun er tekin með hliðsjón af sóttvörnum vegna Covid-19. Eins og áður gefst áhorfendum tækifæri til að spyrja spurninga í gegnum streymið með því að kommenta fyrir neðan streymi. Á námskeiðinu verður farið hefur lög og reglur um skattkerfið á Íslandi. Hverjar skyldur skattgreiðanda eru og hver munurinn er á launagreiðslu og verktakagreiðslu. Þá verður fjallað um gerð skattframtals og hvaða kostnað er hægt að nýta til frádráttar frá skatti.  Námskeiðið er haldið í samstarfi við embætti ríkisskattstjóra. Leiðbeinandi á námskeiðinu er Helgi Guðnason og þýðandi Wieslawa Vera Lupinska.

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Orlofsblaðs Eflingar

Í vor efndi Orlofsblað Eflingar til ljósmyndasamkeppni þar sem óskað var eftir myndum úr sumarleyfi félagsmanna. Umsóknarfrestur rann út 31. ágúst. Dómnefnd hefur nú valið úr aðsendum myndum og hlaut myndin Appelsínugul viðvörun sigur úr bítum. Ljósmyndarinn er Berglind Kristinsdóttir og fær hún 25.000 kr. í verðlaun. Í umsögn dómnefndar segir:  Myndin er af náttúruperlunni Reynisdröngum. Eins og titillinn ber með sér er hún tekin í appelsínugulri veðurviðvörun sem útskýrir kannski fámennið á þessum fjölsótta ferðamannastað. Tveir drangar rísa tignarlegir upp úr beljandi hafinu þar sem þeir hafa staðið fastir fyrir, öldum saman. Í forgrunni stendur ferðamaður líkt og þriðji dranginn sem rís upp úr svörtum sandinum. Hann hefur ekki látið litríkar viðvaranir stoppa sín ferðalög þrátt fyrir að ólíkt náttúruundrunum sjálfum sé hann mannlegur og berskjaldaður fyrir veðri, vindum og öðrum utanaðkomandi hættum. Í varnarleysi sínu freistar hann þess að festa upplifun sína á filmu. Við óskum Berglindi innilega til hamingju með sigurinn. Appelsínugul viðvörun – Sigurmyndin í ljósmyndasamkeppni Orlofsblaðsins.

Föstudaginn 18. september opnar skrifstofan kl.09:00

Föstudaginn 18. september opnar skrifstofan kl.09:00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Skattkerfið á Íslandi

Frábært námskeið fyrir þá sem vilja fræðast um íslenska skattkerfið sem félagsmenn geta skráð sig á frítt. Námskeiðið verður kennt á ensku næsta fimmtudag, 17. september kl. 19.00-21.00. Farið verður yfir lög og reglur um skattkerfið á Íslandi. Hverjar skyldur skattgreiðenda eru og hver munurinn er á launagreiðslu og verktakagreiðslu. Þá verður fjallað um gerð skattframtals og hvaða kostnað er hægt að nýta til frádráttar á skatti. Námskeiðið er haldið í samstarfi við embætti ríkisskattstjóra (RSK). Leiðbeinandi: Helgi Guðnason, sérfræðingur í skattheimtu einstaklinga hjá RSK. Kennsla fer fram í húsnæði Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð. Skráning er hjá Eflingu stéttarfélagi í síma 510 7500 eða á netfangið efling@efling.is Námskeiðið verður svo kennt á pólsku 24. september

DROP-INN, líttu inn í fræðslu, spjall og kaffisopa

– Alla fimmtudaga kl. 10:00–12:00 Ef þú ert í atvinnuleit, átt frí úr vinnu eða ert af öðrum ástæðum laus við gæti Drop-INN verið eitthvað fyrir þig. Drop-INN felur í sér áhugaverð fræðsluerindi, spjall og kaffisopa í húsakynnum Eflingar við Guðrúnartún 1, 4. hæð, alla fimmtudagsmorgna milli kl. 10:00 og 12:00 frá 17. september og fram í desember. Eflingarfélagar eru hvattir til að nýta sér þessa spennandi dagskrá. Fræðslan fer fram á íslensku með textaþýðingu á ensku. Spjallið fer svo vonandi fram á sem flestum tungumálum! Fyrsta erindið  verður núna á fimmtudaginn 17. september – Ertu í atvinnuleit? Ingibjörg Ebba Björnsdóttir, ráðgjafi VIRK hjá Eflingu, gefur góð ráð um atvinnuleit, fjallar um réttindi atvinnuleitenda og svarar spurningum er snerta fólk í atvinnuleit. Nánari dagskrá má sjá
hér. 

Bókanir yfir jól og áramót hefjast á morgun - fimmtudaginn 10. september kl. 8.15

Félagið minnir á að opnað verður fyrir bókanir í orlofshús yfir jól og áramót á morgun, fimmtudaginn 10. september kl. 8.15. Einungis er hægt að leigja eina viku, frá þriðjudegi til þriðjudags, annaðhvort yfir jól eða áramót. Tímabilin eru: Yfir jól: 22.12. – 29.12.2020 Yfir áramótin: 29.12.2020 – 05.01.2021 Engar umsóknir – bara fyrstur bókar fyrstur fær. Hægt að bóka beint á 
bókunarvefnum eða hér á skrifstofunni s.510 7500.

Þjónustan í Hveragerði aukin og afgreiðslutími lengdur

Afgreiðslutími skrifstofunnar í Hveragerði hefur verið lengdur en búið er að ráða nýjan starfsmann sem mun sjá um að sinna almennum erindum þar á staðnum. Afgreiðslutími skrifstofunnar er: Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga – opið frá kl 8:15-16:00 Miðvikudaga – LOKAÐ Föstudaga – opið frá kl 8:15-15:00

Ný orlofshús í Stóra Fljóti í Biskupstungum – opnað fyrir bókanir frá og með 4. sept. kl. 8:15

Nú eru fyrstu húsin tilbúin til útleigu í Stóra Fljóti við Reykholt í Biskupstungum.  Húsin munu verða til útleigu frá og með 10. September en opnað verður fyrir bókanir föstudaginn 4. sept. kl. 8:15 á bókunarvefnum. Einnig má bóka í gegnum síma 510 7500 eða senda fyrirspurn á
orlof@efling.is Það er afar ánægjulegt að sjá fyrstu húsin í þessari glæsilegu orlofsbyggð félagsins tilbúin til útleigu til félagsmanna. Þetta stóra verkefni hefur verið lengi í undirbúningi og er stærsta framkvæmd sem orlofssjóður Eflingar hefur ráðist í. Beðið hefur verið eftir þessari viðbót með eftirvæntingu þar sem eftirspurn félagsmanna eftir orlofshúsum er mjög mikil og þörf á fleiri húsum. Nú er fyrri áfanga lokið en framkvæmdir munu samt halda áfram á svæðinu a.m.k. út þetta ár, þar sem farið verður beint í seinni áfangann  við næstu sex hús. Samtals verða tólf hús í orlofshúsabyggðinni að verki loknu. Félagsmenn Eflingar mega vera stoltir af þessari nýju byggð og vonandi eiga margir eftir að eiga góðar stundir og njóta sem best orlofsdvalar á þessum frábæra stað. Sjá nánar hér

Laust orlofshús á Ólafsfirði

Það er laust orlofshús á
Ólafsfirði frá 21. ágúst – 28. ágúst. Hægt er að bóka á bókunarvef Eflingar eða hafa samband við skrifstofu í gegnum orlof@efling.is

Opnað verður fyrir haust- og vetrarleigu þann 18. ágúst kl. 8:15.

Nú verður opnað fyrir bókanir í vetrarleigu í tveimur skrefum: Þann 18. ágúst kl. 8:15 opnast fyrir bókanir frá 28. ágúst fram að jólum. Þann 2. nóvember opnast fyrir bókanir eftir áramót, frá 5. janúar – 28. maí 2021. Yfir vetrartímabilið er hægt að bóka bæði helgar- og vikuleigu, nema yfir hátíðar (jól, áramót og páska), þá er aðeins vikuleiga í boði. Hægt er að bóka hús inn á
bókunarvefnum, á skrifstofu Eflingar í síma 510-7500 eða senda fyrirspurnir á orlof@efling.is Sjá nánari upplýsingar hér.

Allir fræðslusjóðir styrkja nú um 90%

Nú geta allir félagsmenn sótt um 90% endurgreiðslu fyrir starfstengt nám og námskeið en opinberu fræðslusjóðirnir hækkuðu styrkinn úr 75% í 90% til að mæta núverandi ástandi í samfélaginu. Gildistíminn er frá 1. júlí til og með 30. september og tekur til náms og reikninga sem gefnir eru út á því tímabili og uppfylla skilyrði sjóðsins. Áður hafði fræðslusjóðurinn Starfsafl sem er fyrir fólk á almennum vinnumarkaði hækkað styrkinn upp í 90% fyrir starfstengt nám þannig að nú er endurgreiðslan orðin 90% hjá öllum fræðslusjóðum félagsins. Hægt er að fylla út umsókn
hér. Hægt er að senda gögn ásamt umsókn á fraedslusjodur@efling.is

Föstudaginn 19. júní opnar skrifstofan kl. 09.00

Föstudaginn 19. júní opnar skrifstofan kl. 09.00 starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Starfsafl styrkir allt að 90% til 30. september

Félagsmenn á almennum vinnumarkaði (þ.e. starfa hjá einkafyrirtækjum) geta nú fengið allt að 90% endurgreiðslu fyrir starfstengd nám úr fræðslusjóðnum Starfsafli. Í apríl síðastliðnum samþykkti stjórn Starfsafls  allt að   90% endurgreiðslu af kostnaði vegna starfstengdra námskeiða / náms í stað 75% endurgreiðslu, til að mæta núverandi ástandi í samfélaginu. Til að mynda er hægt að fá 90% endurgreiðslu á námskeiðsgjöldum
Aftur til vinnu sem er námskeið fyrir fólk í atvinnuleit. Tekur þetta til náms sem keypt er og reikninga sem gefnir eru út á tímabilinu 15. mars til  30. september 2020 og uppfylla skilyrði sjóðsins. Hægt er að fylla út umsókn hér Hægt er að senda gögn ásamt umsókn á fraedslusjodur@efling.is

Sigur í sögulegri kjaradeilu við Reykjavíkurborg

Efling – stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu í nótt, 10. mars 2020, kjarasamning eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar og stífar viðræður hjá ríkissáttasemjara. Með samningnum hefur verið stigið mikilvægt skref í átt að kjaraleiðréttingu láglaunafólks og kvennastétta. Verkfallsaðgerðum gagnvart Reykjavíkurborg er aflokið. Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með töflubreytingu sem skapar að meðaltali um 7.800 krónur í viðbótargrunnlaunahækkun hjá öllum Eflingarfélögum og einnig er samið um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa í formi sérgreiðslu. Sérgreiðslan sem um samdist er 15.000 krónur í lægstu launaflokkum og fjarar út eftir því sem ofar dregur í launaflokkum. Sérgreiðslan kemur á 26 starfsheiti Eflingar önnur en þau sem þegar hafa sérstaka kaupauka. Hún mun skila sér í stiglækkandi mynd til tæplega þriggja af hverjum fjórum Eflingarfélagum hjá borginni. Margvíslegar kjarabætur aðrar en grunnlaunahækkanir eru í samningnum, svo sem stytting vinnuvikunnar, útfærð bæði fyrir dagvinnu- og vaktavinnufólk. Greiðsla 10 yfirvinnutíma á mánuði til leikskólastarfsfólks er nú tryggð í kjarasamningi í formi nýrrar sérgreiðslu. Námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launamyndun einstakra starfsmanna. Efling lítur á samninginn sem sigur eftir langa og stranga baráttu þar sem tekist var hart á um réttmæti krafna félagsins og verkfallsvopninu beitt. Samningurinn nær til um 1.850 Eflingarfélaga í störfum hjá Reykjavíkurborg. Langflestir þeirra eru konur í sögulega vanmetnum kvennastörfum við umönnun, þrif, þvotta og mötuneytisstörf. Aðrir starfa m.a. við gatnaviðhald og sorphirðu. Gildistími samningsins er til 31. mars 2023. Baráttan borin uppi af félagsfólki Verkfallsaðgerðir, sem samþykktar voru með 96% atkvæða í janúar, hófust í byrjun febrúar með tveggja og þriggja daga verkfallslotum áður en ótímabundið verkfall brast á þann 17. febrúar. Á meðan á verkföllunum stóð hélt félagið fjölda baráttufunda með virkri þátttöku Eflingarfólks og stuðningsfólks. Fjöldi ræðumanna og tónlistarfólks sýndi Eflingarfélögum stuðning í verki með þátttöku í fundunum. Barátta félagsins var mjög sýnileg og borin uppi af félagsfólki sjálfu, sem kom fram í fjölmörgum viðtölum, auglýsingum og myndböndum þar sem það sagði frá kjörum sínum. Félagsfólk sinnti verkfallsvörslu ásamt starfsfólki Eflingar. Hart var tekist á í samfélagsumræðunni um kjaradeiluna. Valdamiklir sérhagsmunaaðilar á borð við Samtök atvinnulífsins leituðust við að kveða niður baráttu Eflingarfélaga með greinaskrifum, pöntuðu efni í fjölmiðlum og auglýsingaherferðum. Kannanir sýndu hins vegar eindreginn stuðning almennings við baráttu Eflingarfélaga, þar með talið verkfallsaðgerðir. Afstaða Eflingar var sú að fallast á samning á grunni taxtahækkana á almennum vinnumarkaði en að jafnframt væri þörf á sérstakri kjaraleiðréttingu vegna lágra heildarlauna, álags og kynbundins misréttis sem Eflingarfélagar hjá borginni búa við. Efling minnti ítrekað á yfirlýsingar og fyrirheit sem fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans höfðu gefið um slíkt. Nýr kafli í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu Fjölskipuð samninganefnd Eflingar með fulltrúum úr öllum starfahópum tók þátt í öllum samningafundum ásamt formanni og starfsmönnum félagsins. Stór hópur trúnaðarmanna af vinnustöðum Eflingarfélaga hjá borginni hittist á hverjum morgni í höfuðstöðvum Eflingar til stuðnings og samráðs. Mikil samstaða og baráttuvilji einkenndi framgöngu þessa hóps svo og almennra félaga Eflingar hjá Reykjavíkurborg. „Áður þaggaðar og jaðarsettar konur, sem fáir höfðu fram að því haft áhuga á, stigu fram með sjálfsvirðinguna að vopni og skiluðu skömm láglaunastefnunnar þangað sem hún á heima. Láglaunakonur búa yfir ólýsanlegum kröftum sem þær ákváðu að nýta í eigin baráttu frekar en að fórna sér ævina langa í að taka til eftir aðra,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur. Okkur átti að berja  til hlýðni, eins og tíðkast hefur áratugum saman. En Eflingarfélagar hjá borginni hafa fært valdastéttinni og raunar samfélaginu öllu fréttir; þegar verkafólk kemur saman í krafti fjöldans, samstöðunnar og baráttuviljans þá stöðvar það ekkert. Eflingarfélagar hjá borginni hafa skrifað nýjan kafla í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu,“ sagði Sólveig Anna. Láglaunafólk á íslenskum vinnumarkaði hefur stigið stolt fram úr skugganum. Eflingarfélagar hafa sýnt fram á mikilvægi starfa sinna og réttmæti kröfunnar um mannsæmandi líf. Þótt baráttan hafi nú skilað góðum árangri er hún rétt að byrja. Með undirritun samnings er verkfallsaðgerðum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg lokið. Samningurinn verður nú kynntur félagsmönnum og borin undir atkvæði þeirra.

Hvetjum til rafrænna samskipta

Hægt er að sækja nánast alla þjónustu skrifstofu Eflingar í gegnum síma og tölvupóst.
efling@efling.is / 5107500 Hér eru ítarlegar leiðbeiningar um hvernig hægt er að sækja sér þjónustu og er starfsfólk reiðubúið að svara fyrirspurnum í síma og aðstoða félagsmenn eftir því sem þarf. SJÚKRASJÓÐUR Umsóknir um greiðslur úr sjúkrasjóði má senda rafrænt á sjukrasjodur@efling.is Kynntu þér styrki úr Sjúkrasjóði. Til að sækja um styrk þarf að senda: Útfyllt umsóknareyðublað, sjá hér Skannað afrit eða ljósmynd af greiðslukvittun þar sem fram kemur nafn og kennitala kaupanda og seljanda og hvað verið er að greiða fyrir. Í einstaka tilfellum þarf að skila inn launaseðlum eða öðrum gögnum og munu starfsmenn sjúkrasjóðs þá láta vita. Til að sækja um sjúkradagpeninga þarf að senda: Útfyllt umsóknareyðublað, sjá hér Sjúkradagpeningavottorð – hægt er að biðja heilsugæslu/lækni að senda það beint til Eflingar í bréfpósti. ATH, ekki er æskilegt að senda sjúkradagpeningavottorð í tölvupósti. Starfsvottorð frá atvinnurekanda, sjá hér Síðasta launaseðil Til að sækja um dánarbætur þarf að senda: Útfyllt umsóknareyðublað, sjá hér Yfirlit um framvindu skipta frá sýslumanni Umboð frá öðrum erfingjum, ef leggja á styrkinn inn á reikning erfingja, sjá hér FRÆÐSLUSJÓÐUR Umsóknir um greiðslur úr fræðslusjóði má senda rafrænt á fraedslusjodur@efling.is Kynntu þér styrki úr Fræðslusjóði.  Til að sækja um einstaklingsstyrk þarf að senda: Útfyllt umsóknareyðublað, sjá hér Skannað afrit eða ljósmynd af frumriti reiknings sem er á nafni félagsmanns þar sem fram kemur nám/námskeiðslýsing og nafn og  kennitala fræðsluaðila. Ef ekki kemur fram staðfesting á greiðslu á reikningi þarf að skila til viðbótar staðfestingu á greiðslu, t.d. úr heimabanka eða greiðslukvittun frá viðkomandi skóla/fyrirtæki. Félagsmenn sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun þurfa einnig að skila inn staðfestingu um styrkupphæð frá stofnuninni með umsókn. Vegna umsóknar um styrk fyrir nám eða námskeið sem tekið er erlendis þarf að leggja fram frumrit reiknings á upprunalegu tungumáli og á ensku og eins þarf að vera sundurliðuð kostnaðarskipting. Til að sækja um stofnanastyrk er hægt að sækja um rafrænt með því að velja réttan sjóð á heimasíðu Eflingar; sjá hér. ORLOFSSJÓÐUR Til að sækja um orlofshús í sumarúthlutun eða bóka hús í vetrarleigu bendum við á bókunarvefinn: Vegna miða- kortasölu eða annarra erinda má senda tölvupóst á orlof@efling.is með upplýsingum um nafn og kennitölu. Leyst verður úr öllum erindum eins fljótt og hægt er. Athugið að þeir sem nýta sér þjónustu á skrifstofunni við umsóknir og bókanir á orlofshúsum verða að hafa samband símleiðis eða senda tölvupóst.

Leiðréttar greiðslur úr vinnudeilusjóði

Að morgni 4. mars voru greiddar út leiðréttingar til félagsmanna í verkfalli vegna tímabilsins 4. til 21. febrúar. Þeir sem bjuggust við leiðréttingu en hafa ekki fengið greiðslu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband í gegnum netfangið
efling@efling.is Greitt verður fyrir tímabilið 24. til 28. febrúar á föstudaginn 6. mars nk.

Efling fer fram á samningafund

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur farið fram á við ríkissáttasemjara að haldinn verði samningafundur í kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg. Er þess óskað að fundurinn verði haldinn eigi síðar en í dag. Var óskinni komið á framfæri símleiðis við Ástráð Haraldsson aðstoðarríkissáttasemjara í morgun. Efling vill með þessu reyna til þrautar að þokast nær samkomulagi í deilunni. Samninganefnd Eflingar mun krefjast efnda á loforðum borgarstjóra um grunnlaunahækkanir en heildstæð útfærsla á þeim hefur aldrei verið lögð fram við samningaborðið. Einnig mun nefndin krefjast efnda á loforðum borgarstjórnarmeirihlutans um leiðréttingu á launum kvennastétta. Efling hefur áður lagt fram eftirfarandi tillögur til lausnar og málamiðlana í deilunni: Efling kynnti á samningafundum 16. og 31. janúar tvær ólíkar útgáfur af tilboði um launaleiðréttingu byggð á fyrirmynd frá 2005 í tíð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra. Efling kynnti á samningafundi 18. febrúar tilboð um samsetta leið til launaleiðréttingar byggð á annars vegar jöfnun launabila í töflu að tillögu Reykjavíkurborgar og hins vegar á álags- og uppbótargreiðslum. Efling kynnti á samningafundi 27. febrúar tilboð um samsetta leið til launaleiðréttingar byggð á annars vegar grunnlaunahækkunum sem Dagur B. Eggertsson lýsti í Kastljóssviðtali og hins vegar á blandaðri leið uppbóta vegna eldri sérgreiðslna og starfstengdu jöfnunarálagi. Efling bauð borgarstjóra þann 3. mars að ganga til samkomulags um að hann staðfesti „Kastljósstilboðið“ gegn því að verkfalli verði frestað í tvo sólarhringa. Reykjavíkurborg hefur hafnað öllum ofangreindum tillögum Eflingar. „Samninganefndin okkar mun nú í enn eitt skiptið gera tilraun til þess að fá fram samkomulag um lausnir á því verkefni að leiðrétta lægstu laun Eflingarfélaga hjá borginni sem og kjör sögulega vanmetinna kvennastétta. Þetta hefur borgin lýst sig viljuga til að gera og Efling hefur lagt fram fjölda leiða að þessu marki, sem hafa verið vandaðar, heildstæðar og nákvæmlega útfærðar. Borgin hefur verið á allt annarri vegferð, en ég vona innilega að nú verði breyting á,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

COVID-19 og fjarvistir frá vinnu

Að gefnu tilefni vill Alþýðusamband Íslands taka fram, að launafólk sem sett er í sóttkví eða sem gert er að læknisráði að halda sig heima við og umgangast ekki vinnufélaga eða annað fólk í umhverfi sínu vegna þess það sé annað af tvennu sýkt af COVID-19 eða sé hugsanlegir smitberar hans, er að mati ASÍ óvinnufært vegna sjúkdóms eða vegna hættu á því að verða óvinnufært vegna hans. Þau forföll eru greiðsluskyld skv. ákvæðum kjarasamninga og laga. Miðstjórn ASÍ mun fjalla um þá stöðu sem upp er komin og viðbrögð við henni á fundi sínum nk. miðvikudag.

Samninganefnd Eflingar býður til viðræðna á forsendum yfirlýsinga borgarinnar

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að nefndin telur yfirlýsingar borgarinnar og Dags B. Eggertssonar í fjölmiðlum fyrir helgi gefa til kynna að borgin sé tilbúin að koma betur til móts við Eflingarfélaga en kynnt var á undangengnum samningafundi. Nefndin telur að með yfirlýsingum sínum hafi Reykjavíkurborg þannig hugsanlega skapað meiri grundvöll til áframhalds viðræðna en ætlað var og kallar eftir staðfestingu borgarinnar á því. Fulltrúar Eflingar hafa áður bent á ósamræmi milli þess tilboðs sem borgin kynnti hjá ríkissáttasemjara þann 19. febrúar og þess hvernig tilboðinu var lýst í fjölmiðlum á sólarhringunum þar á eftir. Í ljósi þess að engir fyrirvarar eða leiðréttingar hafa komið fram frá borginni síðan þá lítur samninganefnd Eflingar svo á að sú útgáfa tilboðs sem kynnt var í fjölmiðlum sé raunverulegt samningsútspil fremur en tilraun til að fegra það sem kynnt var á samningafundi. Meginatriði málsins er til hve margra starfsheita og starfsmanna á leikskólum borgarinnar tilboð borgarinnar nái og hvort það sé skilyrt af því að notast við handstýrða endurskilgreiningu starfsmats á einstökum störfum eða ekki. Yfirlýsingar borgarinnar frá því fyrir helgi er vart hægt að skilja öðruvísi en svo að tilboð borgarinnar nái til allra almennra ófaglærðra starfsmanna Eflingar á leikskólum og að það sé óskilyrt af handstýrðri starfsmatsbreytingu, enda var tilboðið kynnt með tilteknum krónutölum og með vísun í „starfsfólk Eflingar á leikskólum“ án fyrirvara. Í yfirlýsingunni fjallar samninganefndin ítarlega um þann skilning sem hún leggur í yfirlýsingar borgarinnar og óskar eftir viðræðum á þeim grunni, sé borgin sammála þeim skilningi. „Ég get ekki neitað því að við höfum klórað okkur talsvert í kollinum yfir framsetningu borgarinnar í fjölmiðlum á tilboði hennar í kjölfar samningafundarins síðasta miðvikudag. Landsmenn sem fylgdust með fjölmiðlum hafa væntanlega skilið þetta sem tilboð um minnst 110 þúsund skilyrðislausa hækkun grunnlauna Eflingarfélaga sem eru í almennum ófaglærðum störfum á leikskólum. Þetta er ekki í samræmi við það sem var kynnt fyrir okkur í herberginu,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „En hvað sem því líður þá kjósum við að trúa því að hér sé ekki um að ræða markaðsmennsku eða fegrunaraðgerðir, heldur nýtt og endurbætt útspil af hálfu borgarinnar sem við erum tilbúin að líta jákvæðum augum. Ef það er réttur skilningur hjá okkur þá teljum við það mikilvægt skref í rétta átt. Við bjóðum borginni að staðfesta sameiginlegan skilning á þessu og hefja við okkur viðræður á þeim grunni, þar sem jafnframt verði viðurkennt að slíkar hækkanir þurfi einnig að ná til sögulega vanmetinna kvennastarfa utan leikskólanna, eins og við höfum alltaf krafist,“ sagði Sólveig Anna. Yfirlýsingin hefur verið send til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, Hörpu Ólafsdóttur formanns samninganefndar Reykjavíkurborgar og til embættis ríkissáttasemjara.
Hér má sjá yfirlýsingu samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg 

Vegna yfirlýsinga formanns SÍS

Vegna yfirlýsinga formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) í fjölmiðlum í dag vill Efling – stéttarfélag koma því á framfæri að Efling hefur átt tugi viðræðufunda í kjaradeilu við SÍS síðan í mars 2019, þar af sjö undir forræði Ríkissáttasemjara eftir að deilu var vísað þangað á síðasta ári. Enginn skortur hefur verið á vilja Eflingar til að eiga viðræður við SÍS og enginn skortur á tækifærum fyrir SÍS að koma á framfæri viðbrögðum og hugmyndum um lausn deilunnar. Að mati Eflingar hefur samninganefnd SÍS tafið málið fram úr hófi. Efling telur þau vinnubrögð samninganefndar SÍS ekki hafa breyst á síðustu dögum eða vikum. Yfirlýsing samninganefndar Eflingar frá því í gær um árangurslausar viðræður og tilkynning um verkfallsatkvæðagreiðslur útilokar ekki að SÍS geti kynnt samninganefnd Eflingar ný viðbrögð og tillögur, sé þeim til að dreifa, og fengið fram sátt um nýjan kjarasamning áður en til verkfalls kemur. Boðað hefur verið til fundar í deilunni næstkomandi fimmtudag hjá Ríkissáttasemjara sem samninganefnd Eflingar mun mæta á.

Greiðsla úr vinnudeilusjóði fyrir 17.-21. febrúar

Félagsmenn starfandi hjá Reykjavíkurborg þurfa sérstaklega að sækja um greiðslu úr vinnudeilusjóði vegna verkfalla dagana 17.-21. febrúar. Fyrri umsókn gilti einungis fyrir verkfallsdaga á tímabilinu 4.-14. febrúar. Hægt verður að sækja um rafrænt á heimasíðu Eflingar frá föstudeginum 21. febrúar. Til þess að fá greitt um mánaðarmótin febrúar/mars þarf að vera búið að sækja um greiðsluna fyrir 25. febrúar. Félagsmönnum er jafnframt bent á að ef verkföll halda áfram þarf að sækja um aftur. Þeir sem ekki hafa sótt um vegna tímabilsins 4.-14. febrúar þegar ný umsókn tekur gildi þann 21. febrúar þurfa að hafa samband við skrifstofu Eflingar þar sem ekki verður hægt að sækja um rafrænt fyrir fyrrnefnt tímabil. Greiðsla fyrir launatap vegna verkfalls dagana 17., 18., 19., 20. og – 21. febrúar verður 18.000 kr. á dag miðað við fullt starf, annars greitt í samræmi við starfshlutfall, t.a.m. eru greiddar 9.000 kr. á dag fyrir 50% starf. 

Víðtækur stuðningur við starfsfólk leikskóla

Leikskólastjórar í Reykjavík hafa sent frá sér
yfirlýsingu þar sem þeir segjast styðja kjarabaráttu og launakröfur Eflingarfólks á leikskólum borgarinnar. Þeir segja að mikla starfsmannaveltu megi að miklu leyti rekja til láglaunastefnu Reykjavíkurborgar og þess starfsumhverfis, sem börnum og starfsfólki er boðið upp á. Þá hefur foreldraráð leikskólans Brákarborgar einnig lýst yfir stuðningi við starfsfólk leikskólans og skorar á Reykjavíkurborg og Eflingu að komast að samkomulagi sem fyrst. Þá hefur einnig verið hrundið af stað undirskriftarsöfnun til stuðnings starfsfólki leikskóla undir heitinu Semjið við starfólk leikskólanna strax. Um söfnunina segir m.a.: Við foreldrar og aðstandendur leikskólabarna ætlumst til þess að starfsfólk leikskólanna fái mannsæmandi laun. Þetta fólk er það fólk sem sinnir börnunum okkar í 8-9 tíma á dag og fá fyrir það léleg laun sem ekki er hægt að lifa á.

Vel tekið á móti verkfallsvörðum og mikil samstaða

Verkfallsvakt Eflingar varð aðeins vör við eitt verkfallsbrot á fyrsta heila verkfallsdegi félaga í stéttarfélaginu hjá Reykjavíkurborg síðastliðinn fimmtudag, 6. febrúar. Verkfallsbrotið fólst í ólögmætri sameiningu deilda á leikskóla og hefur brotið verið tilkynnt stjórnendum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Verkfallsvaktin fór út í 5 hópum og heimsótti um 80 vinnustaði Reykjavíkurborgar þennan fyrsta verkfallsdag. Þá var litið inn á nokkra vinnustaði um kvöldið. Í verkfallsvakt er starfsfólk Eflingar ásamt félagsfólki í verkfalli sem boðið hefur fram krafta sína. Sex staðir voru lokaðir, leikskólar og félagsmiðstöðvar, skert þjónusta var á flestum leikskólum og starfstöðum sem ekki voru með undanþágur. Verkfallsvarsla fór ekki í eftirlit í íbúakjarna eða í minni úrræði viðkvæmra hópa enda var gefin undanþága fyrir starfsemi þeirra. Vel var tekið á móti verkfallsvörðum hvert sem þeir komu, ljóst er að mikil samstaða ríkir meðal starfsfólks vinnustaða Reykjavíkurborgar og þjónustuþega. Efling býður áhugasömum félagsmönnum í verkfalli að taka þátt í verkfallsvörslu í næstu viku með því að senda tölvupóst á
felagssvid@efling.is Félagið þakkar kærlega fyrir góðar móttökur og fyrir þann samhug sem starfsfólk frá öðrum stéttarfélögum, foreldrar barna og notendur þjónustu sem hefur skerst hafa sýnt.

Verkfallsvarslan er lögð af stað!

Efling mun halda uppi öflugri verkfallsvörslu á vinnustöðum Reykjavíkurborgar í dag. Hún verður á ferð í nokkrum hópum í dag til að tryggja að réttur skilningur sé á framkvæmd verkfallsins. Allir þeir sem hafa upplýsingar um verkfallsbrot eða telja að slík brot eigi sér stað eru beðnir um að hafa samband við félagið í gegnum netfangið
verkfallsbrot@efling.is Fyrsti hópurinn leggur af stað í verkfallsvörslu hjá borginni

Við erum ekki í verkfalli út af vinnuhóp

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri viðhafði á borgarstjórnarfundi þann 4. febrúar ummæli um störf svokallaðs vaktavinnuhóps sem  starfar undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Hópur þessi hefur ekki skilað niðurstöðu og Efling hefur sagt að ekki verði undirritað fyrr en hún liggur fyrir. Með vísun til þessa fullyrti Dagur að „það var í raun ekki í höndum borgarinnar að ná samningi áður en þetta verkfall skylli á“. Ummæli Dags eru í algjöru ósamræmi við allan málflutning og kröfur samninganefndar Eflingar, sem kynntar hafa verið rækilega á opinberum vettvangi. Félagsmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg eru í verkfalli vegna þess að borgin hefur ekki fengist til að mæta tilboðum samninganefndar Eflingar um sérstaka kjaraleiðréttingu láglaunafólks. Það eru undanbrögð af borgarstjóra að fullyrða að störf vaktavinnuhóps séu ástæða verkfallsaðgerða eða að tímasetning aðgerða hafi verið háð þeim. Samninganefnd Eflingar mun að sjálfsögðu íhuga að fresta verkfallsaðgerðum ef borgin sýnir að vilji sé til að mynda raunverulegan umræðugrundvöll um þau lykilatriði sem kjaradeilan snýst um, umfram allt sérstaka kjaraleiðréttingu láglaunafólks.

Föstudaginn 7. febrúar opnar skrifstofan kl. 09.30

Föstudaginn 7. febrúar opnar skrifstofan kl. 09.30 starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Skattframtalið – skráning er hafin í aðstoð við gerð skattframtala

Efling-stéttarfélag mun í ár sem fyrr bjóða félagsmönnum uppá aðstoð við gerð skattframtala. Félagsmenn geta pantað tíma í síma 510 7500. Gert er ráð fyrir einföldum framtölum, en ef um flóknari framtöl er að ræða svo sem um kaup og sölu eigna þarf að tilgreina það sérstaklega. Aðstoðin við skattframtölin miðast við félagsmenn og maka þeirra. Geta skal fjölda skattframtala þegar tími er pantaður. Nauðsynlegt er að hafa veflykil meðferðis í viðtalið. Aðstoðin verður veitt laugardaginn 7. mars og  sunnudaginn 8. mars ef þörf er á. Félagsmenn eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu félagsins og bóka sig sem fyrst. Það er lögmaður Eflingar, Karl Ó. Karlsson hjá LAG lögmönnum, sem hefur umsjón með aðstoðinni við skattframtölin. Á skrifstofu Eflingar má fá allar nánari upplýsingar um viðtalstíma og gögn sem hafa þarf meðferðis í viðtalið.

Skert þjónusta eftir kl. 13.00 föstudaginn 24. janúar

Föstudaginn 24. janúar verður skert þjónusta á skrifstofu Eflingar eftir kl. 13.00 vegna námskeiðs starfsfólks í öryggismálum. Það mun þó ekki hafa áhrif á þá félagsmenn sem vilja greiða atkvæði um vinnustöðvun hjá Reykjavíkurborg, félagsmenn geta greitt atkvæði fram til lokunar skrifstofu kl. 15.15. Leyst verður úr einföldum fyrirspurnum og tekið á móti einföldum umsóknum í sjúkra- og fræðslusjóð en kjaramálafulltrúar verða ekki til viðtals.

Fræðslustyrkir hækka fyrir einstaklinga

Frá og með 1. janúar 2020 hækkar hámark styrkja til einstaklinga í fræðslu-, starfsmenntunar og starfsþróunarsjóðum Eflingar úr 100.000 kr. í 130.000 kr. Hægt er að safna réttindum sínum í allt að þrjú ár og hækkar hámark á uppsöfnuðum réttindum því úr 300.000 kr. í 390.000 kr. Efling hvetur félagsfólk til að nýta sér fræðsluréttindi sín bæði í leik og starfi. Hækkunin gildir gagnvart því námi sem hefst frá og með 1.janúar 2020.

Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun hjá Reykjavíkurborg hefst 21. janúar

Atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefst á hádegi þriðjudaginn 21. janúar og lýkur á hádegi sunnudaginn 26. janúar. Atkvæðagreiðslan verður rafræn. Fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði rafrænt verður boðið upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu á skrifstofu félagsins og á færanlegum kjörstað sem ekið verður milli vinnustaða. Starfrækt verður undanþágunefnd sem mun afgreiða beiðnir um lágmarksmönnun á einstökum vinnustöðum, eins og t.d. hjúkrunarheimilum. Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg samþykkti á fundi þann 10. janúar síðastliðinn að láta fara fram almenna leynilega rafræna allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar meðal þeirra félagsmanna Eflingar sem vinna skv. kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Eflingar-stéttarfélags. Vinnustöðvunin tekur til félagsmanna Eflingar sem vinna hjá Reykjavíkurborg skv. kjarasamningi félagsins sem rann út þann 31. mars 2019. Nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar verða birtar eins fljótt og auðið er. Vinnustöðvunin er með þeim hætti að félagsmenn leggja niður vinnu annars vegar tímabundið á tilgreindum dögum og hins vegar ótímabundið frá tiltekinni dagsetningu. – Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59. – Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59. – Þriðjudagur 11. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59. – Miðvikudagur 12. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59. – Fimmtudagur 13. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59. – Mánudagur 17. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.

Skrifstofan í Hveragerði lokuð vegna veðurs

Skrifstofa Eflingar í Hveragerði verður lokuð í dag vegna veðurs.  

Undirbúningur hafinn fyrir verkfallsaðgerðir í borginni

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur samþykkt tillögu um vinnustöðvun sem áformað er að hefjist í febrúar. Félagsmenn þurfa að samþykkja tillöguna og er undirbúningur hafinn á skrifstofum Eflingar fyrir atkvæðagreiðslu. Samkvæmt tillögunni verða hálfir og heilir verkfallsdagar með stigvaxandi þéttleika fyrri hluta febrúarmánuðar og ótímabundið verkfall frá mánudeginum 17. febrúar. Ákvörðun um að leggja fram tillögu um verkfallsboðun var tekin að loknum samningafundi í dag hjá ríkissáttasemjara. Viðræður halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða. Óskaði nefndin í dag eftir samningafundi með Reykjavíkurborg næstkomandi fimmtudag. „Reykjavíkurborg hefur enga viðleitni sýnt til að koma til móts við vanda láglaunafólksins sem heldur uppi grunnþjónustu borgarinnar eða til að standa við eigin fagurgala um borgina sem vinnustað jöfnuðar. Reykjavíkurborg hefur sýnt starfsfólki sínu á lægstu laununum vanvirðingu í þessum viðræðum, með framkomu sinni, töfum og sinnuleysi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Við höfum fengið nóg. Við krefjumst þess að gengið verði frá sanngjörnum samningi sem fyrst. Við bindum vonir við fundinn í næstu viku.“ Nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslu verða birtar á næstu dögum. Rúmlega 1800 starfsmenn Reykjavíkurborgar starfa undir kjarasamningi Eflingar. Þar af eru yfir 1000 á leikskólum, 710 í umönnunarstörfum á Velferðarsviði og um 140 í fjölbreyttum störfum á Umhverfis- og skipulagssviði.
Tillaga um vinnustöðvun – samþykkt með breytingum 14. janúar 2020 – sjá hér.    Mynd af fundi samninganefndarinnar í dag 10. janúar. Hún er skipuð félagsmönnum Eflingar hjá borginni.

Skilafrestur umsókna í desember

Frá Sjúkra- og fræðslusjóðum  Eflingar Skila verður umsóknum, vottorðum og öðrum gögnum til sjúkrasjóða og fræðslusjóða Eflingar í síðasta lagi 13. desember n.k. til að ná útborgun í desember. Útborgun styrkja og dagpeninga í desember 2019 er fyrirhuguð föstudaginn 20. desember. Næsta greiðsla eftir það verður þann 10. janúar 2020. Stjórnir og starfsmenn Sjúkra- og fræðslusjóða Eflingar-stéttarfélags

Lokar í dag kl. 13.00!

Skrifstofur Eflingar í Reykjavík og Hveragerði verður lokað kl. 13.00 í dag vegna veðurs. Viðtalstími lögmanna fellur því niður í dag en verður í staðinn á fimmtudaginn 12. desember frá kl. 13.00-16.00.

Skrifstofan opnar kl. 9 fimmtudaginn 12. desember

Fimmtudaginn 12. desember opnar skrifstofa Eflingar kl. 9.00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.   

Opið lengur á miðvikudögum hjá Eflingu

Lengri afgreiðslutími skrifstofu á miðvikudögum Skrifstofa Eflingar í Guðrúnartúni 1 verður til reynslu opin til kl. 18 á miðvikudögum í desember og janúar. Lengdur afgreiðslutími er hugsaður fyrir félagsmenn sem eiga óhægt, vegna vinnu sinnar, með að koma á skrifstofuna á hinum venjubundna afgreiðslutíma skrifstofunnar sem er 8:15-16:00 á virkum dögum. Lengdur afgreiðslutími verður frá 16:00 til 18:00 á miðvikudögum. 11. desember 2019 18. desember 2019 8. janúar 2020 15. janúar 2020 22. janúar 2020 29. janúar 2020 Ekki verður boðin full þjónusta heldur verður sett í forgang að þjónusta félagsmenn sem óska eftir viðtölum við kjaramálafulltrúa. Hægt verður að skila inn umsóknum í fræðslu- og sjúkrasjóð en þó ekki vegna sjúkradagpeninga. Svarað verður í síma og öllum erindum sinnt eftir bestu getu. Árangurinn af verkefninu verður metinn í lok janúar með það í huga að halda því áfram, með nauðsynlegum breytingum eftir því sem við á.

Jólamarkaður laugardaginn 30. nóvember

Jólamarkaður Eflingar verður haldinn laugardaginn 30. nóvember 2019 í húsi Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð. Opið verður frá 13.00 til 18.30. Á jólamarkaðinum verður til sölu ýmis konar handverk og kjörið tækifæri að líta við og versla eitthvað í jólapakkana. Það verður notaleg og skemmtileg jólastemning og boðið upp á léttar veitingar, tónlist og afþreyingu fyrir börnin. Hægt er að sjá viðburðinn á Facebook síðu Eflingar og skoða myndir af handverkinu
hér. 

Lýðræði ekki auðræði—Auðlindirnar í okkar hendur! Austurvöllur 23. nóvember kl. 14.00

Efling stéttarfélag hvetur fólk til að fjölmenna á mótmælafund á Austurvelli n.k. laugardag, 23. nóvember kl. 14.00. Efling, Stjórnarskrárfélagið, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu og hópur almennra borgara og félagasamtaka hefur tekið sig saman og flautað til þessa  mótmælafundar. Meðal ræðumanna verður Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.  Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur arðinum af auðlindum sínum. Tugir milljarða eru færðir árlega í vasa stórútgerða sem ættu að renna í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins. Óréttlætið þrífst í skjóli úreltrar stjórnarskrár og pólitískrar spillingar. Stjórnmálaflokkar standa auðsveipir gagnvart sérhagsmunum örfárra sem náð hafa heljartaki á þjóðlífinu í skjóli lögverndaðs arðráns og ofsagróða. – Fjárhagsleg samskipti stórútgerða og stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka þarf að rannsaka og skera upp herör gegn skattaskjólum og peningaþvætti. Alþingi bað landsmenn um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Alþingi fékk umbeðnar tillögur og boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær. Yfir 2/3 hlutar kjósenda (67%)  samþykktu að tillögurnar skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Síðan eru liðin sjö ár! Grafið er undan lýðræði í landinu með þjónkun við sérhagsmuni og ógnandi vanvirðingu gagnvart lýðræðislegum vilja kjósenda og endurteknum tilræðum við nýju stjórnarskrána. Fundarstjóri: Katrín Oddsdóttir Ræðumenn: Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar Atli Þór Fanndal, blaðamaður Þórður Már Jónsson, lögmaður Tónlist: HATARI   Kröfur: Sjávarútvegsráðherra segi tafarlaust af sér embætti. Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012—Að sjálfsögðu með því auðlindaákvæði sem kjósendur samþykktu. Arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra. Katrín Oddsdóttir, einn skipuleggjandi mótmælanna hefur þetta að segja um ástæðu mótmælafundarins: „Á Íslandi viðgengst viðvarandi arðrán á auðlindum þjóðarinnar. Hagnaðurinn af sjávarauðlindinni gerir lítinn hóp ríkari með hverju árinu í staðinn fyrir að renna í okkar sameiginlegu sjóði. Þannig er farið gegn lögum sem segja að þjóðin eigi auðlindirnar. Samherjamálið sviptir hulunni af þessari staðreynd. Nú verðum við að bregðast við áður en leiktjöldin falla aftur og ná fram alvöru kerfisbreytingum. Samfélagið þarf á auðlindaarðinum að halda. Þorsteinn Már þarf ekki á meiri peningum að halda“. Skipuleggjendur hvetja almenning til að mæta og sýna samstöðu í verki. Katrín, sem er meðal þeirra sem barist hafa ötullega fyrir nýju stjórnarskránni, leggur áherslu á að nú séu sjö ár frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram þar sem 2/3 hlutar kjósenda sögðu að leggja ætti nýju stjórnarskrána til grundvallar sem stjórnarskrá Íslands. „Alþingi hefur markvisst hunsað þessa niðurstöðu sem er ekki bara óboðlegt heldur hreinlega ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi. Í nýju stjórnarskránni er auðlindaákvæði sem tryggir að þjóðin fái „fullt verð“ fyrir nýtingu á auðlindum sínum, eða með öðrum orðum markaðsverð. Þetta þýðir að vinavæðingin sem hefur einkennt sjávarútveginn á Íslandi undanfarna áratugi mun að öllum líkindum taka enda. Ef við horfumst í augu við spillinguna og það arðrán sem á sér stað á Íslandi á hverjum degi munum við finna kraftinn og samtakamáttinn sem þarf til þess að breyta þessu!” segir Katrín Oddsdóttir. Fjölbreyttur hópur samtaka og stéttarfélaga setur nafn sitt við mótmælin. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir skipta öllu máli að almenningur standi saman:  “Verkalýðsfélög eiga að standa með almenningi gegn ofurvaldi eignastéttarinnar. Verka og láglaunafólk hefur barist fyrir efnhagslegu réttlæti kynslóðum saman, oft með stórkostlegum árangri. Nú skiptir öllu máli að við stöndum saman og knýjum á um raunverulegar breytingar í íslensku samfélagi.” Vinsælasta hljómsveit landsins, Hatari, mun troða upp á laugardaginn en liðsmenn sveitarinnar segja Samherja birtingarmynd síðkapítalismans:  “Græðgi Samherja er tær birtingarmynd þeirra gilda sem síðkapítalisminn elur í brjósti ungra og efnilegra mógula og svikahrappa.”  

Skrifstofan opnar kl. 9 föstudaginn 15. nóvember

Föstudaginn 15. nóvember opnar skrifstofa Eflingar kl. 9.00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér. 

Skilafrestur umsókna í desember

Frá Sjúkra- og fræðslusjóðum  Eflingar Skila verður umsóknum, vottorðum og öðrum gögnum til sjúkrasjóða og fræðslusjóða Eflingar í síðasta lagi 13. desember n.k. til að ná útborgun í desember. Útborgun styrkja og dagpeninga í desember 2019 er fyrirhuguð föstudaginn 20. desember. Næsta greiðsla eftir það verður þann 10. janúar 2020. Stjórnir og starfsmenn Sjúkra- og fræðslusjóða Eflingar-stéttarfélags

Haustfundur faghópa félags- og leikskólaliða

Haustfundur faghópa félags- og leikskólaliða verður haldinn miðvikudaginn 30. október kl. 19:30 í húsnæði Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð. Kynning verður á yfirstandandi samningaviðræðum við ríki og sveitarfélög. Ari Eldjárn sér um að skemmta. Í boði verður dýrindis súpa og brauð, kaffi og sætindi. Félags- og leikskólaliðar eru beðnir um að sækja um aðgang að facebook hópi síns faghóps og merkja komu sína í viðburðinn þar. Hópur félagsliða:
https://www.facebook.com/groups/537199903688974 Hópur leikskólaliða: https://www.facebook.com/groups/2112217715749265

Hvenær náum við jafnrétti á vinnumarkaði?

Til hamingju með daginn! Á þessum degi fyrir 44 árum lögðu konur niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Samstaða kvenna skilaði mikilvægum breytingum í átt að jafnrétti. En þrátt fyrir að samfélagið hafi breyst verulega á nærri hálfri öld er enn stór hópur kvenna sem býr við launakjör sem duga engan veginn til framfærslu, óásættanlegt starfsumhverfi, vanvirðingu á framlagi þeirra og of langa vinnuviku. Í dag viljum við beina kastljósinu að stöðu þeirra kvenna sem veita þjónustu eða annast aðra einstaklinga í vinnunni og heima. Þær sinna mikilvægum störfum sem snerta okkur öll, börnin okkar, foreldra, ættingja og vini. Konur sem samfélagið gæti ekki verið án og  störf sem myndu setja samfélagið á hliðina ef þær legðu niður störf. Þetta eru til dæmis lægst launuðu störfin í okkar samfélagi, konur sem vinna við umönnun barna í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. Álag er almennt meira og vinnuskilyrði verri á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta. Þar fyrir utan treystir um þriðjungur kvenna á vinnumarkaði sér ekki til að vera í fullu starfi, einkum vegna ábyrgðar á umönnun barna og fjölskyldumeðlima eða vegna þess að störfin eru svo erfið. Í samanburði við önnur Evrópulönd eru aðstandendur á Íslandi undir mestu álagi allra vegna umönnunar óvinnufærra ættingja, öryrkja eða aldraðra. Það skyldi því engan undra að konur 50 ára og eldri eru stærsti hópurinn þegar fjölgun örorkulífeyrisþega er skoðuð. Það skilar samfélagi þar sem konur lifa að meðaltali 66 heilbrigð ár en meðalævilengdin er 84 ár. Karlar fá að jafnaði 71,5 heilbrigð ár en lifa að meðaltali 81 ár. Konur og karlar stóðu nærri jafnfætis hvað heilbrigði varðar fyrir efnahagshrunið en í kjölfar þess byrjaði að halla undan fæti. Tvímælalaust hafa niðurskurðaraðgerðir í velferðarkerfinu aukið álag bæði í vinnunni og heima. Lágu launin hafa ekki eingöngu áhrif á konur þegar þær eru á vinnumarkaði heldur út ævina enda réttindi þeirra í lífeyrissjóðum lægri. Nærri hálfri öld eftir fyrsta kvennaverkfallið er framlag kvenna til samfélagsins ekki að fullu metið að verðleikum. Kynskiptur vinnumarkaður er enn helsta ástæða kynbundins launamunar á Íslandi en þar hefur skakkt verðmætamat á vinnuframlagi kvenna mestu áhrifin. Skipulag vinnumarkaðar og samfélagsins skilar neikvæðum áhrifum á fjárhag, heilsu og líðan kvenna. Þvert á það sem margir telja þá kemur jafnrétti ekki af sjálfu sér heldur þarf að berjast fyrir því. Það er kominn tími til að stjórnvöld og atvinnurekendur grípi til aðgerða til að stuðla að raunverulegu jafnrétti. T.d. með því að létta umönnunarbyrði kvenna vegna barna og ættingja og með því að beina stuðningi þangað sem hans er mest þörf. Útrýma þarf fátækt með því að hækka lægstu laun verulega og gera þá kröfu að konur geti lifað af grunnlaunum sínum. Við verðum að tryggja starfsumhverfi sem eyðileggur konur ekki fyrir aldur fram og stytta vinnuvikuna hjá öllu launafólki. Þannig byggjum við réttlátara og betra samfélag! Drífa Snædal, forseti ASÍ Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

ASÍ og BSRB stofna rannsóknarstofnun í vinnumarkaðsfræðum

Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa ákveðið að setja á fót rannsóknarstofnun í vinnumarkaðsfræðum til að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála. Norræn heildarsamtök á vinnumarkaði starfrækja mörg hver slíkar stofnanir og er því sérstakt ánægjuefni að íslenska verkalýðshreyfingin stígi nú þetta stóra skref. En ekki eru fordæmi fyrir því hér á landi að samtök launafólks standi að stofnun rannsóknarseturs á borð við þetta. Tilgangurinn er að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar. Stofnuninni er ætlað að dýpka umræðuna um kaup og kjör og koma þannig með aukið fóður inn í baráttu launafólks fyrir bættri afkomu og betri lífsskilyrðum. Hún verður þverfagleg og sjálfstæð í sínum störfum. Til að skapa rannsóknarstofnuninni rekstrargrundvöll tryggja ASÍ og BSRB sameiginlega fjármagn og aðstöðu undir reksturinn. Vonir standa til þess að stofnunin hefji starfsemi sem fyrst. „Það er von mín að með nýrri rannsóknarstofnun fáum við betri upplýsingar um stöðu vinnandi fólks og hvernig bæta megi hag almennings. Það skiptir miklu máli að búa til og miðla þekkingu á okkar eigin forsendum,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. “Félagar okkar á hinum Norðurlöndunum hafa byggt upp sambærilegar rannsóknarstofnanir með góðum árangri sem hefur stuðlað að bættri þekkingu á vinnumarkaðsmálum. Því er fagnaðarefni að þetta verði loks að veruleika hér á landi. Það er brýnt að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðsmála og hér leggjum við grunninn að mikilvægari stofnun,” segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Skrifstofan í Hveragerði opin mánudag og þriðjudag

Skrifstofa Eflingar í Hveragerði verður opin mánudaginn 21. október og þriðjudaginn 22. október kl. 9.00 til 15.00.

Bílastæði gjaldfrjáls eingöngu fyrir gesti Guðrúnartúns 1

Frá og með mánudeginum 21. október nk. verður bílastæðunum við Guðrúnartún 1 aðgangsstýrt með nýju kerfi í samstarfi við Securitas. Bílastæðin verða eingöngu ætluð gestum og starfsfólki hússins frá kl. 7.00 til 19.00 á virkum dögum og geta þeir aðilar sem ekki eiga erindi í húsið átt von á rukkun/gjaldtöku að upphæð 4.500 kr. Bílastæðin við Guðrúnartún 1 eru oftast þéttsetin og oft nánast ómögulegt að fá stæði. Því miður eiga margir sem leggja í bílastæðin ekki erindi í húsnæðið og því var ákveðið að fara þessa leið til að bæta þjónustu og aðgengi félagsmanna að skrifstofu Eflingar. Þarf að skrá bílnúmer Félagsmenn Eflingar sem heimsækja skrifstofuna þurfa að skrá bílnúmer ökutækis síns í kerfi sem staðsett verður í móttökurými Eflingar á 3. hæð og munu við það fá úthlutað tíma á stæðunum. Einnig verður skráningarbúnaður á 4. hæð  hússins í fræðslusetri Eflingar fyrir þau sem sækja námskeið og fundi þar.

Skrifstofan opnar kl. 9 föstudaginn 18. október

Föstudaginn 18. október opnar skrifstofa Eflingar kl. 9.00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér. 

Skrifstofan í Hveragerði opin mánudag og þriðjudag

Skrifstofa Eflingar í Hveragerði verður opin mánudaginn 14. október og þriðjudaginn 15. október kl. 9.00 til 15.00.

Vel mætt á kynningarfund á pólsku

Vel var mætt á kynningarfund um réttindi og skyldur á vinnumarkaði sem haldinn var á pólsku í gær hjá Eflingu. Wieslawa Vera Lupinska, kjaramálafulltrúi Eflingar fór yfir helstu atriði kjarasamningsins, veikindarétt, uppsagnarfrest og fleira ásamt því að fara yfir það hvaða réttindi félagsmenn eiga í sjóðum félagsins. Fundurinn er liður í því að veita erlendum félagsmönnum upplýsingar um réttindi þess á vinnumarkaði og hjá stéttarfélaginu. Af góðri aðsókn að dæma er ljóst að mikil þörf er á slíkum fundum og mun félagið standa fyrir fleiri slíkum í framtíðinni. Í næstu viku verður samskonar fundur haldinn á ensku fyrir félagsmenn, nánari upplýsingar um þann fund má finna
hér.

Skrifstofa Eflingar verður lokuð á fimmtudag og föstudag

Skrifstofa Eflingar verður lokuð fimmtudaginn 10. október og föstudaginn 11. október. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Íslenska skattkerfið – samantekt á fyrirlestrum

Í september skipulagði Efling í samstarfi við Ríkisskattstjóra stutt námskeið á ensku og pólsku þar sem farið var yfir íslensk lög og reglur um skattheimtu einstaklinga. Efling leggur áherslu á að erlendir félagsmenn hafi aðgang að réttum upplýsingum um skattkerfið og var námskeiðið liður í því að veita þeim þessar upplýsingar. Helgi Guðnason sérfræðingur í skattheimtu einstaklinga hjá RSK kenndi námskeiðin. Helgi fór skilmerkilega yfir hvaða skattar það eru sem einstaklingum er gert að greiða; tekjuskattur, virðisaukaskattur, bifreiðagjald auk fleiri smáskatta. Allir einstaklingar sem hafa tekjur hvort sem er frá atvinnurekanda (laun), atvinnuleysisbætur, greiðslur frá Tryggingastofnun eða úr lífeyrissjóðum eru skyldugir til að greiða tekjuskatt. Flestar tekjur eru skattlagðar þegar greiðsla fer fram (staðgreiðsla skatta) og er launaseðill kvittun fyrir þeirri greiðslu. Það er mikilvægt að fá afhentan launaseðil um hver mánaðamót þar sem fram kemur að staðgreiðsla skatta hafi farið fram. En launaseðill gildir sem kvittun fyrir greiddri staðgreiðslu standi launagreiðandi ekki skilum. Tekjuskattur er 36,94% eða 46,24% en það veltur á tekjum einstaklinga. Allir einstaklingar 16 ára og eldri eiga rétt á að nýta sér persónuafslátt mánaðarlega, að upphæð 56.447 kr. árið 2019. Persónuafslátturinn endurnýjast árlega um áramót. Ónýttur persónuafsláttur færist á milli mánaða en ekki á milli ára. Einstaklingar eru skyldugir til að skila skattframtali, skilafrestur er yfirleitt í mars. Ef einstaklingur hyggst fara frá Íslandi, þá skal hann skila inn skattframtali á pappír fyrir brottför á skrifstofu Tollstjóra. Ef einstaklingur vinnur sem verktaki, er hann skyldugur til að greiða skatta og önnur gjöld sjálfur. Þeir sem vinna sem verktakar verða því að kunna grundvallaratriði í rekstri og bókhaldi. Svört vinna er ólögleg og getur haft lagalegar afleiðingar fyrir viðkomandi sem tekur að sér slíka vinnu. Með því að taka við svartri vinnu fyrirgerir einstaklingur sér rétt á sjúkratryggingum, atvinnuleysisbótum, bótum almannatrygginga, fæðingarorlofi og vinnuslysatryggingu. Ítarlegri upplýsingar og lagaleg atriði er hægt að nálgast hjá RSK. Kynninguna má nálgast
hér.  

Við eigum að hugsa vel um fólkið okkar

– segir Stefán E. Sigurðsson, nýr í stjórn Eflingar Stefán E. Sigurðsson hefur mikla reynslu af íslenskum vinnumarkaði, bæði sem sjálfstæður atvinnurekandi og almennur launamaður. Í dag vinnur Stefán hjá Olís í Mosfellsbæ, þar sem hann er mjög ánægður í starfi og er nýr stjórnarmaður í Eflingu. Stefán hefur látið sig verkalýðsmál varða lengi. Hann hefur verið trúnaðarmaður á fleiri en einum vinnustað í gegnum tíðina og látið til sín taka á þeim vettvangi. Hjá sínum fyrrverandi atvinnurekanda blöskraði Stefáni framkoma yfirmanna við starfsmenn sína, sérstaklega þá sem voru af erlendu bergi brotnir. Sem trúnaðarmaður þar átti Stefán í stöðugu stappi við yfirmenn sem brutu kjarasamninga síendurtekið og brugðu til ýmissa ráða til að stela launum af starfsfólki sínu. Trúnaðarmannsstarfið kallaði á mikil samskipti Stefáns við Eflingu. Það er reynsla sem hann býr að í stjórnarsetu í dag, enda hefur hann skýra og gagnrýna sýn á verkalýðsbaráttuna og það hvað Efling eigi að vera fyrir félagsmenn sína. Stefán sat í trúnaðarráði Eflingar í tíma fyrri stjórnar. Sú seta varði ekki lengi og endaði með því að hann gekk út af fundi og þakkaði fyrir sig. Hann gagnrýnir þáverandi stjórn Eflingar fyrir kjarkleysi þegar kom að kjarasamningsgerð:„Ég upplifði þetta þannig að við værum búin að gefast upp áður en við fórum af stað.“ Stefán segir það hafa verið sláandi hvernig þáverandi stjórn hafi tekið upp rök atvinnurekenda og talað fyrir því að „rugga ekki bátnum“ og að of háar kröfur „kollvarpa samfélaginu.“ Þetta viðhorf hugnaðist Stefáni ekki og honum fannst hann ekki getað tekið þátt í verkalýðsstarfi á þessum forsendum. Þegar Stefáni var aftur boðið að taka sæti í trúnaðarráði á síðasta ári hugsaði hann sig vel og lengi um en ákvað að lokum að taka slaginn. Hann hafði trú á nýjum formanni Sólveigu Önnu, að hún nálgaðist kjarabaráttuna út frá öðrum forsendum. Stuttu seinna var Stefán beðinn um að gefa kost á sér stjórn. Stefán segir málefni lífeyrissjóðanna vera það sem brenni helst á honum. Hann hafi aldrei þolað fyrirkomulagið sem er við lýði og hefur slæma reynslu af því persónulega. Hann bendir á að atvinnurekendur eigi í öllum lífeyrissjóðunum og gagnrýnir harðlega sjónarmið stjórnenda þeirra sem segja að það sem mestu máli skipti sé að hámarka gróðann. Auðvitað sé gott að fá góða ávöxtun, en það eigi að vera forgangsatriði að sjóðirnir séu notaðir fyrir fólkið okkar og í okkar þágu. Ekki í þágu fjármagnseigenda eins og nú er: „Við þurfum ekkert að búa til túkall úr krónu til að láta einhverja gúffa úti í bæ díla með það!“ segir Stefán ákveðinn. „Við eigum bara að nota þessa peninga í okkar þágu og fjármagna eins hátt og mögulegt er með það sjónarmið í forgrunni.“ Stefáni er einnig mikið í mun að tryggja rétt þeirra félagsmanna sem eru hættir að vinna. Hann talar fyrir því að fólk sem hefur borgað félagsgjöld til Eflingar í einhvern ákveðinn árafjölda haldi vissum réttindum áfram eftir að þeir hætti að vinna. Það mætti auk þess auka nánd við félagsmenn með því að hafa umhverfið vinalegra og gera skrifstofuna minna stofnanalega. „Þetta á ekki að vera eins og félagsmaðurinn sé að koma í viðtal við bankastjóra bak við risastórt skrifborð eins og var hér áður fyrr. Við eigum að hugsa vel um fólkið okkar,“ segir Stefán að lokum.  

Skrifstofan opnar kl. 9 föstudaginn 13. september

Föstudaginn 13. september opnar skrifstofa Eflingar kl.09:00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér

Bókanir yfir jól og áramót hefjast á morgun kl. 8.15

Félagið minnir á að opnað verður fyrir bókanir í orlofshús yfir jól og áramót á morgun kl. 8.15. Einungis er hægt að leigja eina viku, frá föstudegi til föstudags, annaðhvort yfir jól eða áramót. Tímabilin eru: Yfir jól: 20.12. – 27.12.2019 Yfir áramótin: 27.12.2019 – 03.01.2020. Engar umsóknir – bara fyrstur bókar fyrstur fær. Hægt að bóka beint á
bókunarvefnum eða hér á skrifstofunni s.510 7500.

Lífsstíll - leiðari formanns í 5. tbl. Eflingar

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í Vikulokunum laugardaginn 24. ágúst síðastliðinn, þegar umræðan barst að háum launum bæjarstjóra og annarra sveitarstjórnenda að það að vera bæjarstjóri væri á vissan hátt lífsstíll. Með þessum orðum vísaði hún til ábyrgðar og þess tíma sem fer í að sinna starfsskyldum. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, hæst launaði bæjarstjóri landsins bauð upp á samskonar málflutning þegar hann sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að hann væri í vinnunni 24 tíma á sólarhring og bæri mikla ábyrgð. Nú erum við búin að heyra þessa plötu svo oft, um ábyrgðina og vinnusemina, að við verðum ekki lengur hissa á sjálfsupphafningunni og sjálfsréttlætingunni en það er engu að síður áhugavert að velta fyrir sér viðbrögðum stjóranna við umræðu um kaup og kjör, sérstaklega vegna þess að þau virðast virka; þið getið verið viss um að næstu fréttir sem berast af launamálum yfirstéttar sveitarstjórnanna verða af launahækkunum og til að réttlæta þær er öruggt að vísað verður í ábyrgð og það að aumingja fólkið sé alltaf í vinnunni. Í ljósi hugtaka eins og ábyrgðar og vinnusemi er líka áhugavert að velta fyrir sér annars vegar því ábyrgðarleysi sem fólkið innan vébanda Sambands íslenskra sveitarfélaga leyfði sér nú í sumar þegar það tók ákvörðun um að greiða ekki 105.000 kr. innágreiðslu til félagsmanna Eflingar og annarra félaga innan Starfsgreinasambandsins vegna komandi kjarasamninga, ætlaða til þess að létta láglauna fólki biðina eftir þeim launahækkunum sem þegar hefur samist um á almenna markaðnum, og hins vegar ábyrgðina sem láglaunastéttir sveitarfélaganna sannarlega axla á hverjum einasta degi í störfum sínum. Ábyrgð sem á endanum er svo lítils metin að fólkið með völdin gefur ekkert fyrir hana, þrátt fyrir að þau viti auðvitað að án allra þessara vinnandi handa væru engin sveitarfélög til að stjórna, engin ofurlaun til að skammta sjálfum sér. Ábyrgð sem allir íbúar sveitarfélaganna treysta á að sé tekin af þeim sem vinna vinnuna en er engu að síður aldrei nokkurn tímann metin að verðleikum. Á Íslandi búa nú 356.991 manneskja, fámennur hópur á ríku landi. En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir, fámennið og auðinn, er önnur staðreynd sú að nákvæmlega enginn vilji er til staðar hjá yfirstétt hins opinbera til að deila gæðunum af réttlæti og með jöfnuð í huga. Þó að yfirstétt hins opinbera hafi öll tækifæri til að hefja það verðuga og nauðsynlega verkefni að bæta kjör og vinnuaðstæður láglaunafólks virðist enginn áhugi vera á því innan þeirra raða. Áhugaleysið er þyngra en tárum taki en því miður jafn fyrirsjáanlegt og árlegt sjálfshólið um ábyrgðina og vinnusemina. Það er viss lífsstíll að meta aðeins eigin störf merkileg og mikilvæg. Það er viss lífsstíll að láta hneykslun almennings á fáránlegum launamun sem vind um eyru þjóta, viss lífsstíll að bíða af sér gagnrýnina ár hvert og halda svo áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er viss lífsstíll að gera ekkert til að vinna gegn misskiptingu, viss lífsstíll að auka hana markvisst. Ef að það er satt, að bæjarstjórar sinni vinnunni sinni 24 klukkutíma á sólarhring, er þá ekki hægt að ætlast til þess að þeir taki einhverja af þessu klukkutímum og noti til þess að setja sig í spor láglaunafólksins sem af samviskusemi sinnir störfum sínum, oft undir gríðarlegu álagi og við erfiðar aðstæður? Er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sýni aðstæðum þeirra sem halda sveitarfélögunum gangandi með vinnu sinni, einhvern skilning? Er það á endanum ekki sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir, með alla sína ábyrgð, fari loksins líka að vinna fyrir fólkið sem vinnur vinnuna? Eða er það kannski lífsstíll sem hentar ekki ofurlaunuðum bæjarstjórum Íslands? Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar-stéttarfélags  

Skrifstofan opnar kl. 9.00 föstudaginn 16. ágúst

Föstudaginn 16. ágúst opnar skrifstofa Eflingar kl.09:00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Vetrarbókanir hefjast fimmtudaginn 15. ágúst kl. 8.15

Vetrarbókanir hefjast fimmtudaginn 15. ágúst  kl. 8.15 og opnast þá fyrir bókanir frá 30. ágúst og fram að jólum. Þá verður hægt að bóka bæði helgar- og vikuleigu. Síðan verður hægt að bóka jól og áramót frá og með 10. september. Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér
 BÓKUNARVEFINN vel og nýta sér hann til að bóka hús en einnig er hægt að bóka hús hjá skrifstofu Eflingar, Guðrúnartúni 1 eða í s. 510 -7500. Hægt er að skoða orlofshús Eflingar hér og ítarlegar leiðbeiningar um bóknarvefinn er að finna í orlofsblaðinu, sjá hér.

Það eru engin störf á dauðri plánetu

– slagorð ITUC, Alþjóðasambands verkafólks Þær Valgerður Árnadóttir, sviðsstjóri félagssviðs og Sara S. Öldudóttir, sérfræðingur í vinnumarkaðs- og kjaramálum hjá Eflingu fóru í maí á námskeið á vegum ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Námskeiðið miðaðist að því að stuðla að réttlátri stýringu vinnuafls til nýrra eða breyttra starfa vegna alþjóðamarkmiða í loftslagsmálum.   Valgerður Árnadóttir (önnur t.h.) og Sara S. Öldudóttir (lengst t.h.) ásamt Giulia Melina og Najma Mohamed, leðbeinendum hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni Aðgerðir í loftslagsmálum hafa áhrif á gríðarmörg störf meðal annars í ferðamannaiðnaði, framleiðslu, samgöngum, byggingariðnaði og landbúnaði. Sem aðili að Parísarsamkomulaginu þá deila Íslendingar því markmiði með Evrópusambandinu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um minnst 40% fyrir 2030 miðað við losunina árið 1990. Í nýrri lagasetningu ESB vegna þessara skuldbindinga má nefna endurskoðun á viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir eftir árið 2020, markmið um að draga úr losun í atvinnugreinum sem falla ekki undir viðskiptakerfið og ákvæði um landnotkun í loftslagslöggjöf. Þessi grundvallarlög voru innleidd nýlega og frekari tillögur um hreina orku og samgöngur eru í farvatninu. Óhjákvæmilega munu aðgerðir í loftslagsmálum hafa áhrif á fjölmörg störf hérlendis rétt eins og annars staðar og mikilvægt er að stéttarfélög standi vörð um réttindi sinna félagsmanna og tryggi þeim sanngjörn skipti. Á námskeiðinu, sem fólk allstaðar að úr heiminum sótti, var lögð áhersla á mikilvægi þess að koma á samfélagsumræðu um þessi málefni og benda á tækifæri sem skapast og störf sem munu hverfa bæði með fjórðu iðnbyltingunni og vegna aukinnar áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Einnig var lögð áhersla á hversu mikilvægt það er að stjórnvöld, stéttarfélög og atvinnurekendur móti sameiginlega stefnu og aðgerðaáætlun í þessum málaflokki. Ríkisstjórn myndar samstarfsvettvang án aðkomu stéttarfélaga „Það kom okkur Eflingarkonum verulega á óvart þegar heim var komið að sjá frétt þess efnis að stjórnvöld og atvinnumarkaðurinn höfðu tekið höndum saman á nýjum samstarfsvettvangi til að samræma áætlanir um að Ísland nái markmiðum um kolefnajöfnun án þess að hafa stéttarfélög með í ráðum. Það skýtur skökku miðað við hvernig þessu er háttað í ríkjum sem við miðum okkur við þar sem mikil áhersla er lögð á þríhliða samstarf stjórnvalda, stéttarfélaga og atvinnurekenda, enda galið að fara í svo yfirgripsmiklar aðgerðir án aðkomu fólksins sem það mun hafa hvað mest áhrif á, fólkið sem vinnur störfin,“ segir Valgerður. Þær Sara og Valgerður funduðu um þessi málefni eftir að heim var komið með Drífu Snædal, forseta ASÍ og Maríönnu Traustadóttur, sérfræðingi í jafnréttis- og umhverfismálum hjá ASÍ. Þær fundu þar góðan samhljóm enda er ASÍ með mjög metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum og stefnir að því að halda ráðstefnu um þessi málefni í haust. Hópurinn hlustar á áhugavert erindi í Ecopark Tórínó Stytting vinnuvikunnar er umhverfismál „Stytting vinnuvikunnar er gott dæmi um vinnumarkaðsmál sem stuðlar að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsóknir sýna að við það að stytta vinnuvikuna um 20% myndum við draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 16% vegna breyttra samgöngumáta og neysluhátta. Fólk fær aukið svigrúm til að nýta almenningssamgöngur, hjóla, ganga og umferð dreifist, það minnkar mengun og svifryk, aukinn tími til að elda frá grunni stuðlar bæði að umhverfisvænni innkaupum og að bættri heilsu fólks. Í ljósi þess er alveg galið hversu illa hefur gengið að semja við ríki og sveitarfélög um styttingu vinnuvikunnar á opinberum markaði. Ljóst er að við þurfum að berjast fyrir aðkomu stéttarfélaga hvað varðar eitt mikilvægasta mál samtímans og minna bæði stjórnvöld og almenning á mikilvægi þess,“ segja þær Valgerður og Sara að lokum.

Dagsferð Eflingar sumarið 2019

Hin árlega dagsferð Eflingar verður í lok sumars og nú var ákveðið að ferðast um uppsveitir Árnessýslu þar sem er að finna margar af fallegustu náttúruperlum Suðurlands. Við munum skoða marga áhugaverða staði og meðal þeirra helstu má nefna gamla bæinn að Tungufelli, Brúarhlöð sem er gljúfur sem Hvítá fellur um, fossinn Faxa í Tungufljóti og einnig komið við hjá Gullfossi og Geysi. Síðdegis verður boðið upp á snæðing á hinum rómaða veitingastað Friðheimum sem er bæði veitingahús og tómatarækt í Reykholti í Biskupstungum. Þar verður boðið upp á einstaklega góða súpu að hætti staðarins og heimabökuð brauð. Boðið verður upp á tvær ferðadagsetningar, tvo síðustu laugardagana í ágúst, 24. og 31. ágúst. Lagt verður af stað stundvíslega frá Guðrúnartúni 1 kl. 08:15 og áætluð heimkoma undir kvöld. Bókanir hefjast í dag, 15. maí, og er verð aðeins 6.000 kr. á mann. Eingöngu er hægt að bóka í gegnum skrifstofu Eflingar eða bóka í gegnum tölvupóst – 
orlof@efling.is. Heimilt er að taka með einn gest og greiðir hann sama verð. Frítt verður fyrir börn undir 14 ára aldri. Um ferðina: Tungufell er sá bær á Suðurlandi sem fjærst liggur frá sjó og munum við skoða merka kirkju við gamla bæinn sem er í eigu Þjóðminjasafnsins. Fossinn Faxi í Tungufljóti í Biskupstungum er falleg náttúruperla og vinsæll viðkomustaður á leiðinni að Gullfossi. Brúarhlöð er gljúfur í Hvítá þar sem sjá má einstakar bergmyndanir sem Hvítá hefur myndað með farvegi sínum.

Skóflustunga að nýrri orlofsbyggð Eflingar í Aratungu

Á fimmtudaginn, 27. júní,  var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri orlofsbyggð Eflingar við Aratungu í Biskupstungum.  Óhætt er að fullyrða að þetta séu mikil tímamót fyrir félagið enda hefur aðdragandinn verið langur og mikil vinna lögð í undirbúning. Reist verða 12 hús í tveimur áföngum og er áætlað að félagsmenn geti byrjað að nýta sér fyrstu húsin strax um mitt næsta ár. Sveinn Ingvason, sviðsstjóri orlofsmála hjá Eflingu hefur unnið að því árum saman að láta þessa orlofsbyggð verða að veruleika. Hann segir að það sé einkum þrennt sem sé sérstakt við þessa framkvæmd: Staðsetningin sé einstök. Jörðin liggur í slakkanum sem hallar niður að Tungufljóti í Biskupstungum, ofan klettabeltisins sem skilur svæðið frá byggðinni í Aratungu. Þetta er algjör náttúruperla og útsýnið yfir sveitirnar í kringum Tungufljót ólýsanlegt. Nándin við alla þjónustu í Reykholti sé mikill kostur og síðast en ekki síst er það svo auðvitað einstök sérstaða að Efling skuli eiga þetta land og geta skipulagt 12 húsa orlofsbyggð á eigin forsendum, þar sem öll skipulagning miðar að þörfum og kröfum félagsmanna.  Sögu þessarar orlofsbyggðar má rekja allt til ársins 1944 þegar Verkamannafélagið Dagsbrún keypti landskika með það að markmiði að reisa þar félags- og hvíldarheimili fyrir Dagsbrúnarfélaga. Þessi hugmynd verður að teljast mjög óvenjuleg og framsækin fyrir þennan tíma, en þetta var fyrir tíma orlofsréttinda verkafólks og áður en stéttarfélög héldu úti orlofshúsum fyrir félagsmenn sína. Þó ekkert hafi orðið að byggingu hvíldarheimilisins á sínum tíma má halda því fram að með kaupum á þessu landi og hugmyndum um hvíldarheimili hafi verið kominn fyrsti vísir að orlofsmálum stéttarfélaganna eins og við þekkjum þau í dag. Á þessum árum var mikil barátta háð fyrir auknum orlofsrétti verkamanna og var þessi hugmynd um hvíldarheimili afar framsýn. Með réttinum til lengra og betra orlofs breyttust áætlanir um orlofshúsnæði. Það er því mikil ánægja að geta látið þessar framsýnu hugmyndir forvera okkar verða að veruleika, í örlítið breyttri mynd, þar sem orlofsbyggðin er sérsniðin að þörfum félagsmanna Eflingar í samtímanum.  

105.000 kr. innágreiðsla fyrir starfsfólk hjá ríkinu

Skrifað hefur verið undir endurskoðaða viðræðuáætlun við ríkið. Þar kemur fram að viðræður verða teknar upp að nýju um miðjan ágúst og fyrirhugað er að klára kjarasamning fyrir 15. september. Vegna þeirra tafa sem verið hafa á samningsgerð fá starfsmenn greidda innágreiðslu á kjarasamning þann 1. ágúst uppá 105.000 kr. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Á samningafundum hefur verið rætt um styttingu vinnuvikunnar og leggur félagið mikla áherslu á að í þessum samningum náist raunstytting á vinnutíma. Tilraunaverkefni yfirvalda hafa sýnt að vellíðan, heilsa og vinnuumhverfi batni verulega við slíka styttingu. Samninganefnd Eflingar telur því augljóst að hér komi ekki til greina að slá af kröfum. Gangur viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga Viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hefur þeim viðræðum nú verið vísað til ríkissáttasemjara. Er það vegna þess að SÍS hefur ekki viljað efna loforð sem gefin voru við kjarasamningsgerð árið 2015 um jöfnun lífeyrisréttinda fyrir starfsfólk sveitarfélaga. Um þessi sjálfsögðu réttindi hefur þegar verið samið við Reykjavikurborg og ríkið. Þau greiða sérstakan lífeyrisauka sem nemur 5,91%. Þetta samsvarar tæpum 18 þúsund krónum á mánuði fyrir fólk á lægstu launum. Efling og önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið í samfloti í þessum viðræðum og hafa þau sammælst um að það komi ekki til greina að halda viðræðum áfram nema að lífeyrisréttindi starfsfólks sveitarfélaganna innan ASÍ verði jöfnuð í samræmi við fyrri loforð. Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila næst til fundar 21. ágúst. Staðan hjá Reykjavíkurborg Efling hefur setið nokkra fundi með Reykjavíkurborg. Enginn árangur hefur náðst í þeim viðræðum. Er það m.a. vegna þess að borgin neitar að ræða um raunstyttingu vinnutímans sem kemur mjög á óvart þar sem Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi tilraunaverkefnis um þannig styttingu, með mjög góðum árangri. Þessum árangri hefur borgin hampað á málþingum og fundum. Krafa um innágreiðslu frá Reykjavíkurborg og SÍS Efling hefur sett fram kröfu gagnvart Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um sambærilega innágreiðslu og bíður nú svara. Viðræður við hjúkrunarheimili verða teknar upp þegar búið er að semja við ríkið en Efling hefur gert kröfu um innágreiðslu einnig frá þeim.

ERT ÞÚ SUMARSTARFSMAÐUR?

Þekkir þú réttindi þín? Sumarstarfsfólk hefur verið að leita til Eflingar undanfarið með spurningar varðandi réttindi sín. Hér eru nokkur atriði sem skipta máli fyrir sumarstarfsfólk: ORLOFSLAUN Þú átt alltaf rétt á orlofslaunum! Það á líka við ef þú tekur þér ekki sumarfrí. Orlofslaunin eiga aldrei að vera hluti af laununum þínum heldur bætast þau við öll önnur laun og eiga að vera sundurliðuð á launaseðli. Þau eru annaðhvort borguð inn á sérstakan orlofsreikning eða sem orlofstímar. LAUNASEÐILL Skrifaðu niður alla tímana sem þú vinnur og vertu viss um að fá launaseðil. Á launaseðli geturðu séð fyrir hve marga tíma þú ert að fá greitt. Við mælum með því að bera alltaf saman tímana sem þú hefur skrifað niður og tímana sem skráðir eru á launaseðli til að sjá hvort tímarnir hafi verið rétt skráðir. RÁÐNINGARSAMNINGUR Fáðu ráðningarsamning. Á ráðningarsamningi koma fram mikilvægar upplýsingar um réttindi þín, laun og skyldur. JAFNAÐARKAUP Er verið að borga þér jafnaðarkaup? Ef svo er þá er verið að borga þér sama tímakaup alla daga ársins og fyrir hvaða tíma sólahringsins sem er. Sumarstarfsfólk er yfirleitt að vinna mikið um kvöld og helgar og þá er eðlilegast að fá yfirvinnu greidda. Ef þú vilt nánari upplýsingar hafðu samband við Eflingu í netfangið efling@efling.is

Fimmtudaginn 27. júní lokar skrifstofan kl. 15

Fimmtudaginn 27.júní lokar skrifstofa Eflingar kl 15:00. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér  

Baráttan snýst á endanum um frelsi

– segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar Sólveig Anna Jónsdóttir, kom sem stormsveipur inn í íslenska verkalýðsbaráttu þegar hún og hennar listi vann yfirburðasigur í kosningum til stjórnar félagsins í apríl í fyrra. Hún fór frá því að starfa á leikskóla borgarinnar yfir í að stýra öðru stærsta stéttarfélagi landsins og standa í hörðum kjaraviðræðum og verkfallsátökum við SA. Nú þegar fyrsta starfsári hennar sem formaður er að ljúka er ekki úr vegi að setjast niður með henni og spyrja hana út í hvernig fyrsta árið hafi verið, um kjaraviðræðurnar og verkfallsátökin og eins hvaða breytingar hún vilji sjá í íslensku samfélagi til að verkafólk geti lifað mannsæmandi lífi. Þegar Sólveig Anna tók við formennsku í Eflingu-stéttarfélagi hafði hún starfað á leikskólanum Nóaborg í að verða tíu ár. Aðspurð um muninn á starfi sínu nú og þá segir hún að það hafi í raun fylgt því ótrúlega mikið frelsi að vinna á leikskóla. „Það er ákveðið frelsi í samskiptum við börn, þetta eru innileg og náin samskipti, eins og góð mannleg samskipti eiga að vera. Það þarf að bregðast við þörfum lifandi fólks, taka ákvarðanir sem varða stóra hópa og gæta að réttlæti og sanngirni og því að jöfnuður ríki, þrátt fyrir að barnahópurinn sé samansettur af ótrúlega ólíkum manneskjum. Það þarf að gæta þess að öll börnin fái það sama, gæta þess að þörfum allra sé sinnt.“ Hún segir að í starfi með börnum, eins og í leikskóla, sé markviss þjálfun í þessum hugsunarhætti. „Það er líka ákveðið frelsi í því að eyða hluta af starfstímanum úti við, það er að mínu mati ómetanlegt sem og að fá að vera í söng, lestri, útiveru, listsköpun og hvíld með fullt af öðrum lifandi manneskjum.“ Hún segir að það hafi verið „litlu hlutirnir“ við starfið, það að aðstoða börnin að leysa úr vandamálum og verkefnum, vera í góðum félagslegum samskiptum og útkljá deilumál, sem hafi verið svo nærandi. „Þetta er ástæðan fyrir því að ég elskaði vinnuna mína þó ég hataði launin og var reið út í þessa mannfjandsamlegu stefnu sem að borgin rekur, að halda að það væri hægt að komast upp með að sýna ekki starfsfólki þá virðingu sem það á sannarlega skilið og halda þessum störfum á útsölumarkaði.“ Sólveig segir að miðað við nýjustu fréttir þá hyggist borgin ætla að halda sig við þá stefnu. Á hún þar við fréttir um að svokölluð áhættumatsdeild fjármálaskrifstofu borgarinnar spái versnandi afkomu í kjölfar falls Wow og samdrætti í rekstri. „Ég held að því miður verði ákveðið að skera niður þar sem síst má skera niður. Það er ekkert sem bendir til þess að borgaryfirvöld muni hafa hagsmuni vinnuaflsins í fyrirrúmi, þegar við horfum yfir síðustu ár. Góðærið sem fylgdi þessum mikla vexti í ferðamannabransanum var ekki notað til að tryggja betri afkomu láglaunakvenna í borginni, ekki notað til að bæta úr húsnæðiskrísunni. Þvert á móti var ráðist í alls konar lúxusverkefni þar sem engar reglur virðast gilda um útgjöld. Ég hef miklar áhyggjur af því að borgin og aðrir noti samdráttinn í efnahagskerfinu til að halda áfram með innleiðingu nýfrjálshyggjunnar. En þá skiptir auðvitað þeim mun meira máli að ég og félagar mínir stöndum okkur í því verkefni sem við höfum tekið að okkur.“ Það hafa því verið töluverð viðbrigði fyrir Sólveigu þegar hún tók við sem formaður. „Að fara úr þessum samskiptum við foreldra, samstarfsfólk og börn þar sem markmiðið allra var að tryggja góða útkomu yfir í að vera formaður stéttarfélags er ótrúlega mikil breyting.“ Hún segir að þó hún hafi verið búin að gera sér grein fyrir því að þetta yrði gífurleg breyting hafi alltaf verið og sé enn partur af henni sem er hikandi við þetta. „Ég tapa miklu af frelsi mínu, frelsi til að lifa bara á eigin forsendum en það er svo auðvitað það sem baráttan snýst á endanum um að mínu mati; alvöru manneskjulegt frelsi sem snýst um að vera í góðu sambandi við sjálfa þig og fá að blómstra frjáls undan vinnuálagi og áhyggjum, undan kapítalísku ofríki og auðvaldi.“ Sólveig Anna Jónsdóttir þegar hún var nýtekin við sem formaður Eflingar á aðalfundi félagsins í apríl í fyrra Kjaraviðræðurnar voru langar og strangar en þeim lauk með undirritun samninga þann 3. apríl. En hvernig fannst Sólveigu að koma þar að borðinu? „Þetta var mjög áhugavert og brjálæðislega lærdómsríkt, að koma inn sem reynslulaus manneskja. Ég hef tekið þátt í félagsstarfi og alls konar aktívisma og er reynslumikil þaðan, en að vera svo komin við borð með raunveruleg völd er mjög skrýtið. Ég held að fólk geti ekki ímyndað sér það, það verður að upplifa það í eigin persónu.“ Eins og fyrr segir drógust viðræðurnar á langinn og var Efling í harðri baráttu á öllum vígstöðvum. „Það voru stöðugar árásir frá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, hatrammar og sturlaðar árásir þar sem ég og mitt samstarfsfólk var dregið upp sem eitthvað hryðjuverkafólk.“ Hún segir það að sumu leyti hafa á undarlegan hátt verið gefandi að fylgjast með þessari umræðu. „Það er áhugavert að sjá fólk sem tilheyrir valdastétt og fer með pólitískt dagskrárvald í samfélaginu, sem telur sig málsvara lýðræðis en opinberar afturhaldssinnaða afstöðu sína gagnvart láglaunafólki. Það er tilbúið að segja fólki að halda sig til hlés og taka við þeim brauðmolum sem efnahagsleg forréttindastétt skilur eftir.“ Sólveig segir að þetta geri ekkert annað en að opinbera innræti þessa fólks. „Við fengum að sjá hið sanna og rétta eðli nýfrjálshyggjunnar á Íslandi og það var fyrir mig sem áhugamanneskju um kúgunareðli auðvaldskerfisins í raun mjög spennandi.“ Í fyrsta sinn síðan á níunda áratug síðustu aldar fór Efling í verkfallsaðgerðir en aðgerðirnar tóku til fólks sem starfaði á hótelum og rútufyrirtækjum. „Það var stórkostlegt að sjá eldmóð og baráttuvilja fólks, þar sem sum hver eru ekki aðeins að berjast fyrir hærri launum og betri efnahagslegri afkomu heldur einnig fyrir lýðræði og að fá að taka þátt í ákvörðunum sem snúa að vinnu þeirra.“ Sólveig segir það hafa verið áfall að sjá með beinum hætti þann raunverulega aðskilnað sem ríkir á ýmsum vinnustöðum, á milli aðflutts verkafólks og Íslendinga. Hún hafi fyrir löngu verið farin að hugsa um stöðu aðflutts vinnufólks en að sjá með augljósum hætti bilið á milli aðflutts vinnuafls og Íslendinga í aðdraganda og í kjölfar aðgerðanna hafi engu að síður verið mjög afhjúpandi. „Ég varð t.d. vitni að því að á fundi hjá Kynnisferðum þar sem tilkynnt var um fjöldauppsögn að það var bara gert á íslensku þrátt fyrir stóran hóp starfsfólks af erlendum uppruna. Engin tilraun var gerð til að túlka. Ég varð eiginlega orðlaus við að verða vitni að svona framkomu. Að sjá refsiaðgerðir í kjölfar verkfallanna er auðvitað sérstaklega ógeðslegt. Þrátt fyrir að samningar hafi tekist voru engu að síður atvinnurekendur sem fundu sig knúna til að refsa starfsfólki, hafa mætingarbónus af fólki eða koma sér undan því að greiða þeim laun sem ekki voru á vakt verkfallsdagana og beina þeim á verkfallssjóðinn. Það stenst enga skoðun og hlýtur tilgangurinn að vera að senda skilaboð, bæði til starfsfólksins og okkar í félaginu um að þeir ætli sér ekki að spila eftir okkar leikreglum.“ Hún segir að baráttan snúist um leikreglurnar í samfélaginu, hverjir fái að ákveða þær. Sólveig Anna Jónsdóttir og Anna Marta Marjankowska, í stjórn Eflingar, í Gamla Bíó á Kvennadeginum 8. mars sl. „Við höfum þurft að sætta okkur við það að yfirstéttin, kapítalistarnir, setji alltaf reglurnar og hafi það vald, sem er óþolandi. Þeim stendur á sama um afkomu lágtekjufólks, þeir vilja aðeins aðgang að ódýru vinnuafli. Við þurfum því að ákveða hvort við ætlum að halda áfram að berjast einbeitt og skipulögð fyrir því að fá að semja okkar eigin leikreglur og fyrir því að ákvarðanir verði ekki teknar nema að afkoma og tilvera verka- og láglaunafólks sé alltaf höfð í fyrirrúmi. Það er augljóst að þær leikreglur sem hér hafa fengið að viðgangast eru útbúnar í þeim einum tilgangi að tryggja áframhaldandi yfirráð auðstéttarinnar og þess vegna ber okkur að hafna þeim.“ Sólveig segir að þarna sé t.d hægt að horfa á skattkerfið á Íslandi og þróun þess. Efling hafi háð baráttu fyrir því að skattkerfið yrði sannarlega tæki til endurúthlutunar gæðanna en það sé aðeins mögulegt með því að hafa skattbyrði verulega háa á fjarmagnstekjur og þá sem eiga mest. „Eins og Stefán Ólafsson og fleiri hafa bent á hefur þróunin verið akkúrat öfug, skattbyrðin hefur aukist á láglaunafólk í þeim einum tilgangi að létta henni af hátekjuhópnum og þó munurinn á tekjum fólks sé kannski ekki mikill á Íslandi í alþjóðlegum samanburði þá er eignadreifingin aftur á móti mikil og grafalvarleg. Það er því merkilegur áfangasigur að fá þessa lækkun skattbyrðarinnar upp á 10.000 krónur fyrir lágtekjuhópana og við eigum að fagna því og hrósa okkur fyrir. Við hefðum aldrei náð þessari stefnubreytingu í gegn nema fyrir það að við vorum vakin og sofin að benda á þetta. Þetta var eitt af stóru málunum sem yrði að lagfæra ekki seinna en núna.“ Sólveig segir að það megi ekki gleyma því að verkföllin séu óumdeilanlegur réttur verkafólks til að knýja á um breytingar sökum þess að verkafólk áður hafi fært geigvænlegar fórnir. „Fólk vann óbærilega langan vinnudag, börnin voru notuð sem ódýrt vinnuafl, fólk hafði ekki aðgang að menntun, húsnæði, heilbrigðisþjónustu og bjó við lélegan kost. Það þurfti að þola svívirðingar og skepnuskap atvinnurekenda og yfirvalda en barðist og barðist og gafst aldrei upp. Þessi meðfædda þrá mannkyns að lifa í réttlæti er ódrepanleg, sama hverjir komast til að valda og hvaða tæki og tól eru notuð til að þrýsta fólki niður. Þá er það eðlislæg þrá manneskjunnar að lifa frjáls. Fólk er tilbúið til að færa fórnir ef það sér fyrir sér að takmarkið er betra og réttlátara líf.“ Hún segir að á tímum nýfrjálshyggjunnar hafi getan og leyfið til útópískrar hugsunar verið tekin af fólki. Það hafi átt að láta sig dreyma um þúsundkalla hér og þúsundkalla þar í stað þess að dreyma um grundvallarbreytingar á samfélaginu til að sleppa undan oki þeirra sem fara með völd. „Það er einn merkilegasti árangur nýfrjálshyggjutímans að við lærðum að sætta okkur við að stéttasamvinna væri eina leiðin, að til þess að fá eitthvað þyrftum við að sýna undirgefni og algjöran vilja til stéttasamvinnu. Draumurinn um eitthvað stórt og merkilegt, um raunverulegt frelsi var tekinn í burtu.“ Hún segir skammarlegt að hugsa til að þess að sjálft verkamannabústaðakerfið hafi verið lagt af. Þar var á einu augabragði horfið frá þeirri hugsun að það væri eðlileg krafa að öllum væri tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði. „Ef við setjum húsnæðismálin, sem eru grundvallarmannréttindi, í hendurnar á markaðnum fáum við útkomuna sem við sjáum í dag. Fólk á hrakhólum, þúsundir búa í iðnaðarhúsnæði, þar af fjöldi barna sem hafa ekki einu sinni aðgang að hreinlætisaðstöðu, 900 manneskjur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni, þar af fjöldi einstæðra mæðra í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Vegna þessa glæpsamlega ástands fer risastór hluti ráðstöfunartekna láglaunafólks beint í vasann á einhverjum öðrum. Hér sjáum við grimmd auðvaldssamfélagsins með sem skýrustum hætti. Bara þetta dæmi sem snýr að húsnæðismálum, sýnir að ef við missum þessi grundvallarmál úr höndunum á okkur endum við á hrikalegum stað sem er mjög erfitt að komast af. Ef við leyfum því að gerast að fólk sem hefur sýnt og sannað að hagsmunir vinnuaflsins skipta það engu, að því er alveg sama hvort fólk sé í tveimur vinnum bara til að sjá fyrir sér og börnum sínum, fær áfram að hafa öll völd yfir lífi okkar veit ég ekki hvernig fer fyrir okkur. Þess vegna skiptir öllu máli að verkalýðshreyfingin og vinnuaflið standi föst fyrir. Tími þeirra sem hafa þessar mannfjandsamlegu hugmyndir um samfélag sem einhverskonar gróðastýrt fyrirtæki er liðinn. Við verðum að vera tilbúin til að leggja mjög mikið í sölurnar til að áframhaldandi pólitísk og efnahagsleg forréttindastétt sem hugsar aðeins um hagsmuni þeirra ríku komist ekki upp með að hafa öll völd á landinu.“ Það var mikil baráttugleði í verkföllum Eflingar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars sl. Að lokum berst talið að nýundirrituðum kjarasamningi sem Sólveig kallar vopnahléssamning. „Við náðum mörgu sem við börðumst fyrir í gegn og það sem ríkisvaldið kom með að borðinu að lokum skipti auðvitað miklu máli. Með baráttu okkar knúðum við það fram að stjórnvöld urðu að mæta kröfum okkar að einhverju leyti og viðurkenna að þeim bæri skylda til þess að taka í taumana á húsnæðismarkaði og á fleiri stöðum. Það er að mínu mati mikill pólitískur sigur. En þetta er vopnahléssamningur, við erum vakin og sofin áfram í þessari baráttu.“ „Í aðdraganda 1. maí verðum við að minna okkur sjálf á að á meðan við búum í þessu kerfi þar sem valdaójafnvægi milli fólks er svo augljóst og svo gífurlega mikið, þar sem verkafólk hefur enga lýðræðislega stjórn yfir vinnustöðum sínum, þar sem það verður einfaldlega að vinna til að lifa og hefur í raun bara þetta eina hlutverk; að selja aðgang að vinnuafli sínu og láta sér það nægja sem því er afhent, þá mun kerfið stýra tilveru okkar. Ef við ákveðum ekki sameinuð að við viljum breytingar, þá munum við verða föst í því að heyja alltaf sömu baráttuna, sem snýst um grundvallar mannréttindi, eðlilegan vinnutíma, húsnæði og laun sem duga til að komast af. Þetta er ástæðan fyrir því að 1. maí er ennþá þessi mikli baráttudagur um heim allan. Á meðan andstæðurnar eru svona ótrúlega miklar á milli þeirra sem eiga atvinnutækin og fjármagnið, eiga í raun allt samfélagið og svo þeirra sem tilheyra stétt vinnuaflsins og eru föst í kerfi sem byggir á misskiptingu og arðráni, eigum við engra annarra kosta völ en að halda áfram að berjast.“

Skrifstofan í Hveragerði opin fyrir páska - hægt að kjósa

Skrifstofan í Hveragerði verður opin þriðjudaginn 16. apríl og miðvikudaginn 17. apríl frá kl. 8.15-16.00. Hægt verður að greiða utankjörfundar atkvæði um nýjan kjarasamning við SA á skrifstofunni á þessum tíma.

Undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða – akstur með fólk með fatlanir sjálfkrafa undanþegið

Undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða Eflingar er starfandi. Hún afgreiðir beiðnir um undanþágur frá boðuðum verkfallsaðgerðum. Beiðnir þurfa að vera vel rökstuddar með hliðsjón af neyð, mannúðarsjónarmiðum eða stöðu sérstaklega viðkvæmra hópa. Ákveðið var að allur akstur með fólk með fatlanir verður sjálfkrafa undanþeginn verkfallsaðgerðum. Bílstjórum sem starfa við slíkan akstur er því heimilt að sinna störfum sínum með óbreyttum hætti. Undanþágubeiðnir skulu sendar rafrænt á netfangið 
undanthagunefnd@efling.is og innihalda eftirfarandi upplýsingar: Nafn fyrirtækis, kennitala, heimilisfang og staður. Heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækis. Fjöldi starfsmanna sem sótt er um undanþágu fyrir. Nöfn, kennitölur og starfssvið starfsmanna sem sótt er um undanþágu fyrir. Rökstuðningur fyrir undanþágubeiðni. Það tímabil sem umsóknin á við um. Nafn, sími og netfang tengiliðs fyrirtækis við undanþágunefnd.

Baráttuhugur í félagsmönnum Eflingar

Verkfallsaðgerðir Eflingar og VR hafa gengið vel í dag þrátt fyrir slæmt veður og að töluvert hafi þurft að hafa afskipti af hugsanlegum verkfallsbrotum. Hótelstarfsfólk gekk á milli hótela og safnaðist saman í kröfustöður til að sýna samstöðu og vekja athygli á kröfum sínum um virðingu, réttindi og betri kjör. Auk þess tók hópur sér stöðu fyrir framan Hús atvinnulífsins að Borgartúni 35. Þessi hópur lét ekki vonskuveður á sig fá, stóðu vaktina og báru kröfuspjöld sín með stolti.    Í Vinabæ fjölmenntu rútubílstjórar á samstöðufund. Mikill baráttuhugur var í mönnum, fluttar voru eldheitar hvatningaræður og rútubílstjórar ræddu sín málefni, baráttu og framtíð. Á
visir.is má nálgast upptökur af ræðum Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, Guðmundar Baldurssonar í stjórn Eflingar og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.  

Skattframtalið – skráning er hafin í aðstoð við gerð skattframtala

Efling-stéttarfélag mun í ár sem fyrr bjóða félagsmönnum uppá aðstoð við gerð skattframtala. Félagsmenn geta pantað tíma í síma 510 7500. Gert er ráð fyrir einföldum framtölum, en ef um flóknari framtöl er að ræða svo sem um kaup og sölu eigna þarf að tilgreina það sérstaklega. Aðstoðin við skattframtölin miðast við félagsmenn og maka þeirra. Geta skal fjölda skattframtala þegar tími er pantaður. Nauðsynlegt er að hafa veflykil meðferðis í viðtalið. Aðstoðin verður veitt laugardaginn 9. mars og  sunnudaginn 10. mars ef þörf er á. Félagsmenn eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu félagsins og bóka sig sem fyrst. Það er lögmaður Eflingar, Karl Ó. Karlsson hjá LAG lögmönnum, sem hefur umsjón með aðstoðinni við skattframtölin. Á skrifstofu Eflingar má fá allar nánari upplýsingar um viðtalstíma og gögn sem hafa þarf meðferðis í viðtalið.

Sanngjörn dreifing skattbyrðar - umbótaáætlun í skattamálum

Í morgun var kynnt á fundi skýrslan Sanngjörn dreifing skattbyrðar sem Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson skrifuðu að beiðni Eflingar – stéttarfélags. Láglaunafólk og lífeyrisþegar geta fengið að minnsta kosti um 20 þúsund króna lækkun staðgreiðslu á mánuði samkvæmt tillögum í nýrri skýrslu eftir Stefán Ólafsson og Indriða H. Þorláksson. Þær útfærslur sem kynntar eru í skýrslunni myndu að auki jafna ráðstöfunartekjur milli kynjanna, bæta hag ellilífeyrisþega, öryrkja og ungs fólks á vinnumarkaði. Samkvæmt tillögunum fengju um 90% framteljenda skattalækkun, lítil breyting yrði á skattbyrði næstu 5 prósentanna, en tekjuhæstu 5 prósentin fengju hækkaða skattbyrði. Sýndar eru margar leiðir til að fjármagna slíkar breytingar, bæði með því að nýta núverandi svigrúm í ríkisfjármálunum og með brýnum umbótum á skattheimtu og efldu eftirliti með skattaundanskotum og skattvikum. Nálgast má skýrsluna
HÉR Nálgast má kynningarglærur HÉR

Viðtalstími lögmanna fellur niður 15. janúar

Viðtalstími lögmanna fellur niður þriðjudaginn 15. janúar nk. á skrifstofu Eflingar. Lögmenn Eflingar verða næst með viðtalstíma þriðjudaginn 22. janúar nk. en þeir eru til viðtals á skrifstofu félagsins á þriðjudögum milli kl. 13 og 16. Ekki þarf að panta tíma fyrirfram heldur nægir að mæta á skrifstofuna á þessum tíma. Alltaf er hægt að tala við kjaramálafulltrúa Eflingar á skrifstofu tíma kl.8.15 -16.00.

Dagbók Eflingar 2019 fáanleg á skrifstofu félagsins

Dagbók Eflingar-stéttarfélags fyrir árið 2019 er nú komin út og er hægt að nálgast hana á skrifstofu Eflingar, einnig er hægt að fá bókina senda til sín en hún verður ekki send til félagsmanna eins og vaninn hefur verið. Hægt er að hafa samband við skrifstofu Eflingar í s. 510 7500 eða á efling@efling.is til að fá bókina senda til sín. Í dagbókinni er fjallað um öll helstu mál sem snerta félagsmenn, réttindi og skyldur launafólks þannig að reynt er að miða við að bókin geti nýst launafólki á vinnustöðum til að gefa fyrstu upplýsingar. Í henni er að finna helstu upplýsingar um Eflingu, sjóði félagsins og annað gagnlegt.  

Málþing um styttingu vinnuvikunnar

Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, efnir til málþings um styttingu vinnuvikunnar í Hörpu laugardaginn 12. janúar kl 13-16. Markmiðið er að þroska enn frekar umræðuna um styttingu vinnuvikunnar og auka skilning á þeim möguleikum sem hún hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag. Efnt er til málþingsins með stuðningi ASÍ, BRSB, BHM og Eflingar stéttarfélags. Fundarstjóri er Katrín Oddsdóttir. Dagskrá: – Björn Þorsteinsson prófessor opnar málþingið fyrir hönd stjórnar Öldu. – Aidan Harper, New Economics Foundation: Skemmri vinnuvika og lífsgæði, áhrif á náttúruna og samfélagið. Tengsl við aukna framleiðni. – Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB: Styttri vinnuvika – Eftir hverju erum við að bíða? Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og ríkisins. – Ragnar Þór Ingólfsson, VR. Stytting vinnuvikunnar, nýr fókus. – Kaffihlé kl. 14:20 – Ragnheiður Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar: Reynslusaga um styttingu vinnudagsins. – Guðmundur D. Haraldsson, Öldu: Vinnustundir á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, svolítið um Eflingarskýrsluna – Pallborðsumræður. Guðmundur D. Haraldsson. Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis. Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar Alþingis.

Jólakveðja Eflingar

Efling-stéttarfélag óskar félagsmönnum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Afgreiðslutíma félagsins um jólin má sjá
hér. 

Efling, VR og VLFA vísa kjaraviðræðum til Ríkissáttasemjara

Yfirlýsing vegna vísunar kjaraviðræðna til ríkissáttasemjara Formenn VR, VLFA og Eflingar á fundi fyrr á árinu. Lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði eru 300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Húsnæðiskreppa og tilfærsla skattbyrði frá þeim ríku yfir á þá efnaminni gerir það að verkum að ekki er hægt að lifa af þessum launum. Efnahagsuppsveifla síðustu ára hefur ekki skilað láglaunafólki ábata og er löngu tímabært að snúa við þeirri öfugþróun. Stéttarfélög verslunarfólks og almenns launafólks standa sameinuð í þeirri kröfu að dagvinnulaun dugi fyrir mannsæmandi lífi. Krafa okkar er um krónutöluhækkanir sem leiði til sanngjarnari skiptingar kökunnar, ekki um prósentuhækkanir og launaskrið. Samtök atvinnulífsins hafa svarað kröfum okkar með gagnkröfu um uppstokkun á vinnutíma og breytingum á grundvallarréttindum launafólks – réttindum sem náðust með áralangri baráttu vinnandi fólks. Tólf tíma vinnudagur var raunveruleiki hér á landi á árum áður. Slíkt verður aldrei liðið aftur á íslenskum vinnumarkaði. Skilgreiningar á vinnutíma eru ávinningur af kjarabaráttu síðustu alda sem aldrei verður fórnað fyrir nafnlaunahækkanir sem geta brunnið upp í verðbólgu. Við höfum gert kröfu um róttækar breytingar á núverandi kerfi, sanngjarnar launaleiðréttingar og boðlegt líf en fáum lítil sem engin svör. Þeir sem vilja tryggja sanngirni og réttlæti á vinnumarkaði eru sakaðir um ábyrgðarleysi og jafnvel öfgar. Eini kosturinn sem boðinn er vinnandi fólki er kyrrstöðusamningar. Enn og aftur er til þess ætlast að láglaunafólk á Íslandi sitji eftir á meðan þeir launahæstu skammta sjálfum sér tugprósenta launahækkanir án þess að blikna. Verkalýðshreyfingin stendur sterk og mun berjast til að ná fram kröfum fólksins um mannsæmandi líf. Við undirrituð teljum að sögulegt tækifæri sé fólgið í breiðri samstöðu stéttarfélaga almenns verkafólks og verslunarfólks um krónutöluhækkanir og hækkun lægstu launa. Við undirrituð teljum að viðræður síðustu vikna við Samtök atvinnulífsins hafi verið árangurslausar. Við teljum afstöðu stjórnvalda skýra vísbendingu um að þau hyggist ekkert gera til að liðka fyrir viðræðum. Við höfum því tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum þeirra stéttarfélaga sem við veitum forystu við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA

Samninganefnd afturkallar umboð til SGS

Fundur var haldinn í samninganefnd Eflingar – stéttarfélags fimmtudagskvöldið 20. desember. Á fundinn var vel mætt úr fjölmennri samninganefnd Eflingar. Rætt var ítarlega um stöðu samstarfsins milli Eflingar og annarra aðildarfélaga SGS innan sameiginlegrar samninganefndar og viðræðunefndar þar sem formaður Eflingar hefur átt sæti. Er þetta í fyrsta sinn í sögu Eflingar sem félagið hefur framselt samningsumboð sitt til SGS í kjaraviðræðum. Fram kom að nokkur áherslumunur er milli Eflingar og sumra annara aðildarfélaga SGS, sérstaklega hvað varðar áhuga á samstarfi við félög verslunarmanna og hvort tímabært sé að vísa viðræðum til Ríkissáttasemjara. Minnt var á að Efling veitti SGS samningsumboð sitt með skýrum fyrirvara um að gengið yrði til samstarfs við félög verslunarmanna. Rætt var um þýðingu þess að afturkalla umboðið frá SGS fyrir ýmsa þætti kjaraviðræðna og mögulegra aðgerða. Að loknum umræðum voru bókanir eftirfarandi efnis bornar undir atkvæði og allar samþykktar ýmist einróma eða með miklum meirihluta atkvæða: Samningsumboð Eflingar verði dregið til baka frá Starfsgreinasambandinu. Leitað verði áfram eftir breiðri samvinnu og samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðum. Formanni var veitt heimild til að leiða viðræður fyrir hönd Eflingar fram að næsta fundi samninganefndar og til að vísa kjaraviðræðum til Ríkissáttasemjara, komi til þess. Samninganefnd kemur næst saman á nýju ári.

Baráttan fyrir betra lífi - leiðari formanns í 6.tbl. Eflingar

Nokkrar staðreyndir úr íslenskum raunveruleika: – 40% félagsmanna Eflingar eru í leiguhúsnæði og fjölgar í þeim hópi á milli ára. – Samkvæmt nýrri könnun Íbúðalánasjóðs er ástæða þess að fólk leigir en býr ekki í eigin húsnæði sú að fólk hefur einfaldlega ekki efni á að eignast eigið húsnæði. Jafnframt kemur fram að þeir leigjendur sem hafa lægstu tekjurnar hafa flutt oftast. – Lækkun íslenska ríkisins á vaxta- og leigubótum frá 2011 til 2016 nam 17,8 milljörðum króna. – Frá 2017 til 2018 lækkuðu útgjöld til þessara bótaflokka ennþá meira. – Rúmlega helmingur lágmarkslauna, eða 51%, er nú skattlagður að fullu. – Fjármagnstekjuskattur á Íslandi er 22%. – Samkvæmt forsætisráðherra Íslands hefur umræða um hátekjuskatt ekki hafist við ríkisstjórnarborðið. – Árið 2016 hækkuðu laun þingmanna um 44,3 %. – Bankastjóri Landsbankans hækkaði í launum um 61 % á milli 2015 og 2017. – Þau sem tilheyra ríkasta 5% samborgara okkar slógu 20 ára gamalt met í fyrra þegar þau á einu ári juku eigur sínar um ríflega 270 milljarða króna og eiga nú samtals tæpar 2.000 milljarða króna. – Ójöfnuður tekjuskiptingar á Íslandi eykst; hlutdeild ríkasta 1% samborgara okkar er nú 9,4 %. – Íslensk auðstétt veikir krónuna markvisst með því að flytja svokallaðan sparnað úr íslenskri krónu í erlenda gjaldmiðla. – Meðalheildarlaun kvenna sem eru félagsmenn í Eflingu voru í ágúst 412.000 krónur á mánuði fyrir fullt starf. Þá áttu þær eftir að standa skil á sköttum og gjöldum. – Vinnutími félagsfólks Eflingar hefur lengst um tæpa klukkustund á viku. – Um helmingur félaga í Eflingu hefur miklar áhyggjur af eigin fjárhagsstöðu. Nokkrar staðreyndir í viðbót: – Barátta alþýðufólks hefur alltaf verið barátta fyrir efnahagslegu réttlæti. Kjarni baráttunnar hefur ávallt verið og er enn mjög einfaldur: Að vinnuaflið geti lifað mannsæmandi og góðu lífi og hafi völd í samfélaginu. – Barátta verkafólks átti aldrei að einskorðast við það að sitja við samningsborð og ræða um launaprósentur; verkalýðshreyfingin er stofnuð til að berjast fyrir stórkostlegum samfélagslegum breytingum. Verkalýðsbarátta var í hugum þeirra sem stofnuðu hreyfinguna alhliða barátta fyrir lífskjörum alþýðunnar. – Og baráttan er sú sama í dag. Við berjumst fyrir öruggu og góðu húsnæði á eðlilegum kjörum. Við berjumst fyrir ókeypis heilbrigðiskerfi. Við berjumst fyrir jafnrétti á milli karla og kvenna, þeirra sem fæðast hér og þeirra sem hingað flytja. Við berjumst fyrir skólakerfi sem byggir á hugsjóninni um að öll börn eigi rétt á að vera mætt með skilningi og gæsku. Við berjumst fyrir því að gamalt fólk geti notið tilverunnar. Við berjumst fyrir samfélagi þar sem öryrkjar fá að lifa með reisn, frjáls undan bugandi áhyggjum af fjárhag og afkomu. Við berjumst fyrir samfélagi þar sem þarfir fólks, ekki fjármagns, eru ávallt í fyrirrúmi. Þess vegna er verkalýðsbaráttan há-pólitísk barátta. Þess vegna beinir hún kröfum sínum ekki aðeins til eigenda atvinnutækjanna og fjármagnsins heldur einnig og af sömu alvöru til stjórnvalda. Með markvissri baráttu og kröfum til þeirra sem ber skylda til að hlusta á okkur getum við skapað betra líf fyrir okkur öll og skapað réttlátt samfélag. Það eina sem þarf er trúin á samvinnu og samstöðu. Það kennir saga verka- og láglaunafólks okkur. Það er staðreynd.  Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar-stéttarfélags

Kjarakönnun Eflingar – niðurstöður kynntar

Ný launakönnun:  Hækkun heildarlauna er dræm, fjárhagsáhyggjur aukast og yfirgnæfandi samstaða ríkir um áherslu á hækkun lægstu launa í kjarasamningum. Einn af hverjum fjórum félaga Eflingar búa í leiguhúsnæði.
Smellið hér til að nálgast alla skýrsluna Gallup framkvæmir launakönnun fyrir Eflingu stéttarfélag á ári hverju og veitir mikilvægar upplýsingar um kjör félaga. Könnunin er framkvæmd í september þar sem spurt er út í laun svarenda fyrir ágústmánuð. Niðurstöðurnar hafa mikla þýðingu fyrir stefnumótun félagsins þar sem að þær endurspegla kjör félagmanna og viðhorf til mikilvægra mála sem snerta starf þess. Þessar upplýsingar eru sérlega mikilvægar í aðdraganda kjarasamninga. Yfirgnæfandi hluti félaga, eða 93,5%, er sammála því að leggja sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa í komandi kjaraviðræðum. Stuðningur við þá áherslu er heldur meiri nú en fyrir síðustu kjarasamninga þar sem 66% eru henni nú algerlega sammála miðað við 58% árið 2014. Í samræmi við þessi viðhorf vilja 81% félaga að samið sé um krónutöluhækkanir í komandi viðræðum og þ.a.l. hlutfallslega meiri hækkanir til handa láglaunafólki. Könnunin í ár sýnir fram á þónokkra kjararýrnun meðal félaga í Eflingu miðað við fyrri ár. Verulega dregur úr hækkun heildarlauna en hún er 2% á milli ára að meðaltali, miðað við 10% árið áður. Á sama tíma lengist vinnutíminn um tæplega eina klukkustund á viku og vinnur félagsfólk nú að meðaltali 46,8 klukkustundir á viku miðað við fullt starf. Fjárhagsáhyggjur aukast og hefur tæpur helmingur félaga miklar áhyggjur af eigin fjárhagsstöðu.  Þriðjungur félaga hefur leitað sér fjárhagsaðstoðar af einhverju tagi á síðastliðnum 12 mánuðum. Meðalheildarlaun karla eru um 523 þúsund krónur fyrir ágúst á þessu ári en talsvert lægri hjá konum, eða um 412 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf. Leiðbeinendur á leikskólum og frístundaheimilum eru, líkt og í fyrra, með lægstu heildarlaunin eða 358 þúsund krónur á mánuði að meðaltali en sá hópur upplifir jafnframt mest álag í starfi. Skrifstofufólk, stjórnendur og sérfræðingar auk bílstjóra eru með hæst launin meðal Eflingarfólks eða um 573 þúsund krónur að meðaltali. Húsnæðismál eru stór þáttur kjaraviðræðna sem nú eru að hefjast, einkum gagnvart Ríki. Á eftir beinum launahækkunum og hækkun persónuafsláttar eru húsnæðismál sá málaflokkur sem félagar telja mikilvæg. Slæmt ástand í húsnæðismálum kemur ekki síst illa við félaga Eflingar. Hlutfall félagsfólks sem að býr í eigin húsnæði minnkar frá því í fyrra úr 44% í rétt rúm 40%. Að sama skapi hækkar hlutfall leigjenda, úr 33% á síðasta ári í 40% 2018. Hækkun heildarlauna Eflingarfólks heldur ekki í við verðbólgu Þegar horft er til heildarlauna er hækkun frá ári til árs lítil eða 2% að meðaltali á meðan að almenn hækkun heildarlauna á samsvarandi tíma var 5% skv. tölum Hagstofu Íslands. Þannig fór meðaltal heildarlauna úr 470 þúsund kr á mánuði í 479 þúsund. Þessi takmarkaða hækkun heldur vart í við verðbólgu á tímanum sem var 2,2%. Þegar er horft til dagvinnulauna þá er hækkunin meiri eða 5,2% og fer úr 375 þúsund kr á mánuði í 394 þúsund í meðaltekjur og þar vegur 3% kjarasamningsbundin hækkun frá 1. maí 2018 þungt. Af þessu tölum er ljóst að félagar í Eflingu hafa dregist aftur úr öðrum hópum hvað varðar launahækkanir.  Óánægja með laun er talsverð og hefur farið vaxandi frá árinu 2016 en tæpur helmingur svarenda er óánægður með laun sín og einungis 22% eru sáttir við launin.  Ekki kemur á óvart að óánægjan helst í hendur við launastigann en 70% þeirra sem að hafa mánaðarlaun undir 350 þúsund krónur eru ósáttir við launin.  Að meðaltali telja félagar að hækka þurfi heildarlaun um 80 þúsund krónur á mánuði. Lægstu launin hjá leiðbeinendum Af einstaka starfsstéttum eru leiðbeinendur á leikskólum og frístundaheimilum með lægstu dagvinnu- og heildarlaunin að meðaltali fyrir fullt starf eða 353.000 kr í dagvinnu og 363.000 kr í heildarlaun.  Leiðbeinendur á leikskólum eru jafnframt lang ósáttastir með laun sín þar sem 8 af hverjum 10 eru mjög eða frekar ósáttir á meðan rétt undir 5 af hverjum 10 félaga í Eflingu segjast vera mjög eða frekar ósáttir með laun sín. Skrifstofufólk, stjórnendur og sérfræðingar auk bílstjóra eru með hæstu heildarlaunin eða um 573.000 kr. á mánuði að meðaltali. Vinnutíminn lengist að meðaltali Heildarvinnutími félagsmanna í fullu starfi er 46,8 klst. að meðaltali og hefur lengst um tæpa klukkustund milli ára. Karlar í fullu starfi vinna 5 klst lengur en konur á viku, að meðaltali 48,6 klst á viku. Vinnutíminn er lengstur hjá bílstjórum eða 54,2 klst að meðaltali. Leiðbeinendur á leikskólum og frístundaheimilum vinna aftur á móti stysta vinnuviku eða 40,6 klst að meðaltali í fullu starfi. Hlutfall litháísku- og pólskumælandi í leiguhúsnæði mun hærra Um 40% félagsmanna Eflingar búa í eigin húsnæði og önnur 40% í leiguhúsnæði. 16% búa í foreldrahúsum og eru þeir langflestir yngri en 24 ára. Eftir standa 4% sem er í annars konar búsetu. Hlutfall leigjenda er hæst á meðal þeirra sem eru á aldrinum 25 til 45 ára eða um og yfir helmingur þeirra félaga.  Jafnframt er hlutfall þeirra sem svara könnuninni á erlendu tungumáli miklu hærra eða 68% þeirra sem svara á pólsku og 79% á meðal þeirra sem svara á litháísku. Áhyggjur af fjárhagsstöðu aukast hjá flestum hópum Versnandi staða lægstu tekjuhópanna kemur berlega fram í svörum við spurningu um fjárhagsáhyggjur þar sem hlutfall þeirra sem hafa „miklar áhyggjur“ af fjárhagsstöðu sinni eykst mikið eða úr 35% í 47% frá því í fyrra. Núverandi hlutfall er á svipuðu róli og árið 2014, fyrir síðustu kjarasamninga. Áhyggjurnar eru mestar meðal þeirra sem lægst hafa launin, þriðjungur félaga hefur leitað fjárhagsaðstoðar og 22% félaga hafa lent í erfiðleikum við að standa skil á afborgunum lána á síðustu 12 mánuðum. Um könnunina Markmiðið var að kanna kjör og viðhorf félagsmanna Eflingar. Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir Eflingu – stéttarfélag í september og október 2018. Síma og netkönnum meðal félagsmanna með íslenskum, pólskum og enskumælandi spyrlum Úrtak 2932 einstaklinga en svarendur alls 1016 og svarhlutfall 34,7% Smellið hér til að nálgast alla skýrsluna

Gerðubergsfundur Eflingar: Kjarakönnun Eflingar – niðurstöður kynntar

Laugardaginn 1. desember boðar Efling – stéttarfélag til opins fundar um niðurstöður kjarakönnunar félagsins. Það er Gallup sem vinnur könnunina líkt og undanfarin ár en hún er viðamikil og veitir dýrmætar upplýsingar um viðhorf og aðstæður félagsmanna í Eflingu. Fjallað er um Dagskrá fundarins hefst með því að Tómas Bjarnason frá Gallup kynnir helstu niðurstöður könnunarinnar. Að því búnu mun Sara Öldudóttir sérfræðingur hjá Eflingu fjalla um tengslin milli könnunarinnar og kröfugerðarinnar sem Efling hefur lagt fram ásamt öðrum aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Að venju er gætt að því að spyrja sömu spurninga og á fyrri árum til að auðvelda samanburð og greina þróun milli ára, en þó er einnig boðið upp á nýjar spurningar. Í ár verður spurt hvort félagsmenn séu hlynntir eða andvígir því að afnema verðtryggingu á húsnæðislánum auk þess sem farið er í fleiri hliðar skuldsetningar. Í takt við áherslu forystu Eflingar á jöfnuð er einnig spurt hvort félagsmenn séu hlynntir því að jafna tekjur meira í íslensku samfélagi og hvaða leiðir félagsmenn telji árangursríkastar til þess. Þá endurspegla nýjar spurningar um lífeyrissjóðakerfið þær kröfur um endurskoðun kerfisins sem æ fleiri raddir hafa tekið undir á síðustu misserum. Þannig er spurt hvort félagsmenn beri traust til kerfisins og hvort þeir telji það verða létt eða erfitt að ná endum saman með lífeyrisgreiðslum þegar þeir fara á lífeyri. Fundurinn hefst stundvíslega klukkan 14:30 og verður honum streymt í gegnum Facebook-síðu Eflingar. Boðið verður upp á köku og kaffi að lokinni dagskrá. Textatúlkun á ensku verður á skjá. Hægt er að skrá börn í ókeypis barnapössun á vef Eflingar hér:   Fundur í Gerðubergi - skráning Nafn * Netfang * Sími * Þín spurning Endilega láttu okkur vita fyrirfram ef þú vilt spyrja spurningar á fundinum. Þannig getum við leyft sem flestum að komast að. Fjöldi gesta 1 2 3 4 5 6 Barnapössun Já Pössun með starfsmanni í boði fyrir börn á aldrinum 4 - 9 ára m.v. fæðingarár. Foreldri eða ábyrgðarmaður þarf að vera í húsi. Börnin verða í bókasafninu í Gerðubergi. Börn Nafn Fæðingarár
Bæta við Fjarlægja Sérþarfir barna Skrá mig If you are human, leave this field blank.

Gerðubergsfundur Eflingar: Kjör láglauna kvenna eru óásættanleg!

Kjör láglaunakvenna: Óásættanlegur raunveruleiki Efling – stéttarfélag boðar til fundar í Gerðubergi þann 24. nóvember næstkomandi með Hörpu Njáls félagsfræðingi. Harpa er þekkt fyrir rannsóknir sínar á fátækt og aðstæðum láglaunafólks á Íslandi. Á fundinum mun Harpa flytja erindi um óviðunandi kjör láglaunakvenna af íslenskum og erlendum uppruna, sem hlið við hlið vinna einhver vanmetnustu störf samfélagsins. Mun Harpa þar koma inn á þá launastefnu sem rekin hefur verið hjá hinu opinbera, ríki og borg, sem valdið hefur eilífðarbaráttu, skorti og fátækt. Spurt verður: Hvað veldur láglaunastefnu gagnvart þessum hópi til fjölda ára? Stuttar pallborðsumræður verða að loknum fundinum, en í pallborði ásamt Hörpu sitja Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands og Kolbrún Valvesdóttir stjórnarmaður í Eflingu og starfskona í aðhlynningu. Fundi stýrir Guðrún Elín Pálsdóttir formaður Verkalýðsfélags Suðurlands. Boðið er upp á ókeypis barnagæslu á bókasafninu í Gerðubergi gegn fyrirfram skráningu á vef Eflingar. Boðið verður upp á kaffi og köku að fundi loknum. Fundinum verður streymt í gegnum Facebook síðu Eflingar. Boðið verður upp á textatúlkun á ensku á skjá.  

Trúnaðarráð Eflingar - auglýst eftir tilnefningum

(English below) Auglýst eftir tilnefningum til Trúnaðarráðs Eflingar Uppstillingarnefnd Eflingar, sem starfar samkvæmt 22. grein laga félagsins, kallar eftir tilnefningum til setu á lista til Trúnaðarráðs. Allir fullgildir félagsmenn geta tilnefnt sjálfan sig eða annan fullgildan félagsmann. Uppstillingarnefnd metur hæfi þeirra sem tilnefndir eru og horfir auk þess til þess að Trúnaðarráð endurspegli félagsmenn með tilliti til uppruna, kyns, starfsgreina, aldurs og annarra þátta. Komi ekki fram annað framboð til Trúnaðarráðs er listi Uppstillingarnefndar sjálfkjörinn. Samkvæmt 15. grein laga félagsins er Trúnaðarráð kosið til tveggja ára í senn. Í því sitja 115 manns auk stjórnar Eflingar. Tekur nýtt Trúnaðarráð við þann 1. janúar 2019. Trúnaðarráð er æðsta vald í málefnum Eflingar milli félagsfunda. Trúnaðarráð fundar að jafnaði einu sinni í mánuði á tímabilinu 1. október til 1. maí. Trúnaðarráð er mikilvægur þátttakandi í að móta stefnu félagsins og seta í því er þýðingarmikið trúnaðarstarf. Tilnefningum skal skilað til Félagssviðs Eflingar á netfangið
felagssvid@efling.is merkt „Trúnaðarráð – tilnefning“ eða í gegnum síma 510-7500. Tilnefningar skulu berast eigi síðar en mánudaginn 26. nóvember.   Call for Nominations to Trúnaðarráð The nominations committee of Efling, as per article 22 of the laws of Efling, calls for nominations to a proposed list for Trúnaðarráð. All valid members of Efling are eligible to nominate themselves or another valid member. The nominations committee will evaluate nominees and will also seek to let Trúnaðarráð represent the Efling membership with respect to origin, gender, industry, age and other factors. If no other list is proposed, the list put forth by the nominations committee will be elected automatically to Trúnaðarráð. According to article 15 of the Efling laws, Trúnaðarráð has a two-year mandate. It is composed of 115 union members plus the board of Efling. A new Trúnaðarráð will begin its term on January 1 2019. Trúnaðarráð is Efling’s highest authority between member meetings. Trúnaðarráð meets approximately once a month during the period October 1 to May 1. Trúnaðarráð is an important contributor to deciding Efling policy and membership of Trúnaðarráð is a considerable responsibility. Nominations shall be submitted to the Organizing Division of Efling via email to felagssvid@efling.is titled “Trúnaðarráð – nomination” or by phone to 510-7500. Nominations shall be submitted no later than Monday November 26.

Launahækkanir samkvæmt kröfugerð Starfsgreinasambandsins

Frá Eflingu – stéttarfélagi Forsenda kröfugerðar Starfsgreinasambandsins (SGS) er sú, að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum. Markmiðið er að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslukostnaði einstaklings samkvæmt framfærsluviðmiðum stjórnvalda (að viðbættum lágmarks húsnæðiskostnaði). Þessu markmiði má ná með skattalækkun, hækkun bóta og hækkun launa, í mismunandi samsetningum. Starfsgreinasambandið setur fram kröfu um að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans (3 ár). Hið sama gerir VR. Ef hækkunin dreifist jafnt á þrjú ár þá er þetta hækkun um 42.000 krónur á ári. Ef hækkunin verður flöt upp launastigann, sú sama í krónutölu fyrir alla, þá yrði prósentuhækkun launa fallandi. Á myndinni hér að neðan er sýnd prósentuhækkun á ári eftir stighækkandi grunnlaunum, sem flöt hækkun um 42.000 kr. skilar, á verðlagi ársins 2018. Lágmarkslaun myndu hækka um 14% á ári en allra hæstu laun myndu hækka um 1%. Meðallaunahækkun reglulegra launa (skv. skilgreiningu Hagstofu Íslands) yrði 6,5% á ári og miðlaun myndu hækka um 7,7%. Helmingur launafólks er með lægri laun en miðlaun og helmingur hærri. Ekki er tekið tillit til hugsanlegra breytinga á vinnutíma, skatta- og bótakerfum, eða öðrum starfstengdum skilyrðum.

Gerðubergsfundur Eflingar: Verkalýðsbarátta í tengihagkerfinu: Verktakar sameinist! 

Verkalýðsbarátta í tengihagkerfinu- Lærum af reynslu Uber bílstjóra í London Laugardaginn 10 nóvember stendur Efling stéttarfélag fyrir fundi um erfiðleikana sem verktakar, undirverktakar og lausavinnufólk mætir í tengihagkerfinu. Gabrielle Jeliazkov sem er með mikla reynslu af verkalýðsbaráttu bílstjóra  og veitingahúsastarfsmanna á Bretlandi mun varpa ljósi á þau vandamál sem upp koma og hvernig má leysa þau. Bílstjórar sem unnu fyrir Ubereats og Deliveroo í London eru ráðnir sem undirverktakar, sem þýðir að þeir eru utan laga stéttarfélaga í Bretlandi og hafa ekki rétt á bótum, stéttarfélagsgreiðslum eða öðrum réttindum sem hefðbundnir launþegar hafa.  Alþjóðaleg samtök iðnverkamanna (Industrial Workers of the world couriers network) voru stofnuð til að samræma verkfallsaðgerðir í kjölfar mikilla mótmæla og verkfalla sem efnt var til vegna lækkunar á greiðslum til sendla hjá Ubereats og Deliveroo. Í Bretlandi rétt eins og á Íslandi er nauðsynlegt að þróa og uppfæra aðgerðaráætlun sem taka á þeim vandamálum sem upp koma vegna verktakasamninga og samninga lausavinnufólks. Þar sem bílstjórum er þröngvað í ótryggar vinnuaðstæður, þá virka verkföllin sem lærdómsleið til að ræða úrræði/aðgerðir vegna fyrirtækja með óskráða verkamenn, samningaviðræðna við alþjóðleg fyrirtæki, og verkfalla/samstöðu á milli atvinnugreina. Gabrielle mun gefa kynningu á þessum málefnum og ræða reynslu sína og svo verður opnað fyrir spurningar úr sal. Fundurinn hefst 14:30 í Gerðubergi og lýkur eigi síðar en klukkan 16:00 Boðið verður upp á köku og kaffi í lok fundar og að venju er boðið upp á ókeypis barnapössun í bóksasafninu í Gerðubergi gegn skráningu á vef Eflingar. Streymt verður af fundinum á Facebook síðu Eflingar.

Húsnæði fyrir suma? Aðgerða er þörf!

Sara Öldudóttir, sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi skrifar Íbúðalánasjóður og Velferðarráðuneytið efndu til húsnæðisþings sem haldið var á Hótel Nordica þriðjudaginn 30. október. Lögfesting þess sem árlegs viðburðar og nýtilkomin stefnumörkun og áætlanagerð í húsnæðismálum bendir til þess að stjórnvöld séu að vakna til vitundar um málaflokkinn. Því miður þurfti til þess vondan draum — martröð tekjulágra og viðkvæmra hópa á íslenskum húsnæðis- og leigumarkaði. Í titli þingsins þótti ástæða til að undirstrika sérstaklega að húsnæði eigi að vera “fyrir alla”. Eins og Ólafía Hrönn Jónsdóttir benti á í erindi sínu er titilinn afhjúpandi fyrir núverandi ófremdarástand þar sem húsnæði er aðeins “fyrir suma”! Ofan í skerðingar á barna- og húsnæðisbótum og rýrnun persónuafsláttar síðustu ár hafa aðstæður á húsnæðismarkaði haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir kjör almennings. Tekjulágir sitja fastir í óöryggi tímabundinna leigusamninga og hömlulausra hækkana á leiguverði. Fjórðungur barnafjölskyldna í leiguhúsnæði á von á því að missa húsnæði sitt á næstunni.  Sparnaður er fjarlægur draumur fyrir marga og nálarauga greiðslumatsins er svo enn önnur hindrunin fyrir fólk sem jafnvel hefur staðið skil á himinháum leiguupphæðum um árabil. Staða erlends fólks á húsnæðismarkaði er sérstaklega veik og gera þarf átak í að tryggja aðbúnað farandverkafólks sem hingað kemur. Kaldhæðnislegt er að farandverkafólk, sem er sérlega illa statt í húsnæðismálum, kemur oftar en ekki hingað til lands til þess að vinna við að reisa öðrum húsnæði. Ábyrgð hins opinbera mikil Flestir eru sammála um að nú er brýn þörf á því að veita ungu fólki aukna aðstoð við kaup á fyrstu eign. Þó er einnig ljóst að hluti fólks vill frekar leigja en kaupa húsnæði og aðgengi að leiguhúsnæði er nauðsynlegt erlendu verkafólki sem að dvelur tímabundið á landinu. Það þarf að hætta að nálgast leigumarkað sem afgangsstærð í húsnæðismálum og tryggja lagaleg réttindi leigjenda til framtíðar. Sú greiningarvinna sem nú fer fram hjá Íbúðarlánasjóði er mikilvægur grundvöllur að því að snúa við óheillaþróuninni í húsnæðismálum. Bæta þarf verulega í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, umfram það sem samið var um í tengslum við síðustu kjarasamninga. Samhæfðra aðgerða er þörf á öllum stigum húsnæðiskerfisins með aðkomu ríkisvalds, sveitarfélaga, lífeyrissjóða auk aðila vinnumarkaðarins. Það sjónarmið endurspeglaðist í erindum þeirra sem komu fram á húsnæðisþingi. Kröfugerðir almenns verkafólks og verslunarmanna vegna komandi kjarasamninga kveða á um nákvæmlega það. Ísland á nú Norðurlandamet í hlutfalli fólks á lágum launum sem er að sligast undan húsnæðiskostnaði. Það er búið að þinga um málið – nú er komið að aðgerðunum!  

Yfirlýsing frá fjórum formönnum stéttarfélaga vegna vinnubragða Sjómannafélags Íslands

Undirritaðir formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness fordæma ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarmannaráðs Sjómannafélags Íslands og brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu. Stéttarfélög eru og eiga að vera skv. lögum nr. 80/1938, opin öllum sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum sínum við atvinnurekendur. Þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Sjómannafélags Íslands þar sem sérstaklega er fjallað dagpeninga og styrki til félagsmanna, orlofskosti þeirra og aðgang að lögfræðiþjónustu svo fáein dæmi séu tekin. Stéttarfélagi er undir engum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum. Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa i félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar. Alvarleg brot félagsmanna gegn félaginu eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess geta í alvarlegustu undantekningar tilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins. Leiða má af því líkur að skoðanir Heiðveigar á starfsemi Sjómannafélags Íslands og ákvörðun hennar um gefa kost á sér til formanns í félaginu sé ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum af hálfu trúnaðarmannaráðs félagsins. Í því efni hefur hún einungis nýtt sér félagsbundin réttindi sín og stjórnarskrárvarið málfrelsi sem augljóslega hefur komið við kaunin á forystu félagsins. Þess vegna er mikilvægt að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við samþykkt félagsins og mótmæli henni harðlega. Verði þessi gjörningur ekki afturkallaður er Sjómannafélag Íslands að skrifa nýjan kafla í sögu verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er sómi af. Formenn VR, Eflingar stéttarfélags, Framsýnar stéttarfélags og Verkalýðsfélags Akraness skora því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur þegar í stað. Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag Sólveig Anna Jónsdóttir, Efling stéttarfélag Vilhjálmur Birgisson, Verkalýðsfélag Akraness Ragnar Þór Ingólfsson, VR

Skrifstofur Eflingar loka kl. 12.00 föstudaginn 2. nóvember

Föstudaginn 2.nóvember er skrifstofa Eflingar lokuð frá kl 12:00 – 16:00 vegna starfsmannafundar. Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Markaðurinn leysir ekki vandann

Sigurður H. Einarsson, félagi í samninganefnd Eflingar skrifar um þjóðarátak í húsnæðismálum.  Í komandi kjarasamningum þarf það að vera alveg ljóst að engir samningar verði gerðir nema til komi þjóðarátak í húsnæðismálum. Samkvæmt tölum frá slökkviliðinu er nú talið að um 6 þúsund manns búi í iðnaðarhúsnæði eða öðrum hreysum. Þá er einnig dæmi um að 179 menn, félagsmenn Eflingar, séu skráðir til heimilis í einu einbýlishúsi í Breiðholtinu. Hvar eiga þeir heima í raun? Hvernig er þetta hægt? Lífeyrissjóðirnir fjármagna okurleigulánafélögin Aðrir eru ofurseldir okurleigufélögum sem eru að mergsjúga okkar fólk. Talið er að um 50 þúsund manns séu á leigumarkaðinum og ónefnd er sú tala ungs fólks sem ekki kemst að heiman. Og lífeyrissjóðirnir okkar fjármagna okurleigulánafélögin. Árið 2002 var verkamannabústaðakerfið lagt niður af ríkisstjórn Davíðs Oddsonar. Þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson hélt því fram að aflagning verkamannabústaðakerfisins væri eitt mesta framfaraspor í húsnæðismálum Íslendinga. Nú er ljóst að væri þetta kerfi til í dag værum við með 20 þúsund íbúðir utan okurleigumarkaðarins. Það væri nú aldeilis búbót fyrir okkar fólk. Til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir nú þarf með kröftugum hætti að reisa hér upp félagslegt íbúðarhúsnæði í anda Verkamannabústaðakerfisins eða útvíkka Húsnæðisfélagið Bjarg svo um munar. Við skulum athuga að til að vera gjaldgengur í Bjarg má einstaklingur ekki vera með tekjur yfir 420 þúsund á mánuði. Það þýðir að manneskja á meðallaunum Eflingar er ekki gjaldgeng hjá húsnæðisfélaginu. Bjarg er leigufélag fyrir þá allra tekjulægstu. Leiga á að vera val en ekki kvöð og að því þarf að stefna. Að slíku verkefni verða að koma ríkið, sveitarfélögin, lífeyrissjóðirnir og verkalýðsfélögin. Það má rifja upp þá kröfu sem verkalýðshreyfingin setti fram á ráðstefnu um húsnæðismál árið 1973 að auka þyrfti framboð á leiguhúsnæði, en talið var að á þessum tíma byggi um fimmtungur þjóðarinnar í slíku húsnæði. Brýnt væri að leysa vanda íbúðarleigjenda, enda byggju margir þeirra við óviðunandi kjör og hér þyrfti „snöggt og mikið átak“. Sérstaklega var hvatt til þess að lífeyrissjóðirnir mynduðu sameignar- eða samvinnufélög og stæðu fyrir húsbyggingum fyrir félagsfólk sitt. Lögð var áhersla á að þær íbúðir væru fyrst og fremst leiguíbúðir“ (Sumarliði Ísleifsson: Til velferðar. Saga Alþýðusambands Íslands 2. bindi, bls.117-18). Ekki staðið við loforð síðustu kjarasamninga Í síðustu kjarasamningum var samið um að byggðar yrðu 2.300 íbúðir á árunum 2016 til 2019. Þetta er of lítið og hefur auk þess ekki verið staðið við. Í fjárhagsáætlun fram til ársins 2021 dugir fjárframlagið aðeins fyrir 300 íbúðum ári en ekki 600 eins og lofað var, þrátt fyrir að það væri allt of lítið. Þetta er samkomulag sem þarf að standa við og í raun að fara að rukka um strax því þetta er fyrir utan komandi samningana. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eins og fram kemur í kröfugerðum SGS og VR eru einnig um lækkun vaxta. Gróði bankana undanfarin ár er komin út úr öllu korti. Við gerum þá kröfu á ríkisstjórn Íslands sem er einn stærsti eigandi bankanna að hún lækki vexti af húsnæðislánum. Þessir vextir eru bæði íþyngjandi og valda ofurhárri leigu. Framlag ríkisstjórnarinnar á tvímælalaust að vera að láta lækka vexti. Það verða að vera takmörk fyrir því hvað gróði bankana er mikill. Þá þarf að aðskilja viðskiptabanka frá húsnæðisbankalánum. Það gengur ekki að húsnæðislán borgi upp tap banka á braski og áhættufjárfestingum. Til stuðnings þessum kröfum þurfa samtök leigjenda að stóreflast. Þau eiga að fá hluta af fjármagnstekjuskatti til að byggja upp öflug samtök sem fái lögbundinn samningsrétt gagnvart stóru leigufélögunum. Einnig þarf að setja þak á leiguverð og gera skammtímaleigusamninga ólöglega þannig að ekki verði hægt að segja upp leigutaka með því eina markmiði að hækka leiguna. Ari Skúlason, þáverandi framkvæmdastjóri ASÍ, hélt því fram árið 2000 að áhrif verkalýðshreyfingarinnar hefðu minnkað síðastliðinn áratug. „Það er ekki hlustað jafnt grannt á það sem við segjum og áður“ sagði hann. Þau orð hans ríma vel við það hvernig húsnæðismálin þróuðust. Frá öndverðu hafði sú hugmynd fylgt íslenskri verkalýðshreyfingu að félagslegar eignaríbúðir væru besti kostur í húsnæðismálum fyrir láglaunafólk. Þeirri hugmynd var kastað fyrir róða án þess að hlustað væri á hagsmuni verkafólks. Segja má að félagslegt leiguhúsnæði hafi eftir þetta orðið helsti valkostur fólks með lágar tekjur. Til að mæta þessum nýja veruleika þarf að tryggja jafnræði á milli leiguhúsnæðis og eignaríbúða en stuðningur stjórnvalda við þá sem leigja hefur alltaf verið mun minni. Það er alveg ljóst í mínum huga að ég mun ekki samþykkja neina samninga nema til komi þjóðarátak í húsnæðismálum. Til að svo megi verða þurfa margir að koma að verkinu, ekki síst ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir. Greinin birtist fyrst á www.stundin.is   

Gerðubergsfundur Eflingar: Kröfurnar okkar! Við viljum hærri laun, færri vinnutíma og vinnulýðræði

Efling – stéttarfélag boðar til opins fundar í Gerðubergi laugardaginn 3. nóvember nk. um kröfugerðir Eflingar og SGS. Fundurinn hefst klukkan 14.30 og er hugsaður fyrir Eflingarfélaga af erlendum uppruna en opinn öllum. Fundurinn verður á ensku en textatúlkun á íslensku verður á skjá á meðan á fundi stendur. Félagar úr stjórn Eflingar, Jamie McQuilkin og Anna Marjankowska, ásamt sviðsstóra félagssviðs Eflingar, Maxim Baru, ræða saman um komandi kjarasamningaviðræður. Hverjar eru þessar kröfur? Hverju munu þær breyta? Hvernig náum við þeim fram? Boðið verður upp á köku og kaffi í lok fundar sem lýkur eigi síðar en klukkan 16:00. Að venju er boðið upp á ókeypis barnapössun í bóksasafninu í Gerðubergi gegn skráningu á vef Eflingar (sjá hér fyrir neðan). Streymt verður af fundinum á Facebook síðu Eflingar.

Vilhjálmur 1. varaforseti ASÍ og Kristján Þórður 2. varaforseti

Vilhjálmur Birgisson var í dag kjörinn 1. varaforseti ASÍ á þingi ASÍ. Tveir buðu sig fram til 1. varaforseta ASÍ. Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélag Suðurnesja og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Fékk Vilhjálmur 59,8% atkvæða og Guðbrandur 40,2%. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem hafði tilkynnt framboð til 1. Varaforseta, dró framboð sitt til baka fyrr í dag. Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands var sjálfkjörinn í embætti 2. varforseta. Atkvæðagreiðsla um kjör í miðstjórn ASÍ fór einnig fram á þinginu en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á sæti í nýrri miðstjórn. Aðrir eru Finnbogi Sveinbjörnsson, Björn Snæbjörnsson, Berglind Hafsteinsdóttir, Valmundur Valmundsson, Halldóra Sveinsdóttir, Eiður Stefánsson, Sólveig Anna Jónsdóttir, Hilmar Harðarson, Ragnar Þór Ingólfsson, Harpa Sævarsdóttir, Kristín María Björnsdóttir og Helga Ingólfsdóttir.
Þinginu lauk í dag en allar ályktanir þingsins má finna hér.  Ný forysta ASÍ. F.v. Vilhjálmur Birgisson, 1. varaforseti, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Kristján Þórður Snæbjarnarson, 2. varaforseti.

Drífa Snædal kjörin nýr forseti ASÍ

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, er nýr forseti Alþýðusambands Íslands. Á þinginu féllu atkvæði þannig  að Drífa Snædal hlaut 192 atkvæði eða 65,8% en Sverrir Mar Albertsson fékk 100 atkvæði eða 34,2%. Atkvæði greiddu 293 og var eitt atkvæði ógilt. „Ég vil óska Drífu Snædal innilega til hamingju með glæsilegan sigur “, sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í tilefni af þessu. „Drífa hefur verið talsmaður verkafólks, láglaunakvenna og aðflutts verkafólk og því fagna ég því mjög að hún muni leiða Alþýðusamband Íslands. Svo hljótum við öll að gleðjast yfir því að í fyrsta skipti í hundrað og tveggja ára sögu sambandsins er nú kona forseti. Sögulegur dagur “.  

Vaxandi ójöfnuður og auknar byrðar á hina verst settu (MYNDBAND)

Stefán Ólafsson hefur orðið þekktur fyrir að rannsaka hluti sem eiga ekki að vera til. Vaxandi ójöfnuður, stéttaskipting, óréttlátt skattkerfi og auknar byrðar á hina verst settu hafa verið meðal viðfangsefna hans. Í sumar flutti hann erindi á vegum Eflingar um nýútkomna bók þeirra Arnaldar Sölva Kristjánssonar um ójöfnuð á Íslandi, upptöku af erindinu má sjá hér fyrir neðan. Hann hefur síðan tekið til starfa hjá Eflingu við rannsóknir og ráðgjöf. Benjamín Julian settist með honum á skrifstofu stéttarfélagsins til að forvitnast um hvað bjátar á á Íslandi, hvernig megi bæta það, og hvað verður um háskólakennara þegar þeir fara að stíga á valdamiklar tær. Hvernig gerðist það að þú fórst að rannsaka misskiptingu? Ég helgaði mig fyrst bara akademískum starfsferli, og fylgdist með athyglisverðri þróun samfélagsins og lífskjara sérstaklega. Það var algerlega fyrir tilviljun árið 2005 að ég uppgötvaði hvað var að gerast í skattkerfinu. Öryrkjabandalag Íslands hafði beðið mig að gera úttekt á þróun lífskjara öryrkja og ég sótti mér gögn til að athuga það. Þá sá ég að skattbyrði þeirra hafði stóraukist á tímabilinu 1995-2004. Ég varð gáttaður og fór að gá hvernig í heiminum gæti staðið á þessu. Hvergi var talað um að stjórnvöld hefðu þetta sem stefnu, þvert á móti. Frjálshyggjan sagði að hún ætlaði að lækka skatta á alla, en í raun var verið að færa hana frá hátekjuhópum yfir á lágtekjuhópa, og hlutfallslega langmest á þá allra lægstu. Svo ég fór að skrifa greinar og skýrslur um þetta. Eignaðistu marga vini þegar þú bentir á þetta? Ég eignaðist ekki marga vini, frekar óvini, þegar ég fór að skrifa um þetta. Morgunblaðið, Viðskiptablaðið, stjórnmálamenn á þingi snérust gegn þessu og reyndu að afflytja niðurstöðurnar. Fjármálaráðherra bar á mig árið 2007 að ég kynni ekki að reikna, en ég hafði einungis birt tölur beint frá OECD. Ég reiknaði þær ekki einu sinni sjálfur! Á þeim tíma var mikið fúsk í stjórnsýslunni, fjármálaráðherrann beitti ráðuneytinu sínu til að blekkja með villandi talnabirtingum um þróun skattbyrðar. Nú hefur verkalýðshreyfingin hert á kröfum sínum, sem sjá má í nýrri kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Má gera ráð fyrir sams konar viðbrögðum? Ég myndi reikna með því að ný stefna verkalýðsfélaganna veki hörð viðbrögð úr þessum áttum. Kröfugerð SGS fer fram á að ójöfnuður aukist ekki á samningstímabilinu, og að fjármagnstekjur verði teknar með í reikninginn. Hvers vegna er svo oft horft framhjá fjármagnstekjum þegar talað er um ójöfnuð? Þetta er sterk viðleitni hér og partur af skipulögðum málflutningi ráðandi hagsmunaafla að horfa framhjá ójöfnuði. Vöxtur fjármagnstekna fram að hruni  fól í sér ⅔ af aukningu ójöfnuðar, sem var afar mikill á þeim tíma. Þetta eru hlutir eins og söluhagnaður hlutabréfa, arðgreiðslur og leigutekjur, sem eignamesta og tekjuhæsta fólkið fær. Skattlagning fjármagnstekna var 10% þegar hæsta álagning á atvinnutekjur var um 47%. Áður var þetta að mestu leyti skattlagt eins og atvinnutekjur. Hvers vegna er borgaður meiri skattur af launum, sem maður þarf að vinna fyrir, en arðgreiðslum, sem maður þarf ekki að vinna fyrir? Þeir sem þiggja svona tekjur segja oft að þeir séu að láta fjármagnið vinna fyrir sig — svo þeir þurfi ekki að vinna sjálfir! Þá er hægt að leika golf á daginn í staðinn. Þessi misjafna meðferð í skattkerfinu gengur auðvitað gegn öllum venjulegum skilningi á jafnræði. Þessir skattar voru lækkaðir sem svar við áróðri frjálshyggjunnar. Rökin voru að fólk myndi flýja úr landi með starfsemi og auð, svo einn lægsti skattur Vesturlanda var settur hér á fjármagnstekjur, tíu prósent. Reynslan var samt að einna mest fé flæddi frá Íslandi af vestrænum ríkjum, þótt skatturinn væri svona lágur. Hvað gera auðmenn við allan þennan pening? Hann fer í eignasöfnun, hér og erlendis. Hann fer í dýra neyslu. Fólk lifir hátt eins og við sáum á árunum fram að hruni, keypti sér einkaþotur, dýrar snekkjur í Miðjarðarhafinu og Karíbahafinu og byggði glæsivillur sem sumarhús. Svo er ríkt fólk í hörðu lífsgæðakapphlaupi, hver á lengstu snekkjuna og svo framvegis. Svo notar fólk auðvitað auðinn til að kaupa völd. Hvaða áhrif hefur ójöfnuður á stjórnmál? Það er beint samband milli aukins ójafnaðar og tilhneigingar til auðræðis. Þegar auðmenn geta keypt sér áhrif í stjórnmálum, þá grefur það undan lýðræðinu. Í Bandaríkjunum sést þetta hvað skýrast, þar sem auðmenn skipta stjórnmálamönnum upp eftir því hverja þeir eiga. Hinir vellauðugu Koch-bræður gera þetta jafnvel opinberlega. Þetta er heilmikil ógnun við lýðræðið. Hvað verður um lýðræði ef ekki verður tekið í taumana? Við erum komin í það ástand að alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn er kominn með öll völd í heiminum, og rassskellir einfaldlega ríkisstjórnir. Við þurfum að brjótast úr þessu, annars verður lýðræðið bara brandari. Ég held einmitt að við höfum sérstakar aðstæður á Íslandi til að breyta þessu í meiri mæli en aðrar þjóðir, því við höfum óvenju sterka og fjölmenna verkalýðshreyfingu hér. Hvað er verkalýðshreyfingin að gera til að lagfæra ástandið? Þessi nýja kröfugerð Starfsgreinasambandsins endurspeglar alger umskipti í verkalýðshreyfingunni. Þetta eru allt kröfur um að hafa bein áhrif á þróun þjóðfélagsins. Enda er það þannig að ef stjórnvöld gefa allt eftir gagnvart þrýstingi frá atvinnurekendum og fjárfestum, þá á það að vera verkefni hreyfingar launafólks að toga ríkisvaldið til baka til að sinna betur almannahag. Hreyfingin er fulltrúi alls þorra almennings hér á landi. Af hverju ætti Sjálfstæðisflokkurinn að ráða öllu í landinu þegar verkalýðsfélögin hafa á bak við sig 90% almennings? Þau eru miklu meiri fulltrúi fólksins en flokkarnir þrír sem sitja í ríkisstjórn. Það er vel viðeigandi á tímum þar sem stjórnvöld hafa orðið fórnarlömb sérhagsmuna, að fjöldasamtök launafólks rétti kúrsinn af.   Erindi Stefáns Ólafssonar hjá Eflingu 4. júní 2018.

Nýir tímar á ASÍ-þingi -Verkakonur frá Gana segja: hingað og ekki lengra

Viðbrigði urðu á 43. þingi Alþýðusambandsins í vikunni þegar tvær íslenskar verkakonur sem eiga uppruna frá Gana stigu í pontu og lýstu óboðlegum aðstæðum sem þær búa við. „Við getum ekki lifað við þetta lengur,“ segir Ruth Adjaho, önnur þeirra. Launin þeirra séu svo lág að þau geti ekki lifað af þeim og ekki komist til mennta. Ruth segir þetta ástand ekki bara óþolandi, heldur hættulegt. Sumar konur séu fastar í vondri sambúð, því þær geta ekki búið einar á laununum sínum. „Ef þú kemur erlendis frá, þá er mjög erfitt að redda sér. Þú hefur ekki stórt félagsnet. Þetta er lífshættulegt, ég þekki nokkrar manneskjur sem hafa dáið í svona aðstæðum. Við þurfum að gera eitthvað í þessu strax.“ Jafnvel konum með stöðugt heimili, vinnu og viðleitni til menntunar, sé mikill vandi búinn. „Fólki er ekki að takast að vera með fjölskyldunni sinni, getur ekki lifað lífinu. Allur peningurinn fer í leigu, mat, og nauðsynjar fyrir börnin.“ „Ég vinn á Landspítalanum og var með 80% starf. Með mikilli aukavinnu fékk ég kannski 270, 280 þúsund krónur útborgaðar. Ég er núna að læra viðskiptafræði í MK til að sleppa úr þessu, en á meðan þarf ég að vinna minna. Nú fæ ég bara 150 þúsund krónur á mánuði. Eiginmaðurinn minn hefur þurft að fórna miklu og vinna mikla yfirvinnu. Við sjáumst varla lengur. Ég held ég verði að hætta náminu, því það bitnar á fjölskyldunni. Mér líður eins og ég sé föst í gildru.“ „Okkur langaði að koma skilaboðunum á framfæri,“ segir Innocentia Fiati, sem tók líka til máls. „Ég vinn sem matráður á Landspítalanum, í fullu starfi, með réttindi. Ég fæ samt bara 300 þúsund krónur.“ Hún er í sams konar klípu og Ruth, því hún þarf stundum að sleppa vinnu vegna skóla sem hún sækir. „Ég þarf reglulega að taka fjögurra tíma hlé frá vinnu, launalaust, til að komast í tíma. Svo beint í vinnuna aftur. Þá lækka launin mín niðurfyrir 300 þúsund. Stundum þverneita ég að skoða launaseðilinn minn, hann vekur hjá mér skelfingu!“ segir hún og hlær. Innocentia segist vera vongóð um komandi kjaraviðræður. „Ef þau byggja á punktunum sem við lögðum fram í samninganefndinni hjá Eflingu, þá held ég að þetta geti farið vel.“ Meðal atriða í kröfugerð Eflingar, sem skrifuð var af stórum hópi félagsmanna, eru aukið svigrúm til menntunar með vinnu og bættar aðstæður erlends verkafólks í fjölda málaflokka. „Ég hef aldrei talað opinberlega á Íslandi áður, og mér var sagt að venjulega færi bara hvítt fólk og helst íslenskt í pontu á þessu þingi. Svo ég ákvað að slá til,“ segir Innocentia. „Þetta var söguleg stund!“ Ruth tekur í sama streng. „Ef eitthvað verður gert í þessu, þá væri það stórkostlegt. Þá gerði ég þetta ekki til einskis.“ Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar sagði að framsögur þeirra Ruth og Innocentiu á þinginu hafi verið sögulegur viðburður að hans mati. „Það er greinilegt að nýjar hræringar í íslenskri verkalýðshreyfingu er að gefa áður jaðarsettum hópum sjálfstraust og þor. Ég er gríðarlega stoltur af Eflingarkonunum Ruth og Innocentiu sem stigu óhræddar í pontu beint á eftir röð af sérfræðingum og körlum úr gömlu forystu verkalýðshreyfingarinnar og lýstu kjörum sínum og aðstæðum á áhrifamikinn hátt.”  

Við krefjumst mannsæmandi launa fyrir alla okkar unnu konuvinnu!

Tíminn er runninn upp til að verka og láglaunakonur á Íslandi fái allt það pláss sem við eigum skilið, sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þegar hún ávarpaði samstöðufund kvenna á Arnarhóli á kvennafrídeginum 24. október en yfirskrift dagsins í ár var Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Sólveig sagði að konur væru ekki útsöluvara, við erum stoltar af stórkostlegu mikilvægi okkar og við einfaldlega, einfaldlega setjum fram í fullri og mikilli og grafalvarlegri alvöru þá kröfu um að við fáum það sem við eigum allan heimsins rétt á; mannsæmandi laun fyrir unna vinnu! Ræða Sólveigar í heild sinni:  Kæru systur í baráttunni, ég gleðst innilega yfir því að fá að vera hér með ykkur í dag. Ég gleðst innilega yfir því að þið hafið með því að leggja niður störf, með því að neita að veita aðgang að vinnuaflinu ykkar í stutta stund, sýnt þjóðfélaginu óumdeilanlegt og stórkostlegt mikilvægi ykkar og dregið fram í dagsljósið það hneyksli að enn skuli konur þurf að þola að vera verðlagðar lægra en karlmenn fyrir vinnuframlag sitt. Og ég gleðst innilega yfir því að konur á Íslandi hafi á síðustu öld borið gæfu til þess að bera kennsl á þá kúgun sem þær voru beittar, og innblásnar af róttækum og sögulegum frelsis-straumum sagt þeirri undirsettu stöðu sem þær höfðu verið látnar lifa við stríð á hendur. Við stöndum í sögulegri þakkarskuld við þær konur. Kæru félagar, Konur hafa þurft og þurfa enn að horfast í augu við þá kerfisbundnu kúgun sem þeim hefur verið gert að lifa við, um það ofbeldi sem þær þurfa að lifa við, um samfélag veikt af kapítalískri klámvæðingu þar sem kvenlíkaminn er ekkert annað en einnota drasl, um tilveru í samfélagi þar sem þær eru hlutgerðar og hæddar og smánaðar. Við horfum hvor á aðra og viðurkennum að konur eru ekki aðeins beittar kúgun af hálfu karla sem finnast þær einskis virði, heldur af efnahagskerfi sem sér bókstaflega ekkert athugavert við að græða á aldagamalli fyrirlitningu á kvennastörfum, á aldagamalli fyrirlitningu á þekkingu kvenna, á aldagamalli trú á það að það sem konur kunni sé í eðli sínu annars flokks útsöluvara og það hljóti allir að vera sammála um.  En við höfum fréttir að færa; við erum ekki útsöluvara, við erum stoltar af stórkostlegu mikilvægi okkar og við einfaldlega, einfaldlega setjum fram í fullri og mikilli og grafalvarlegri alvöru þá kröfu um að við fáum það sem við eigum allan heimsins rétt á; mannsæmandi laun fyrir unna vinnu! Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Breytum ekki kvennavinnustöðum; vandamálið er ekki að það vanti karla í kvennastörfin, vandamálið er að kvennastörfin eru verðlögð af innblásinni og grimmilegri nísku og að enginn hefur viljað segja sjúku arðráninu á verka og láglaunakonum, þeim sem vinna konuvinnuna, stríð á hendur. Við þurfum ekki karlsmannshendur til að vinna störfin okkar, til að kenna samfélaginu að meta okkur að verðleikum, við reisum konuhnefana okkar á loft og segjum: Þekkirðu þessa, þetta er systir hennar!  Við segjum: Stopp hingað og ekki lengra! Við ætlum sjálfar að leiða eigin baráttu. Ekkert um okkur án okkar! Við krefjumst mannsæmandi launa fyrir alla okkar unnu konuvinnu! Við verka og láglaunakonur ætlum að viðurkenna, allar sem ein, að það er engin leið, engin, til að tryggja gott og frjálst líf fyrir verkakonur nema að hér verði farið í endurúthlutun á gæðunum; að berjast fyrir því að vinnuaflið fái eðlilegan og réttlátan skerf af auðæfunum sem það skapar með vinnu sinni. Við ætlum að vera herskáar og skipulagðar; við höfum verið efnahagslega jaðarsettar og við höfum verið pólitískt jaðarsettar en nú ætlum að taka okkur pólitískt pláss og efnahagsleg völd! Í jafnréttisparadísinni hefur sannarlega ekki verið farið um okkur mjúkum höndum, þvert á móti, okkur hefur verið mætt af harðneskju og fyrirlitningu en í stað að brotna undan því sem á okkur hefur verið lagt rísum við upp! Við sættum okkur ekki lengur við óbreytt ástand!Tíminn er runninn upp til að verka og láglaunakonur á Íslandi fái allt það pláss sem við eigum skilið! Tíminn er runninn upp til að berjast af fullum krafti gegn arðráninu á kven-vinnuaflinu! Tíminn er runninn upp fyrir okkar þarfir, okkar langanir, okkar kröfur! Við ætlum að lifa frjálsar undan kúgun; kynferðislegri, kynbundinni og efnahagslegri!  Við höfum engu að tapa og allt það frelsi sem okkur hefur ávallt dreymt um að vinna!  Lifi kvenfrelsið, lifi samstaðan, lifi baráttan! Takk fyrir.  Upptöku af ræðu Sólveigar má sjá á www.visir.is , sjá
hér.

Tónninn á ASÍ þinginu er samstaða um það sem máli skiptir, að leiðrétta kjör fólksins.

Stefán Ólafsson svarar áróðri um kjör hinna verst settu Ef laun verða hækkuð í þrjú ár um 42.000 krónur á ári, líkt og lesa má út úr kröfugerð Starfsgreinasambandsins, þá jafngildir það 6,5% meðalhækkun launa á ári. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Stefáns Ólafssonar á 43. þingi Alþýðusambandsins í gær. „Þetta er nú ekkert sem minnir á sturlun,“ sagði hann sposkur, en miklar umræður og vangaveltur hafa spunnist af launakröfum SGS. Í síðustu viku birtist forsíðufyrirsögnin „Laun gætu hækkað um 150 prósent“ á Fréttablaðinu, svo ekki sé minnst á margumtalaðan leiðara blaðsins tveimur dögum síðar. Kröfur SGS miða að 425.000 króna lágmarkslaunum, en í fyrirlestrinum rakti Stefán hvernig jafnvel slík laun myndu tæplega duga til að lifa við íslensk skilyrði. Margra ára niðurskurður á bótum frá ríkinu, færsla skattbyrðinnar á þá verst settu og miklu dýrara húsnæði hefur gert meintar ofurhækkanir lægstu launa undanfarin ár að litlu öðru en sárabótum. Tölurnar sem Stefán setur fram eru sláandi. Á árunum 2010-2016 hækkaði húsnæðisverð um helming. Á sama tíma var húsnæðisstuðningur ríkisins ekki aukinn heldur skertur — um helming, sem hlutfall af landsframleiðslu. Húsnæðisverð hefur sem kunnugt er hækkað enn frekar síðan. Hópur þeirra sem þiggja barna- og vaxtabætur hefur sömuleiðis smækkað undanfarin ár — barnabótaþegum um 16% og vaxtabótaþegum um 44% á árunum 2012-2017. Þannig hefur stuðningur við þá lægst launuðu minnkað á meðan útgjöld hafa aukist til muna. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Á árunum 1988-1996 voru lægstu laun skattfrjáls. Þegar tími nýfrjálshyggjunnar hófst var þessu snarlega breytt. Nú er svo komið að yfir helmingur lágmarkslauna er skattaður til fulls. Þeir sem fá hæstar tekjur lifa hins vegar í öðrum heimi, því skattur á arðgreiðslur, leigutekjur og söluhagnað er aðeins 22%. Stefán segir í fyrirlestrinum: „Láglaunamaður sem bætir við sig 150 þúsund á mánuði með aukavinnu greiðir 36,9% skatt af því en hátekjumaður sem bætir við sig fjármagnstekjum greiðir einungis 22% skatt af þeim!“ Ekkert útsvar er borgað af fjármagnstekjum, svo auðugir hópar leggja jafnvel enn minna til samfélagsins en þessar tölur gefa til kynna. Svör Stefáns eru skýr og auðskilin. Lágmarkslaun þurfa aftur að verða skattfrjáls. Þetta má hæglega fjármagna, líkt og áður var, með því að setja eðlilega skatta á þá tekjuhæstu, skatta á borð við þá í öðrum Norðurlöndum. Stefán segir stjórnvöld hafa grafið stórlega undan árangri síðustu kjarasamninga. Þau þurfi að bæta úr því, annars verður að krefjast launahækkana fyrir þá verst settu af þeim mun meiri þunga. Að sögn Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar var gerður góður rómur að erindi Stefáns. „Þarna er sýnt svart á hvítu að það er ekki hægt að lifa af lægstu launum og jafnvel ekki af hærri launum heldur. Krafa okkar um 425 þúsund króna lágmarkslaun miðað við núverandi skattkerfi og bætur nær ekki einu sinni að mæta framfærsluviðmiðum Velferðarráðuneytisins. Það þarf því bæði að hækka launin og gera löngu tímabærar endurbætur á skattkerfinu. Allt þetta er inni í kröfum okkar í Eflingu og þær eru endurspeglaðar í kröfugerðum SGS og verslunarmannafélaganna. Tónninn á ASÍ þinginu finnst mér vera samstaða um það sem máli skiptir, að leiðrétta kjör fólksins.“

Skrifstofur Eflingar loka kl. 14.45 miðvikudaginn 24. október

Miðvikudaginn 24. október er skrifstofan lokuð kl 14:45 vegan Kvennafrís 2018.  

Velsæld á grunni misnotkunar? Gerðubergsfundur Eflingar um brotastarfsemi á vinnumarkaði

Velsæld á grunni misnotkunar? Opinn fundur Eflingar um brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði Efling – stéttarfélag boðar til opins fundar í Gerðubergi laugardaginn 27. október næstkomandi um brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði, þar með talið mansal og önnur gróf réttindabrot. Kynningu flytur María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur í vinnustaðaeftirliti hjá ASÍ. Að því búnu munu félagsmenn Eflingar sem lent hafa í kjarasamningabrotum segja frá reynslu sinni. Boðið verður upp á spurningar úr sal. Fundur hefst klukkan 14:30 og er öllum opinn. Boðið verður upp á köku og kaffi í lok fundar sem lýkur eigi síðar en klukkan 16:00. Að venju er boðið upp á ókeypis barnapössun í bóksasafninu í Gerðubergi gegn skráningu á vef Eflingar (sjá eyðublað hér fyrir neðan). Streymt verður af fundinum á Facebook síðu Eflingar. Túlkað verður milli ensku og íslensku á skjá meðan á fundi stendur.    

Stjórn Eflingar ályktar með öryrkjum gegn starfsgetumati

Kvikmynd Ken Loach, I Daniel Blake frá 2016, fjallar um baráttu bresks verkamanns gegn starfsgetumati og sýnir ömurlegar afleiðingar þess. Stjórn Eflingar – stéttarfélags samþykkti einróma á stjórnarfundi sínum í dag ályktun þar sem tekið er undir gagnrýni Öryrkjabandalags Íslands á starfsgetumat og stuðningi lýst við
ályktun stjórnarfundar ÖBÍ frá 10. október síðastliðinum. Ályktun stjórnar Eflingar er svohljóðandi: „Stjórn Eflingar-stéttarfélags tekur heils hugar undir gagnrýni Öryrkjabandalags Íslands á starfsgetumat sem sett var fram í ályktun stjórnarfundar bandalagsins 10. október síðastliðinn. Stjórn Eflingar tekur undir með ÖBÍ að stjórnvöldum beri að efla núverandi kerfi örorkumats í stað þess að efna til tilraunastarfsemi með líf og kjör öryrkja undir merkjum svokallaðs starfsgetumats sem gefist hefur afar illa í mörgum nágrannalöndum okkar.“ Að fundi loknum sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Ég fagna því gríðarlega að vaxandi samstaða sé að myndast milli stéttarfélaga og Öryrkjabandalagsins. Samstaða gegn niðurlægjandi tilraunaverkefnum á borð við starfsgetumat er hluti af því. Ég hafna því að vinnupíning sé nýtt sem svar við vandamálum fólks og ég tek undir með ÖBÍ að það á frekar að styrkja núverandi örorkumatskerfi. Öryrkjar og vinnandi fólk eru bræður og systur í baráttunni. Við munum standa saman þangað til allt fólk á Íslandi getur lifað mannsæmandi lífi.“ Meira efni um starfsgetumat, þar á meðal nýlegur fyrirlestur Lars Midtiby, er að finna á vef Öryrkjabandalagsins. Á laugardaginn standa ÖBÍ og Efling að sameiginlegum fundi um málefni tekjulægstu hópanna undir titlinum „Skattbyrði og skerðingar.“ Skráning í barnapössun er hér og Facebook-viðburður hér.

Átök um ójöfnuð (MYNDBAND)

Viðtal við Guðmund Ævar Oddsson, dósent við Félagsvísinda- og lagadeild við Háskólann á Akureyri. Á hátindi góðærisins var Guðmundur Ævar Oddsson í framhaldsnámi í félagsfræði í Bandaríkjunum. Námið var nýhafið og hann sat á spjalli við leiðbeinandann sinn. Guðmundur minntist á að margir samlanda hans segðu að það væri engin stéttaskipting á Íslandi. Á sama tíma bárust fréttir héðan af snekkjukaupum, sumarhöllum úti í sveit og gullflögumáltíðum hjá ríkasta fólki samfélagsins. „Hugmyndin um stéttleysi var auðvitað í svo mikilli mótsögn við stöðuna hér á landi,“ segir Guðmundur. „Ég komst fljótt á þá skoðun að stéttavitund Íslendinga væri áhugavert rannsóknarefni.“ Áratug síðar er Guðmundur enn að. Á dögunum spjölluðu þeir Daníel Örn Arnarson, stjórnarmaður Eflingar, um stéttaskiptingu og ójöfn tækifæri á opnum fundi í Gerðubergi. Spjallið vakti athygli fjölmiðla. (Upptöku af spjallinu má sjá hér að neðan). Í kjölfarið dúkkuðu upp kunnugleg viðbrögð. Samtök atvinnulífsins birtu árás á Guðmund á vef sínum undir titlinum „Allt rangt hjá dósentinum“. Í pistlinum var mikil áhersla lögð á að sanna hversu mikill jöfnuður sé á Íslandi. Í ítarlegu svari, sem birtist á Kjarnanum, lýsir Guðmundur hvernig samtökin „reyna að draga dul á þá stað­reynd að það er kerf­is­bund­inn ójöfn­uður á Íslandi.“ Það er ekki án ástæðu að deilt er um þessa hluti. „Eftir því sem fólk er meðvitaðra um ójöfnuð, og um eiginlega stöðu sína í kerfinu, því líklegra er það til þess að taka höndum saman og berjast fyrir bættum hag,“ útskýrir Guðmundur. „Ríkjandi hugmyndafræði einstaklingshyggju er ekki heppileg í þessu. Hún skrifar afdrif fólks í lífinu á persónulegar ákvarðanir, dugnað og hæfileika. Hinum ríku er hampað fyrir elju og hugvitssemi en hinum undirskipuðu er legið á hálsi að vera latir. Slíkar skýringar horfa fram hjá mismunandi aðstæðum og tækifærum fólks.“ „Ef allir halda að þeir séu í millistétt, en þriðjungur nær ekki endum saman, þá er eins og hljóð og mynd fari ekki saman. Slíkt er ávísun á brostnar væntingar. Þær eiga það til að brjótast út í út í ergelsi og reiði, og fara þá stundum í fordóma- og öfgafullan farveg.“ Rannsóknir Guðmundar benda til þess að ör markaðsvæðing frá miðjum tíunda áratugnum og fram að hruni hafi aukið vitund Íslendinga um stéttaskiptingu. Í kjölfar hruns minnkaði efnahagslegur ójöfnuður, þegar hæstu tekjur lækkuðu og stóreignasöfn krumpuðust saman. Síðan hafa hæstu tekjur rokið upp, sem frægt er orðið. „Efnahagslegur ójöfnuður er að aukast í löndunum í kringum okkur, sem endranær. Þessari langtímaþróun eru gerð afar góð skil í bók Thomasar Piketty, Capital in the 21st Century. Minnkun ójafnaðar, til dæmis í kjölfar stríðs og kreppu, er undantekningin. Aukning er reglan.“ Fjöldi fræðirita hefur undirbyggt þessi gamalgrónu sannindi á undanförnum árum; að bilið milli ríkra og fátækra breikki í venjulegu árferði. Fræðin sýna, með öðrum orðum, að stöðugleiki eykur ójöfnuð. Jafnvel bissness-blaðið Financial Times og Davos, klúbbur ríkasta og valdamesta fólks heims, eru farin að leita svara við þessu vandamáli, þó án mikils árangurs. Lausnin, sem fyrri daginn, liggur í því að bágstaddar stéttir berjist sjálfar fyrir bættum kjörum. „Þegar verða kerfisbundin áföll, þá vaknar fólk stundum til vitundar um mikilvægi samvinnu og samstöðu,“ segir Guðmundur. „Við sáum það eftir hrun, að það varð til ákveðin dýnamík. Það vakti von hjá almenningi að hægt væri að breyta samfélaginu til hins betra. Þegar fólk tekur höndum saman, til dæmis í fjöldahreyfingum og -samtökum, og fær á tilfinninguna að aðrir séu í sömu aðstæðum — ég held að það, öðru fremur, gefi fólki bjartsýni um að hægt sé að breyta málunum til hins betra og byggja réttlátara samfélag.“  

Stóra skattatilfærslan

Stefán Ólafsson skrifar: Á síðustu 25 árum eða svo hafa stjórnvöld framkallað mikla tilfærslu á skattbyrði – af hærri tekjuhópum og yfir á þá lægri. Þetta hefur verið gert með ýmsum aðgerðum, sem eru skýrðar á ítarlegan hátt í nýlegri bók (Ójöfnuður á Íslandi, 2017) sem og í skýrslu ASÍ um skattbyrði launafólks 1998 til 2016. Rýrnun persónuafsláttar (skattleysismarka), upptaka fjármagnstekjuskatts (með mun lægri álagningu en er á atvinnutekjur) og rýrnun vaxta- og barnabóta sem dragast frá álögðum skatti koma þar mest við sögu. Þessi þróun hefur stórskaðað þann árangur sem lægra launað fólk átti að hafa af kjarasamningunum frá 2015 og reyndar einnig á fyrri árum. Þessi þróun hefur að auki verið afar óhagstæð fyrir lífeyrisþega. Mynd 1 sýnir umfang þessarar skattatilfærslu frá 1993 til 2015. Sýnd er skattbyrðin 1993 (% heildartekna sem greidd er í beina skatta) og svo aftur 2015, í fjórum tekjuhópum: lægstu tíu prósentin, miðtekjuhópur, efstu tíu prósentin og efsta eina prósentið. Í gluggum við súlurnar er sýnd nettó breytingin á tímabilinu í prósentustigum. Tilfærslan frá hærri hópum til þeirra lægri og miðtekjuhópa er skýr og umtalsverð. Ef skoðuð væri breytingin frá 1993 til 2007 eða 2008 þá væri niðurstaðan mun meira afgerandi en sýnt er á myndinni (sem nær til 2015), því skattbyrði tekjuhæstu tíu prósentanna var á árunum fyrir hrun orðin minni en hjá miðtekjufólki, sem er fordæmalaust (sjá Ójöfnuður á Íslandi 2017). Vinstri stjórnin sem var við völd frá 2009 til 2013 færði tilfærsluna að hluta til baka með aukinni álagningu á hærri tekjur, auk þess sem lækkun fjármagnstekna eftir hrun hækkaði skattbyrði hæstu hópa í fyrstu. En síðan hefur þróunin aftur hneigst til fyrri áttar. Fjármagnstekjur hærri hópanna eru nú vaxandi á ný (sem lækkar heildar skattbyrði hátekjufólks, vegna lægri skattlagningar fjármagnstekna en atvinnutekna) og persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróuninni (sem hækkar skattbyrði lágtekjufólks). Þetta síðarnefnda má sjá á mynd 2 hér að neðan. Lágmarkslaun og óskertur lífeyrir TR voru skattfrjáls frá 1988 til 1996. Síðan þá hefur vaxandi hluti lágmarkslauna verið skattlagður, frá 6% 1997 og upp í 37% árið 2008. Þá minnkaði skattaði hlutinn í tvö ár en tók svo aftur að stækka. Nú er meira en helmingur lágmarkslauna skattlagður að fullu (51%). Lituðu súlurnar til hægri sýna hvernig skattbyrði lágmarkslauna hækkaði afgerandi frá 2015 til 2018, sem er tímabil gildandi kjarasamnings á vinnumarkaði. Í samningnum 2015 var samið um umtalsverðar hækkanir lágmarkslauna, en vegna þess að persónuafslátturinn fylgdi ekki launaþróuninni þá jókst skattbyrði lágmarkslaunanna umtalsvert. Með þessu og einnig með því að rýra verulega vaxtabætur og barnabætur (sem dragast frá álögðum skatti láglaunafólks) þá tók hið opinbera í reynd drjúgan hluta af umsömdum kjarabótum fyrir láglaunafólk (sjá skýrslu ASÍ um skattbyrði launafólks 2016 og skýrslu Gylfa Zoega fyrir forsætisráðuneytið 2018). Þetta er auðvitað óþolandi niðurstaða fyrir verkalýðshreyfinguna og meðlimi hennar. En þetta er bara enn einn kaflinn í þessari lengri tíma sögu um tilflutning skattbyrðarinnar frá hærri tekjuhópum til lægri og milli hópa. Umfang hinna auknu byrða lágtekjufólks Mér telst til að vegna þessarar tilfærslu skattbyrðarinnar greiði fólk sem í dag er með 500.000 kr. á mánuði eða minna samtals um 80 milljörðum meira í tekjuskatt og útsvar en þau hefðu gert ef lágmarkslaun væru skattfrjáls eins og var 1996 og fyrr. Rúmir 19 milljarðar eru nú, árið 2018, lagðir aukalega á þá sem eru með 300.000 króna lágmarkslaun eða minna – fátækasta fólkið í landinu. Því til viðbótar hefur ríkið sparað sér útgjöld til vaxta- og leigubóta frá 2011 til 2016 sem nemur 17,8 milljörðum króna. Enn frekari lækkun útgjalda til þessara bóta varð á árunum 2017 og 2018. Stórlega hefur fækkað í hópi þeirra sem fá barna- og vaxtabætur frá 2013 til 2017. Alls hefur ríkið þannig lagt auknar byrðar á láglaunafólk, þá sem eru undir 500.000 á mánuði, sem nemur  hátt í 100 milljörðum króna á verðlagi ársins 2018. Þessu til viðbótar hefur húsnæðismarkaðurinn lotið markaðsáhrifum og braski í stórauknum mæli, í umhverfi ófullnægjandi framboðs húsnæðis, sem hefur skilað sér í gríðarlegum og fordæmalausum hækkunum leigu og kaupverðs íbúðarhúsnæðis. Það er sorglegt að á sama tíma hafi stjórnvöld talið við hæfi að rýra húsnæðisstuðning við láglaunafólk á vinnumarkaði og ungt barnafólk, þannig að sá stuðningur er nú minni en nokkrum sinnum fyrr. Þetta þýðir að húsnæðismarkaðurinn hefur einnig étið upp stóran hluta af kaupmáttaraukningu síðustu kjarasamninga, sérstaklega hvað snertir lágtekjufólk (sjá skýrslu Gylfa Zoega 2018). Það er augljóst að verkalýðshreyfingin getur ekki látið það afskiptalaust að stjórnvöld fari fram með þessum hætti – komi ítrekað aftan að launafólki og eyðileggi árangur af kjarasamningum. Tímabært að færa byrðina til baka Stjórnvöld hafa reyndar boðað að þau vilji breyta skatta- og bótakerfunum á þann veg að bæti sérstaklega hag lægstu tekjuhópa og lægri millihópa. Þetta þarf að efna á þann veg að lágmarkslaun verði skattfrjáls á næsta samningstímabili og dugi til framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins, að viðbættum húsnæðiskostnaði. Það er lykilþáttur í kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar nú. Einfaldast er að gera þetta með því að tvöfalda persónuafsláttinn og láta hann síðan lækka stig af stigi og fjara út þegar komið er vel yfir meðaltekjur. Þannig má fjármagna að hluta kostnað af tvöföldun persónuafsláttarins, en einnig með hækkun fjármagnstekjuskatts, a.m.k. til þess sem er á hinum Norðurlöndunum. Slík aðgerð myndi almennt færa dreifingu skattbyrðarinnar á Íslandi í átt til þess sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Það myndi einnig færa dreifingu skattbyrðarinnar til þess sem tíðkaðist á Íslandi árið 1996 og fyrr – áður en nýfrjálshyggjuveiran hóf að endurskapa íslenskt samfélag. Ef stjórnvöld svara þessu kalli og færa skattbyrðina aftur til þess sem hún var fyrir um 20 árum þá þarf atvinnulífið ekki að taka á sig jafn miklar launahækkanir og ella yrði. Það er til mikils að vinna – fyrir stjórnvöld, atvinnulífið og almennt launafólk. Höfundur er prófessor við HÍ og gegnir hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi

Efling styður Kvennafrí 2018 - Kvennaverkfall

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 miðvikudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Arnarhóli, kl. 15:30 undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu! Hægt er að fá frekar upplýsingar um Kvennafrí á heimasíðunni:
www.kvennafri.is Komdu og gerðu þitt eigið spjald fyrir kröfugönguna, 21. október kl 14:00 í Eflingar húsinu að Guðrúnartúni 1, á 4. Hæð.  Skráðu þig á viðburðinn á Facebook hér: https://www.facebook.com/events/2129069870456903/

Fólk hefur alveg gleymt sólinni (MYNDBAND)

Viðtal við Pétur Ármannsson, arkitekt um sögu félagslegs húsnæðis í Reykjavík Pétur H. Ármannsson, arkitekt, hefur kannað hvernig húsnæðisvandi Reykvíkinga var leystur áður fyrr. Þann 29. september síðastliðinn flutti hann erindi á vegum Eflingar í Gerðubergi og útskýrði hvernig vandi okkar í dag er í grunninn ekki frábrugðinn vanda fyrri tíma. „Við höfum margra áratuga sögu af að takast á við húsnæðisvanda fyrir lægstu tekjuhópa,“ segir hann. „Sú saga hefur ekki fengið nægilega athygli á undanförnum misserum.“ Myndbandið af fyrirlestrinum má sjá hér að neðan.  Verkalýðshreyfingin sé í sterkri stöðu til að ná fram umbótum, sé stuðst við fordæmi sem reyndust vel. „Gárungar hafa stundum sagt að ef eitthvað tekst verulega vel í húsagerð hér á landi, þá er næsta víst að lausnin verði aldrei endurtekin.“ Það sé hægur vandi að bæta úr því. Frá iðnbyltingu hefur fólk flust unnvörpum í borgir og margar leiðir verið farnar til að koma þaki yfir þau — af misjafnri hugulsemi. „Það var títt að fólk byggi í heilsuspillandi og lélegu húsnæði,“ segir Pétur, stundum í bröggum og stundum í lekum og hrörlegum hreysum, til dæmis í Höfðaborg. Með stórátökum verkalýðsfélaga og löggjafans var bætt úr þessu ástandi. Árið 1929 voru sett lög um verkamannabústaði og aðferð var þróuð sem átti eftir að reynast vel: byggingarfélag í þágu verkafólks fékk auðar lóðir og vönduð grunnteikning var gerð sem var útfærð á hverjum stað fyrir sig. „Það kostar ekkert meira að skipuleggja vel en illa,“ segir Pétur. „Verkamannabústaðirnir við Hringbraut og húsin í Rauðarárholti eru gömul hús, en þau halda gildi sínu, því grunngæðin liggja svo mikið í skipulaginu.“ Til þess að smíði húsanna væri sem hagkvæmust var iðulega smíðað á óbyggðu landi án þess að grafa fyrir kjöllurum. Félagslegu íbúðirnar í Borgarholtshverfi í Grafarvogi segir Pétur vera gott dæmi. „Það liggur næst okkur í tíma, og eru að ég held nærtækasta dæmið til að vinna út frá. Í staðinn fyrir að gera dýran bílakjallara var byggt beint á jörðina. Það voru höfð opin svæði kringum byggingarnar og gönguleiðir á milli þeirra sem skapar barnvænt umhverfi.“ Húsin voru ekki höfð átta eða tíu hæða há, sem hefði varpað löngum skuggum. „Á Íslandi er sólin lágt á lofti á veturna. Fólk í dag hefur alveg gleymt sólinni í byggingu íbúðarhúsnæðis.“ Borgahverfi Pétur segir núverandi aðferðir ekki til þess fallnar að smíða hratt og ódýrt. „Ég held að Reykjavíkurborg ætli að gera of marga hluti í einu. Það er dýrt og flókið að þétta byggð í eldri hverfum. Það mun aldrei nema að takmörkuðu leyti duga til að leysa þennan brýnasta vanda.“ Óttinn við að stór ný hverfi verði vandræðahverfi sé ekki á rökum reistur, þótt sá ótti sé oft viðraður. „Það heyrðist í Borgarholtsverkefninu líka að svæðið væri of stórt og félagslegar íbúðir of margar saman.“ Það hafi ekki orðið raunin. Blokkirnar í Neðra-Breiðholti eru ein undantekning sem Pétur nefnir í sögu nýrra hverfa. „Yfirleitt fengu byggingaraðilar að ráða skipulagi á lóðunum. Í Neðra-Breiðholti var hins vegar búið að gera skipulag um U-blokkirnar.“ Það skipulag byggði á sögulegum samningum verkalýðsfélaga, atvinnurekenda og ríkisins í júlí 1965, um að byggja 250 íbúðir á ári í fimm ár. „Það gleymist oft að það var fyrst með Breiðholtsbyggingunum sem tókst að útrýma bröggum, Höfðaborg og öðru heilsuspillandi húsnæði.“ „Það væri mjög gagnlegt fyrir verkalýðsfélög að athuga gögn frá þeim samningum,“ bætir Pétur við, „til að sjá hvað virkaði.“ Sagan endurtekur sig ekki, en hún rímar. „Áður kom fólk utan af landi og bjó í mjög lélegu húsnæði. Nú komast börn, fædd í borginni, ekki að heiman, og innflutt vinnuafl er látið borga himinháa leigu fyrir svo lítið sem rúmpláss. Þetta er svo svívirðilegt, sem þeim er boðið uppá, að það er þjóðinni til skammar.“ Lausnirnar sem boðið er upp á í dag eru mestan part of dýrar. „Þetta er eins og með bankahúsin við Framnesveg,“ segir Pétur og lýsir húsaröð sem Landsbankinn lét byggja 1922-23 til að sýna fram á ágæti nýbygginga. Húsin voru kölluð verkamannabústaðir á teikningu. „Þetta var góð og gild hugmynd og falleg og vel hugsuð hús, en þau voru of dýr fyrir lægst launaða fólkið. Það var ekki fyrr en með lögum um verkamannabústaði að lausn fannst fyrir þennan hóp. Þau lög skiptu  sköpum.“ Það kerfi er nú ónýtt, sem Pétur telur hafa verið stórfelld mistök. Nú sé brýnt að tína til það sem virkaði og reisa kröfur á þeim grunni. „Það er mikið í húfi fyrir verkalýðsfélögin að kynna sér söguna, finna út hvar vandinn liggur og mæta svo vel búin með markvissa kröfugerð og raunhæfar lausnir á húsnæðisvandanum til atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga.“

Skattbyrði og skerðingar: Sameiginlegur fundur með ÖBÍ

(English below) Efling og Öryrkjabandalagið efna til sameiginlegs fundar laugardaginn 20. október um afkomu lágtekjufólks á Íslandi, sérstaklega út frá skattbyrði og skerðingum. Fundurinn hefst að venju klukkan 14:30 og verður lokið stundvíslega klukkan 16:00. Fundarstaður er menningarmiðstöðin Gerðuberg. Framsögu flytur Stefán Ólafsson, sérfræðinur hjá Eflingu. Að því búnu verða pallborðsumræður með Þuríði Hörpu Sigurðardóttur formanni ÖBÍ, Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar og Bergþóri Heimi Þórðarsyni öryrkja og dyraverði. Að venju er kaffi og kaka í lokin, ókeypis barnapössun gegn skráningu (skráning nú lokuð), bein útsending á vefnum og textatúlkun á ensku á skjá. ************** Taxation and Income: A joint meeting of The Organisation of Disabled in Iceland (ÖBÍ) and Efling Union about the conditions of low wage earners. Saturday October 20 at Gerðuberg, starting at 14:30 and finished by 16:00. Presentation by Stefán Ólafsson, researcher at Efling, followed by panel discussion. On the panel: Þuríður Harpa Sigurðarsdóttir chairman of ÖBÍ, Sólveig Anna Jónsdóttir chairman of Efling, and Bergþór Heimir Þórðarsson bouncer and disabled. As usual at Efling’s Gerðuberg meetings: coffee and cake afterwards, free childcare (registration closed), livestream on Facebook and on-screen interpretation.  

Vinnustaðaeftirlit stéttarfélaga leiðir til lokunar á byggingarsvæði í Ármúla

Aðbúnaður var ekki við hæfi og var því kallað í Vinnueftirlitið, segir Ingólfur B. Jónsson eftirlitsfulltrúi hjá Eflingu. Sameiginlegt vinnustaðaeftirlit Eflingar og VM, FIT og Rafiðnarsambandsins á föstudag leiddi til þess að byggingarsvæði City Park Hótel í Ármúla var lokað samdægurs af Vinnueftirliti ríkisins. Upphaflega barst tilkynning um að hlutir væru ekki á lagi á svæðinu frá félagsmanni eins af stéttarfélögunum, og fór sameiginlegt vinnustaðaeftirlit félagana á staðinn í kjölfarið. Ingólfur B. Jónsson eftirlitsfulltrúi Eflingar lýsti aðbúnaðinum svo: „Við heimsóknina í Ármúla sáum við að ekki var allt með felldu. Þar var ekkert byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi til staðar og framkvæmdirnar komnar vel á veg. Við upplýstum starfsmennina um þeirra réttindi og spurðumst fyrir hver laun þeirra væru og hvort þeim væri séð fyrir húsnæði. Þá kom í ljós að þeir sofa á verkstað í hliðarherbergjum. Fannst okkur aðbúnaðurinn ekki við hæfi og því kölluðum við í Vinnueftirlitið sem kom og lokaði verkstaðnum. Starfsmenninir voru upplýstir um að þeir ættu að halda fullum launum á meðan verkstöðvun stendur yfir og ef að þeir fengju ekki greitt ættu þeir að leita til stéttarfélaganna.“ Í
frétt á vef Vinnueftirlitsins kemur fram að „aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur“ á umræddu byggingarsvæði og var öll vinna bönnuð við byggingarframkvæmdir, „þar sem veigamikil öryggisatriðið voru í ólagi og öryggisstjórnunarkerfi á verkstað ófullnægjandi.“ Þá segir í fréttinni að mat Vinnueftirlitsins hafi verið að veruleg hætta væri fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Í viðhengi við frétt Vinnueftirlitsins má lesa ítarlega ákvöðun í heild sinni.

Vegna umræðu um verkefnið Fólkið í Eflingu

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um verkefnið „Fólkið í Eflingu“ skal eftirfarandi árréttað: Þann 20. júní 2018 bar formaður Eflingar undir stjórn félagsins erindi um að samþykkja tilboð frá Öldu Lóu Leifsdóttur (Nýr kafli ehf.) um framkvæmd verkefnisins „Fólkið í Eflingu.“ Tilboðið innifal verklýsingu og kostnaðaráætlun upp á 4.000.000 krónur fyrir 100 ljósmyndir ásamt frágengnum og prófarkarlesnum texta. Kaup á verkefninu voru samþykkt af stjórn í gegnum tölvupóst strax í kjölfarið og var sú ákvörðun færð til bókar á fyrsta fundi stjórnar að afloknu sumarfríi, 23. ágúst 2018. Eflingu hafa borist þrír reikningar vegna verkefnisins, samtals að upphæð 3.174.400 krónur, og hafa þeir allir verið samþykktir og greiddir með venjubundnum hætti. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við afgreiðslu þessara reikninga á skrifstofum Eflingar. Birting mynda og texta undir hatti verkefnisins fer fram á Facebook síðunni „Fólkið í Eflingu“ og er öllum sýnileg. Birst hafa 64 af 100 myndum/textum.

Kröfugerð SGS fyrir komandi kjaraviðræður

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins (SGS) hefur samþykkt kröfugerð á hendur stjórnvöldum og atvinnurekendum fyrir komandi kjaraviðræður. Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur samningsumboð 19 verkalýðsfélaga innan SGS, þar á meðal Eflingar en samninganefnd Eflingar samþykkti að fela samninganefnd SGS umboð sitt til samningsgerðar. Helsta krafan gagnvart Samtökum atvinnulífsins þegar kemur að launaliðnum er sú að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga. Gagnvart stjórnvöldum er þess m.a. krafist að lágmarkslaun verði skattlaus og að skatta- og bótakerfið verið enduskoðað. Þá verði gert þjóðarátak í húsnæðismálum.
Kröfugerð Starfsgreinasamnbandsins á hendur Samtökum atvinnulífsins í heild sinni má sjá hér Kröfugerð Starfsgreinasambandsins á hendur stjórnvöldum í heild sinni má sjá hér 

Efling samþykkti í júní að færa sjóði frá Gamma

Frétt Markaðarins er á villigötum því ný stjórn Eflingar samþykkti strax í júní að taka sjóði úr stýringu hjá hinu umdeilda fyrirtæki Gamma. Í frétt fylgikálfs Fréttablaðsins “Markaðurinn” þann 10. október 2018 er ritað um sjóði Eflingar og þá staðreynd að vel á annan milljarð króna hefur verið fjárfest hjá fyrirtækinu Gamma. Núverandi stjórn Eflingar tók þá ákvörðun á stjórnarfundi þann 7. júní síðastliðinn að láta færa alla sjóði úr stýringu hjá Gamma. Bókun stjórnar í fundargerð er svohljóðandi: “Samþykkt er að fela fjármálastjóra að taka fjármuni Eflingar út úr stýringu hjá Gamma og fjárfesta annars staðar í samræmi við lög og reglur félagsins.” Daníel Örn Arnarson stjórnarmaður bar tillöguna upp. Í umræðum stjórnar um málið kom fram að umfjallanir um starfsemi Gamma í fjölmiðlum væru þess eðlis að umdeildanlegt væri að eiga í viðskiptum við fyrirtækið. Vegna fréttar Markaðarins sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar: “Mér finnst kostulegt að sjá málpípur auðvaldsins gagnrýna Eflingu án þess að vita neitt í sinn haus. Datt þeim ekki í hug að hafa samband til að sannreyna meiningar sínar um áherslur nýrrar stjórnar? Að sjálfsögðu er engin auðveld leið fyrir verkalýðsfélag að eiga og ráðstafa sjóðum í kapítalísku samfélagi. En að eiga í viðskiptum upp á milljarða við fyrirtæki sem byggist á fjárplógsstarfsemi gegn okkar fólki, lágtekjufólki á leigumarkaði, er fullkomlega óboðlegt og auðvitað hættum við því strax.” Fjölmiðlar hafa fjallað um fyrirtækið Gamma, samanber umfjallanir Stundarinnar um
athafnir þess á leigumarkaði og náin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.

Yfirlýsing í tilefni fréttar Morgunblaðsins í dag

Í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag, 6. október, er slegið fram staðlausum fullyrðingum um meinta framkomu stjórnenda Eflingar við starfsfólk félagsins. Fullyrðingar blaðsins vekja undrun í ljósi þess að umrætt starfsfólk tjáði sig ekki sjálft við blaðamann þegar eftir því var leitað, líkt og viðurkennt er í fréttinni. Því er um óstaðfestar sögusagnir og dylgjur að ræða. Mikilli furðu sætir að Morgunblaðið kjósi að birta þannig sögusagnir frá ótilgreindum aðilum um heilsufar, meint ágreiningsmál og önnur viðkvæm málefni starfsfólks á nafngreindum vinnustað. Þær óstaðfestu frásagnir sem lagðar eru í munn starfsfólks Eflingar í fréttinni, án samþykkis þeirra, eru ekki aðeins rangar, heldur fela í sér grófar dylgjur og ásakanir um ámælisverð vinnubrögð í fjármálum á skrifstofum Eflingar. Einfalt er að svara þeim ásökunum. Frá því nýr formaður og framkvæmdastjóri hófu störf á skrifstofum Eflingar í lok apríl á þessu ári hefur verkferlum varðandi dagleg útgjöld verið fylgt samkvæmt venjum félagsins. Ákvarðanir um stærri útgjöld hafa verið bornar upp á fundum stjórnar, kynntar og samþykktar, líkt og ítarlegar fundargerðir eru til vitnis um. Enn fremur hafa nýir stjórnendur Eflingar tekið frumkvæði í að leita eftir ráðgjöf hjá hæfum aðilum um hvernig megi gera enn betur til að innleiða gagnsæi og fagmennsku í fjármálum Eflingar, svo sem með því að vinna út frá samþykktri fjárhagsáætlun sem gildi ár í senn. Allar breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirkomulagi fjármála hjá Eflingu síðan nýir stjórnendur tóku við, þar með talið veiting prókúru til nýs framkvæmdastjóra, hafa verið gerðar í fullu samráði við stjórn og lögmann félagsins og samkvæmt kröfum sem gerðar eru hjá viðskiptabanka félagsins, Landsbankanum. Þá hafa stjórnendur fengið leiðsögn og ráðgjöf frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte, sem hefur á undanförnum árum annast endurskoðun ársreiknings Eflingar. Eru starfsmenn þess fyrirtækis nú með reglulega viðveru á skrifstofum félagsins til að veita aðstoð vegna forfalla starfsfólks á fjármálasviði. Hvorki formaður né framkvæmdastjóri Eflingar kannast við þá fullyrðingu blaðamanns Morgunblaðsins að fjármálastjóri hafi neitað að greiða reikninga frá Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanni sökum þess að þeir hafi ekki verið samþykktir af stjórn. Alda Lóa hefur með ótvíræðu samþykki stjórnar Eflingar unnið hið glæsilega kynningarverkefni „Fólkið í Eflingu“, og fyrir þá vinnu sína hefur hún að sjálfsögðu fengið greitt. Hafa þær greiðslur verið í fullkomnu samræmi við ákvörðun stjórnar um úthlutun fjármuna til verkefnisins, sbr. bókun í fundargerð af stjórnarfundi 23. ágúst 2018. Fjármálastjóri og bókari hafa annast meðhöndlun innsendra reikninga vegna verkefnisins athugasemdalaust. Fullyrðing Morgunblaðsins um að þær greiðslur hafi verið ásteitingarsteinn milli nýrra stjórnenda og fjármálastjóra félagsins er röng og stenst enga skoðun. Vegna gífuryrða blaðamanns um „harðstjórn“, „hreinsanir“ og þess háttar vilja stjórnendur þakka starfsfólki Eflingar fyrir þann mikla og góða samstarfsvilja sem það hefur sýnt nýrri stjórn og starfsmönnum sem hafa tekið til starfa eftir söguleg stjórnarskipti í vor. Upplifun nýrra stjórnenda er sú að starfsfólk Eflingar sé samhentur hópur sem nær undantekningalaust starfar saman af heilindum og krafti í þágu verkafólks. Stjórnendur Eflingar vísa fréttaflutningi Morgunblaðsins á bug. Þess er óskað að blaðið láti af því að gera starfsfólki félagsins upp tilhæfulaus klögumál og fara með dylgjur um starfsemi félagsins. Virðingarfyllst, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar-stéttarfélags

Félagsmaður Eflingar hefur betur í Hæstarétti

Fyrirtækið Sinnum var í gær í Hæstarétti dæmt til að greiða félagsmanni Eflingar tæpar 1.350 þúsund kr. í vangoldin laun og vexti, auk málskostnaðar upp á samtals 1.250 þúsund kr. en málið snerist um rétt til launa í slysaforföllum. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur en það var Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar sem rak málið fyrir dómi f.h. félagsins. Dóm Hæstaréttar með Héraðsdómi viðhengdum  má sjá
hér. Hæstiréttur staðfestir með vísan til forsendna héraðsdóms að félagsmaðurinn, Natalie Bonpimai teljist eiga rétt til greiðslu launa vegna slyss á leið frá vinnu, en ágreiningur stóð um hvort um slíkt slys hefði verið að ræða eður ei og hvort Sinnum gæti dregið frá laun sem Natalie hafði haft frá þriðja aðila. Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar, segir að þetta mál sé skólabókardæmi um góða hagsmunagæslu fyrir félagsmann frá byrjun. Natalie hafi verið afar ánægð og þakklát þegar hann heyrði í henni rétt eftir að dómurinn féll. Málið byrjar þannig að Natalie sækir um sjúkradagpeninga hjá Eflingu nokkrum mánuðum eftir slysið óafvitandi um að hún ætti mögulegan launarétt hjá atvinnurekanda. Fulltrúi sjúkrasjóðs verður þess áskynja að slysið hafi orðið á leið úr vinnu. Sjúkrasjóðsfulltrúi og þjónustufulltrúi eiga í framhaldi í samskiptum við atvinnurekandann vegna þessa og síðan fer málið áfram til lögmanna. Á öllum stigum var reynt að koma vitinu fyrir atvinnurekandann, án árangurs, segir hann. Karl segir að niðurstaða Hæstaréttar sé merkileg og mikilvæg bæði fyrir þær sakir að hér er skilgreint betur hvenær starfsmaður teljist vera á beinni leið frá vinnu í skilningi kjarasamnings, slegið er föstu að ákvæðið gildi vegna ferða til eða frá þeim stað sem starfsmaður sannanlega heldur heimili, þó svo að skráð lögheimili kunni að vera annars staðar og loks að ekki skuli beita frádrætti vegna launa frá þriðja aðila gagnvart slíkri kröfu. Nánar verður fjallað um dóminn í næsta Fréttablaði Eflingar.

Ályktun stjórnar Eflingar–stéttarfélags vegna umfjöllunar Kveiks

Stjórn Eflingar–stéttarfélags lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þess ástands sem nú ríkir á íslenskum atvinnumarkaði. Við krefjumst þess að yfirvöld taki sig á og að opinberar stofnanir sinni því eftirliti með verktökum sem þeim ber að sinna. Núverandi ástand er óásættanlegt og ekki boðlegt að eftirlitsstofnanir séu fjársveltar eða að stjórnmálamenn láti eins og vandamálin séu ekki til staðar eða leysist af sjálfu sér. Efling-stéttarfélag mun ekki standa aðgerðarlaus hjá og horfa á forherta atvinnurekendur komast upp með að beita öllum ráðum til að hafa af fólki umsamin laun, til dæmis með því að rukka starfsmenn um glæpsamlega háa húsaleigu fyrir að hýrast í kompum og kytrum. Eitt af því sem hefur gert núverandi ástand mögulegt er starfsemi starfsmannaleiga sem eru ein alvarlegasta uppspretta vandamála og misnotkunar á íslenskum vinnumarkaði. Starfsemi þeirra grefur undan öllu því sem verkafólk á Íslandi hefur barist fyrir og byggt upp með þrautseigju sinni og dugnaði. Við höfum séð dæmi um að komið sé fram við starfsmenn starfsmannaleiga eins og þeir væru réttlausir hlutir, en ekki fólk sem nýtur lögum samkvæmt allra sömu réttinda og annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Starfsmönnum starfsmannaleiga er ekki gerð grein fyrir réttindum þeirra samkvæmt kjarasamningum eða lögum og verktakar og starfsmannaleigur virðast gera allt til að koma í veg fyrir að starfsmenn nái að mynda tengsl hvor við annan eða við annað íslenskt verkafólk. Þannig er markvisst komið í veg fyrir að starfsmennirnir geti myndað þá samstöðu og tengsl sem þeir þurfa til að rétt hlut sinn. Það er sömuleiðis ólíðandi að verkafólk sé komið upp á atvinnurekandur eða starfsmannaleigur með húsnæði. Slíkt býður upp á misnotkun, eins og við í Eflingu höfum séð fjölmörg dæmi um. Efling-stéttarfélag krefst þess að erlent verkafólk sem hingað kemur til að starfa njóti fullra lög- og samningsbundinna réttinda. Við krefjumst þess að yfirvöld hætti að snúa blinda auganu að þeim stórkostlega vanda sem ríkir þegar kemur að aðbúnaði og afkomu erlends verkafólks. Við krefjumst þess að hætt verði að koma fram við vinnuafl á íslenskum vinnumarkaði sem „útsöluvöru“ og að fólk fái greidd mannsæmandi laun fyrir unna vinnu! Við segjum stopp, hingað og ekki lengra! Stjórn Eflingar-stéttarfélags

Atvinnurekendur bjóða minna en ekki neitt!

Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi skrifar  Samtök atvinnurekenda (SA) hafa lagt fram útspil sitt fyrir komandi kjarasamninga (sjá 
hér). SA-menn og yfirstéttin öll hafa notið ofurhækkana á ofurlaun sín á síðustu misserum – eins og allir vita. Síðasta árið hafa þeir kyrjað þuluna um að ekkert svigrúm sé lengur fyrir neinar kauphækkanir – jafnvel þó ágætur hagöxtur sé í landinu og horfur einnig ágætar til næstu 3ja ára, skv. helstu spám. Útspil SA-manna nú kemur því varla á óvart. Engin kauphækkun er megin forsenda nýrra kjarasamninga, samkvæmt þessu útspili. Hagvöxtur næstu ára á þá væntanlega að renna óskiptur til atvinnurekenda einna. Hugmynd SA virðist vera sú, að samið verði um 5 lauslegar bókanir – og málið dautt! Bókun 1 verði um það að vonandi og kanski og hugsanlega lækki Seðlabankinn vexti. Bókun 2 verði um stórt átak til aukins framboðs húsnæðis á dýrasta húsnæðismarkaði Norðurlanda. Ekkert um það hvernig láglaunafólki verði gert kleift að kaupa íbúðarhúsnæði eða ráða við leigu. Bókun 3 verði um að atvinnurekendum verði selt sjálfdæmi til að “auka sveigjanleika vinnutíma”. Þetta virðist fela í sér að breyta skilgreiningu á dagvinnutíma þannig að hann rúmi einnig yfirvinnu og álagsgreiðslur – með stórum kjaraskerðingum fyrir launafólk sem stólar á aukavinnugreiðslur til að ná endum saman. Bókun 4 verði um að auka framleiðni með því að hætta að telja neyslutíma (einkum kaffitíma) sem hluta vinnutíma. Það myndi lækka launakostnað atvinnurekenda. Bókun 5 myndi snúast um að draga úr fjárhagslegri áhættu atvinnurekenda vegna ráðningar fólks með skerta starfsgetu. Sátt um þetta? Þegar efnislegt inntak þessa útspils atvinnurekenda er lagt saman blasir við, að þetta er tilboð um minna en ekki neitt. Tilboð um kjaraskerðingu. Skyldi það greiða fyrir sátt í samfélaginu og farsælli lausn kjarasamninga? Eftir ofurlaunahækkanir yfirstéttarinnar… Eftir að hátekjuhóparnir hafa notið lækkandi skattbyrði til lengri tíma… Eftir að láglaunahóparnir hafa búið við sívaxandi skattbyrði og verulega skerðingu bótagreiðslna… Eftir að græðgisvæðing húsnæðismarkaðarins hefur étið upp kaupmátt láglaunafólks, t.d. ungs fjölskyldufólks… Verður sátt um þetta í samfélagi þar sem fullvinnandi fólk á lágum launum nær ekki endum saman í einu ríkasta landi Evrópu? Á launafólk á Íslandi að sætta sig við að afhenda atvinnurekendum einum allan afrakstur hagvaxtarins?

Er verið að svindla á þér?

Samninganefnd Eflingar-stéttarfélags býður til næsta fundar í Gerðubergi, kl. 14.30, laugardaginn 6 október. Efling-stéttarfélag gerir allt að sex hundruð kröfur á hverju ári til atvinnurekenda vegna brota kjarasamningum starfsfólks. Stór hluti þess starfar á gisti- og veitingahúsum. Stéttarfélaginu berast hundruð fyrirspurna á hverjum degi. Stjórn Eflingar-stéttarfélags sendi frá sér ályktun í lok ágúst þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af vanefndum fjölmargra atvinnurekenda á gisti- og veitingahúsum.
https://efling.is/2018/08/24/efling-gagnrynir-misnotkun-kjarasamingsakvaeda-i-veitingageiranum/ Á fundinum munu starfsmenn á gisti- og veitingahúsum og kjarafulltrúar Eflingar deila reynslu sinni og taka við spurningum úr sal. Streymt verður af fundinum og hann tekinn upp, til að gera þeim kleift að fylgjast með sem ekki eiga heimangengt. Fundurinn fer aðallega fram á ensku en þýðingu á efni fundarins verður varpað skjá jafnóðum bæði á ensku og íslensku. Félagsmenn í Eflingu og allt áhugafólk um samfélagsmál er boðið velkomið á fundinn. Að loknum fundi verður að venju boðið upp á kaffiveitingar. Hægt er að skrá börnin í barnagæslu á bókasafninu í Gerðubergi en nauðsynlegt er að skrá þau fyrirfram. Skráningu er lokið en allir eru velkomnir á fundinn.

Við sköpum verðmæti og viljum vera hluti af samfélaginu

-segir Anna Marta Marjankowska, nýr stjórnarmaður í Eflingu Anna Marta Marjankowska var kjörin í stjórn Eflingar sl. vor. Hún er 26 ára, fædd í mið Póllandi, en fluttist til Kraká árið 2010, til að vinna og stunda nám. Þar starfaði hún hjá menningarstofnunum, söfnum og galleríum, við kvikmyndagerð og tónlistarhátíðir, auk þess að stunda nám í gagnrýnum menningarfræðum. Áhuginn beindist að sköpun, eðli vinnunnar og aðstæðum vinnandi fólks. Öryggisstigið í Póllandi gefur fólki litla möguleika á að gera áætlanir um framtíðina og því ákvað Anna Marta að flytja til Íslands, þar sem hún átti vini. Næstu ár ætlar hún að nýta í að berjast fyrir betra samfélagi. Anna Marta er enn nátengd umræðu og menningu í Póllandi, skrifar viðtöl og bókadóma fyrir stórt tímarit. Að vera virk á eigin málsvæði er því enn stór hluti af því hver ég er, segir hún. Í júní fóru pólskir háskólastúdentar í verkfall og í nokkrum borgum yfirtóku þeir háskólabyggingar. Ég var beðin um að skrifa ávarp, sem var lesið upp á aðaltorginu í Kraká. Í náminu í gagnrýnum menningarfræðum og menningarstjórnun í Jagiellonian háskólanum dró Anna Marta ýmsar ályktanir af því að skoða aðstæður fólks, sérstaklega í sambandi við vinnuna. Það gerði mig niðurdregna að lýsa aðstæðum fólks í listageiranum. Ég sá ekki fyrir mér að manneskja eins og ég gæti gert neinar framtíðaráætlanir. Þetta er aðalástæðan fyrir því að ég fór frá Póllandi. Hún segist hafa gert sér grein fyrir því að á næstu árum tækist henni ekki að gera það sem hana langaði til, út af pólitísku og félagslegu ástandi. Þessi óvissa fari sífellt vaxandi, því ríkisstjórnin sé að herða tökin á öllu, sæki að réttindum kvenna, dragi úr stuðningi við fólk með fötlun og fjölskyldur þeirra og stefna í málefnum innflytjenda og flóttafólks sé algerlega óásættanleg. Upplifði þetta sem nýtt tækifæri Anna Marta ákvað að koma til Íslands, af því að ein besta vinkona hennar var hér. Ég fékk á tilfinninguna að Ísland gæti tryggt það öryggi sem ég þarfnast og tækifæri til að nýta hæfileika mína og þekkingu til lengri tíma. Hingað kom hún í október 2016, byrjaði á að vinna á gistihúsi í tvo og hálfan mánuð, síðan á hóteli í hálft ár, næst hjá hreingerningafyrirtæki og núna á matsölustað. Á sumum þessara staða hafa atvinnurekendurnir nýtt sér það að ég þekkti ekki réttindi mín og vissi ekki hvert ég átti að leita til að fá leiðbeiningar. Ég vissi ekkert um hlutverk verkalýðsfélaga og þeir sem ég vann fyrst hjá, létu mig skrifa undir pappíra, þar sem ég afsalaði mér greiðslum á uppsagnarfresti, eftir að mér var sagt upp. Ég vissi ekki að það væri ólöglegt. Hvað getur ein ung kona gert, andspænis tveimur fullorðnum mönnum, sem segja að svona gangi hlutirnir fyrir sig? Að sögn Önnu Mörtu er að sumu leyti hægt að bera saman stöðu pólskra verkamanna á Íslandi og úkraínskra verkamanna í Póllandi. Það sé sami efnahagslegi munurinn og fólkið sé meðhöndlað á sambærilegan hátt. Við þurfum að nýta þessa alþjóðlegu reynslu, fræðast um réttindi okkar og fara betur með útlendinga í heimalandinu. Sömu laun fyrir sömu störf Anna segist hafa áttað sig á því, eftir að hafa búið hér í nokkra mánuði, að Ísland er ekki sósíalísk paradís. Félögin hafi ekki verið nógu sterk til að standa gegn ýmsu sem sumir atvinnurekendur leyfa sér að gera og hún segist hafa upplifað ákveðinn tvískinnung í viðhorfum til Íslendinga annars vegar og útlendinga hins vegar. Við getum ekki látið það viðgangast, að fólki séu greidd misjöfn laun ef það vinnur sömu störf, af því að það eru útlendingar. Við þurfum að tala opinskátt um þetta. Aðspurð hvernig hún hafi komist í kynni við Eflingu, segist hún hafa kynnst fólki í tengslum við þátttöku sína í grasrótarstarfinu í Andrými og eitt hafi leitt af öðru. Það skipti líka máli, að móðir hennar er vinnuréttarlögfræðingur hjá pólsku vinnumálastofnuninni, sem fer með ýmis verkefni sem verkalýðsfélögin hafa á sinni könnu á Íslandi. Það má segja að ég hafi fengið áhuga á aðstæðum launafólks með móðurmjólkinni. Ég var ekki virk í pólitísku starfi í Póllandi, heldur stundaði ég rannsóknir á aðstæðum fólks í vinnunni. Ég fylgdist samt vel með starfi ýmissa hópa og það er margt áhugavert í gangi. Vinnan er stærsti þátturinn sem ákvarðar líf okkar og við getum ekki komist hjá því. Framundan eru viðræður um nýjan kjarasamning. Það er vissulega mikilvægt segir Anna Marta, en það sé ekki síður alvarlegt mál, að það sé fullt af fólki sem fái ekki einu sinni greiddan lágmarkstaxta. Fyrir mér skiptir það miklu máli að tengja fólkið, láta það vita hvar er hægt að fá upplýsingar og efla trúnaðarmannakerfið. Það verða að vera trúnaðarmenn á öllum vinnustöðum þar sem fleiri en fimm starfa. Sá þurfi að kunna skil á lögunum, ganga úr skugga um að allir séu með ráðningarsamning og vita hvernig eigi að bregðast við einelti og mismunun. Með þessu móti eigi allir sem komi inn á vinnumarkaðinn, bæði útlendingar og ungir Íslendingar, að hafa jafnan aðgang að grunnupplýsingum um réttindamál. Á hinn bóginn þurfum við að segja hátt og skýrt að það sé til skammar að verkamaður sem skapi tekjur fyrirtækisins fái lágmarkslaun. Og að greiða minna en lágmarkslaun, en það sé stundum falið í jafnaðarkaupi, sé hreinn glæpur. Ég held að það skipti máli í framhaldinu, að í stjórn félagsins núna, er fólk með fjölbreyttari bakgrunn og reynslu en áður. Með því skapist tækifæri til þess að nálgast þann stóra hluta félagsmanna sem er af erlendum uppruna. Ef fólk áttar sig raunverulega á aðstæðum sínum og hvernig þær geta breyst með sterkri samstöðu, þá er fólk tilbúið til að gera ýmislegt til að ná fram sjálfsögðum kjörum og réttindum. Vill leggja sitt af mörkum Munurinn á mánaðarlaunum á Íslandi og víða annars staðar er mjög mikill. Ef við berum þetta saman við aðstæður í Póllandi, þá getur fólk fengið sex sinnum hærri laun hér. Að vísu er þrisvar sinnum dýrara að búa hér, miðað við að leiga herbergi og lifa spart. Þannig sé hægt að leggja fyrir talsverða peninga á nokkrum mánuðum á Íslandi. Þetta líti öðruvísi út hjá fjölskyldufólki, börnin þurfi að fara í leikskóla og skóla og taka þátt í starfi eftir skóla. Svo þarf að leigja eða kaupa húsnæði. Þrýstingur vegna þessa geti gert fólk útsett fyrir svindli af hálfu atvinnurekandans. Hún segir að það sé nauðsynlegt að byggja upp samstöðu í félaginu, tengja fólk við það, þannig að það átti sig á því að hjá félaginu geti það fengið ráð og stuðning í samskiptum við atvinnurekendur. Ég hef miklar væntingar um að við getum bætt aðstæður fólks, skref fyrir skref og breytt þannig ástandinu til lengri tíma. Ég vil að við einbeitum okkur að því að byggja upp félagið sjálft og gera það að öflugra baráttutæki. Þótt það sé stutt síðan ný stjórn tók við, finnst Önnu Mörtu hún samt skynja ákveðinn árangur. Hún hafi náð að hitta mjög margt ungt fólk í félaginu og það sé ákveðin vakning í gangi. Það sem mér þótti samt óþægilegast í kosningabaráttunni, var að hitta fólk frá mið- og austur Evrópu sem sagðist ekki ætla að kjósa, það hefði það betra en áður en það kom til Íslands og vildi ekki rugga bátnum. Þessu viljum við breyta, þýða vinnulöggjöfina þannig að allir séu meðvitaðir um hana. Það er mikilvægt að læra íslensku, en við getum ekki ætlast til þess að fólk sem vinnur tólf tíma á sólarhring, hafi afgangsorku til að sækja tungumálatíma og læra heima. Við verðum að leggja áherslu á að allir upplifi að þeirra sé þörf og þeir séu metnir í samfélaginu. Verkefnin hjá Eflingu eru ærin, segir Anna. Fólkið sem ég vil leggja áherslu á, er nýtt fólk á vinnumarkaði, útlendingar og ungir Íslendingar, fólkið í grunnstörfunum, þjónustu- og umönnunarstörfum. Hún segir baráttuna verða langa og harða, en þess virði. Við þurfum öll á þessari byltingu að halda. Anna ætlar að tengja þessi tvö ár í stjórn Eflingar við doktorsnám í háskólanum og því að ná góðum tökum á íslenskunni.

Allsherjaratkvæðagreiðsla um kjör fulltrúa Eflingar á 43. þing Alþýðusambands Íslands

Allsherjaratkvæðagreiðsla verður viðhöfð við kjör fulltrúa Eflingar – stéttarfélags á 43. þing Alþýðusambands Íslands sem haldið verður í Reykjavík dagana 24. – 26. október 2018. Tillögur vegna þingsins með nöfnum 54 aðalfulltrúa og jafnmörgum til vara ásamt meðmælabréfum 120 fullgildra félagsmanna skulu hafa borist skrifstofu Eflingar – stéttarfélags fyrir kl. 13.00 föstudaginn 28. september 2018. Kjörstjórn Eflingar – stéttarfélags

Fundir á pólsku gengu vel

—Polish below Haldnir hafa verið tveir fundir í september fyrir pólskumælandi félagsmenn Eflingar og er óhætt að segja að félagsmenn hafi tekið vel í þá. Góð mæting var á fundina og ljóst að mikilvægt er að halda fleiri slíka fundi þar sem félagsmönnum gefst kostur á að koma saman, fá svör við spurningum sínum og ræða málin. Fyrsti fundurinn var haldinn í Gerðubergi þar sem Vera Lupinska, starfsmaður Eflingar, Anna Marjankowska og Magdalena Kwiatkowska, stjórnarmenn í Eflingu, héldu stutt erindi en miklar umræður urðu eftir fundinn. Annar fundurinn var haldinn í húsakynnum Eflingar og var um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og var þar í ríkari mæli beint sjónum að kjarasamningnum og réttindi tengdum honum. Þó fundirnir hefðu verið settir upp með mismunandi sniði áttu þeir það sameiginlegt að gefa félagsmönnum tækifæri á að spyrja spurninga, spjalla við hvert annað um reynslu þeirra af vinnumarkaði og auka þannig vitneskju um íslenskan vinnumarkað á meðal pólskumælandi félagsmanna Eflingar.   Spotkania w języku polskim są pomocne We wrześniu odbyły się już dwa spotkania dla członków Eflingu, polskiego pochodzenia. Można powiedzieć to, że spotkania zdały egzamin, frekwencja była dobra i wiadomo już, że takich zebrań powinno być więcej. Jest to miejsce na zadawania pytań i dyskusji na różne tematy. Pierwsze zebranie odbyło się w Gerðuberg, na którym  Vera Lupinska, pracownik Eflingu, Anna Marjankowska i Magdalena Kwiatkowska, zasiadające w zarządzie związków, zabrały głos. Później  toczyła się gorąca dyskusja pomiędzy zebranymi. Drugie zebranie odbyło się w siedzibie Eflingu. Tam omawiane były sprawy dotyczące praw i obowiązków na rynku pracy. Glówna uwaga skierowana została na umowy zbiorowe i prawa pracownicze wynikające z nich. Pomimo tego, że oba spotkania różniły się w pewnym stopniu organizacją, dały one możliwość  członkom polskiego pochodzenia na zadawanie pytań, dyskusję na temat sytuacji na islandzkim rynku pracy oraz  wydanie opinii o związkach zawodowych.

Áherslur ungs fólks í komandi kjarasamningum - ASÍ-UNG ályktar

Á fimmta þingi ASÍ-UNG komu ungliðar saman úr verkalýðshreyfingunni um allt land og ræddu sín á milli hvað bera eigi að leggja áherslu á í komandi kjarsamningum. Á þinginu var farið yfir hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi samningum. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fluttu erindi og tóku svo þátt í pallborðsumræðum ásamt tveimur stjórnarmönnum ASÍ-UNG, Eiríki Þór Theódórssyni og Hafdísi Ernu Ásbjarnardóttur. Miklar umræður sköpuðust varðandi stöðu ungs fólks á vinnumarkaði og er ljóst að fulltrúum finnst að víða megi gera betur til að styrkja stöðu þessa hóps. Þing ASÍ-UNG var haldið föstudaginn 14. september. ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks á aldrinum 16-35 ára, innan verkalýðshreyfingarinnar sem sér til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins. Meðfylgjandi ályktun var samþykkt í lok þingsins: Þing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess marka skýra stefnu í húsnæðismálum til þess að tryggja ungu fólki húsnæði við hæfi. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum. ASÍ-UNG krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattlaus. ASÍ-UNG krefst þess einnig að aldurstengd launamismunun verði afnumin með öllu enda er hún klárt brot á mannréttindum. Jafnframt gerir ASÍ-UNG kröfu um að ungt fólk eigi sæti við samningaborðið til þess að tryggja hagsmuni þess. ASÍ-UNG leggur ríka áherslu á að vinnueftirlit verði aukið og viðurlög vegna brota á vinnustað verði hert. Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Brúa þarf bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka orlofsrétt vegna vetrarfría í skólum. Ný stjórn ASÍ-UNG var kosin á þinginu og hana skipa: Aðalstjórn: Alma Pálmadóttir- Efling, Gundega Jaunlina- Hlíf, Karen Birna Ómarsdóttir – Aldan, Margret Júlía Óladóttir- FVSA, Eiríkur Þór Theodórsson- Stétt Vest , Sindri Már Smárason- Afl, Ástþór Jón Tryggvason- VLFS, Aðalbjörn Jóhannsson- Framsýn og Margrét Arnarsdóttir- FÍR. Varastjórn: Kristinn Örn Arnarson- Efling, Ólafur Ólafsson- Eining Iðja, Hafdís Erna Ásbjarnardóttir- Einingu Iðja, Birkir Snær Guðjónsson- Afl og Elín Ósk Sigurðardóttir- Stétt Vest. Fulltrúar Eflingar á ASÍ UNG þinginu. Fv. Kristinn Örn Arnarson, Ingólfur Björgvin Jónsson, Þorsteinn Gunnlaugsson, Jamie Mcquilkin, Oddný Ófeigsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sem var með erindi á þinginu.

Í landi ójafnra tækifæra? Stéttaskipting á Íslandi

—English below Öll erum við ólík, en samt ríkir sú trú að við eigum öll rétt á jöfnum tækifærum. En eru tækifærin jöfn þegar gæðum er misskipt eftir stéttum? Efling – stéttarfélag býður til fundar í Gerðubergi, kl. 14:30 laugardaginn 22. september næstkomandi þar sem rætt verður um stéttaskiptingu. Form fundarins er samtal þar sem Daníel Örn Arnarson, stjórnarmaður í Eflingu, ræðir við Guðmund Ævar Oddsson félagsfræðing, en Guðmundur hefur rannsakað stéttaskiptingu og stéttavitund á Íslandi. Meðal spurninga sem hugsanlega verða ræddar eru: Hvað þýðir orðið „stétt“ nákvæmlega? Hvaða stéttir fyrirfinnast á Íslandi? Er stéttaskipting óréttlát? Er stéttaskipting náttúrulögmál eða er hægt að breyta henni? Er það rétt að stéttaskipting sé minni á Íslandi en annars staðar? Er hægt að flytja sig milli stétta? Eru Íslendingar meðvitaðir um stéttarstöðu sína? Hefur stéttaskipting breyst á síðustu áratugum? Hvaða áhrif geta verkalýðsfélög haft á stéttaskiptingu? Hvers vegna er talað um stéttabaráttu og stéttavitund? Eru hagsmunir stétta andstæðir eða borgar sig að vera „stétt með stétt“? Streymt verður af fundinum og hann tekinn upp, til að gera þeim kleift að fylgjast með sem ekki eiga heimangengt. Enskri þýðingu á efni fundarins verður varpað skjá jafnóðum. Félagsmenn í Eflingu og allt áhugafólk um samfélagsmál er boðið velkomið á fundinn. Að loknum fundi verður að venju boðið upp á kaffiveitingar. Hægt er að skrá börnin í barnagæslu á bókasafninu í Gerðubergi en nauðsynlegt er að skrá þau fyrirfram –  lokað er fyrir skráningu en öllum er frjálst að mæta á fundinn án þess að hafa skráð sig. In the land of unequal opportunities? Class divisions in Iceland We are all different, yet we believe we should all have equal opportunities. But are opportunities in fact equal when values are divide unequally between classes? Efling Trade Union invites you to a meeting in Gerðuberg, on Saturday, 22nd September at 2:30 pm, where class divisions in Iceland will be discussed. The meeting will take a form of a debate between Daníel Örn Arnarson, Efling´s board member, and Guðmundur Ævar Oddsson, sociologist researching class divisions and class consciousness in Iceland. The debate will revolve around the following questions: What exactly does the word ´class´ mean? What classes are there in Iceland? Are class divisions unjust? Are class divisions natural or can they be changed? Is it true that the classes are less divided in Iceland than in other countries? Is it possible to move between classes? Are Icelanders conscious of which class they belong to? Have the divisions between classes evolved in the last years? What influence can the trade unions have on the class divisions? Why do we talk about class struggle and class consciousness? Is there a conflict of interests between classes, or can they stand together, side by side? The meeting will be streamed live and recorded, to enable people who cannot attend the meeting to watch from home. A live, on-screen English translation of the meeting’s content will be provided. Members of Efling and everybody that are interested in social issues are welcome to join the meeting. Coffee and refreshments will be offered at the end of the meeting. Guests with children can register for child-care in the Gerðuberg Library – registration is over but everybody is welcome to join the meeting.  

Kall eftir tilnefningum til setu á 43. þingi ASÍ / Call for nominations to the 43rd ASÍ congress

—English below— Kall eftir tilnefningum til setu á 43. þingi ASÍ Efling-stéttarfélag býður félagsmönnum að gefa kost á sér til setu sem fulltrúar félagsins á
43. þingi Alþýðusambands Íslands sem fram fer dagana 24.-26. október næstkomandi. Áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að senda inn tilnefningu á netfangið efling@efling.is, í gegnum síma 510-7500 eða með því að koma á skrifstofur félagsins í Guðrúnartúni. Tilnefning þarf að berast fyrir klukkan 12 á hádegi fimmtudaginn 20. september. Félagsmönnum er heimilt að tilnefna félagsmenn aðra en sjálfan sig. Óskað er eftir að eftirfarandi upplýsingar komi fram í tilnefningu: Nafn og kennitala Sími Netfang Vinnustaður og/eða starfsgrein sem viðkomandi óskar eftir að vera fulltrúi fyrir (ekki krafa) Reynsla, þekking eða annað sem viðkomandi vill láta koma fram (ekki krafa) Stjórn Eflingar mun á fundi sínum 20. september samþykkja tillögu að lista yfir þingfulltrúa Eflingar. Við smíði þeirrar tillögu verður tekið tillit til reynslu og hæfni einstaklinga en einnig þess að listinn endurspegli félagið í heild með hliðsjón af aldri, kyni, uppruna og fleiri þáttum. Tillaga stjórnar að lista mun í kjölfarið liggja frammi til skoðunar og gefst frestur til 27. september að leggja inn mótframboð. Þing Alþýðusambandsins er æðsta vald í málefnum ASÍ og er haldið á tveggja ára fresti. Aðildarfélög senda mismarga fulltrúa á þingið reiknað eftir fjölda félagsmanna í hverju félagi og mun Efling að þessu sinni eiga 54 fulltrúa. Samtals sitja þrjú hundruð fulltrúar launafólks á þinginu og móta þeir stefnu ASÍ og kjósa forystu þess. Nánar um þingsköp ASÍ á vef sambandsins.   Delegates to the 43rd Congress of ASÍ – Call for Nominations Efling Union invites members to send nominations for delegates to the 43rd Congress of ASÍ, which will be held on October 24-26, 2018. Any interested member is encouraged to send a nomination to the email address efling@efling.is, via phone 510-7500, or coming by at the office at Guðrúnartún 1. Nominations must be sent by 12 noon on Thursday September 20. Members can nominate other members. Please include the following information when sending a nomination: Name and kennitala Phone Email address Workplace and/or sector represented by the person nominated (optiona) Experience, skills, or other relevant qualifications of the person nominated (optional) The board of Efling will approve a proposed list of delegates during its meeting on September 20. The proposed list will take into account individual experiences and qualifications but also overall representation of the Efling membership with regard to age, gender, origin, and other factors. The board’s proposed list will subsequently be made available for viewing and the deadline for submitting an alternative list will be September 27. The ASÍ Congress is the highest authority in the matters of ASÍ and is held every two years. Member unions are allowed to send a different number of delegates depending on the membership size of each union. Efling will have 54 delegates this time. A total number of 300 delegates representing wage earners will attend the congress and decide on the leadership and policies of ASÍ.

Baráttuhugur í fólki á félagsfundi Eflingar

Mikill hugur var í félagsmönnum Eflingar sem mættu á félagsfund sem haldinn var þann 13. september en fundurinn var vel sóttur. Á honum gafst fólki tækifæri til að segja sína skoðun á því hvað helstu áherslur félagsins ættu að vera í komandi kjarasamningum. Í upphafi fundar ávarpaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, félagsmenn og Stefán Ólafsson hjá Eflingu hélt að því loknu erindi. Í kjölfarið ræddu félagsmenn sín á milli um komandi kjarasamninga og settu niður á blað þau atriði sem þeir vildu leggja áherslu á í næstu samningum.

Fræðsludagur félagsliða haldinn 20. september

Starfsgreinasamband Íslands og Félag Íslenskra félagsliða boða til fræðsludags félagsliða, fimmtudaginn 20. september í Hannesarholti, Grundarstíg 10 í Reykjavík. Dagskrá 10:00 Morgunkaffi 10:30 Kjaramál – veturinn framundan, Drífa Snædal og Sonja Þorbergsdóttir 11:30 Breytingar á námi félagsliða, Þórkatla Þórisdóttir 12:00 Hádegismatur 13:00 Vinna og barátta félagsliða framundan, unnið úr tillögum frá síðasta fundi 14:00 Hvað er Bjarkarhlíð og fyrir hvern?, Berglind Eyjólfsdóttir og Hafdís Hinriksdóttir 15:00 Sjálfsstyrking og jákvæð sálfræði, Ragnhildur Vigfúsdóttir 16:00 Dagslok Skráning hjá Drífu Snædal fyrir 5. september, netfang 
drifa@sgs.is

Tækifæri til starfsmenntunar - Fagnámskeið fyrir eldhús og mötuneyti

Hægferð með stuðningi í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál verður í boði fyrir félagsmenn Eflingar sem vilja fara á fagnámskeiðin fyrir eldhús og mötuneyti. Gert er ráð fyrir að nemendur taki stöðupróf í upphafi til að kanna þekkingu þeirra á íslensku. Fagnámskeið I: hefst 25. september til 22. nóvember 2018. Hefðbundin kennsla fer fram á þriðjudögum og fimmtudögum, frá kl. 15:15 -18:50. Kennt er til viðbótar á miðvikudögum fyrir þá sem þurfa á stuðningi að halda í íslensku.  Á námskeiðinu er lögð áhersla á næringarfræði, hreinlætis- og örverufræði, matreiðslu, tölvunám og samskipti. Kennsla fer fram í Menntaskólanum í Kópavogi. Skráning hjá Eflingu-stéttarfélagi í síma 510 7500 eða á netfangið 
efling@efling.is Námskeiðið er ætlað félagsmönnum Eflingar sem starfa við greinina og er þeim að kostnaðarlausu.

Fjárlagafrumvarpið veldur vonbrigðum - allt of lítið gert fyrir okkar fólk

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að fjárlagafrumvarpið valdi henni vonbrigðum. Það er bara allt of lítið fyrir okkar fólk hér, sagði hún. „Ef við t.d. horfum bara á persónuafsláttinn þá hækkar hann mjög takmarkað. Hækkunin á honum dugir ekki til þess að halda í við launaþróun. Ef við horfum t.d. á þá hækkun barnabóta sem þarna er vissulega til staðar þá er hún bara alls ekki nógu mikil til þess að bæta fyrir þau skemmdarverk sem hafa verið unnin á því kerfi. Húsnæðismálin. Hækkunin á vaxtabótum sýnist mér ekki einu sinni duga til þess að bæta fyrir þá lækkun sem varð milli síðustu tveggja ára. Og þessi hækkun á hússnæðisstuðningi sem talað er um er bara mjög snautleg,“ sagði Sólveig Anna í fréttum RÚV í tilefni þess að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt í gær.

Hver verður næsti forseti ASÍ? Fundur í Gerðubergi með frambjóðendum

—English below Frambjóðendur til embættis forseta ASÍ mætast og kynna stefnumál sín. Drífa Snædal og Sverrir Mar Albertsson hafa staðfest þátttöku. Fundurinn verður haldinn í Gerðubergi, laugardaginn 15. september kl. 14.30. Fundarstjóri er Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. Komandi kjarasamningar, launamál, húsnæðismál og aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru meðal mála sem brenna á Eflingarfólki. Félagsmenn eru sérstaklega hvattir til að senda inn spurningar til frambjóðenda um þau mál sem brenna á þeim um leið og þeir skrá sig á fundinn. Spurningarnar verða teknar saman og bornar upp á fundinum. Ókeypis kaffiveitingar eru að loknum fundi. Streymt verður af fundinum og hann tekinn upp, til að gera þeim kleift að fylgjast með sem ekki eiga heimangengt. Enskri þýðingu á efni fundarins verður varpað skjá jafnóðum. Hægt er að skrá börnin í barnagæslu á bókasafninu í Gerðubergi en nauðsynlegt er að skrá þau fyrirfram hér fyrir neðan – lokað er fyrir skráningu en öllum er frjálst að mæta á fundinn án þess að hafa skráð sig. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en fólk er hvatt til að skrá sig á fundinn hér fyrir neðan og senda inn spurningar til frambjóðenda – lokað er fyrir skráningu en öllum er frjálst að mæta á fundinn án þess að hafa skráð sig. Who will be the next president of ASÍ? Candidates for the office of the presidency of ASÍ meet and present their policy. Drífa Snædal and Sverrir Mar Albertsson have confirmed their participation. The meeting will take place in Gerðuberg, Saturday September 15th at 14.30. The host is Þórður Snær Júlíusson, editor of Kjarninn. Upcoming negotiation of the collective agreement, wage concerns, housing situation and actions of the government are amongst matters that members of Efling are deeply concerned about. Members of the union are especially encourage to send in questions to the candidates about the matters they care for, when they register at the meeting. The questions will be taken together and asked at the meeting. Coffee and refreshments will be offered at the end of the meeting. The meeting will be streamed live and recorded, to enable people who cannot attend the meeting to watch from home. A live, on-screen English translation of the meeting’s content will be provided. Guests with children can register for child-care in the Gerðuberg Library here below – registration is over but everybody is welcome to join the meeting. Everyone is welcome for as long as space permits, but people are encouraged to register for the meeting here below – registration is over but everybody is welcome to join the meeting.

Co wiesz na temat swoich praw na rynku pracy?

—sjá á íslensku fyrir neðan Spotkanie (w języku polskim) dotyczące praw i obowiązków na rynku pracy odbędzie się 12 września o godz. 19:30 w budynku związków zawodowych Efling, Sætúni/Guðrúnatúni 1, na 4 piętrze. Wszyscy członkowie Eflingu mile widziani. Veistu allt um rétt þinn á vinnumarkaði? Kynningarfundur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði verður haldinn á pólsku, miðvikudaginn 12. september kl. 19.30. Fundurinn er haldinn hjá Eflingu-stéttarfélagi, Sætúni/Guðrúnartúni 1, 4.hæð. Allir félagsmenn eru velkomnir.

Fulltrúar Eflingar-stéttarfélags verða á skrifstofu Eflingar í Hveragerði tímabilið 10. -17. september

Fulltrúar kjaramála, sjúkrasjóðs, orlofssjóðs og fræðslusjóðs Eflingar verða með aukna viðveru á skrifstofu Eflingar í Hveragerði á tímabilinu 10.-17.september frá kl. 9-15. Mánudaginn 10. september – Kjaramál Þriðjudaginn 11. september – Kjaramál Fimmtudaginn 13. september – Kjaramál og sjúkra- og orlofssjóður Föstudaginn 14. september – Kjaramál, sjúkra- og fræðslusjóður Mánudaginn 17. september – Kjaramál (pólskumælandi) og sjúkrasjóður (rússneskumælandi) Við hvetjum alla félagsmenn á svæðinu til að nýta sér viðveru fulltrúanna og koma við á skrifstofunni að Breiðamörk 19 þessa daga.  

Vilja kanna grundvöll fyrir samstarfi Eflingar, VR og SGS - ályktun stjórnar Eflingar-stéttarfélags

Ályktun af fundi stjórnar Eflingar- stéttarfélags, 6. september 2018 Stjórn Eflingar – stéttarfélags felur formanni og forystu félagsins að kanna grundvöll þess að efna til samflots í kjaraviðræðum milli tveggja stærstu hópa launafólks á Íslandi, almenns verkafólks innan Starfsgreinasambandsins og verslunarfólks innan VR og Landssambands verslunarmanna. Það er mat stjórnar Eflingar að slíkt samflot, á grunni málefnalegs samhljóms, myndi færa verkalýðshreyfingunni mikinn styrk og slagkraft í viðræðum við bæði atvinnurekendur og stjórnvöld. Í tilefni af þessari ályktun sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: Ég fagna þessari ályktun stjórnar Eflingar gríðarlega. Það hefur myndast mjög gott samband milli nýrrar forystu VR og Eflingar, tveggja stærstu félaga launafólks á Íslandi, og í því felast miklir möguleikar sem landssamtökin hljóta að geta nýtt sér líka. Með samfloti SGS og VR eða Landssambands verslunarmanna yrði til mögulega öflugasta bandalag sem sést hefur í kjarasamningum á Íslandi. Ég trúi því heitt og innilega að samhljómurinn milli Eflingar og VR sé eitthvað sem eigi einnig að nást innan landssambandanna enda stöndum við alltaf sterkari sameinuð. Hækkun lægstu launa, breytingar á bóta- og skattkerfinu fyrir hina tekjulægstu, umbætur á fjármálakerfinu og stórtækar aðgerðir í húsnæðismálum – allt eru þetta atriði sem ég trúi ekki að nokkur maður geti lagst gegn innan míns landssambands, Starfsgreinasambandsins. Ég er mjög spennt að sjá hvert þetta geti leitt okkur og mun tala fyrir þessu innan SGS.

Félagsfundur um kjaramál og undirbúning kröfugerðar 13. september

—English and Polish below Félagsfundur Eflingar-stéttarfélags  – Opinn félagsfundur um kjaramál og undirbúning kröfugerðar Félagsfundur Eflingar-stéttarfélags verður haldinn fimmtudaginn 13. september kl. 20:00. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Eflingar, 4. hæð, Guðrúnartúni 1. Á dagskrá fundarins eru eftirfarandi mál. Kjaramál og undirbúningur kröfugerðar Önnur mál Félagar fjölmennið Stjórn Eflingar-stéttarfélags Union members meeting of Efling union – An open union members meeting about the collective agreement and preparation of demands The meeting will be held on Thursday, September 13th, at 20:00. The meeting will be held at Efling, 4th floor, Guðrúnartún 1. The agenda of the meeting is the following. The collective agreement and preparation of demands Other issues Fellow members let´s come together and attend the meeting. Board of Efling union Spotkanie członków zawiązków zawodowych Efling – Otwarte spotkanie dotyczące spraw zawartych w umowach zbiorowych oraz przygotowanie nowych żądań, dla wszystkich członków Eflingu. Spotkanie odbędzie się w czwartek 13 września o godzinie 20:00 w siedzibie związków zawodowych , przy ulicy Guðrúnartún 1, na 4 piętrze. Poruszne zostaną następujące tematy: Zagadnienia związane z umowami zbiorowymi Inne sprawy Członkowie –  liczymy na wasze przybycie. Zarząd Eflingu

Vilt þú hafa áhrif á gerð kjarasamninga?

—English and Polish below Efling-stéttarfélag óskar eftir tilnefningum í samninganefnd félagsins. Um hlutverk og skipan samninganefndar má sjá í lögum Eflingar, 18.gr. Félagsmenn geta tilnefnt sjálfan sig og/eða aðra félagsmenn. Það er svo í höndum trúnaðarráðs að kjósa í samninganefndina en taka þarf tillit til hæfni og reynslu einstaklinga sem og til þess að nefndin endurspegli félagið sem best. Tilnefningar þurfa að hafa borist í síðasta lagi mánudaginn 17. september. Hægt er að skila inn tilnefningu með tölvupósti á
efling@efling.is, með því að hringja í s.510 7500 eða koma á skrifstofu Eflingar. Upplýsingar sem þurfa að koma fram í tilnefningu eru: Nafn og kennitala Sími Netfang Vinnustaður og/eða starfsgrein sem viðkomandi óskar eftir að vera fulltrúi fyrir Reynsla, þekking eða annað sem viðkomandi vill láta koma fram   Would you like to have an impact in forming the collective agreement? Efling-union requests nominations in the union´s negotiating committee. The role and composition of the negotiating committee can be found in the Laws of Efling, nr. 18. Members can nominate themselves and / or other members. It is then in the hands of the board of representatives to vote who will become members of the negotiating committee, taking account of the skills and experience of individuals as well as for the committee to reflect the union as best. Nominations must be received no later than Monday, September 17th. You can submit a nomination by e-mail at efling@efling.is, by calling #510 7500 or come by the office of Efling. The information required for nomination is: Name and ID number (kennitala) Phone Email Workplace and / or profession that the person wishes to represent Experience, knowledge or anything else that the person wants to state   Czy chcesz brać udział w tworzeniu umów zbiorowych z pracodawcami? Związek zwodowy Efling ogłasza nominacje do komisji negocjacyjnej. Więcej informacji na temat obowiązków i struktury komisji negocjacyjnej można znaleźć w artykule 18 regulaminu związku zawodowego Efling. Członkowie związku mogą nominować siebie oraz/lub innych członków. Nominacje do komisji negocjacyjnej zostaną rozpatrzone przez radę mężów zaufania, która weźmie pod uwagę doswiadczenie i umiejętnosci nominowanych członków i w drodze głosowania wybierze członków najlepiej reprezentujących związek zawodowy Efling. Nominacje muszą wpłynąć nie później niż do poniedziałku, 17ego wrzesnia. Nominacje można przesłać poprzez e-mail na efling@efling.is, telefonicznie pod numerem 510 7500, lub osobiscie w biurze związku zawodowego Efling. Informacje potrzebne do nominacji to: Imię, nazwisko oraz kennitala. Numer telefonu Email Miejsce zatrudnienia oraz/lub zawód osoby nominowanej Informacje na temat doswiadczenia, edukacji oraz inne istotne informacje  

Líf lágtekjufólks og verkafólks er líf skuldsetningar - leiðari formanns í 5.tbl. Eflingar

Leiðari formanns í 5.tbl. 2018 Líf lágtekjufólks og verkafólks er líf skuldsetningar Á Íslandi, líkt og annars staðar í veröldinni, þarf stétt verka- og láglaunafólks að glíma við ýmiskonar óréttlæti. Fjármagnseigendur ráða lögum og lofum í efnahagslífinu og fara að mestu sínu fram. Fyrir rétt rúmum tíu árum síðan skall hér á djúp og hrikaleg kreppa vegna þess að alþjóðlegt, afregluvætt fjármálakerfi, rekið af fjölþjóðlegri stétt fjármagnseigenda, sprakk í loft upp og rústirnar hrundu yfir okkur, almenning. Hrunið hafði gríðarmiklar afleiðingar í för með sér fyrir okkur; atvinnumissi, tekjumissi og ekki síst húsnæðismissi. Afleiðingarnar voru þó ekki aðeins fjárhagslegar eða efnahagslegar, því það lagðist líka þungt á andlega og líkamlega heilsu fólks. Rannsóknir, meðal annars Örnu Hauksdóttur við Háskóla Íslands, hafa sýnt að heilsu fólks, sérstaklega kvenna, hrakaði mikið í kjölfar hrunsins. Það má leiða að því líkum að þau heilsufarsvandamál sem við sjáum nú á vinnumarkaði og vaxandi nýgengi örorku megi að einhverju leyti rekja til þess gríðarmikla álags sem fylgdi því óöryggi og áhyggjum sem hrun fjármálakerfisins lagði á íslenska alþýðu. En þó það séu liðin tíu ár frá hruninu lifir stór hluti almennings enn við sama álag. Af löngum lista um það sem grefur undan möguleikum okkar til að öðlast efnahagslegt öryggi eru tvö atriði sem vert er að nefna hér. Eitt er hin svokallaða séreignastefna sem rekin hefur verið á íslenska húsnæðismarkaðnum. Ein afleiðing hennar er sú að leigumarkaðurinn er bæði vanþróaður og skelfilega dýr. Tekjulágu fólki er gert að sætta sig við að greiða ríflega helming ráðstöfunartekna í húsaleigu og oft meira. Fólk sekkur í djúpa skuldasúpu til þess eins að standa straum af eðlilegum daglegum heimilisútgjöldum, hvað þá ef fólk þarf skyndilega að mæta óvæntum útgjöldum. Eina leiðin út af leigumarkaðnum er svo frekari skuldsetning, ef fólk er svo „heppið“ að hljóta náð fyrir augum lánastofnanna. Rót vandans er sú að í samfélagi nýfrjálshyggjunnar fær fólk ekki borguð laun sem endurspegla hvað það í raun kostar að lifa mannsæmandi lífi, koma sér þaki yfir höfuðið og halda heimili. Þess í stað er fólki boðið að leysa fjárhagsvandamál með því að skuldsetja sig. Þessi mikli aðgangur að lánsfé er einmitt eitt af einkennum fjármálavæðingar, og augljós afleiðing óréttlátrar skiptingar gæðanna. Fjármagnseigendur sölsa til sín stöðugt stærri hluta af þeim verðmætum sem verkafólk býr til, og bjóðast svo til að lána þau til baka, auðvitað gegn okurvöxtum. Til þess að kóróna óréttlætið hefur hér á landi verið búið svo um hnútana að fjármagnseigendur geta stundað sína okurlánastarfsemi nokkurnveginn áhættulaust. Síðan verðtryggingunni var komið á hafa fjármagnseigendur getað gengið út frá því sem vísu að fá „raunvirði“ peninganna greitt að fullu til baka. Þá er komið að hinu atriðinu sem er verðtryggingin. Hún gerir það að verkum fjármagnseigendur eru tryggðir fyrir verðfalli peninganna, og endurgreiðsluáhættan er lítil sem engin, enda vita allir sem lentu í skuldakröggum haustið 2008 að lánastofnanir ganga að veðum og ábyrgðarmönnum af fullri hörku. Almenningur fær hins vegar áfram að axla að fullu áhættuna sem felst í ótryggu verðgildi peninganna. Á sama tíma geta kapítalistarnir auðvitað komið sér hjá því að borga sínar skuldir. Okkur eru í fersku minni allir þeir milljarðar sem afskrifaðir voru hjá útrásarvíkingum og gæðingum þeirra eftir hrun, á sama tíma og skuldir heimilanna hækkuðu um 400 milljarða, þökk sé verðtryggingunni. Þrátt fyrir ævintýralegar afskriftir og útlánatöp til allra handa fjárfestingarfélaga hafa bankarnir skilað 700 milljörðum í hagnað frá hruni, meðal annars vegna verðtryggingarinnar og þess að geta ávallt gengið að stórum hluta af tekjum alþýðunnar vísum. Misréttið í samskiptum okkar og fjármagnseigenda er eitt af stærstu verkefnum þeirrar stéttabaráttu sem nú er framundan. Að hér séu í umferð annars vegar verkamannakróna sem ekki er hægt að stóla á og svo hins vegar verðtryggð fjármagnseigendakróna gengur ekki lengur. Það er fyrir löngu tímabært að verkalýðshreyfingin beiti sér af öllu afli til að útrýma þessu grundvallaróréttlæti í íslensku samfélagi. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar-stéttarfélags 

Solidarność naszą siłą: Mobilizacja polskich pracowników Efling

 – sjá á íslensku fyrir neðan  Związek zawodowy Efling zaprasza na spotkanie w języku polskim w Gerðuberg, w sobotę, 8-go września w godzinach 14:30-16:00. Na spotkaniu chcemy poruszyć problem obecnej sytuacji na islandzkim rynku pracy w perspektywie praw pracowniczych, nadchodzących negocjacji w kwestii podniesienia pensji minimalnej i szczególnych problemów dotykających polską społeczność. Główny program spotkania to prezentacje Wiesławy Very Lupinskiej (pracownica biura Efling), Anny Marjankowskiej (członkini zarządu Efling) i Magdaleny Kwiatkowskiej (członkini zarządu Efling), następnie zaprosimy wszystkich do zadawania pytań i aktywnego udziału w dyskusji. Po spotkaniu zapraszamy na kawę i poczęstunek. Na miejscu można będzie zakupić bilety z 40% zniżką na koncert polskiej grupy Kult. Koncert odbędzie się w Harpie w dniu 30 września. Należy zapisać się przy wejsciu na spotkanie, bilety do odebrania po jego zakończeniu. Za bilety można zapłacić kartą płatniczą. Zapewniamy opiekę nad dziećmi w trakcie spotkania, w bibliotece Gerðuberg, w tym samym budynku. Konieczne są zapisy dzieci na stronie poniżej Chcąc przygotować odpowiednią liczbę miejsc, prosimy o zarejestrowanie się przed spotkaniem na stronie poniżej Samstaða er okkar styrkur: Pólska samfélagið í Eflingu vaknar. Efling-stéttarfélag býður pólskumælandi félagsmönnum til fundar í Gerðubergi laugardaginn 8. september kl. 14.30 – 16.00. Aðalefni fundarins er núverandi ástand þegar kemur að réttindum verkafólk á íslenskum vinnumarkaði, komandi kjarasamningsviðræður og sérstakar áhyggjur pólska samfélagsins á Íslandi. Aðaldagskráratriðin verða flutt á pólsku af Veru Lupinsku, starfsmanni Eflingar, Önnu Marjankowsku og Magdalenu Kwiatkowsku, sem eru stjórnarmenn í Eflingu. Í lok fundar verður opið fyrir spurningar og umræður. Kaffiveitingar eru að loknum fundi. Á staðnum verður hægt að kaupa miða með 40% afslætti á tónleika pólsku hljómsveitarinnar Kult í Hörpu sem verða þann 30. september. Til að fá miðann þarf að skrá sig á staðnum í upphafi fundar og eru miðar afhentir í lok fundar. Posi verður á staðnum. Hægt er að skrá börnin í barnagæslu á bókasafninu í Gerðubergi. Nauðsynlegt er að skrá börnin fyrirfram í gæsluna hér fyrir neðan. Fólk er hvatt til að skrá sig á fundinn á hér fyrir neðan.

Um framlag stjórnvalda til kjarasamninga

– eftir Stefán Ólafsson, sérfræðing hjá Eflingu-stéttarfélagi. I. Fag­ur­gali eða alvöru vilji? Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar seg­ir: “Rík­is­stjórnin mun beita sér fyrir sam­stilltu átaki með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins til að tryggja að kjara­samn­ingar skili launa­fólki og sam­fé­lag­inu raun­veru­legum ávinn­ing­i.” Einnig þetta: “Hafin verður end­ur­skoðun á tekju­skatts­kerf­inu með áherslu á lækkun skatt­byrði og mögu­legar breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi per­sónu­af­sláttar og sam­spili við bóta­kerfi sem ætlað er að styðja við tekju­lægri hópa (lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur).” Þetta eru æski­leg mark­mið. Hins vegar var reynslan af fram­lagi stjórn­valda á síð­asta samn­ings­tíma­bili (2015 til 2018) önd­verð. Þá juku stjórn­völd skatt­byrði launa­fólks, og bitn­aði það sér­stak­lega á lág­launa­fólki. Það gerð­ist vegna þess að skatt­leys­is­mörk fylgdu ekki launa­þró­un, eins og nauð­syn­legt er til að halda skatt­byrði óbreyttri frá ári til árs þó laun hækki. Þá rýrn­uðu vaxta­bætur veru­lega og barna­bætur sömu­leið­is. Mun færri fengu þessar bætur en áður og hækk­aði það skatt­byrði við­kom­andi umtals­vert. Hús­næð­is­stuðn­ingur stjórn­valda varð í heild­ina minni en nokkrum sinnum áður, á sama tíma og bæði kaup­verð íbúð­ar­hús­næðis og húsa­leiga fóru úr öllum bönd­um, með gríð­ar­legum hækk­un­um. Þannig urðu aðgerðir stjórn­valda til þess að rýra stór­lega þær kjara­bætur sem verka­lýðs­hreyf­ingin samdi um á síð­asta samn­ings­tíma­bili, einkum hvað snertir lægri launa­hópa. Þetta er ein af stóru ástæð­unum fyrir þeirri djúp­stæðu óánægju sem er meðal launa­fólks og innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar í dag. Þess­ari þróun eru gerð grein­ar­góð skil í skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efna­hags­mála í aðdrag­anda kjara­samn­inga (2018), sem unnin var fyrir for­sæt­is­ráðu­neyt­ið. Þetta hefur einnig komið fram í gögnum sem ASÍ hefur lagt fram um þessi mál og í viða­miklum fræði­legum rann­sóknum á þróun tekju­skipt­ing­ar­inn­ar. Lítum aðeins á gögn um þessa þró­un. II. Stjórn­völd hafa vegið að lág­tekju­fólki a) Rýrnun per­sónu­af­sláttar eykur skatt­byrði lág­launa­fólks Hvort sem litið er til áranna frá 1990 til hruns eða áranna eftir 2014 þá hefur þró­unin verið á þann veg, að per­sónu­frá­dráttur (skatt­leys­is­mörk) tekju­skatt­kerf­is­ins hefur rýrnað umtals­vert. Það skilar sér beint í auk­inni skatt­byrði og kemur með mestum þunga á lág­launa­fólk. Rýrnun skatt­leys­is­marka í núver­andi tekju­skatt­kerfi vegur þannig stór­lega gegn hags­munum með­lima verka­lýðs­fé­lag­anna. Mynd 1 sýnir rýrnun skatt­leys­is­markanna) frá 1990 til 2018. Mynd 1: Þróun skatt­leys­is­marka í hlut­falli við lág­marks­laun, frá 1990 til 2018. Heim­ild­ir: Rík­is­skatt­stjóri og Efl­ing-­stétt­ar­fé­lag. Á árunum frá 1988 til 1996 voru skatt­leys­is­mörkin hærri en lág­marks­laun. Það er að segja, umsamin lág­marks­laun á vinnu­mark­aði voru skatt­frjáls í tekju­skatti (allir greiddu samt virð­is­auka­skatt af neyslu sinn­i). Hið sama gilti um hámarks líf­eyr­is­greiðslur frá Trygg­inga­stofnun (þ.e. óskertan líf­eyri) – þær voru líka skatt­frjálsar á þessum tíma. Í dag er innan við helm­ingur lág­marks­launa skatt­frjáls! Stjórn­völd voru að rýra skatt­leys­is­mörkin ár frá ári eftir 1991 og hélst sú þróun áfram meira og minna til 2006. Vinstri stjórnin hækk­aði svo skatt­leys­is­mörkin aðeins eftir hrun (2009 og 2010) og lækk­uðu þau síðan nokkuð til 2013. Eftir 2014, eða á síð­asta samn­ings­tíma­bili, tók svo aftur við umtals­verð rýrnum skatt­leys­is­marka (í hlut­falli við laun), sem hefur staðið alveg til 2018. Skatt­leys­is­mörkin fóru þá úr um 61% árið 2014 af lág­marks­launum niður í 49% á yfir­stand­andi ári. Þannig var sífellt stærri hluti lág­marks­launa skatt­lagð­ur. Skatt­leys­is­mörkin héldu ekki í við þróun lág­marks­launa og þar með jókst skatt­byrði lág­marks­launa. Þessi skip­an, að láta skatt­leys­is­mörkin ekki fylgja launa­vísi­tölu (heldur aðeins verð­lags­vísi­tölu) hækkar skatt­byrði lág­launa­fólks sjálf­krafa þegar laun hækka umfram verð­lag. Þetta er sér­stak­lega ósann­gjarnt og raunar óþol­andi, vegna þess að við­mið­un­ar­mörk hærra álagn­ing­ar­þreps­ins í tekju­skatt­inum er bundið þróun launa­vísi­töl­unnar (eins og bent er á í skýrslu Gylfa Zoega fyrir for­sæt­is­ráðu­neyt­ið). Það þýð­ir, að þegar hærri launa­hóp­arn­ir, þeir sem eru með meira en 900.000 kr. á mán­uði, fá kaup­hækkun þá eykst skatt­byrði þeirra ekki. Það er aðeins hjá lág­launa­fólki og milli­tekju­hópum sem skatt­byrði eykst sjálf­krafa með kaup­hækk­un­um. Þetta er óþol­andi órétt­læti í garð lág­launa­fólks sem verka­lýðs­hreyf­ingin verður að stöðva nú þeg­ar. b) Rýrnun vaxta­bóta og barna­bóta veikir vel­ferð­ina (og hækkar skatt­byrði margra í lægri launa­hóp­um) Stjórn­völd voru einnig að rýra vaxta­bætur og barna­bætur á ára­tugnum fram að hruni, sem bitn­aði einkum á ungu fjöl­skyldu­fólki sem var að koma sér upp hús­næði. Margt af því fólki var snemma á starfs­ferli sínum og því oft á lágum laun­um. Þannig var stuðn­ingur opin­bera vel­ferð­ar­kerf­is­ins til þess­ara hópa dreg­inn sam­an, sem auð­vitað rýrði kjör við­kom­andi fjöl­skyldna. Á árunum eftir hrun voru vaxta­bætur auknar mjög mikið af vinstri stjórn­inni til að milda aukna greiðslu­byrði hús­næð­is­skulda (sem jókst vegna verð­bólgu og mik­illar lækk­unar kaup­máttar ráð­stöf­un­ar­tekna).  En eftir 2013 hafa stjórn­völd skert barna- og vaxta­bætur stór­lega. Bæði hefur dregið úr útgjöldum og þeim sem njóta þess­ara bóta hefur stór­lega fækk­að, eins og sjá má á mynd 2. Mynd 2: Fækkun fram­telj­enda sem fá barna- og vaxta­bæt­ur, frá 2013 til 2017. Heim­ild: Rík­is­skatt­stjóri Þiggj­endum barna­bóta hefur fækkað um nærri fjórð­ung, eða 23%, á þessum 4 árum (sem jafn­gildir 13.147 fram­telj­end­um). Þiggj­endum vaxta­bóta hefur fækkað um hátt í helm­ing, eða um 42%, á tíma­bil­inu. Þannig hafa hátt í 20 þús­und fram­telj­endur misst vaxta­bætur sem nið­ur­greiða vaxta­kostnað fjöl­skyldna af því að koma sér upp eigin hús­næði. Þetta eru gríð­ar­lega miklar breyt­ing­ar, sem eru ekk­ert annað en aðför að vel­ferð­ar­kerf­inu og sér­stak­lega að lífs­kjörum ungs fjöl­skyldu­fólks. Þar eð þessar bætur eru tekju- og eigna­tengdar og einnig tengdar hjú­skap­ar­stöðu þá bitnar þetta hlut­falls­lega mest á fólki sem er á lægstu launum og lægri milli launum – og þeim sem eru eigna­litlir fyrir og oft með umtals­verða barna­fram­færslu. Mynd 3 sýnir svo þróun hús­næð­is­stuðn­ings hins opin­bera (bæði vaxta­bætur og húsa­leigu­bæt­ur) frá 2003 til 2016. Mynd 3: Hús­næð­is­stuðn­ingur hins opin­bera, sem % af vergri lands­fram­leiðslu Heim­ild: Hag­stofa Íslands Frá 2003 til 2007 voru stjórn­völd að draga árlega úr hús­næð­is­stuðn­ingi við ungar fjöl­skyld­ur, á sama tíma og verka­manna­bú­staða­kerfið hafði verið lagt niður og bönk­unum hleypt inn á hús­næð­is­lána­mark­að­inn. Frá 2004 tók hús­næð­is­verð (og húsa­leiga) að hækka veru­lega – sam­hliða rýrnun opin­bers hús­næð­is­stuðn­ings við fjöl­skyldu­fólk. Eins og myndin sýnir stórjókst hús­næð­is­stuðn­ing­ur­inn í tíð vinstri stjórn­ar­innar eftir hrun og náði hámarki árið 2011. Árið 2013 hafði hann verið lækk­aður (með nið­ur­lagn­ingu sér­stakra vaxta­bóta) og eftir 2014 hefur hann lækkað umtals­vert á ný. Árið 2016 var opin­ber hús­næð­is­stuðn­ingur orð­inn lægri en hann hefur nokkru sinni verið frá því kerfið var tekið upp árið 1990. Á sama tíma hefur bæði hús­næð­is­verð og húsa­leiga náð áður óþekktum hæð­um, með alvar­legum afleið­ingum fyrir kjör lág­launa­fólks, ekki síst ungs fjöl­skyldu­fólks. Í fjár­hags­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar fyrir 2018 til 2022 kemur fram að stjórn­völd eru að gera ráð fyrir að lækka útgjöld til hús­næð­is­stuðn­ings umtals­vert til við­bótar á næstu árum. Ótrú­legt – en satt! Íslend­ingar hafa lengi búið við eina allra hæstu hús­næð­is­vexti á Vest­ur­löndum og í bland við verð­trygg­ingu neyslu­lána hafa verið lagðar mun meiri byrðar á íslenskar fjöl­skyldur við að koma sér upp öruggu hús­næði en tíðkast í grann­ríkj­un­um. Þörf er meiri hús­næð­is­stuðn­ings (nið­ur­greiðslu vaxta­kostn­aðar hús­næð­is­lána og leigu) – en ekki minni eins og stjórn­völd stefna að (skv. fjár­hags­á­ætlun til árs­ins 2022). III. Stjórn­völd brugð­ust síð­ast – hvað ger­ist nú? Á tíma­bili síð­asta kjara­samn­ings (frá 2015 til 2018) hafa stjórn­völd þannig vegið stór­lega að kjörum sem um var samið og hefur það bitnað hlut­falls­lega mest á lægstu launa­hóp­um, en afleið­ing­arnar ná einnig upp í lægri mið­launa­hópana. Þetta fólk finnur lítið fyrir góð­ær­inu. Þess­ari her­ferð stjórn­valda gegn lífs­kjörum launa­fólks þarf að hrinda og snúa við. Stjórn­völd þurfa nú að standa við lof­orðin sem þau hafa gef­ið. En er þess að vænta við núver­andi aðstæð­ur? Mér hefur sýnst að fyrstu skref starfs­hópa á vegum stjórn­valda við vinnu að breyttu skatta- og bóta­kerfi boði ekki gott í þessum efn­um. Þeir hafa sótt fyr­ir­myndir til Banda­ríkj­anna en ekki til Skand­in­av­íu. Á næst­unni mun reyna á hvort stjórn­völd leggi fram eitt­hvað sem um munar til að breyta þeirri óheilla­þróun sem hér að ofan er lýst. Greinin birtist fyrst á Kjarnanum

5.tbl. Eflingar komið út ásamt sérstöku Fræðslublaði

5.tbl. Fréttablaðs Eflingar er komið út með fullt af áhugaverðu efni til að skoða, viðtöl við nýja stjórnarmenn, grein um húsnæðismarkaðinn eftir Ólaf Margeirsson, viðtal við Íslandsmeistara kaffibarþjóna, grein um verkefni kjarabaráttunnar eftir Stefán Ólafsson, umfjöllun um dóm í máli fyrrum starfsmanns Hótels Adams og margt fl. Inní blaðinu er sérstakt Fræðslublað þar sem félagsmenn geta skoðað þau námskeið sem þeim stendur til boða en félagsmenn geta sótt sér ýmsa fræðslu sér að kostnaðarlausu.
Smelltu hér til að skoða nýjasta blaðið Smelltu hér til að skoða námsframboðið í vetur

Kerfisbreyting vinnu-konunnar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar: Nr.1. Nokkur orð um hefðbundið kvennastarf En ég legg til að við reiknum líka með orðunum okkar og tilfinningunum og spyrjum: Hversu mikið af konutárum, blóði og svita þarf íslenskt hagkerfi? Hversu lengi eigum við vinnu-konur, aðfluttar og íslenskar konur sem tilheyra stétt verka- og láglaunakvenna, að sætta okkur við að rogast um með samfélagið á bakinu, án þess að fá fyrir það sanngjörn laun? Vinnu-konur nútímans vinna við allt mögulegt; þrif, afgreiðslustörf, þjónustustörf, framleiðslustörf og það sem kallað eru umönnunarstörf; m.a. við að sinna þörfum þeirra ungu sem snúa að gæslu og uppfræðslu. Þær síðastnefndu vinna við það sem kalla mætti undirstöðuatvinnugrein en þess ber sannarlega hvergi merki þegar horft er til tekna þeirra. Það er vissulega merkilegt að í íslensku samfélagi sé því sem næst öllum börnum tryggður aðgangur að gæslu og menntun. Leikskólarnir byggja á sósíalískum hugmyndum um að börn  eigi rétt á nákvæmlega sömu aðhlynningu og menntun, sama hvaða stétt þau tilheyri. En jafnframt tryggir starfsemi þeirra að margumrædd hjól atvinnulífsins halda áfram að snúast. Í heimsmynd alvinnusamfélagsins eru þeir ein af mikilvægustu undirstöðunum. En eitt „gleymdist“ þegar dæmið um leikskólana var reiknað og það var ekki síst vegna djúpstæðrar og kerfisbundinnar fyrirlitningar á konu-vinnu: Það gleymdist að reikna með því að borga (kven)vinnuaflinu laun sem hægt væri að komast af á.  Vinnu-konurnar vinna vinnuna, auðvitað á afsláttarprís, enda tíðkaðist frá örófi alda að láta þær gera það ókeypis. Fyrir verkefnastjórum alvinnusamfélagsins eru verka- og lágstéttarkonur ekkert annað en tölur í excel-dálki og þeir telja ekki neina ástæðu til að velta veruleika þeirra eitthvað sérstaklega fyrir sér. En þar sem það er fullsannað og óumdeilanlegt að íslenskir kapítalistar ásamt hinu opinbera eru í raun og sannleika upp á konur komin með verkefni sín, hvort sem það er að græða eða að reka samfélagið, er orðið löngu tímabært að mikilvægi vinnu-kvennanna sem „aðila vinnumarkaðarins“ sé viðurkennt og að þeim sé raunverulega launað fyrir framlag sitt til samfélagsins. Kaldlyndi og áhugaleysi þeirra sem hér fara með völd þegar kemur að aðstæðum láglaunakvenna sem vinna með börnum þjóðfélagsins (sem og öðrum efnahagslega undirsettum konum) er óþolandi og okkur ber að hafna alfarið áframhaldandi níðingshætti.   Nr. 2. Aðfluttar verka og láglaunakonur Meðferð á konum um allan heim er hörmuleg. Einn af stóru gerendunum í lífi þeirra er sá sadíski óskapnaður sem alþjóðavæddur nýfrjálshyggjukapítalisminn er. Láglaunakonum, líka hér á Íslandi, er í raun haldið í efnahagslegri gíslingu af kerfi sem fyrirlítur þær, kerfi sem þær áttu engan þátt í að skapa, kerfi sem þær hafa engin völd yfir. Staða erlendra kvenna sem hingað koma, víðsvegar að úr veröldinni, er alvarleg. Þær ganga flestar inn í störf sem eru lítils metin í íslensku samfélagi, yfirleitt hefðbundin kvennastörf. Þær, eins og verka- og láglaunakonur fæddar á Íslandi, eru markvisst arðrændar. Hinna aðfluttu kvenna bíða oft ótrúlegar þrautir og þrekraunir. Margar þurfa að heyja erfiða baráttu til þess eins að fá rétt útborgað því að jafnvel þó að rétt útborguðu launin séu sannarlega ekki há gerast engu að síður sumir atvinnurekendur frumlegir og lausnamiðaðir í því að „halda launakostnaði niðri.“ Þær þurfa að reyna að finna „jafnvægi“ á milli þess að vera vinnu-konur og konur sem geta átt einhverskonar prívatlíf, en þetta getur verið hægara sagt en gert, því dagarnir eru langir og erfiðir og oft lítið eftir af orku, bæði líkamlegri og andlegri, þegar heim er komið. Og ekki aðeins þurfa þessar konur að læra á frumskóginn sem íslenskur vinnumarkaður er orðinn heldur bíður þeirra einnig allur sá lærdómur sem er fólginn í því að setjast að í ókunnu samfélagi þar sem reglurnar og tungumálið eru sannarlega flókin fyrirbæri. Ekki má svo gleyma þætti húsnæðismarkaðarins sem afhentur hefur verið fjármagnseigendum til umsjónar (svo að þeir megi þar ná til baka sem stærstum hluta af tekjum vinnuaflsins) en á honum þurfa aðfluttar verka- og láglaunakonur á dúsa, enda erfitt að spara fyrir útborgun í íbúð þegar meira en helmingur ráðstöfunartekna þinna fer í húsaleigu. (Húsnæðiskerfið hér á landi hlýtur að teljast einn af bestu bröndurum sem borgarastéttin hefur sagt sín á milli). Þegar við horfum af  heiðarleika á lífið sem aðfluttum láglaunakonum er boðið upp á hér kemur í ljós að því fer fjarri að Ísland sé kvennaparadís. Fyrir þau sem efast má benda á #MeToo sögur kvenna af erlendum uppruna, þar sem dregin var upp viðurstyggileg lýsing á aðstæðum kvenna sem þurfa að glíma við þrefalda kúgun; 1) efnahagslega kúgun láglaunafólks, 2) kynbundna kúgun þeirra sem vinna hefðbundna konu-vinnu og 3) kúgun byggða á uppruna. Framkoman við aðfluttar vinnu-konur er til skammar. Hún er svartur blettur á íslensku samfélagi en byggir auðvitað á langri hefð um skelfilegt arðrán á alþýðukonum og því getur enginn neitað. Samstaða okkar sem fæddar erum á Íslandi með aðfluttum konum er lykilatriði í að breyta þessari ömurlegu hefð, öllum láglaunakonum til góða.   Nr. 3. Staða okkar í kapítalismanum og nýfrjálshyggjuvæddum femínisma Í nýfrjálshyggjunni er ekkert pláss fyrir þann sannleika að meðferðin á lægra settum konum er kerfisbundin, og að lausnin á efnahagslegum vanda þeirra er ekki fyrst og fremst frama-, valda-, gróða- og menntunarmöguleikar hverrar og einnar, heldur sá einfaldi sannleikur að tryggja ber öllum í samfélaginu góða afkomu og öryggi og að laun kven-vinnuaflsins (líkt og vinnuaflsins alls) eiga að endurspegla hvað það kostar að lifa mannsæmandi lífi. En þar sem þessi leið hefur verið lýst ófær og ekki til umræðu að ganga hana, hefur nýfrjálshyggjan þess í stað boðið okkur upp á brauðmola-femínisma, þar sem öll áhersla er lögð á persónulega velgengni einstakra kvenna. Það eina sem konur þurfa, í þeirri heimsmynd, er„jafn aðgangur að tækifærum.“ En fyrir þann stóra hóp sem hér er haldið kerfisbundið efnhagslega fangelsuðum er tómt mál að tala um jöfn tækifæri. Valdalausar og því sem næst samfélagslega ósýnilegar láglauna- og verkakonur eru engu betur settar þó konur eigi jöfn tækifæri á við karla í að verða stjórnarformenn í stórfyrirtækjum, talsmenn kapítalista, bankastjórar eða annarskonar verkefnisstjórar gróðavædds þjóðfélags. Í brauðmola-femínismanum er í raun fólgin krafa um að við sem tilheyrum lægri stéttunum stundum einhverskonar sjálfssefjun, að við „gleymum“ eigin aðstæðum og einbeitum okkur þess í stað að lífi annarra betur settra kvenna, í þeirri von að við getum einhvern daginn orðið örlítið meira eins og þær sem eiga mikið og mega margt. En vandamálin sem fylgja lífi láglaunakvenna eru kerfislæg, og svo alvarleg að það er í mínum huga hrein tímasóun fyrir okkur sem tilheyrum þessum hópi að velta fyrir okkur málum sem snúa að konum ofarlega í stigveldinu, eins og t.d. kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja. Við höfum einfaldlega hvorki tíma né orku til að berjast fyrir öðru en okkar eigin efnahagslegu hagsmunum, svo að við getum í raun átt möguleika á að upplifa einhverskonar frelsistilfinningu, en séum ekki alla okkar ævi dæmdar til að strita og streða, fastar í vítahring mikillar vinnu fyrir lítil laun. Í nálgun þeirra sem eiga hagsmuna að gæta þegar kemur að því að halda niðri verðinu á kven-vinnuaflinu opinberast greinilega sú skoðun að verkakonuvinnu eigi einfaldlega að verðleggja lágt. Þessa afstöðu sjáum við jafnvel þótt árangur náist í réttindabaráttu kvenna annars staðar. Sem dæmi má taka að þó konum fjölgi á þingi eða í sveitarstjórnum, stjórnum fyrirtækja og forstjórastólum er ekki að sjá að áherslan á að halda niðri launum vinnu-kvenna hafi minnkað. Sú staðreynd segir okkur kannski eitthvað um það hversu lítið er að marka fagurgalann um algjöra nauðsyn samstöðu kvenna þvert á stéttir. Kerfisbundið misrétti, stéttskipting og hefðbundin (söguleg) fyrirlitning á kvennastörfum er bundin inn í efnahagskerfi þjóðfélagsins. Þess vegna hafa þau sem fara með völd komist upp með að verðleggja okkur verkakonur svona lágt. Þetta misrétti er svo inngróið í samfélagið að meira að segja yfirlýstir femínistar úr röðum stjórnmálafólks virðist ekki enn hafa áttað sig almennilega á því að það er satt best að segja viðbjóðslegt að hafa stóran hóp kvenna í „hefðbundnum kvennastörfum,“ án þess að tryggja efnahagslegt öryggi þeirra og barna þeirra. Þegar verka- og láglaunakonur benda á að aðstæður þær sem þeim er gert að lifa við séu óboðlegar er oft látið eins og stéttastaða þeirra sé aðeins persónulegt val. En það er ekki „persónulegt val“ að fá útborguð laun fyrir fulla vinnu sem duga ekki til að komast af. Það er ekki „persónulegt val“ að þurfa að strita til að geta boðið barni sínu uppá lágmarks öryggi í lífinu. Það er ekki „persónulegt val“ að vera dæmd til að dvelja á botni stigveldisins. Við verkakonur og láglaunakonur eigum að hafna sögusögninni um einstaklingsmöguleika framalífsins og þess í stað eigum við að standa saman og láta á það reyna hvort að við getum knúið fram alvöru lífskjarabætur okkur og fjölskyldum okkar til handa. Það er barátta sem vert er að taka þátt í, barátta sem raunverulega getur fært okkur sigra og betra líf, barátta byggð á stórmerkilegri sögulegri hefð verkakvenna sem á undan okkur fóru, innblásnum af draumum um réttlæti og frelsi. Þær börðust við harðsvíraða kapítalista og þjóðfélag afskræmt af kvenfyrirlitningu og unnu engu að síður magnaða sigra. Leyfum sögu og sigrum þeirra að blása okkur baráttuanda í brjóst. Höfnum brauðmola-femínismanum og krefjumst samfélags sem er byggt á virðingu fyrir öllum manneskjum og efnahagslegu réttlæti.   Nr. 4. Konan sem auðlind. Eitt mikilvægasta verkefni þeirra sem stjórna og stýra í því nýfrjálshyggjusamfélagi sem við nú búum í er ögun vinnuaflsins. Að því er unnið með ýmsum verkfærum, t.d. með því að neita að ræða á lýðræðislegan og upplýstan máta um styttingu vinnuvikunnar, með því að neita að ræða um jafna skiptingu gæðanna og með því að búa aldrei til pláss í samfélagsumræðunni um stöðu verka- og láglaunakvenna, halda þeim rækilega jaðarsettum og helst ósýnilegum. Tvö nýleg dæmi um þessa ögun eru fáránlega ósvífin skrif leiðarahöfundar Fréttablaðsins sem fyrir helgi kallaði réttlátar kröfur um mannsæmandi laun heimtufrekju fólks sem vill fá „allt fyrir ekkert,“ og ummæli hagfræðings Viðskiptaráðs að hann hafi verið „skrambi glaður“ með það að lifa tímabundið af lægri ráðstöfunartekjum en 235.000 krónum á mánuði. Ég ætla að  fullyrða að engin láglaunakona sem þurft hefur að komast af á lágmarkslaunum tæki undir með hagfræðingi Viðskiptaráðs, enda er erfitt að vera, svo ég umorði þennan glaðlynda mann örlítið, skrambi glöð þegar maður býr við áralangt efnahagslegt óöryggi, peningaleysi og streð. Ég fullyrði líka að það er ekki láglaunafólk, sem með kröfu sinni um að fá að lifa mannsæmandi lífi af launum sínum krefst þess að fá „allt fyrir ekkert,“ heldur virðast eigendur íslensks samfélags telja að það sé réttmæt krafa þeirra að við, vinnuaflið, gefum þeim allt; alla starfskrafta okkar, alla okkar ævi, án þess að þeir þurfi nokkru sinni að borga okkur það sem við eigum skilið. Það tíðkast að setja allt fram með excel-tækum og tölulegum máta. En ég legg til að við reiknum líka með orðunum okkar og tilfinningunum og spyrjum: Hversu mikið af konutárum, blóði og svita þarf íslenskt hagkerfi? Hversu lengi eigum við vinnu-konur, aðfluttar og íslenskar konur sem tilheyra stétt verka- og láglaunakvenna, að sætta okkur við að rogast um með samfélagið á bakinu, án þess að fá fyrir það sanngjörn laun? Vinnuafl verka- og láglaunakvenna er samfélagsleg auðlind sem er nýtt af mikilli og djúpri ásælni í ódýrt vinnuafl og af ótrúlegri græðgi. Þar sem enginn hefur viljað taka það að sér að segja hátt og skýrt Nei! við meðferðinni á verka- og láglaunakonum þurfum við sjálfar að gera það. Þar er ekki eftir neinu að bíða. Látum ekki andstæðinga okkar í stéttabaráttunni komast upp með að reikna það út að við séum næstum verðlaus vara á útsölumarkaði kapítalismans, látum þess í stað alla í Kvennaparadísinni Íslandi horfast í augu við óréttlætið sem við höfum verið beittar.   Nr. 5. Kvennabaráttan Þrátt fyrir að Ísland mælist í alþjóðlegum samanburði hátt þegar kemur að jafnrétti á milli karla og kvenna er ekkert réttlæti til staðar í samfélaginu þegar kemur að úthlutun og skiptingu gæðanna. Á meðan að konur og karlar í efri lögum samfélagsins hafa jöfn tækifæri til að njóta góðs af öllu því auðmannadekri sem hér er stundað eru barna- og vaxtabætur hafðar af láglaunakonum og skattbyrði þeirra aukin, húsnæðismál alþýðunnar sett í algjört uppnám, og látið eins og engin lausn sé möguleg, svona bara eigi þetta að vera; sumar fæðist til að vinna alla ævi, á meðan að aðrar fái að njóta peninga, frítíma, ferðalaga og allra lífsins lystisemda. Ég hvet okkur til að hugleiða af einlægni hvernig á því stendur að við getum árum saman rætt um allt mögulegt sem viðkemur jafnréttisbaráttunni, en við getum ekki nema örstutta stund í einu gert það að aðalatriði að hér á landi er stór hópur kvenna sem þarf að dvelja í veröld þar sem enginn raunverulegur vilji er til staðar til að knýja í gegn þær pólitísku og efnahagslegu stefnubreytingar sem eru nauðsynlegar til að mæta þörfum þeirra. Ég spyr í fullri alvöru: Hvaða skilaboð eru stúlkum samfélagsins send með því að láta eins og ekkert sé eðlilegra en að hafa hóp kvenna við að sinna börnum á niðursettu verði, útreiknuðu með því að notast við sparnaðaráætlun kvenfyrirlitningarinnar? Hvernig finnst okkur tilhugsunin um að enn í dag séu að vaxa úr grasi stúlkur sem bíði sömu örlögin og hafa beðið ótal kvenna á Íslandi; strit og streð alla ævi, heilsuleysi, peningaleysi og vonleysi? Hvernig tilfinningar vakna hjá okkur þegar við heyrum af einstæðum mæðrum á biðlista eftir íbúðum hjá Félagsmálastofnun, af því að þær ráða ekki við brjálsemina á frjálsum húsnæðismarkaði fjármagnseigenda? Kvennabaráttan er ótrúlegt fyrirbæri og ein besta og mesta sönnun á djúpri þrá manneskjunnar eftir virðingu, réttlæti og frelsi. Við höfum náð fram allskonar mögnuðum sigrum með kvennasamstöðu. En staðreyndin er sú að baráttan fyrir efnahagslegu réttlæti til handa verka- og láglaunkonum hefur ekki verið barátta sem allar konur hafa sameinast í. Langt því frá. Það er staðreynd málsins. Láglaunakonur standa sína pligt; mæta til vinnu, strita þar fyrir litlu konu-launin sín, sinna svo fjölskyldunni sinni og er svo uppálagt, af sannri kvennasamstöðu, að finna smá orku á kvöldin til að gleðjast yfir því að þrátt fyrir allt saman er nú kona forsætisráðherra og femínisti borgarstjóri. Kvennabaráttan er risastór og stórmerkileg. Hún er mannkynssöguleg og alþjóðleg og hún tengir okkur við vinnu-konur um alla veröld og í gegnum söguna alla. En að halda því fram að hana eigi ávallt að heyja þvert á stétt, í brútalisma þeirrar veraldar sem upp er risin í kringum okkar, er afskaplega ósanngjörn krafa. Ég vona heitt og innilega að láglauna- og verkakonur á Íslandi ákveði að setja baráttuna fyrir eigin hamingju, draumum, löngunum og efnahagslegu þörfum loksins í forgang. Því það er sannarlega fyrir löngu tímabært að þær fái allt það pláss; andlegt, líkamlegt og fjárhagslegt sem þær telja sig sjálfar þurfa. Verka- og láglaunakonur; stöndum saman, hver með annarri í okkar lífsnauðsynlegu baráttu. Þá eru okkur allir vegir færir.

Fólkið í Eflingu opnar fundaröð Eflingar í Gerðubergi

—English below Eflingu – stéttarfélagi er mikil ánægja að bjóða félagsmönnum og öllum áhugasömum á fyrsta fund haustsins í Gerðubergi næstkomandi laugardag kl. 14:30. Fundurinn hefst með kynningu á verkefninu Fólkið í Eflingu. Í verkefninu varpar Alda Lóa Leifsdóttir, blaðakona og ljósmyndari, ljósi á félaga í Eflingu í máli og myndum og leitast við að upphefja mikilvægi fólksins sem stendur við vélarnar, þjónar, skúrar og bónar og annast börnin, sjúka og aldraða. Að kynningu lokinni býður Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, til umræðu um stöðu og markmið félagsins sem og hugmyndir félagsmanna um kjarabaráttu vetrarins. Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir en Fólkið í Eflingu er sérstaklega boðið velkomið sem heiðursgestir. Ýmissa grasa kennir á dagskrá fundanna sem haldnir verða í Gerðubergi á hverjum laugardegi kl. 14:30 fram í desember. Þar verður fjallað um hagsmunamál sem brenna á félagsmönnum og sumir fundanna verða miðaðir að tilteknum hópum félagsmanna, til dæmis starfsgreinum eða þeim sem tala ákveðin tungumál. Boðið verður upp á kaffiveitingar að formlegri dagskrá lokinni en ætlast til að gestir hafi yfirgefið húsið áður en Gerðuberg lokar kl. 16:00. Streymt verður af fundinum og hann tekinn upp, til að gera þeim kleift að fylgjast með sem ekki eiga heimangengt. Enskri þýðingu á efni fundarins verður varpað skjá jafnóðum. Hægt er að skrá börn í barnagæslu á bókasafninu í Gerðubergi hér fyrir neðan – skráningu er lokið. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en fólk er hvatt til að skrá sig á fundinn hér að neðan – skráningu er lokið. The People of Efling will kick off Efling’s series of meetings in Gerðuberg It is with great pleasure that Efling – trade union, invites its members, and everyone else interested, to this fall’s first meeting in Gerðuberg, this Saturday at 14:30. The meeting will start with a presentation of the project The People of Efling (Fólkið í Eflingu) The project, created by journalist and photographer Alda Lóa Leifsdóttir, introduces members of Efling through text and images, promoting the importance of the people standing by the machines, the people waiting tables, cleaning floors, and those caring for children, the sick and the elderly. After the presentation, the chairman of Efling, Sólveig Anna Jónsdóttir, invites guests to discuss the union’s status and its goals, as well as member’s ideas in relation to the upcoming bargaining this winter. The meeting is open to everyone for as long as space permits, but the guests of honour – The People of Efling – are especially encouraged to attend. The meetings in this series will cover various topics and will be held in Gerðuberg at 14:30, every Saturday until mid-December. The meetings will be focused on subjects of interest to Efling’s members and some of the meetings will be especially aimed at specific groups of members, e.g. certain professions or language groups. Coffee and refreshments will be offered at the end of the formal schedule, but guests are expected to leave the building before Gerðuberg’s closing time, at 16:00. The meeting will be streamed live and recorded, to enable people who cannot attend the meeting to watch from home. A live, on-screen English translation of the meeting’s content will be provided. Guests with children can register for child-care in the Gerðuberg Library. Everyone is welcome for as long as space permits, but people are encouraged to register for the meeting.

Efling gagnrýnir misnotkun kjarasamingsákvæða í veitingageiranum

„Kjarmálasvið Eflingar – stéttarfélags hefur vart undan að sinna umkvörtunum félagsmanna sem fá greitt vaktaálag fremur en yfirvinnuálag jafnvel þótt hvorki sé til að dreifa ráðningarsamningi né vaktaplani“ segir í ályktun stjórnar Eflingar. Á fundi stjórnar Eflingar þann 23. ágúst var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir miklum áhyggjum af vanefndum fjölmargra atvinnurekenda í veitingahúsageiranum og víðar á ákvæðum um vaktavinnu í 3. kafla kjarasamnings vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum. Kjarmálasvið Eflingar – stéttarfélags hefur vart undan að sinna umkvörtunum félagsmanna sem fá greitt vaktaálag fremur en yfirvinnuálag jafnvel þótt hvorki sé til að dreifa ráðningarsamningi né vaktaplani líkt og ákvæði samnings gera þó skýrt ráð fyrir. Efling – stéttarfélag kallar eftir því að ákvæðið og þær heimildir sem í því felast verði endurskoðaðar frá grunni, með þann möguleika í huga að krefjast afnáms þess hljóti sú tillaga hljómgrunn meðal félagsmanna í aðdraganda kjaraviðræðna.“ Ályktunin vísar til 3. kafla Kjarasamnings milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi en samningurinn er í gildi fram til loka árs 2018 líkt og aðrir helstu kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Lesa má nánar um samninginn á heimasíðu Eflingar
hér. Samningurinn kveður skýrt á um viss skilyrði sem atvinnurekandi þarf að uppfylla hyggist hann greiða starfsmanni vaktaálag fremur en yfirvinnuálag, en vaktaálag er lægra en yfirvinnuálag. Gera þarf ráðningarsamning og vaktaáætlun þarf að liggja fyrir, ella er óheimilt að nýta sér ákvæðið. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði eftirfarandi í tilefni ályktunarinnar: „Það er staðreynd að margir veitingahúsaeigendur leyfa sér að í raun og veru stela samningsbundnum launum af starfsfólki sínu. Þetta gera þeir iðulega með því að greiða vaktaálag í stað yfirvinnu þegar það er ekki heimilt. Vaktavinnuákvæðið í samningi okkar við SA vegna starfsfólks á veitingahúsum hefur því miður orðið að skálkaskjóli fyrir kerfisbundið fúsk. Kjaramálasvið okkar er með fjölmörg dæmi þar sem það er augljóst að atvinnurekendur eru vísvitandi að misnota ákvæðið. Við höfum þurft að leiðrétta launaútreikning fyrir hvern starfsmanninn á fætur öðrum hjá sama atvinnurekanda. Þegar vilji til að uppfylla ákvæði samninga er ekki fyrir hendi og þau eru kerfisbundið misnotuð er augljóst að það þarf að aðhafast. Endurskoðun samninga í vetur þarf að taka þetta inn í myndina, annað kemur ekki til greina.“

Efling býður til opnunarhátíðar föstudaginn 17. ágúst!

Opnunarhátíðin verður föstudaginn 17. ágúst milli kl. 16:00 og 18:00 í Hveragerði. Vegna flutnings á starfsstöð Eflingar-stéttarfélags í Hveragerði að Breiðumörk 19 og vígslu orlofsíbúðar á sama stað er öllum boðið að koma og skoða! Pylsur verða grillaðar fyrir gesti og gangandi og hoppukastali verður á staðnum fyrir börnin. Félagsmenn Eflingar eru sérstaklegar hvattir til að mæta.

Ágætt svigrúm til launahækkana

Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, skrifar. Þeir sem gæta hagsmuna atvinnurekenda og fjárfesta tala nú mikið um að ekkert svigrúm sé til launahækkana í komandi kjarasamningum. Það kemur svo sem ekki á óvart. Þetta er hefðbundið tal í aðdraganda kjarasamninga. Það sem kemur þó á óvart er hversu langt menn ganga að þessu sinni. Yfirleitt leyfa menn sér ekki að útiloka algerlega launahækkanir nema hagkerfið sé komið í djúpa kreppu eða umtalsverðan samdrátt. Er það sú staða sem við erum komin í núna? Ó nei! Öðru nær. Ágætur hagvöxtur og góðar horfur Hér er ágætur hagvöxtur. Mun meiri en almennt er í hagsældarríkjunum á Vesturlöndum. Þó eitthvað myndi hægja á þá væru Íslendingar áfram í góðum málum. Árið 2017 var hagvöxtur 3,6% á Íslandi en meðaltal Evrópusambandsríkja var 2,4%. Og það er spáð áframhaldandi hagvexti hér á landi frá 2018 til 2023 (á bilinu 2,5-2,9%) í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Það er mun meira en almennt er á alþjóðavettvangi (sjá myndina hér að neðan). Slíkar spár nokkur ár fram í tímann eru alltaf varfærnislegar. Þær eru þess vegna undir því sem menn búast við að verði í raun. Því má gefa sér að hagvöxtur verði í kringum 3% á Íslandi á næstu árum – að öðru óbreyttu. Stundum meiri og stundum minni. Eiga atvinnurekendur einir að njóta hagvaxtarins? Ef ekki yrðu launahækkanir í slíku árferði þá myndi hagvöxturinn renna óskiptur til atvinnurekenda og fjárfesta einna – en ekki til vinnandi launafólks. Tekjuhlutdeild ríkasta eina prósentsins myndi aukast. Aðrir stæðu í stað eða drægjust afturúr. Fyrir slíku getur ekki verið neinn hljómgrunnur á Íslandi, ef fólk er upplýst um raunverulega stöðu mála. Þessu til viðbótar geta aðilar vinnumarkaðarins einnig samið um breytta tekjuskiptingu og sett lægri launahópana í forgang. Slíkt er sérstaklega gagnlegt að gera þegar hægir á hagvexti og raunar einnig í kreppum. Það örvar hagvöxtinn. Hátekjuhóparnir, stjórnendur á almennum vinnumarkaði og Kjararáðsþjóðin, hafa verið að gera það gott að undanförnu, eins og allir vita. Heldur betur. Nú er komið að almennu launafólki og sérstaklega láglaunafólkinu. Ef eigendur fyrirtækjanna vilja halda aftur af launahækkunum þá eiga þeir að beina slíku að hærri tekjuhópunum. Stjórnvöld geta svo lagt félagslegum stöðugleika lið með því að breyta skattbyrði og velferðaraðgerðum lægri og milli tekjuhópum til hagsbóta – svo um munar. Það má ekki gerast aftur að stjórnvöld grafi undan kjarasamningum (og félagslegum stöðugleika) með aukinni skattbyrði lágtekjufólk eins og gerðist í kjölfar kjarasamninganna 2015. Svigrúm til kjarabóta er klárlega fyrir hendi. Það er mikilvægt að aðiljar vinnumarkaðar og stjórnvöld nái saman um að nýta það til að bæta kjör þeirra sem minna hafa.   Stefán Ólafsson er sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi   Nýjasta þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir Ísland til ársins 2023 og spá um hagvöxt á alþjóðavettvangi til samanburðar.

Starfskraftur til sölu

„Ég er starfskraftur til sölu og ég er meira að segja frekar ódýr starfskraftur, en ekki eins ódýr og verið hefur, það er alveg á hreinu,“ sagði Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra fyrir skemmstu, þegar kjaradeila ljósmæðra við ríkið var í hámarki. Með þessum orðum hitti hún naglann á höfuðið því um þetta snýst „samtalið“ á hinum svokallaða vinnumarkaði: hversu mikið er greitt fyrir aðgang að starfskrafti okkar. Við, sem eigum ekki fjármagn eða eignir til að lifa af, seljum aðgang að vinnuafli okkar. Við erum  „starfskraftur til sölu“ og niðurstaða samtalsins ákvarðar verðið. Það ætti að vera augljóst að við sjálf eigum að hafa töluvert mikið um það að segja hvað við fáum greitt fyrir alla þessa tíma og allt þetta líf, alla þessa vinnu. Við sjálf eigum að hafa mikið um það að segja hvaða vermiði er settur á okkur. En því miður virðist sem sumir „aðilar að samtalinu“ geti ekki með góðu móti viðurkennt þann rétt. Verð vinnuaflsins Það hlýtur að teljast sanngjörn krafa að verð vinnuaflsins miðist við þann kostnað sem er fólginn í því að lifa sem manneskja í samfélagi þar sem því sem næst allt er verðmerkt; kostnað við mat, húsnæði, fatnað og svo allan þann kostnað sem okkur er gert að bera í samfélagi nýfrjálshyggjunnar. Hér liggur beinast við að nefna aðgengi að æ kostnaðarvæddari heilbrigðisþjónustu, kostnaðarvæddri í þeim tilgangi að „auka kostnaðarvitund“ sjúklinga (þýtt yfir á mannamál: auka gróðamöguleika viðskiptalífsins). Ekki síst verður að taka inn í dæmið um hvað teljist sanngjörn laun fyrir unna vinnu þann kostnað sem fylgir því að eignast og ala upp börn (næstu kynslóð vinnuafls, lífsnauðsynlegu til þess að „hjól atvinnulífsins“ haldi áfram að snúast). En hér erum við komin að því sem orsakar hin eilífu átök og kemur í veg fyrir það að samtalið sé eins „friðsamt“ og æskilegt þykir. Ef þau sem fara með efnahagsleg völd í samfélaginu þyrftu að viðurkenna af heiðarleika hver kostnaðurinn er við að komast af, hve hár kostnaðurinn við að reyna að tryggja einhverskonar efnahagslegt öryggi er, þá þurfa þau að borga vinnuaflinu hærri laun. Og þar stendur hnífurinn ávallt í hinni margstungnu og langþjáðu kú: ef þau sem fara með efnahagsleg völd þurfa að greiða verka- og láglaunafólki laun sem duga til að við fáum um frjálst höfuð strokið efnahagslega þurfa þau að sætta sig við minna sjálfum sér til handa, skerta möguleika á vellystingum og auðsöfnun. Og þeim þykir ekkert er verra en það. Þessvegna eru nú fjölmiðlar fullir af hræðsluáróðri þeirra sem líta svo á að það sé engin þörf á því að uppskerunni sé skipt jafnt. Þetta er hræðsluáróður þeirra sem finnst bókstaflega ekkert athugavert við það að forstjórar fyrirtækja sem skráð eru í Íslensku kauphöllinni séu með um fimm miljónir króna í laun á mánuði, eða 17-18 föld lágmarkslaun. Þetta er hræðsluáróður þeirra sem vilja viðhalda þessu ástandi frekar en að setjast við hið margumrædda samningaborðið og vinna að raunverulegum stöðugleika í samfélaginu, raunverulegum stöðugleika byggðum á efnhagslegu réttlæti. Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akranes, segir í viðtali á Vísi: „Við höfum heyrt áður þessa plötu hræðsluáróðurs. Henni hefur ávallt verið skellt á fóninn.“ Vilhjálmur rakti að árið árið 2015 spáðu Samtök atvinnulífsins 20% hækkun á verðbólgu vegna kjarasamninganna – en raunin varð 2% verðbólga. Hvað skýrir þetta? Getur verið að hin margtuggna og örþreytta söguskoðun sem hverfist í kringum óðaverðbólgutímabilið í kringum 1980 einfaldlega standist ekki? Getur verið að rót óstöðugleika í íslensku efnahagslífi sé sjálftökufólkið, ofurlaunamennirnir og fjárplógsstarfsemi þeirra sem leiddi jú af sér stórkostlegasta efnhagshrun samtímans, Hrunið 2008? Áróðursdeildir sérhagsmunaaflanna eiga mikið verk fyrir höndum að sannfæra íslenskan almenning um að það sem leiði þjóðfélagið til andskotans séu vonir fólks um sanngjarna verðlagningu vinnuaflsins en ekki innantóm pappírsviðskipti útþanins og ofalins fjármálakerfis auðstéttarinnar. Kerfið og við Það er ekki skrýtið að við sem tilheyrum stétt verkafólks upplifum að kerfið sé útbúið í þeim tilgangi að svína á okkur, til að þjóna hagsmunum hinna auðugu og valdamiklu á kostnað okkar, þegar við sjáum á degi hverjum, ár eftir ár, hversu mikið hin efnahagslega forréttindastétt uppsker í uppsveiflum og hversu lítið meðlimir hennar láta kreppur og krísur á sig fá. Við sjáum á hverjum degi hversu mikið og oft er hægt að afskrifa skuldir hjá þeim, hversu auðvelt það er fyrir þau að koma sér undan því að taka þátt í samneyslunni, þökk sé fáránlega lágum fjármagnstekjusköttum og skattaundanskotum. Við sjáum á hverjum degi hversu einbeitt þau eru í að slá hvergi af sínum kröfum um auðæfi og völd sem má til að mynda sjá í því mikla „svigrúmi“ sem er til staðar fyrir ótrúlegar hækkanir hjá þeim sem lifa og starfa undir þeim verndarvæng sem stjórnkerfið heldur yfir sinni eigin yfirstétt. Á sama tíma hika þau aldrei við að krefja lágtekjuhópana um að gæta hófsemdar og stillingar. Efnhagslegir forréttindahópar hafa aðskilið sig frá viðmiðum alls almennings um hvað telst vera eðlilegt. Vinnumarkaðurinn er óásættanlegur Því hver getur með góðri samvisku sagt að ástandið á íslenskum vinnumarkaði sé ásættanlegt? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að það sé á einhvern máta eðlilegt og ásættanlegt að leiðbeinendur á leikskólum Reykjavíkurborgar séu að meðaltali með 354.000 kr. í heildarlaun fyrir fullt starf og þurfi að vinna aðra vinnu til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að óbreytt ástand sé ásættanlegt þegar bílstjórar og byggingarverkamenn þurfa að vinna miklu lengri daga en eðlilegt getur talist, oft við fráleitar aðstæður, til þess að eiga möguleika á að fá sæmilega útborgað? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að best sé að halda áfram á sömu leið þegar fréttir berast af því að umsóknum í sjúkrasjóði verkalýðsfélaga fjölgi stöðugt? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að „íslenskt vinnumarkaðsmódel“ sé til fyrirmyndar þegar stöðug aukning er á fjölda launakrafna sem Efling sendir út fyrir hönd félagsmanna, svo mikil að heildaupphæð krafna hækkaði um 45% á milli ára? Hver getur með góðri samvisku haldið því fram að ekki sé bráðnauðsynlegt að komast til botns í því hvað orsakar að aldrei hafa verið fleiri manneskjur í þjónustu hjá VIRK en á síðasta ári? Hver getur með góðri samvisku sagt að hér sé ástandið ágætt eftir að hafa rætt við og hlustað á frásagnir aðflutts verkafólks af misnotkun og svikum á íslenskum vinnumarkaði? Hver getur með góðri samvisku sagt að (mis)skipting gæðanna sé með nokkru móti ásættanleg á Íslandi? Stjórnmálin hafa brugðist Þau sem fara með pólitísk völd eiga að axla þá ábyrgð að hemja tilætlunarsemi og græðgi auðvaldkerfisins. En við verðum að horfast í augu við að þarna hafa stjórnmálin brugðist verkafólki og láglaunafólki. Stjórnmálin hafa gengist inn á það að megin verkefnið sé að gæta að „stöðugleika“ með því að vernda hagsmuni, eignir og gróðamöguleika atvinnurekanda. Þetta kemur berlega í ljós þegar við skoðum hversu ólýðræðisleg efnahagsstjórnin er. Við erum ekki spurð þegar ákvörðun er tekin um hvaða útvaldi iðnaður megi hverju sinni fá frjálsar hendur til að hafa sína hentisemi í íslensku efnahagslífi. Við erum ekki spurð þegar að því kemur að þjóðnýta tapið sem verður þegar kapítalistarnir fara fram úr sér í sínum heimsþekkta óhemjuhætti. Við eigum að sætta okkur við að vera of smá og ómerkileg til að hlustað sé á skoðanir okkar á svo mikilvægum málum. Við eigum jafnframt að sætta okkur við að vera svo smá að engum komi til hugar að benda á að efnahagsleg velsæld okkar sé kerfinu nauðsynlegt. Þó blasir við að við sjálf, hendur okkar og höfuð, eru sannarlega kerfinu nauðsynleg. Heldur einhver að hér hefðu menn grætt á tá og fingri á nýliðnum árum ef ekki hefði verið fyrir vinnuaflið sem knýr  áfram vél hagvaxtarins? Við megum ekki láta okkur dreyma um að velsæld okkar verði tryggð með sama hætti og velsæld auðstéttarinnar. Okkar velsæld er ávallt hægt að fórna með niðurskurði og hagræðingu. Henni má fórna með því að hleypa fjármagnseigendum í húsnæðismarkaðinn og hafa þannig af stórum hópi vinnandi fólks möguleikann á húsaskjóli (hinni lífsnauðsynlegu „vöru á markaði“) á einhverju sem mætti kalla sanngjarnt verð. Henni má fórna með því að auka skattbyrði okkar svo að hin ríku fái að halda eftir meira að peningunum sínum. Henni má fórna með því að hafa af okkur aðgang að vaxtabótum og barnabótum, vegna þess að auðstéttin þarf að fá að koma fé sínu undan í skattaskjól. Stjórnmálin hafa brugðist okkar verka- og láglaunafólki, hvort sem er á Íslandi eða úti í heimi. Í stað þess að viðurkenna réttmæti krafna okkar um sanngjarna hlutdeild í afkomu þjóðarbúskaparins, í stað þess að viðurkenna grundvallarmikilvægi okkar í efnahagskerfinu, í stað þess að viðurkenna að án vinnu okkar er það efnahagskerfi sem við lifum í steindautt, að án okkar hætta hjólin að snúast samstundis, hafa stjórnmálin tekið þátt í verkefni nýfrjálshyggjunnar um að „heilbrigðu efnahagslífi“ verði aðeins viðhaldið með því að láta þau sem tilheyra lægri stéttum samfélagsins halda áfram að axla það óréttlæti sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði. En hverskonar fólk erum við ef við samþykkjum að heilbrigðu efnahagslífi verði aðeins viðhaldið með efnhagslegu óréttlæti? Og hverskonar efnahagsstefna hefur skeytingarleysi gagnvart þörfum almennings sem grundvallarstef? Hvervegna ættum við að samþykkja að lifa áfram undir henni? Völd  Okkur líður oft eins og við höfum ekki völd í samfélaginu. Og það er sannarlega góðar og gildar ástæður fyrir því. Staðreyndir nefndar hér að ofan; aukin skattbyrði hjá fólki með lágar tekjur, hvernig grafið hefur verið undan barnabótakerfinu, vaxtabótakerfinu, stuðningi við leigjendur og öllum þeim „kerfum“ sem lágtekjuhóparnir reiða sig á til að bæta upp fyrir nirfilshátt vinnuveitenda segja mjög skýra sögu af því í þágu hverra hagsmuna hefur verið unnið undanfarna áratugi. Í veröld þar sem stjórnmálastéttin hefur meira og minna samþykkt möglunarlaust að vera ávallt fyrst og fremst framkvæmdarstjórar innleiðingar nýfrjálshyggjunnar hefur ekki verið pláss fyrir hagmuni fólks af verkalýðsstétt, hvað þá að pláss hafi verið fyrir verkalýðsstétt með völd. Þegar við horfum í kringum okkur og veltum fyrir okkur ástandi veraldarinnar og öllum þeim vandamálum sem við er að fást er ekki skrítið þó að okkur fallist hendur. Hnattrænar loftslagsbreytingar ógna okkur öllum, ekki síst vegna þess að enginn pólitískur vilji eða hugrekki er til staðar til að gera það sem þarf; að setja kapítalismanum stólinn fyrir dyrnar.  Hin margumrædda fjórða iðnbylting er hafin og það er hrollvekjandi að hugsa til þess að við sem vinnum vinnuna höfum bókstaflega ekkert um það að segja hvernig ný tækni verður innleidd enda höfum við verið svipt möguleikanum á því að hafa nokkra aðkomu að því hvernig okkar eigin vinnustaðir eru reknir og erum þar meira og minna valdalaus. Við njótum engrar aðstoðar frá stjórnmálastéttinni við að koma í veg fyrir að þau sem fara með efnahagsleg völd ákvarði allar niðurstöður tæknibyltingarinnar í eigin þágu. Alþjóðavædd stétt auðmanna sölsar stöðugt undir sig lönd og eignir, ekki síst hér á Íslandi þar sem fjármagnseigendur héðan og þaðan að úr heiminum eru bókstaflega í því verkefni að kaupa sístækkandi hluta af landinu. Og um alla veröld kemst til valda fólk sem hefur það að pólitísku markmiði að reisa múra í mannlegum samskiptum og flokka fólk eftir uppruna, húðlit eða trúarbrögðum (af algjöru skeytingarleysi gangvart þeirri sammannlegu ábyrgð sem við berum hvort á öðru), ekki síst í þeim tilgangi að koma í veg fyrir stéttasamstöðu og möguleikanum á raunverulegum pólitískum valkosti við nýfrjálshyggjuna. En þrátt fyrir að vandamálin séu risavaxin og völd okkar virðist lítil höfum við þó í einu máli aðgang að völdum, einstökum völdum, völdum sem engir aðrir búa yfir. Og það eru völdin sem aðgangurinn að vinnuaflinu okkar færir okkur. Hver fær að nota hann og á hvaða verði. Við, félagsmenn Eflingar, erum líkt og Katrín Sif og ljósmæðurnar, starfskraftur til sölu, meira að segja frekar ódýr starfskraftur. En ekki eins ódýr og verið hefur. Og það er alveg á hreinu.

Sara S. Öldudóttir ráðin til starfa sem sérfræðingur

Sara Öldudóttir (t.h.) hefur verið ráðin til starfa sem sérfræðingur hjá Eflingu. Sara S. Öldudóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Eflingu – stéttarfélagi sem sérfræðingur í vinnumarkaðs- og kjaramálum. Meðal verkefna hennar eru greiningar- og rannsóknarvinna sem snertir kjaramál félagsmanna Eflingar og þróun íslensks vinnumarkaðar. Sara hefur öflugan bakgrunn á sviði félagsvísinda, en hún er með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í stjórnmálum alþjóðahagkerfisins (international political economy) frá London School of Economics. Auk þess lagði hún stund á doktorsnám í félagsfræði við Háskóla Íslands þar sem hún rannsakaði tengsl viðhorfa almennings til umhverfismála og hnattrænnar misskiptingar. Sara hefur brennandi áhuga á verkalýðsmálum en lokaverkefni hennar í mastersnámi fjallaði um alþjóðlegt flæði vinnuafls. Hún var áður formaður Hagstundar, hagsmunafélags stundakennara á háskólastigi. Efling býður Söru hjartanlega velkomna til starfa. Ráðning hennar er liður í styrkingu sjálfstæðrar rannsóknar- og stefnumótunarvinnu innan Eflingar – stéttarfélags. Sara hefur störf þann 20. ágúst og verður í fullu starfi.

Ég er vongóður um að risinn vakni - rætt við Guðmund Jónatan Baldursson, nýkjörinn stjórnarmann í Eflingu

Guðmundur Jónatan Baldursson var kjörinn í stjórn Eflingar fyrir síðasta aðalfund, af B-listanum. Hann er atvinnubílstjóri, alinn upp á Sogaveginum í Reykjavík. Guðmundur er á sextugasta og fyrsta aldursári, á einn son og tvær dætur. Hann var átta sumur í sveit, á nokkrum stöðum á suðurlandi. Guðmundur hefur unnið við ýmislegt um ævina, verið á sjó, verið forstöðumaður íþróttamannvirkja víða um land og atvinnubílstjóri um í næstum áratug. Hann seldi bílinn sinn fyrir nokkrum árum og hefur hjólað síðan, þ.e. þegar hann er ekki í vinnunni. Ég byrjaði á sjó á netabát frá Þorlákshöfn, segir Guðmundur. Þar var ég tvær eða þrjár vertíðar. Síðan fór ég á loðnu, á aflaskipinu Guðmundi RE. Eftir það starfaði Guðmundur í nokkur ár hjá Vegagerðinni, en varð síðan forstöðumaður íþróttamiðstöðva á nokkrum stöðum í fimmtán ár. Ég var fyrst á Flateyri, en síðan fluttum við norður á Mývatn um 1995. Guðmundur heyrði af því að verið væri að reisa eina glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins, á Þórshöfn á Langanesi og ákvað að sækja um starf forstöðumanns. Þarna er íþróttasalur, þreksalur, sundlaug og fleira. Þar starfaði Guðmundur í nokkur ár, en tók síðan við starfi forstöðumanns í nýju íþróttahúsi á Patreksfirði. Ekki virkur í félagsstörfum fyrr en nú Eftir hrun flutti Guðmundur til Noregs, þar sem hann bjó í fjórtán mánuði. Honum líkaði þó ekkert sérstaklega að búa þar og hugurinn leitaði fljótt aftur til Íslands. Eftir að hann kom heim hóf hann að keyra rútu og hefur gert það síðan og starfar nú hjá Snæland Grímssyni og hefur verið þar um nokkurra ára skeið. Ég er búinn að þvælast mikið á þessum tíma, næstum alfarið með útlendinga, mest Bandaríkjamenn. Guðmundur segist ekki hafa verið virkur í félagsstörfum fram að þessu og ekki tekiðmikinn þátt í störfum verkalýðsfélaga. Ég var að vísu formaður íþrótta- og tómstundaráðs á Patreksfirði um tíma. Það var pólitísk skipun, en ég hef samt aldrei verið mjög virkur í pólitík, hvað sem verður, segir Guðmundur og hlær. Hann segir ástandið á Íslandi ekki nógu gott og það kalli á þátttöku almennings að breyta því. Hér er mikil misskipting og hún hefur vaxið. Maður finnur fyrir því hvað allt er orðið dýrt og sumir eiga virkilega bágt. Það er hluti af skýringunni á því af hverju ég ákvað að taka þátt í starfi Eflingar og gaf kost á mér til setu í stjórn. Guðmundur segir launin hjá bílstjórum ótrúlega lág, ekki síst miðað við alla þá ábyrgð sem hvíli á rútubílstjórum. Það hafi ekki verið nægilega mikil samstaða í hópnum, menn séu í mörgum félögum. Það hafi þó verið talsvert rætt um það meðal atvinnubílstjóra að efla samstöðuna og taka á launamálunum. Ef laun væru greidd eftir ábyrgð, þá værum við hálaunafólk, segir Guðmundur. Ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á rútubílstjórum. Menn geta verið að keyra allt að sjötíu og tveggja manna rútur og athyglin þarf að vera stöðug. Það vann flugstjóri hjá okkur um tíma í afleysingum og ég spurði hann einhvern tíma hvort væri erfiðara, að fljúga þotu eða keyra rútu. Hann þurfti ekkert að hugsa sig um. Rútan væri miklu erfiðari. Starfið er oft erfitt segir Guðmundur, til viðbótar við að þurfa alltaf að vera með fulla athygli. Þegar hann aki Gullhringinn svokallaða á veturna, keyri Mosfellsheiðina í hálku og þvervindi, þá megi ekkert út af bera. Svona stórir bílar taki gríðarlega mikinn vind á sig. Hvað heldurðu að tímakaupið sé? Við erum með 17-1800 krónur á tímann. Afgreiðslufólk í Bónus er með hærra kaup en við. Við höfum dregist svo langt aftur úr. Kraftarnir dreifðir í mörgum félögum Að sögn Guðmundar er hluti vandans sá að bílstjórarnir séu í mörgum félögum. Sumir séu í Eflingu, aðrir í Sleipni og enn aðrir í hinum og þessum félögum. Það sé ekki óalgengt að menn komi úr öðrum störfum og byrji að keyra rútur. Margir þeirra haldi áfram að vera í sínum félögum þótt þeir hætti í starfi á sviði viðkomandi félags og fari að keyra rútu. Ég veit um menn í Félagi bókagerðarmanna, VM, VR og fleiri félögum. Svo eru náttúrulega margir í Eflingu. Þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að hópurinn er svona tættur. Guðmundur segir menn ekki hafa ekki verið tilbúna til að fara í eitt félag, eins og Eflingu. Ég hef upplifað félagið dálítið eins og sofandi risa. Í röðum bílstjóra hefur verið rætt um að deildarskipta því, þannig að bílstjórar verði í sérdeild. Við höldum að starfið í kringum t.d. bílstjórana geti orðið markvissara með deildaskiptingu og hægt verði að lífga við þann risa sem Efling er. Í júní verður haldinn fundur þar sem ætlunin er að fá fram hugmyndir frá bílstjórum og kynna fyrir þeim vinnuna í aðdraganda kjarasamninganna. Hann segist vona, að gangi það eftir að stofnuð verði sérstök deild atvinnubílstjóra, þá sjái bílstjórar sem eru í öðrum félögum sér hag í að ganga í Eflingu. Það væri kjörstaðan, segir Guðmundur, því slagkrafturinn hlýtur að aukast með auknum fjölda. Ég er vongóður um að risinn vakni, segir Guðmundur. Ég er í rauninni sannfærður um það. Þau viðbrögð sem við höfum upplifað í kjölfar stjórnarskiptanna vekja miklar vonir. Ef það tekst að stilla saman strengi með öðrum stórum og öflugum félögum, svo sem eins og VR, þá getum við haft gríðarleg áhrif. Hann segir að það eigi ekki bara við um kaupið. Til dæmis geti stór félög beitt áhrifum sínum gagnvart fyrirtækjum sem hækka vörur án málefnalegra ástæðna. Þá vilji hann að félagið hvetji félagsmenn til að beina viðskiptum sínum annað. Sameiginlega eigum við gefa fyrirtækjum rautt spjald ef þau fara fram með ósanngjörnum hætti. Að lokum er Guðmundur spurður hvort hann búist við hörðum átökum á vinnumarkaði um áramótin. Ég vona svo sannarlega ekki, en það gæti samt farið svo. Ég er viss um að ríkisvaldið þarf að koma mjög kröftuglega til móts við okkur í tengslum við samningana. Fjármálaráðherra hefur sagst vera tilbúinn til að lækka tekjuskattinn um 1%, en auðvitað væri betra fyrir okkur að hækka skattleysismörkin. Og það skiptir líka mjög miklu máli að fylgjast vel með verðlagi í kjölfarið. Félögin verða að standa saman um að passa að verðlag verði ekki hækkað upp úr öllu valdi strax daginn eftir að skrifað er undir samninga.

Að samþykkja ekki óbreytt ástand

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar: Einn af merkilegustu sigrum nýfrjálshyggjunnar í lífi okkar er að hafa tekist að útbúa samfélagslegt ástand þar sem arðrán, stéttskipting og viðbjóðsleg auðsöfnun firrtrar yfirstéttar urðu sjálfsögð skipan mála. Með því að fjarlægja úr samfélagsfrásögninni hinn risavaxna og óendanlega fjandskap sem ríkir á milli eigenda auðmagnsins og vinnuaflsins, með því að útbúa þann falska „sannleika“ að við værum nú öll í sama liði var útbúið risavaxið tækifæri fyrir efri lög samfélagsins svo að þau gætu í næði sölsað undir sig þau efnhagslegu gæði sem þau ágirntust. Þetta var meðal annars gert með fjölbreyttum einkavæðingarverkefnum og með því að veita kapítalistum og útsendurum þeirra stórkostlegan aðgang að efnahagslegum völdum með ólýðræðislegum hætti, í gegnum yfirþjóðlegar stofnanir, með fríverslunarsamningum og með því að útbúa kerfi fyrir alþjóðlega stétt auðmanna svo að þeir gætu flutt fjármagnið sitt til og frá löndum og heimshlutum án erfiðleika (eins og öll vita eru á vorum dögum landamæri bara fyrir vesæla alþýðuna). Með því að blanda í ógeðslegan kokteil frjálsum markaði og illskilgreindum hugmyndum um lýðræði, bæta svo ofaní hann draumum fólks um hamingju og lífsfyllingu og bjóða upp á hann við öll möguleg og ómöguleg tækifæri gátu þau sem telja sig raunverulega eigendur alls unnið markvisst að því að raunverulega eignast allt. Og það hefur sannarlega gengið glimrandi vel: Misskipting auðsins verður sífellt trylltari og mannkynið býr nú við þá skipan mála að fámennur hópur eignast stöðugt meira af auðæfum veraldar og ríkir yfir heimi þar sem viðbjóðsleg meðferð á vinnuafli og stöðugt náttúruníð eru skipun dagsins. Þetta skiptir meðlimi auðstéttarinnar engu máli enda eru þau „valdefld“ af hugmyndafræði sem gengur út á að sannfæra okkur öll um að auðræðið sé í raun hið sanna frelsi og að best sé að sátt ríki um að skilyrði auðvaldsins fyrir því hvernig samfélög manna séu rekin séu bestu mögulegu skilyrðin. Svoleiðis vinni jú allir. Eitraður kokteill Ayn Rand En eftir að hafa verið algjörlega afhjúpuð sem annarsvegar loddarar og hins vegar siðvillingar, á alþjóðavettvangi og innan þjóðríkjanna, í kjölfar hins risavaxna efnahagshruns og kreppunnar sem fylgdi, er yfirstéttin í vanda. Þeim reynist æ erfiðara að sannfæra fjöldann um að efnahagsmódel síðustu áratuga sé hið eina rétta, enda erfitt að fá fólk sem sjálft hefur upplifað afleiðingar hruns, kreppu, niðurskurðar og allra hinna fjölmörgu hörmunga sem viðbrögð nýfrjálshyggjunnar við innbyggðum og óumflýjanlegum krísum kapítalismans orsaka, til að samþykkja að halda áfram að drekka hinn eitraða Randíska kokteil. Í heimi þar sem eftirtaldar staðreyndir eru staðreyndir skal engan undra að fólki verði óglatt og leggi frá sér drykkinn: Ríkasta eina prósent mannkyns tók til sín 82% af öllum auði sem til varð í heiminum á síðasta ári á meðan fátækasti helmingur mannkyns jók auð sinn ekkert eða um 0%, þrír auðugustu Bandaríkjamennirnir eiga meiri auð en fátækasti helmingur bandarísku þjóðarinnar og ríkustu 10% Íslendinga eiga ríflega 70% auðsins í landinu, sem er hærri hluti af heildareignum en í flestum vestrænum löndum. Brauðmolahagfræðin, hugmyndin um að auðsöfnun fárra gagnist fjöldanum best, er ein af Stóru lygum mannkynssögunnar og vitneskjan um það breiðist út. Sífellt fleiri fyllast löngun og vilja til að berjast á móti þessari fölsku túlkun á veruleikanum. Sífellt fleiri og háværari raddir segja: Við erum ekki öll í sama liði, hagsmunir allra eru ekki þeir sömu og við þurfum ekki annað en að líta á framferði hinna auðugu til að fá fyrir því sönnun. Útsölumarkaður Stöðugleikans Sífellt fleiri átta sig nú á að innleiðing nýfrjálshyggjunnar sem stýringartæki í lífi almennings hefur gert það að verkum að samfélagsleg sár hafa myndast allt í kringum okkur, vegna þess að kapítalistum og pólitískum útsendurum þeirra var gefið leyfi til að móta samfélagið að vild, því sem næst án nokkurar andspyrnu frá þeim sem þó sögðust vera málsvarar hinna vinnandi stétta. Sífellt fleiri átta sig á að í uppsveiflu jafnt sem niðurdýfu er barnafátækt staðreynd, það að öryrkjum er gert að komast af á upphæðum sem öll vita að duga ekki fyrir mannsæmandi lífi er staðreynd, að gömlu fólki úr verkalýðsstétt er gert að sætta sig við snautlegan ellilífeyri á meðan lífeyrissjóðirnir fjárfesta í gróðamaskínum fjármagnseigenda er staðreynd og það að fólk sem vinnur fulla vinnu á að sætta sig við það að geta aldrei strokið um frjálst höfuð efnahagslega, á sætta sig við að vera vinnuafl á Útsölumarkaði Stöðugleikans alla æfi. Áratuga niðurskurður í velferðarkerfinu (markvisst skemmdaraðgerð á innviðum samfélagsins svo hraða megi einkavæðingarverkefninu), húsnæðismarkaður í höndum fjármagnseigenda sem fengið hafa frítt spil til að hagnast á þeim sjálfsögðu mannréttindum sem húsnæði er, forherðing og virðingarleysi gagnvart þeim sem vinna mikilvægustu störfin í samfélaginu, skeytingarleysi gagnvart umhverfisvá af áður óþekktri stærðargráðu; allt þetta er bein afleiðing af hugmyndafræði kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar. Allt þetta er afleiðing þess að leyfa fólki sem aðeins lætur sér umhugað um gróða að skipuleggja samfélag manna eftir sinni grunhyggnu, eigingjörnu og ömurlegu hentisemi. Misskiptingarverkefni auðvaldsins óásættanlegt Sífellt fleiri átta sig á að arðránið í sjálfu sér er óásættanlegt: Að krefja vinnuaflið um að lifa við stöðugt hugrænt misræmi, að krefja það um að samþykkja að arðránið sé besta og farsælasta leiðin til þess að skipuleggja samfélagið, þrátt fyrir að öll þess lifaða tilvera segi því annað, er algjörlega óásættanleg krafa. Krafan um hófsemi þeirra sem tilheyra stétt verka- og láglaufólks gagnvart forhertu misstéttskiptingarverkefni auðvaldsins er algjörlega óásættanleg krafa. Hvernig er hægt að halda því fram í fullri alvöru að manneskja sem fær eftir heilan mánuð af vinnu tekjur sem ekki duga til að komast af á sé í sama liði og sá sem fær á mánuði margar miljónir? Öll hljóta að sjá að það er satt best að segja ósiðlegt að halda slíku fram. Minnkun auðvaldsbyrðarinnar Það getur vissulega fylgt því visst uppnám fyrir auðstéttina þegar þau sem halda uppi öllum stoðum þjóðfélagsins með vinnu sinni ákveða að „hagræða“ til að minnka auðvaldsbyrðina í eigin tilveru. Það getur vissulega fylgt því visst uppnám fyrir þau hátt settu að skipta út fölskum stöðugleika fyrir sanngirni og réttlæti. Það getur vissulega fylgt því visst uppnám fyrir talsmenn hins óbreytta ástands þegar vinnuaflið ræðst í það verkefni að fá samfélagið til að viðurkenna algjört grundvallarmikilvægi þess. En hver getur á þessum tímapunkti í mannkynssögunni, andspænis öllu því sem við nú vitum um nýfrjálshyggjuna og afleiðingar hennar, allt sem við vitum um arðránið, látið eins og mikilvægara sé að taka tillit til hagsmuna auðvaldsins en hagmuna alþýðunnar? Hver getur haldið því fram að erfiðleikar í tilveru auðvaldsins séu of hátt gjald til að greiða fyrir það að ná árangri í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti? Andspænis sífellt vaxandi misskiptingu eigum við engra kosta völ; við hljótum að ráðast sameinuð í það verkefni sem skiptir mestu máli: Að vekja til lífsins þau stórkostlega mikilvægu gildi sem öll barátta fyrir mannsæmandi tilveru allra byggir á: Samhyggð, samvinnu, samstöðu og þeirri sammannlegu vitneskju að við eigum öll óumdeilanlegan rétt á því að lifa með reisn í réttlátu samfélagi.

Fékk úrlausn sinna mála eftir að hafa leitað til Eflingar - vinnustaðaeftirlit og lögfræðiaðstoð skipti sköpum

Efling – stéttarfélag fagnar umfjöllun
Stundarinnar í dag, föstudag 13. júlí, um sögu Kristýnu Králová, félagsmanns í Eflingu. Kristýna starfaði hjá Hótel Adam við óboðlegar aðstæður og mátti þola gróf brot á kjarasamningsbundnum réttindum sínum af hálfu atvinnurekanda. Afskipti Eflingar af Hótel Adam í gegnum vinnustaðaeftirlit með Matvís síðla árs 2016 voru fréttaefni á sínum tíma, og síðar tók Efling við launakröfum Kristýnu og fylgdi þeim eftir alla leið fyrir dómi. Héraðsdómur dæmdi að endingu atvinnurekanda Kristýnu til að greiða henni vangoldin laun að fjárhæð 2.323.553 kr. auk málskostnaðar og dráttarvaxta. Í frétt Stundarinnar 13. júlí kemur fram hvernig Efling studdi félagsmann alla leið við að vinna launakröfu fyrir dómi. Líkist mansali Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði mál Kristýnu sýna rækilega fram á mikilvægi verkalýðsfélaga við að halda uppi vörnum fyrir berskjaldaða einstaklinga í íslensku samfélagi. „Hér er kona af erlendum uppruna blekkt með loforðum um vinnu á Íslandi en lendir svo í misnotkun, svikum og ofbeldi sem ganga út yfir öll mörk. Aðstæðurnar sem Kristýna var látin búa við eiga meira skylt við mansal en atvinnustarfsemi,“ segir Sólveig, en Kristýna fékk ekki kennitölu, var ekki greidd laun og var haldið fanginni innan dyra með hótunum auk þess sem hún var neydd til að deila rúmi með atvinnurekanda sínum. Lögmenn og kjarafulltrúar stóðu vaktina Sólveig Anna sagði einnig: „Þrautreyndur kjaramálafulltrúi okkar fór á staðinn í vinnustaðaeftirlit sem skipti miklu við að svipta hulunni af þessu ógeðslega máli. Kjaramálafulltrúi gerði svo launakröfu fyrir hönd starfsmannsins um leið og hún leitaði til okkar. Svo fóru lögmenn okkar með málið fyrir dóm og unnu. Ég er ótrúlega stolt af starfsfólkinu hér hjá Eflingu sem notaði reynslu sína og þekkingu til verja rétt þessa félagsmanns alla leið. Ég hvet allt verkafólk á Íslandi sem lendir í misnotkun af þessu tagi til að leita aðstoðar hjá sínu verkalýðsfélagi. Það skilar árangri.“ Anna Lilja Sigurðardóttir hdl. sem starfar fyrir Eflingu og flutti málið fyrir dómi segir miklu hafa skipt við meðferð málsins hve vel Kristýna hélt utan um skráningu á vinnutímum. Þessi gögn hafi gegnt mikilvægu hlutverki við að færa sönnur á vangreiðslur launa, en atvinnurekandi hélt því fram að vinnutími Kristýnu hefði verið annar en byggt var á í kröfu hennar og að uppgjör launa hefði farið fram á grundvelli þeirra tíma. Anna Lilja segir að einnig hafi vinnustaðaeftirlit skipt máli til að sýna fram á viðveru starfsmanns á starfsstöð þar sem atvinnurekandi hélt því fram að Kristýna hefði ekki verið starfsmaður þess félags sem rekur Hótel Adam heldur tékknesks félags. Fjallað verður nánar um málið í Fréttablaði Eflingar sem kemur út í lok sumars.

Hækkun á framlagi launagreiðenda í lífeyrissjóð 1. júlí

Efling vekur athygli þeirra sem greiða í lífeyrissjóð á að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkaði um 1,5 prósentustig þann 1. júlí, úr 10% í 11,5%. Samið var um hækkunina í kjarasamningi milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins 21. janúar 2016. Hækkunin nær til þeirra launþega sem fengu 8% mótframlag þegar skrifað var undir umræddan samning. Breytingin hefur engin önnur áhrif gagnvart launagreiðendum nema að því leyti að iðgjaldið hækkar. Nánari upplýsingar má finna í
frétt á vef lífeyrissjóðsins Gildi.

Í Póllandi leggur fólk niður störf og fer út á götu að mótmæla - rætt við Magdalenu Kwiatkowska, nýjan stjórnarmann í Eflingu

Magdalena Kwiatkowska tók sæti í stjórnEflingar á síðasta aðalfundi, en hún var á B-listanum í kosningunum í mars. Hún er fædd í Póllandi og að mestu alin upp þar, en móðir hennar fluttist til Íslands þegar hún var sjö ára gömul. Hún bjó áfram hjá ömmu sinni og afa, en heimsótti móður sína á Íslandi á sumrin og í skólafríum. Magdalena flutti sjálf til Íslands og fór í  Háskólann, lærði ensku og hóf síðan nám í þýðingarfræði árið 2003. Hér bjó hún í ellefu ár, en flutti aftur til Póllands árið 2011. Á síðasta ári flutti hún aftur til Íslands og segist ætla að vera hér til frambúðar. Ég var fyrsti útlendingurinn til að læra þýðingarfræði, segir Magdalena. Ég var búin með enskuna og vildi taka masterspróf í þýðingarfræði, í þýðingum úr íslensku yfir á pólsku. Það var dálítið erfitt til að byrja með, því þetta var ekki kennt. Skólinn leysti það samt. Strax eftir að ég kláraði mastersprófið, ákvað ég að flytja aftur til Póllands og bjó í Varsjá. Þá hafði ég kynnst manninum mínum, sem er líka pólskur og við höfðum eignast dóttur. Ég var fjögur ár úti og rak mitt eigið tískufyrirtæki. Síðan flutti ég til Kanada um tíma. Ég vildi samt alltaf flytja aftur til Íslands. Ég var farin að sakna mömmu og fjölskyldunnar. Ég hafði eignast minn stað á Íslandi, svo ég ákvað að flytja til baka. Það reyndist samt ekki auðvelt að koma aftur. Margt hafði breyst frá því ég bjó hér síðast og það var mjög erfitt að finna íbúð. Húsaleiga var tvisvar til þrisvar sinnum hærri fyrir samskonar íbúð. Ég fann loksins íbúð í miðbænum og varð að ákveða mig strax. Leigusalinn sagði – þú tekur þetta strax eða ekki. Enginn tími til að hugsa. Ég þurfti að borga 600 þúsund fyrirfram og svo leigu í einn mánuð til viðbótar. Leigan var 190 þúsund á mánuði. Fyrir samskonar íbúð borgaði ég 90 þúsund áður. Hún segir fleiri Pólverja hér nú, en áður en hún fór 2011. Þeir vilji flestir læra íslensku, en hafi ekki nægan tíma. Flestir séu í 2-3 störfum. Ég veit um Pólverja sem kunna ekki annað en pólsku. Þeir geta ekki annað en skrifað upp á allt sem þeim er rétt og mörg dæmi eru um að það sé brotið á réttindum þeirra. Ég hef heyrt um rútubílstjóra sem keyrði 16–18 tíma á dag, marga daga í röð. Hann hringdi í atvinnurekandann og sagði: Ég hef ekki fengið almennilegan stað að sofa á, ekki getað þvegið skyrtur. Atvinnurekandinn sagðist koma með nýja skyrtu á morgun. Og svo keyrir þú bara áfram. Ef þú vilt það ekki, þá hættir þú bara. Betra að vinna á kaffihúsi en í þýðingunum Magdalena vinnur á Café París og hefur gert það frá því að hún kom aftur til Íslands. Áður en hún fór, vann hún talsvert við þýðingar, meðal annars hjá Alþjóðahúsi, en það umhverfi hefur breyst líka. Ég gæti fengið verkefni hjá þýðingarfyrirtækjum, en það er svo illa borgað að það hreinlega borgar sig ekki. Ég byrjaði að leita að starfi í tískugeiranum, en ég hafði rekið tískufyrirtæki með vinkonu minni í Póllandi, en kaupið var talsvert betra á Café París, þar sem ég vinn átta tíma vaktir. Magdalena tók ekki þátt í starfi verkalýðsfélaga í Póllandi. Henni hafi aftur á móti þótt breytingarnar sem höfðu orðið á íslenskum vinnumarkaði og samfélagi svo skelfilegar, að hún yrði að taka þátt í að berjast gegn þróuninni. Hún hafi fljótlega kynnst fólki sem var að undirbúa framboð til stjórnar í Eflingu og slegist í hópinn. Nú sé verið að ræða og þróa hugmyndir um hvernig megi efla þjónustuna við félagsmenn, ekki síst útlendinga. Skrifstofa Eflingar sé opin frá átta til fjögur. Flestir séu einfaldlega í vinnunni allan þann tíma. Hér á skrifstofunni er ein kona sem talar pólsku. Það er mjög gott, en alls ekki nóg. Ein manneskja getur ekki annað öllum þeim verkefnum sem þarf að sinna fyrir pólska félagsmenn sem ekki tala íslensku. Hún segir nauðsynlegt að koma öllu efni félagsins á fleiri tungumál, bæði prentuðu efni og því sem sé á vefnum. Það þurfi að vera meira til á pólsku, ekki bara ágrip og útdrættir, heldur helst allt, líka fréttirnar. Það þurfi líka að vera á ensku og líklega enn fleiri tungumálum. Það þurfi að vanda valið. Við þurfum að fjölga fólki á skrifstofunni sem getur þjónað fólkinu sem ekki talar og skilur íslensku. Það þarf líka að bæta vefinn, til dæmis að setja upp mínar síður, þannig að fólk geti skoðað áunnin réttindi. Það geta ekki allir komið á skrifstofuna á skrifstofutíma. Þessu til viðbótar segir Magdalena að það þurfi að stórauka vinnustaðaheimsóknir, bæði til að veita upplýsingar og til að hlusta á fólkið. Fólkið eigi að ráða stefnunni. Hingað og ekki lengra Þegar talið berst að kjaramálunum og þeirri staðreynd að samningar eru lausir um áramótin, segir Magdalena að verið sé að móta kröfurnar. Hún segist þeirrar skoðunar að það þurfi að bæta kjör almenns launafólks, laun séu of lág og húsnæðiskostnaður alltof hár. Það sé dýrt að lifa á Íslandi. Þetta hefur versnað, segir hún, sérstaklega húsnæðismarkaðurinn. Fyrir nokkrum árum gat láglaunafólk keypt íbúð, ef það sparaði og leyfði sér lítið. Það var auðvitað mjög erfitt – en núna er það útilokað, jafnvel þótt fólk vinni á tveimur eða þremur stöðum, 12–14 tíma á sólarhring. Það er bara rugl, ég tala nú ekki um fyrir barnafólk. Núna þarf að vinna svona mikið til að geta greitt húsaleigu. Ég hef búið í Varsjá og í Vancouver. Þar dytti engum í hug að breyta bílskúr í íbúðarhúsnæði og leigja það svo út á uppsprengdu verði. Segjum líka ef ég vildi vinna lengur á daginn, þá þarf dóttir mín að vera lengur á leikskólanum. Það kostar svo mikið að það borgar sig ekki að bæta vinnunni við sig. Magdalena vonast til að hægt sé að breyta þessu. Það er ekki nóg að tala, það verður að framkvæma líka. Það vantar að fólk segi hingað og ekki lengra. Það gengur ekki að 80% af laununum fari í húsnæði. Pólverjar létu ekki bjóða sér þetta. Í Póllandi leggur fólk niður störf og fer út á götu að mótmæla. Það þarf að gera það hér líka. Í mínum huga var Ísland áður land þar sem maður gat unnið og haft tíma fyrir fjölskylduna. Núna þarf fólk að vera í tveimur vinnum, bara til þess að lifa af og hefur engan tíma fyrir börnin. Ef ég get gert eitthvað til að hjálpa og standa með fólki til þess að breyta Íslandi, þá er ég til í það, segir Magdalena Kwiatkowska að lokum.

Gengið frá samkomulagi við SFV: Afturvirk hækkun og eingreiðsla

Gengið hefur verið frá samkomulagi við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um þær hækkanir sem eiga að koma til starfsmanna vegna launaþróunartryggingar. Einnig var gengið frá samkomulagi vegna lífeyrisauka. Samkomulagið var undirritað þann 4. júní síðastliðinn. Talsverðar tafir hafa verið á greiðslu afturvirkrar launaþróunartryggingar frá samtökunum og fundaði m.a. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar með Pétri Magnússyni, formanni SFV, vegna málsins í maí og var hafinn undirbúningur að dómsmáli fyrir félagsdómi. Vegna launaþróunartryggingar hækka heildarlaun starfsmanna, að frádreginni orlofs- og desemberuppbót, um 1,8% fyrir árið 2017 og verður það greitt í eingreiðslu eigi síðar en 10. júlí 2018. Ný launatafla tekur gildi afturvirkt frá 1. janúar 2018 vegna launaþróunartryggingar. Launaþróunartryggingin kemur til vegna þess að í kjarasamningum 2015 gerðu aðilar vinnumarkaðarins rammasamkomulag um sameiginlega launastefnu. Þar var kveðið á um að þeir sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt það launaskrið sem verður á almenna vinnumarkaðnum umfram það sem kann að verða á opinbera markaðnum. Sjá
eldri frétt um launaþróunartryggingu hér. Lífeyrisauki Gengið hafði verið frá samkomulagi við Reykjavíkurborg og ríki um sérstakan lífeyrisauka, til að jafna lífeyrisréttindi félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg, ríki og sjálfseignarstofnunum við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Samskonar samkomulag var gert við SFV og verður lífeyrisaukinn greiddur í formi hærra iðgjalds sem nemur nú 5,85% en mun síðan fara lækkandi. Samkomulag í bígerð við fleiri stofnanir Gengið hefur verið frá samkomulagi við Sorpu vegna launaþróunartryggingar og lífeyrisauka og verið er að ganga frá sams konar samningum við aðrar opinberar stofnanir.

Óskað eftir umfjöllun SGS um mál formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis

Skjáskot af vef DV.is Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur fyrir hönd félagsins óskað eftir því að Starfsgreinasamband Íslands fjalli um mál Magnúsar S. Magnússonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis. Fjölmiðlar hafa á síðustu vikum fjallað oftar en einu sinni (sjá fréttir dags.
1. júní og 22. júní) um fasteignarekstur, starfsmannahald og útleigu á húsnæði á vegum Magnúsar. Samkvæmt fréttum DV hefur Magnús leigt út íbúðarrými í ólöglegu iðnaðarhúsnæði til fólks sem hjá honum starfar gegn „skiptivinnu.“ Fram kemur í umfjöllun DV að Brunavarnir Suðurnesja létu rýma umrætt húsnæði vegna skorts á brunavörnum. Formaður Eflingar lagði í dag fram skriflegt erindi til Björns Snæbjörnssonar, formanns Starfsgreinasambands Íslands, um málið. Þar kemur fram að formaður Eflingar telur háttsemi Magnúsar í engu samræmast stöðu formanns í verkalýðsfélagi og að hún sé Starfsgreinasambandinu, sem er landssamband almennra verkalýðsfélaga, til mikillar vansæmdar. Í bréfinu spyr formaður Eflingar hvort Starfsgreinasambandið telji Magnúsi stætt á að gegna ábyrgðarstörfum innan SGS, svo sem að sitja í samninganefnd. Óskað er eftir tafarlausri og hreinskiptinni umfjöllun um málið.

Fundur formanns með Herdísi Baldvinsdóttur um lífeyris- og verkalýðsmál

Sólveig Anna Jónsdóttir og Herdís Baldvinsdóttir ræddu saman á skrifstofum Eflingar 2. júlí 2018 Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, átti í dag fund með Dr. Herdísi Baldvinsdóttur, einum helsta sérfræðingi landsins í málefnum lífeyrissjóða. Herdís ritaði á sínum tíma doktorsritgerð sem bar heitið Networks of Financial Power in Iceland: The Labour Movement Paradox en þar benti Herdís á þá mótsagnakenndu stöðu sem íslenska verkalýðshreyfingin er í sökum beinnar aðkomu sinnar að risavöxnum fjárfestingasjóðum sem eru afar stórtækir gerendur í íslensku atvinnulífi. Á fundinum ræddu Sólveig Anna og Herdís um eðli lífeyrissjóðakerfisins og þróun þess síðustu ár, sem og þá nýju möguleika sem skapast hafa með nýrri forystu í verkalýðshreyfingunni. Þá ræddu þeir um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóðanna að húsnæðisleigumarkaði í anda þess sem fram kom í nýlegu erindi Ólafs Margeirssonar hagfræðings á vefum Eflingar. Þá ræddu þær um þau neikvæðu viðbrögð sem rannsóknir Herdísar vöktu á sínum tíma en hún var m.a. uppnefnd í fjölmiðlum af fjölmiðlafulltrúa ASÍ. Af tilefni fundarins sagði Sólveig Anna: „Doktorsritgerð Herdísar Baldvinsdóttur um lífeyrissjóðina er grundvallarrit og ein af fáum fræðilegum úttektum á íslensku þar sem fjallað er á gagnrýnin hátt um þær mótsagnir sem óhjákvæmilega þrúga lífeyrissjóðakerfið. Hér er um augljósan vanda að ræða sem fylgt hefur sjóðunum frá upphafi og tryllingsleg viðbrögð forystu ASÍ gegn skrifum Herdísar eru sorglegur kafli í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Rannsóknir Herdísar eiga jafnvel enn meira erindi nú þegar von er á endurskoðun og umbótum í lífeyrissjóðakerfinu, til dæmis varðandi hugsanlega aðkomu þeirra að uppbyggingu leigumarkaðar.“

Kaupmáttur í raun og veru

—English below— Hagfræðingar segja að við séum að verða ríkari. Af hverju finnst okkur við vera svona fátæk? – eftir Jamie McQuilkin í stjórn Eflingar Í íslenskri verkalýðsbaráttu er mikil áhersla lögð á svokallaðan kaupmátt launa, þ.e. hversu mikið af vörum og þjónustu við getum keypt með laununum okkar. Þetta er eins og vera ber og í samræmi við nálgun verkalýðshreyfinga í hinum vestræna heimi. En kaupmáttarhugtakið er hægt að misnota, eins og flest verkfæri. Kaupmáttur er í raun bara hversu mikið af vöru og þjónustu er hægt að kaupa með launum. Í hverjum mánuði skoða tölfræðingar verð í matvörubúðum, verð á rafmagni, húsnæðiskostnað o.s.frv., og gera meðaltal til að skoða hvernig þau hafa breyst. Þetta kallast verðbólga, því verð hækka nánast alltaf. Breytingin á ýmsum útgjaldaþáttum heimilis er svo borin saman við breytingar á launum. Útkoman er breytingin á kaupmætti launa yfir tímabilið sem um ræðir. Það er hægt að reikna kaupmátt út frá stakri vöru – t.d. hversu mörg kíló af osti eða bjórglös er hægt að kaupa fyrir klukkutíma kaup. En til að áætla almennt verðlag og breytingar á því þarf að leggja mörg vöruverð saman og gefa þeim mismunandi vægi eftir mikilvægi þeirra í útgjöldum heimila. Ef heimili verja t.d. að meðaltali 1% af árslaunum sínum í mjólk, fær mjólk 1% vægi þegar almenn vísitala neysluverðs er reiknuð. Þetta þýðir að tölfræðingar og hagfræðingar þurfa að ákveða hversu mikilvægur hver útgjaldaliður er fyrir hvert heimili. Augljóslega skiptir verð bensíns meira máli heldur en verð kóks fyrir flest fólk. Ef kaupmáttur á að vera gagnlegur þarf hann að endurspegla þetta mismunandi mikilvægi ansi nákvæmlega. Þetta er fyrsti staðurinn þar sem við þurfum að fara varlega, því útreikningar ríkisins á verðbólgu passa ekki fyrir margt fólk. Þeir byggja jú á meðalheimili og það getur verið mjög mikill munur á hátekjuheimili og lágtekjuheimili. Til dæmis hefur vægi húsnæðisleigu, húsnæðislána eða sambærilegs kostnaðar – hækkað undanfarin átta ár úr aðeins 16% af útgjöldum meðalheimilis upp í 26% í dag. Þetta finnst mörgum væntanlega ótrúleg tala, sérstaklega þeim sem fá greidd lágmarkslaun og þurfa að eyða miklu hærra hlutfalli af tekjum sínum í húsnæðiskostnað en 26%. Hér kemur annað vandamál í ljós: vægi þátta í verðbólguútreikningum verður að byggja á útgjöldum dæmigerðs heimilis. Í Eflingu er að finna fólk með einhverjar lægstu tekjur á landinu; fyrir okkur skiptir augljóslega engu hvort kampavín sé orðið ódýrara. Húsnæðiskostnaður og barnagæsla skipta miklu meira máli. Samkvæmt tölfræði velferðarráðuneytisins ætti einhleypur, fullorðinn Reykvíkingur að vera með grunnútgjöld upp á um 223.046 kr. fyrir utan húsnæðiskostnað. Margir félagar í Eflingu geta ekki einu sinni komist í námunda við þessa upphæð. Algerar nauðsynjar skipta okkur miklu meira máli. Það er líka mikilvægt að tryggja að í útreikningi kaupmáttar sé leiðrétt fyrir sköttum. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir félaga í Eflingu þar sem skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur aukist mikið undanfarin ár, þar sem persónuafsláttur hefur hækkað hægar en laun hafa hækkað. Með þessu móti er hægt að fá raunhæfari mynd af stöðu lágtekjufólks. Hér fyrir neðan má til dæmis sjá hvernig kaupmáttur ráðstöfunartekna á húsnæðismarkaði, hefur þróast fyrir fólk á lágmarkslaunum í Reykjavík. Samhliða snörpum hækkunum á húsnæðis- og leiguverði síðan 1998 hefur kaupmáttur útborgaðra launa lækkað um nær 40%. Síðan 2011, þegar Þjóðskrá byrjaði að halda tölfræði um greidda húsaleigu, hefur húsaleiga hækkað um nær 80% og kaupmáttur ráðstöfunartekna þeirra á lágmarkslaunum á leigumarkaði lækkað um nærri 15%. Þetta er ein ástæða þess að Efling setur baráttuna fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði á oddinn í komandi kjarasamningaviðræðum – við verðum ekki endilega ríkari með því að fá hærri laun. Í þessu tilviki virðast þau sem nota eignir sínar til að hagnast á öðrum – kapítalistarnir – geta krafsað launin okkar til baka í gegnum leigu og húsnæðislán, hagnað hjá byggingarfyrirtækjum og tekjur af Airbnb. Það er satt að sumt, t.d. flestur matur, hefur orðið ódýrari undanfarið, laun hafa hækkað en verðlag haldist tiltölulega stöðugt. Ostavísitalan lítur nokkuð vel út fyrir flest verkafólk. Þetta er oft notað til að styðja fullyrðingar um að verkafólk krefjist of mikils, að við viljum of mikið af kökunni. En góður mælikvarði á það hversu stóra sneið af kökunni við fáum er að finna í næsta stöplariti. Mynd 2 sýnir hlutfall launa í landsframleiðslu Íslands. Blái hlutinn á hverju ári er hluti fjármagns, t.d. í hagnaði fyrirtækja og leigutekna. Hér er hægt að sjá að verkalýðshreyfingin er enn að berjast fyrir því að endurheimta það hlutfall af vergri landsframleiðslu sem launafólk fékk á fyrsta áratug 21. aldarinnar. Við ættum líka að hafa hugfast að þetta graf segir ekkert um hvernig laun dreifast á milli manna – launuð vinna er öll launuð vinna, hvort sem um er að ræða vinnu forstjóra olíufyrirtækis á ofurlaunum eða verkamanneskju á lágmarkslaunum. Heilt á litið virðast kapítalistar og launþegar vera nokkurn veginn jafnir á Íslandi. Í öðrum þróuðum ríkjum hefur hlutfall launa almennt lækkað undanfarna áratugi samhliða því að kapítalistar hafa aukið vald sitt og stéttarfélög orðið veikburða og óskipulögð eða þeim verið tortímt af óvinum þeirra. Við verðum að berjast fyrir því að verkalýðsfélögin verði sterkari og að við heimilum ekki að laun okkar verði flutt til hinna ríkustu í þjóðfélaginu gegnum hærri leigu og hærra húsnæðisverð. Við verðum líka að vera viss um að hagfræði okkar endurspegli raunveruleikann sem við lifum og hrærumst í, eða setja spurningamerki við það hvaðan hún kemur og forðast að taka upp mælikvarða vinnuveitenda okkar og yfirboðara um framfarir. The reality of purchasing power The economists say we’re getting richer. Why do we feel so poor? -Jamie McQuilkin,  member of the Union Board of Efling There is a great focus in the Icelandic labour movement on what is called the purchasing power of wages, i.e. how many goods and services we can buy with our pay checks. This is right and proper and the standard approach of labour unions in the western world. However, like most tools, this concept can be easily misused. Purchasing power is basically how much stuff it is possible to buy with a wage. Every month, statisticians look at the prices in supermarkets, the price of electricity, the price of housing and so on, and make an average to see how they have changed. This is known as inflation, so-called as prices almost always rise. The change in price of various bits of household expenditure is then paired with changes in wages, and thus we get the change in the purchasing power of wages over the relevant time period. It’s possible to calculate purchasing power with any individual commodity – for example, kilograms of cheese or glasses of beer per hour of salary. However, to estimate the general price level and its changes, many prices are added together, and given different weights in the index, corresponding to their importance in households’ consumption. If e.g. households, on average, spend 1% of their annual wages in buying milk, milk will have the weight of 1% when the index of the general price level is calculated. This means that statisticians and economist have to decide how important each item is in households’ total consumption. Clearly the price of gasoline is more important than the price of Coca Cola to most people’s budgets. If “purchasing power” is to be useful, that difference in importance has to be quite accurate. This is the first point where we must be careful, as unfortunately the government-calculated index of inflation is not accurate for many people. After all, it is based on the average household and there can be a vast difference between the high-income household and the low-income household. For example, the weight given to “housing” – rent, mortgage or the equivalent cost – has, over the last eight years, only increased from 16% of the average households’ expenditures to 26% today. This is likely to cause disbelief amongst many, especially those on the minimum wage which must spend a much higher proportion of their income on housing than 26%. This in turn reveals another problem: the weighting of the index of inflation must be based on the purchasing of an representative person or household. In Efling, we have some of the lowest incomes in the country; obviously for us it is irrelevant if champagne has become cheaper. Housing rents, mortgages and childcare are much more important. According to statistics used by the Welfare ministry, a single adult in Reykjavík should have basic outgoings of around 223.046 kr., before housing costs are included – many of our members can spend nothing like this amount. The bare essentials are much more important for us. It is also important to make sure that purchasing power is corrected for tax and benefits, i.e. net taxation. This is particularly important for Efling members as net taxation for those on the lowest wages has increased considerably in recent years, as the tax-free allowance has been adjusted upwards below the rate of wage increase. Thus, it is possible to begin to get a more accurate picture of the reality experienced by those on low wages. For example, below is how the housing purchasing power of after-tax wages has developed for the minimum-wage worker in Reykjavik. Since 1998, as housing and rental prices have aggressively increased, the purchasing power for in-pocket minimum wages has dropped by nearly 40%. And since 2011, which is when Þjóðskrá started compiling the data on paid housing rents, as rents have increased by nearly 80%, a nearly 15% drop in the purchasing power of in-pocket minimum wages in the housing rental market is a fact. Figure 1 – As cost of housing has increased, the purchasing power of minimum wages in the housing market has decreased despite increases in nominal wages This is one of the reasons why Efling is prioritizing the fight for affordable housing in the upcoming wage negotiations – we do not necessarily get richer by getting higher wages. In this case, it seems that the those who use their property to gain from others – the capitalists – are able to claw back our wages in rents and mortgages, profits for building companies and returns from AirBnBs. It is true that some things – like most food – have gotten comparatively less expensive recently (wages have gone up, but prices stayed relatively flat). The “cheese index” is looking good for most workers. Often this is used as an argument that workers are demanding too much, as “we want too much of the pie”. However, a good indicator of how much of the pie we actually receive, is in the following graph. Figure 2 – The share of national income between labour (all waged employees included) and capital This shows the share of wages in the national economic production of Iceland. The blue section in each year is the share taken by capital, for example in corporate profits and rents for housing. It’s possible to see that the labour movement are still fighting to regain the share of the economy that wage workers received in the 2000s. We should note also that this graph says nothing about wage distribution – “wage work” is all wage work, whether the wage of an overpaid oil-company boss or a minimum-wage worker. Overall, it seems that capitalists and wage workers are more or less an equal match in Iceland. In other developed countries, the wage share has generally declined over the last decades, as capitalists have consolidated their power and unions have become weak and disorganized, or have been destroyed by their opponents. We must fight to ensure that our unions become stronger, and that we do not let our wages be redistributed to the richest in society in the form of higher rents and higher house prices. We must also be sure that our economics reflects our lived experience or question where it comes from, and avoid uncritically adopting measures of progress used by our employers and rulers.

Stefán Ólafsson ráðinn til starfa hjá Eflingu-stéttarfélagi

Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði hefur verið ráðinn til starfa sem sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu-stéttarfélagi. Stefán hefur störf í ágúst á skrifstofum Eflingar að Guðrúnartúni 1 og verður í hálfu starfi meðfram því sem hann stundar áfram rannsóknir og kennslu í háskólasamfélaginu. Í starfi sínu hjá Eflingu mun Stefán leiða rannsóknar- og greiningarvinnu auk þess sem hann verður formanni og stjórnar til ráðgjafar um stefnumótun í kjaramálum og á tengdum sviðum. Stefán á að baki afkastamikinn feril sem fræðimaður og er höfundur grundvallarrita um lífskjör og velferð á Íslandi. Hann lauk doktorsprófi í félagsfræði árið 1982 frá Oxford háskóla á Bretlandseyjum og hefur verið fastráðinn við Háskóla Íslands síðan 1979. Af ritum hans má nefna bækurnar Hagvöxtur og hugarfar frá 1996 og Íslenska leiðin frá 1999 en nýjasta rit hans, samið með Arnaldi Sölva Kristjánssyni, er Ójöfnuður á Íslandi sem kom út á þessu ári. Stefán hefur að undanförnu flutt fjölda erinda með samantektum úr síðastnefndu bókinni, þar á meðal fyrir trúnaðarráð Eflingar þann 7. júní síðastliðinn. Ráðning Stefáns til Eflingar styrkir mjög stöðu félagsins þegar kemur að getu til sjálfstæðrar rannsóknarvinnu og stefnumótunar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði: „Það eru ekki margir fræðimenn sem hafa sérhæft sig í aðstæðum hinna verst settu á Íslandi og að einn sá fremsti þeirra sé kominn til starfa hjá Eflingu er gríðarlegur styrkur. Rannsóknir Stefáns á ójöfnuði eru sláandi og segja allt aðra sögu en málflutningur SA og ASÍ. Ég mun leggja mikla áherslu á baráttuna gegn ójöfnuði í komandi kjarasamningum og að hafa Stefán mér við hlið í þeirri baráttu verður ómetanlegt.“ Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags býður Stefán Ólafsson velkominn til starfa hjá félaginu.

Í landi stöðugleikans - leiðari formanns í 4.tbl. Fréttablaðs Eflingar

Leiðari formanns 4.tbl. 2018 Í landi stöðugleikans Þegar kjaramál ber á góma berst talið fljótt að svokölluðum stöðugleika. Við erum vöruð við því að of miklar launakröfur ógni efnahag landsins og að ekki sé hægt að taka tillit til grundvallar réttlætissjónarmiða, nema hleypa af stað launaskriði. Okkur er líka sagt að róttæk verkalýðsbarátta sé ógn við stöðugleika og að hana beri að varast. Þær raddir heyrast víða um þessar mundir og oft er erfitt að átta sig á því úr hverra herbúðum þær berast. En þegar við horfum yfir þróun efnahagsmála síðustu áratuga er ljóst að efnahag Íslands stendur ekki ógn af verkafólki. Þvert á móti eru það þau með mestu efnahagslegu og pólitísku völdin sem slíta með hömluleysi sínu samfélagssáttmálann í sundur. Þau hafa fengið að skammta sér án hófs af sameiginlegum gæðum og með því orsakað þann mikla óróa sem nú ríkir. Á eftirstríðsárunum og allt fram á miðjan tíunda áratug síðustu aldar varð hér lífskjarabylting. Sem dæmi má taka söguna af þeirri skelfilegu húsnæðiskreppu sem ríkti í Reykjavík um miðja öldina, þar sem verkafólk bjó þúsundum saman í óíbúðarhæfum vistarverum. Vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar og með samstilltu átaki var fólki komið í mannsæmandi húsnæði, af þeirri einföldu ástæðu að ekki þótti boðlegt að láta vandann óáreittan. Ekki var látið þar við sitja heldur var jafnframt komið á fót almannatryggingarkerfi, skólakerfi fyrir öll börn og heilbrigðis- og velferðarkerfi. Þetta var ekki aðeins gerlegt, heldur pólitískt fýsilegt, þökk sé samfélagslegri sýn verkalýðshreyfingarinnar og þeim gildum sem hún byggði á; samhjálp, samhygð og réttlæti. Þessu jafnaðarsamfélagi var kollvarpað á tíunda áratugnum þegar mannfjandsamleg hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar tók völdin og fyrrnefndum gildum var kastað til hliðar. Misskipting óx gríðarlega og samfélagið varð græðgisvæðingunni að bráð, þegar firrt yfirstétt sópaði til sín verðmætum sem til urðu í samfélaginu um leið og söngurinn sem við þekkjum svo vel heyrðist í sífellu: Verka- og láglaunafólk verður að stilla kröfum sínum í hóf til að varðveita stöðugleika í þjóðfélaginu. Pólitísk sátt virtist ríkja um að á meðan hægfara kjarabætur væru eini kosturinn fyrir launafólk fengi auðstéttin að skammta sér æ stærri sneið af kökunni. Þetta samfélag græðginnar hrundi haustið 2008. Byrðarnar af því hruni lentu þó ekki síst hjá verkafólki, sem enn hefur ekki fengið neina „leiðréttingu“ á sínum kjörum, tíu árum síðar. Þvert á móti hafa skattbyrðar þessa hóps verið þyngdar á sama tíma og hinn „frjálsi markaður“ óseðjandi fjármagnseigenda hefur óáreittur fengið að koma húsnæðismálum alþýðunnar í uppnám. Og enn á ný heyrum við rammfalskan sönginn um stöðugleika, nú þegar verka- og láglaunafólk krefst hærri launa og mannsæmandi lífskjara. Á sama tíma hækka laun æðstu stjórnenda einkafyrirtækja stjórnlaust og yfirstétt opinbera kerfisins fær úthlutað því sem næst mánaðarlaunum þeirra sem strita við umönnunarstörf fyrir að sitja einn fund! Við hljótum að hafna stöðugleika sem er ákvarðaður út frá hagsmunum fjármagnseigenda og valdastéttar samfélagsins. Við hljótum að hafna stöðugleika sem nærir vaxandi ójöfnuð, sem grefur undan velferðarkerfinu, sem nærist á aukinni skattbyrði verkafólks svo að auðstéttin geti komið sér undan samfélagslegri ábyrgð, sem grefur undan efnahagslegu öryggi hinna vinnandi stétta á meðan auðstéttin fær óáreitt að skrifa nýjan samfélagssáttmála, byggðan á óréttlæti og arðráni. Við höfum verið beitt rangindum. Við ætlum að semja upp á nýtt; á okkar forsendum, á grundvelli jöfnuðar og sanngirni, þar sem mikilvægi þeirra sem vinna vinnuna er viðurkennt án fyrirvara og þar sem efnahagslegt réttlæti er í algjöru fyrirrúmi. Þegar það hefur tekist er kannski tímabært að tala um þjóðarsátt um stöðugleika. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar-stéttarfélags

Fjórða tölublað Fréttablaðs Eflingar komið út

Fjórða tölublað Fréttablaðs Eflingar er komið út og er að finna heilmargt áhugavert efni í því. Umföllun um formanns- og stjórnarskiptin m.a. viðtöl við tvo nýja stjórnarmenn, viðtöl við trúnaðarmenn Eflingar sem fóru á námskeið fyrir unga leiðtoga, umfjöllun um erindi Stefáns Ólafssonar, Þjóðarsáttin og þróun ójafnaðar á Íslandi á opnum fyrirlestri Eflingar og margt fleira.
Hægt er að smella á blaðið til að skoða það. 

Efling fordæmir ólögmætar aðgerðir Hvals hf. gagnvart starfsmönnum

Efling – stéttarfélag hefur fengið upplýsingar um að Hvalur hf. geri það að skilyrði fyrir vinnu á hvalvertíð 2018 að starfsmenn standi utan Verkalýðsfélags Akraness. Með þessu brýtur Hvalur hf. gegn skýrum réttindum starfsmanna sinna. Félagafrelsi starfsmanna Hvals hf. er verndað af stjórnarskrá Íslands og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Verkalýðsfélag Akraness vann nýlega mál fyrir Hæstarétti þar sem Hvalur hf. var dæmdur til að greiða starfsmanni 512 þúsund krónur vegna brota á kjarasamningi. Ótækt er að atvinnurekendur bregðist við því þegar verkalýðsfélög vinna sigra í kjaramálum félagsmanna með því að þrýsta á þá að ganga úr viðkomandi félagi. Efling tekur undir yfirlýsingu ASÍ dagsett 22. júní,
sjá hér og fordæmir þetta framferði Hvals hf. gagnvart starfsmönnum sínum. Efling kallar eftir því að niðurstöður dóma séu virtar sem og atvinnurekendur hafi ekki óeðlileg afskipti af félagsaðild starfsfólks. – Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

Hærri laun eru betri fyrir samfélagið

Breski hagfræðiprófessorinn Özlem Onaran hélt erindi á vegum Eflingar mánudaginn 11. júní á Grand hótel en hún er sérfræðingur í vinnumarkaðsrannsóknum og hefur meðal annars starfað fyrir Alþjóðavinnumálastofnun – ILO. Í erindi sínu fjallaði Onaran um áhrif launahækkana og jöfnuðar á hagvöxt. Onaran sýndi með skýrum hætti fram á að launavöxtur og aukinn jöfnuður getur haft mjög jákvæð áhrif á þróun hagkerfisins, ekki síst vegna örvunaráhrifa á neyslu. Launahækkanir skila sér út í samfélagið Onaran fjallaði um þá staðreynd að launalægri hópar verja stærri hluta tekna sinna í neyslu en aðrir hópar, en tekjuhærri hóparnir eru líklegri til að spara hlutfallslega meira. Því skila launahækkanir til tekjulægri hópa sér beint út í hagkerfið í formi aukinnar eftirspurnar. Onaran gagnrýndi þá kennisetningu nýfrjálshyggjunnar að launagreiðslur væru eingöngu kostnaður sem hefði hamlandi áhrif á hagvöxt og lagði Onaran þess í stað áherslu á þátt launatekna í að viðhalda eftirspurnarhlið hagkerfisins. Onaran rökstuddi að flest hagkerfi væru í eðli sínu drifin áfram af vexti launa, fremur en að vöxtur launa hamlaði þeim og minnti auk þess á að launahækkanir auka skattstofna ríkisins og geta því bætt stöðu ríkissjóðs. Hún minnti auk þess á að hátt launastig væri mikilvægur þáttur í að gera samfélög aðlaðandi fyrir vinnuafl, og að samkeppnishæfni ríkja væri síður en svo best borgið með lágum launum. Samkeppnishæfni gæti líka verið styrkt með háum launum. Mikilvægt að fjárfesta í kvennastörfum Onaran voru láglaunastörf kvenna hugleikin og vísaði hún í rannsóknir sem hafa sýnt að hækkandi laun fara yfirleitt saman við aukinn jöfnuð kynja.  Þá rökstuddi Onaran að góð laun í hefðbundnum kvennastörfum eins og umönnun barna og aldraðra væri í raun mikilvæg fjárfesting og nefndi hún slíka grunnþjónustu „félagslega innviði“. Sá mannauður sem þar þrífst væri efnahagslega mjög mikilvægur enda hefði slík grunnþjónusta mikil margfeldisáhrif vegna þess hve hún auðveldar atvinnuþátttöku og hvetur þar með til hagvaxtar. Góð laun fyrir umönnunarstöf væri góð fjárfesting í grunninnviðum samfélagsins. Onaran ræddi um þá staðreynd að nú væri vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi að hægjast. Hún benti á að þótt útflutningstekjur væru mikilvægar skipti líka máli að huga að þætti innlendrar eftirspurnar, sérstaklega ef útflutningstekjur eru í þann mund að minnka. Hún rökstuddi að heilbrigður vöxtur launa í ferðaþjónustu myndi að líkindum hafa jákvæð þjóðhagsleg áhrif, bæði vegna eftirspurnaráhrifa og vegna aukinnar gæða í þjónustu sem betur launað starfsfólk getur veitt og þar með eflt sérstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Verkalýðsfélög í lykilhlutverki Þá kom Onaran inn á hina margumræddu fjórðu iðnbyltingu, eða sjálfvirknivæðingu í nýjum geirum atvinnulífs. Hún benti á að tækniframfarir hefðu alltaf verið fylgifiskur hagþróunar í kapítalískum samfélögum og að svarið nú væri hið sama og áður: öflugar stofnanir til að jafna leikinn og rétta hlut þeirra sem berskjaldaðastur eru. Þar væru verkalýðsfélög í lykilhlutverki. Þá minnti Onaran á að ríkið og aðrar stofnanir undir stjórn almennings hafa ýmis tæki til að stuðla að jöfnuði, þar á meðal ákvæði um hámarks launamun innan fyrirtækja sem ríkið á í viðskiptum við. Hagvöxtur á forsendum jöfnuðar Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins sat í pallborði og brást við erindi Onaran með því að segja að í því væru ýmsir punktar sem gætu verið leiðarvísir um áherslur í komandi kjaraviðræðum. Drífa benti á að Ísland væri í góðri stöðu til að setja í framkvæmd hugmyndina um hagvöxt á forsendum jöfnuðar, enda vald verkalýðsfélaga mikið. Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, sat einnig í pallborði og tók undir mörg af sjónarmiðum Onaran en benti á að hagvöxtur á forsendum launa væri að einhverju leyti þegar til staðar á Íslandi. Hann minnti enn fremur á mikilvægi þess að efla félagslegt húsnæði enda væri húsnæðismarkaðurinn oft rót ójöfnuðar.  

Nýir möguleikar í aðkomu lífeyrissjóða að leigumarkaði

– English below Opinn fundur með Ólafi Margeirssyni í boði Eflingar Mánudaginn 18.júní mun Ólafur Margeirsson hagfræðingur halda fyrirlestur á vegum Eflingar á opnum fundi á Grand hótel kl. 16.30. Fyrirlestur hans ber titilinn Geta lífeyrissjóðir byggt upp húsnæðisleigumarkað á Íslandi? Þar mun Ólafur ræða um mögulegar útfærslur þess að lífeyrissjóðirnir komi að leigumarkaði, þau fjárhagslegu tækifæri sem í því gætu falist fyrir sjóðfélaga og þjóðhagsleg áhrif slíkrar framkvæmdar. Þá mun Ólafur rýna í röksemdir sem áður hafa verið settar fram um málið af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða. Um er að ræða mál sem er í brennidepli og sem kann að leika mikilvægt hlutverk á komandi kjarasamningavetri. Efnt verður til pallborðsumræðna að fyrirlestri Ólafs loknum en þar sitja þrír einstaklingar sem allir hafa sérþekkingu á efn fundarins. Þau eru: Una Jónsdóttir, hagfræðingur og deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði Þórey S. Þórðardóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi stjórnarformaður Búseta Tekið verður við spurningum úr sal en fundarstjóri er Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR. Ólafur Margeirsson er búsettur í Sviss þar sem hann starfar við greiningu húsnæðismarkaðar, en hann er með doktorspróf í hagfræði frá University of Exeter á Bretlandi. Ólafur hefur vakið athygli fyrir skelegg en aðgengileg skrif um efnahagsmál á
bloggsíðu sinni á DV. Boðið verður upp á kaffi og létt meðlæti. Streymt verður af fundinum á samfélagsmiðlum Eflingar. Fundurinn er öllum opinn og ókeypis inn. Boðið er upp á textatúlkun á ensku á skjá. Fyrirlesturinn er sá seinasti í röð funda sem Efling hefur staðið fyrir undir heitinu Stóra myndin og fjalla um ýmsar hliðar vinnumarkaðsmála. – Efling presents an open meeting with Ólafur Margeirsson On Monday, June 18th, economist Ólafur Margeirsson will be giving a presentation in a meeting organised by Efling, in Grand hotel starting at 16.30. The title of his presentation is: Can pension funds help grow the rental market in Iceland? Ólafur will discuss different ways in which pension funds could become actors in the rental market, the economic opportunities that might entail for the pension funds’ members and the overall effect it would have on the national economy. Ólafur will also take a close look at the arguments previously put forward by The Icelandic Pension Funds Association on the issue. This is an important, current topic, and one that may play a key role in the upcoming negotiations this winter. Ólafur’s presentation will be followed by a panel discussion, with a panel consisting of three individuals who all possess expertise on the topic. They are: – Una Jónsdóttir, Economist and Head of Department of the Rental Market at the Icelandic Housing Financing Fund – Þórey S. Þórðardóttir, Lawyer and Managing Director of The Icelandic Pension Funds Association – Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Associate Professor at The School of Business at the University of Iceland and the Former Executive Chairman of Búseti Questions will be taken from the room and the meeting will be moderated by Þórarinn Eyfjörð, Managing Director of SFR. Ólafur Margeirsson lives in Switzerland, where he works as a real estate strategist. He has a PhD in economics from the University of Exeter. Ólafur’s insightful and yet accessible writings on economics, have received attention in the last years. Coffee and light snacks will be offered. The meeting will be streamed live on Efling’s social media pages. The meeting is open to everyone, free of charge. Simultaneous on-screen English translation of the meeting will be provided. This meeting is the last meeting in a series organised by Efling, under the title The Big Picture. The meetings have covered various labour market related issues.

Vaxandi ójöfnuður er viðvörunarbjalla

Stefán Ólafsson sýnir að ASÍ gefur skakka mynd af sögu kaupmáttar og verkalýðsbaráttu. Formaður Eflingar segir málflutning ASÍ hneyksli og vill skoða vísitölubindingu ójöfnuðar. Mánudaginn 4. júní efndi Efling til fyrsta fundarins af þremur í fundaröðinni „Stóru málin“. Fundunum er ætlað að setja mikilvæg mál á dagskrá umræðunnar í aðdraganda kjarasamningavetrar. Fundurinn á mánudag bar yfirskriftina „Þjóðarsáttin og þróun ójöfnuðar á Íslandi“ og flutti Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Ísland þar upphafserindi áður en boðið var til pallborðsumræðna. Stefán er höfundur bókarinnar
Ójöfnuður á Íslandi ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni og byggðist erindi hans á niðurstöðum bókarinnar. Stefán lýsti í erindi sínu þeirri þróun í átt að auknum ójöfnuði sem einkennt hefur íslenskt samfélag síðustu áratugi, með tímabundinni snaraukningu á góðærisárunum á fyrsta áratug 21. aldar og svo bakslagi í Hruninu 2008. Tímabilið 1945-1995 var tímabil mikils jöfnuðar hér á landi og var Ísland þá eitt mesta jafnaðarsamfélag heims. Að frátöldu Hruninu er ljóst að ójöfnuður hefur aukist óðfluga eftir árið 1995 og er nú mun meiri en gerist á hinum Norðurlöndunum. Fjármálakerfið drífur aukinn ójöfnuð Í rannsóknum sínum rekur Stefán orsakir ójöfnuðar til tveggja þátta: Annars vegar innreiðar og hraðs vaxtar fjármálakerfisins í kjölfar einkavæðingar og alþjóðavæðingar á síðasta áratug 20. aldar og í kringum árið 2000 og hins vegar breytinga á skatta- og velferðarstefnu stjórnvalda. Að mati Stefáns má rekja aukningu ójöfnuðar að tveimur þriðju til fjármálakerfisins, en í gegnum það hafa efnuðustu einstaklingarnir á Íslandi aukið verulega hlut sinn í heildartekjum og -eignum þjóðarbúsins. Á sama tíma voru skattar á fjármagnstekjur að jafnaði lægri en skattar á atvinnutekjur. Stefán fjallaði í erindi sínu sérstaklega um Þjóðarsáttarsamningana 1990 og áhrif þeirra á þróun ójöfnuðar á Íslandi, en ASÍ hefur fjallað mikið um Þjóðarsáttarsamningana í nýlegu kynningarefni. Ljóst er að sú aukning ójöfnuðar sem Stefán hefur sýnt fram á eftir 1995 kemur engan veginn heim og saman við þá mynd sem ASÍ hefur dregið upp í kynningarefni sínu, en ASÍ hefur haldið því fram að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur laun eftir Þjóðarsáttarsamningana. Stefán rýndi nánar í aðrar fullyrðingar ASÍ, sér í lagi þá skoðun að ný aðferðafræði við kjarasamningagerð eftir 1990 hafi aukið kaupmátt og stöðugleika. Kaupmáttur jókst meira fyrir Þjóðarsátt Samkvæmt Stefáni voru sveiflur tímabilsins fyrir 1990 fyrst og fremst afleiðing gengisfellinga, ekki afleiðing af tilteknum aðferðum við kjarabaráttu. Stefán hafnaði þeirri söguskoðun að verkalýðshreyfingin hafi á þessum árum farið villur vega, og benti á að í ljósi vilja ríkisvalds og útgerðarinnar til að beita gengisfellingum hafi verið mjög eðlilegt að hreyfingin krefðist hárra rauntöluhækkana. Þá rýndi Stefán ítarlega í þróun kaupmáttar fyrir og eftir 1990 og tók inn í myndina bæði ráðstöfunartekjur og einkaneyslu. Samantekin niðurstaða hans er að kaupmáttaraukningin var að meðaltali í kringum 4% á ári fyrir Þjóðarsátt, en milli 2 og 2,5% á ári að meðtali eftir Þjóðarsátt. Umræddar kaupmáttarbreytingar eiga jafnt við um ólíka launahópa og eru ekki frábrugðnar fyrir verka- og láglaunafólk, nema að því leyti að hlutur þeirra í heildartekjum fer minnkandi eftir 1995 sökum aukins ójöfnuðar. Því er ljóst að sú fullyrðing að kaupmáttaraukning hafi verið meiri eftir Þjóðarsáttina stenst ekki skoðun. Ójöfnuður hefur áhrif á lýðheilsu, glæpi og lýðræðisþátttöku Þegar Stefán hafði lokið máli sínu tóku við pallborðsumræður. Guðmundur Jónsson sérfræðingur í hagsögu og prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands kallaði bók Stefáns og Arnaldar Ójöfnuður á Íslandi vera grundvallarrit og sagði rannsóknir hans hafa skapað sammæli meðal fræðimanna um að aukning ójöfnuðar sé staðreynd sem og um hverjar orsakir þeirrar aukningar séu. Margrét Valdimarsdóttir félags- og afbrotafræðingur rökstuddi með vísun í rannsóknir að fátækt ein og sér sé ekki eina rót félagslegra vandamála, heldur hafi ójöfnuður mikið að segja. Því er stundum haldið fram að vaxandi hlutdeild hinna ríkustu í heildartekjum sé ekki vandamál að því skilyrði uppfylltu að kjör hinna verst settu batni lítillega á sama tíma. Margrét sagði þetta viðhorf ekki standast skoðun og að rannsóknir sýndu skýrt að vaxandi bil milli ríkra og hinna efnaminni, jafnvel þótt þeir síðarnefndu væru ekki sárafátækir, væri sjálfstætt vandamál og hefði neikvæð áhrif á ótal þætti, svo sem lýðheilsu, glæpatíðni og lýðræðisþátttöku. Gestum sárnaði málflutningur ASÍ Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans, sem fjallað hefur um dreifingu eigna og tekna í fjölmörgum úttektum, sagði það vel við hæfi að ræða um ójöfnuð á sama tíma og ríkisstjórnin væri í miðjum klíðum að breyta skattkerfinu enn frekar í þágu hinna efnameiri með lækkun veiðigjalda. Hann sagði að samkvæmt eigin rannsóknum væri það raunin að þorri auðs og eigna hefði færst á hendur æ færri einstaklinga. Hann sagði að aukning ójöfnuðar væri viðvörunarbjalla sem hlusta ætti á. Hann vísaði í vaxandi ólgu í samfélaginu og að það væri mótsagnakennt að þeir sem minnsta hafa milli handanna séu krafðir um hófsemi og að bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika. Allmargir úr hópi fundargesta lögðu til mála í umræðum. Einn fundargestur sem mundi eftir tímabili eftirstríðsáranna sagði að sér sárnaði málflutningur ASÍ um að kjarabarátta fyrir Þjóðarsáttina hafi verið á villigötum. Hann benti á ávinning annan en laun, svo sem styttingu vinnutímans, orlofsréttindi og atvinnuleysistryggingar sem náðust í gegn með harðri baráttu og í sumum tilfellum allsherjarverkföllum svo sem árið 1955. Annar fundargestur spurði um skattaskjól og tóku pallborðsmeðlimir undir að þar væru hugsanlega miklum fjárhæðum skotið undan sem kynnu að sýna fram á enn meiri ójöfnuð en þann sem fram kemur í rannsóknum á þekktum gögnum. Ójafnaðarvísitala í kjarasamningum myndi vekja heimsathygli Í lok fundar bar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar upp þá tillögu hvort hægt væri að þróa ójafnaðarvísitölu sem myndi fanga stöðu ójöfnuðar á hverjum tíma og að sú vísitala yrði lögð til grundvallar í kjarasamningum sem forsenduákvæði. Þetta myndi þýða að færi stig ójöfnuðar fram yfir tiltekið mark yrði unnt að segja kjarasamningum upp sjálfkrafa. Með þessu myndi hreyfingin standa vörð um lífsgæði almennings, stemma stigu við ofurlaunum og sjálftöku yfirstéttarinnar og koma í veg fyrir frekari þróun samfélagsins í átt að því sem þekkist í Bandaríkjunum. Stefán Ólafsson svaraði því til að slíkt samkomulag, sem væri ekki eingöngu um laun heldur einnig dreifingu lífskjara, væri fyllilega raunhæft og myndi mögulega vekja heimsathygli. Guðmundur Jónsson tók undir að slík „rauð strik“ hefðu áður fyrirfundist í kjarasamningum og að þetta væri álitleg hugmynd. Skrumskælingar ASÍ eru hneyksli Að loknu erindi Stefáns sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Rannsóknir Stefáns Ólafssonar sýna fram á það sem ég held að flest íslenskt verkafólk hafi þegar vitað og skynjað rækilega, sem er að hörð verkalýðsbarátta skilar árangri. Við höfum ekki upplifað áratugina eftir 1990 sem eitthvað sérstakt tímabil stöðugleika og velmegunar. Við þjáðumst vegna Hrunsins og nú þjáumst við vegna húsnæðisbólunnar. Launin okkar hafa aldrei verið boðleg, hvorki fyrir né eftir Þjóðarsátt. Kynningarefni og málflutningi sem borist hefur frá forystu ASÍ er fyrst og fremst móðgun við efnaminna fólk sem treystir á öfluga kjarabaráttu. Að forysta ASÍ hafi skrumskælt tölur til þess að draga úr baráttuanda verkafólks í aðdraganda kjarasamningavetrar er að mínu mati eitt stærsta hneyksli sem átt hefur sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar.“ Sólveig Anna sagðist mjög áhugasöm um að þróa frekar hugmyndina um ójafnaðarvísitölu sem forsenduákvæði í kjarasamningum og að vinna henni brautargengi innan verkalýðshreyfingarinnar. „Mikið er rætt um ‘höfrungahlaup’ en í mínum huga er sívaxandi ofurlaunasjálftaka hástéttarinnar síðustu 20 árin lang stærsta höfrungahlaupið. Það hefur leitt til kollsteypa og óstöðugleika sem hafa valdið hörmungum í lífum verkafólks. Ójafnaðarvísitala í kjarasamningum myndi ekki bara stuðla að réttlátara samfélagi heldur einnig vera aðferð til að dreifa ábyrgðinni á stöðugleikanum á sanngjarnari hátt. Við í Eflingu munum skoða þessa nálgun af fullri alvöru.“

Hagþróun á forsendum jöfnuðar og hlutverk verkalýðsfélaga

— English below Opinn fundur Eflingar með breska hagfræðingnum Özlem Onaran  Efling – stéttarfélag boðar til opins fundar mánudaginn 11. júní með breska hagfræðingnum Özlem Onaran. Titill fyrirlestrarins er Hagþróun á forsendum jöfnuðar og hlutverk verkalýðsfélaga (Equality-led development and the role of trade unions). Onaran er prófessor við Greenwich-háskóla í London og hefur gefið út mikið magn rannsókna um vinnumarkaðsmál og tengd efni. Hún hefur auk þess unnið skýrslur og álitsgerðir fyrir Alþjóða vinnumálastofnunina (ILO). Í erindi sínu mun Onaran takast á gagnrýnin hátt á við það viðhorf, sem verið hefur útbreitt innan hagfræðinnar m.a. vegna áhrifa nýfrjálshyggju, að launakostnaður sé dragbítur á hagvöxt og að frelsi atvinnurekenda til að greiða sem lægst laun séu samfélaginu til hagsbóta. Onaran rökstyður með vísun í reynsluathuganir að aukinn hlutur launa í samanburði við landsframleiðslu sé þvert á móti skynsamleg leið til að örva eftirspurn í hagkerfinu og þar með hagvöxt. Þá ræðir hún um tengslin milli jöfnuðar og launadrifins hagvaxtar. Einnig mun Onaran fjalla um hvernig verkalýðsfélög geta beitt sér í þágu sjálfbærs hagvaxtar á forsendum velferðar, jöfnuðar og heilbrigðrar launaþróunar. Að loknu erindi Onaran verður boðið til pallborðsumræðna, en í pallborði sitja eftirtalin: – Gylfi Magnússon, hagfræðingur og prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands – Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandins – Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá hagdeild Alþýðusambands Íslands Einnig verður tekið við fyrirspurnum úr sal. Fundarstjóri er Þórhildur Ólafsdóttir útvarpskona og einn af umsjónarmönnum Samfélagsins á Rás 1. Fundurinn fer fram á ensku en verður túlkaður jafnóðum með texta á skjá. Streymt verður af fundinum í gegnum samfélagsmiðla Eflingar. Fundurinn hefst klukkan 16:30 og fer fram á Grand hótel Reykjavík í Sigtúni, í salnum Hvammi á jarðhæð. Ókeypis er inn og fundurinn öllum opinn. Boðið verður upp á kaffi, te og létt snarl. Fundurinn er liður í fundaröð Eflingar undir heitinu Stóra myndin þar sem fjallað er um áherslur í vinnumarkaðsmálum með hliðsjón af komandi kjarasamningavetri Equality-led Development and the Role of Trade Unions An Open Meeting with Economist Özlem Onaran Efling trade union welcomes you to an open meeting on Monday June 11 with London-based economist Özlem Onaran. The title of her talk is Equality-led development and the Role of Trade Unions. Onaran is a professor at the University of Greenwich and has produced multiple studies of labour markets and economic development. She is the author of papers and briefs for the International Labour Organization. Due to the influence of neoliberalism, it is a widely held belief in the discipline of economics that wage costs are detrimental to economic growth and that employers’ freedom to suppress wages is beneficial to society. In her talk, Onaran will critically address this notion. On the basis of empirical evidence, she demonstrates that an increased share of wages as a ratio of GDP is an efficient way of stimulating demand and growth in the economy. She will also address the relationship between equality and wage-led growth. Finally, Onaran will discuss what policies trade unions can employ to support sustainable growth based on welfare for all, equality, and robust wage growth. Onaran’s talk will be followed by a panel discussion. The following are on the panel: – Gylfi Magnússon, economist and Professor at the Faculty of Business Administration at the University of Iceland – Drífa Snædal, General Secretary of the Federation of General and Special Workers (SGS) – Róbert Farestveit, economist at the Icelandic Confederation of Labour (ASÍ) Questions will also be taken from the audience. The chair of the meeting is Þórhildur Ólafsdóttir, radio programmer at the state broadcasting service RÚV. The meeting will be in English but will be interpreted live to Icelandic via text on screen. There will be a live stream of the meeting on Efling’s social media platforms. The meeting starts at 16:30 and takes place at Grand hótel Reykjavík in Sigtún, in lecture hall Hvammur on the 1st floor. The meeting is open to all at no charge. Coffee and light snacks are provided. The meeting is part of a series of meetings organized by Efling trade union called The Big Picture, intended to spark discussion about labour market issues in light of the upcoming salary negotiations in the Fall.

Fjallað um ójöfnuð og áherslubreytingar í kjarabaráttu á formannafundi SGS

Formaður Eflingar kallar eftir áframhaldandi samræðum við leiðtoga hreyfingarinnar um sameiginlegar áherslur Dagana 31. maí og 1. júní var haldinn fundur formanna og varaformanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins (SGS), en innan SGS er að finna öll staðbundin félög og deildir almenns verkafólks landið um kring. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók þátt í fundinum ásamt Sigurrós Kristinsdóttur varaformanni auk þess sem Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri og Ragnar Ólason kjaramálafulltrúi hjá Eflingu og stjórnarmaður í SGS voru viðstaddir. Ójöfnuður hefur aukist Á fundinum var rætt um ýmis innri málefni SGS en á fimmtudag flutti Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði erindi þar sem hann greindi frá niðurstöðum rannsóknar sinnar Ójöfnuður á Íslandi. Þær niðurstöður sýna fram á stöðuga og verulega aukningu efnahagslegs ójöfnuðar í íslensku samfélagi allar götur síðan um 1995. Tímabundið dró að vísu úr ójöfnuði með hruninu 2008 en í kjölfar efnahagsbatans hefur ójöfnuður tekið að aukast á ný. Niðurstöður rannsókna Stefáns eru skýrar og afgerandi varðandi þessa þróun. Í lok erindis síns ræddi Stefán sérstaklega um þá söguskoðun sem fram hefur komið í kynningarefni frá ASÍ en þar er því haldið fram að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur laun á tímabilinu eftir Þjóðarsáttarsamningana 1990 og að tímabilið á undan því hafi einkennst af kollsteypum og minni kaupmætti. Stefán dró upp talsvert aðra mynd, meðal annars með vísun í eigin rannsóknir. Hann rakti kollsteypur áranna 1960-1980 fyrst og fremst til gengisfellinga, og benti á að kaupmáttur launa jókst verulega yfir tímabilið í heild. Kaupmáttur launa jókst að meðaltali mun minna á hverju ári eftir árið 1990. Þá sýna athuganir hans skýrt að ójöfnuður óx eftir 1995 sem kemur ekki heim og saman við þá fullyrðingu ASÍ að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur. Erindi Stefáns vakti mikla athygli og skapaði heitar umræður meðal formanna og varaformanna aðildarfélaga SGS. Meðal annars kom fram í máli nokkurra formanna að rannsóknir Stefáns styrktu mjög þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á málflutning ASÍ að undanförnu og
sem Efling hefur tekið undir. Sérstaka athygli vakti hve skýr áhrifsþáttur vöxtur fjármálageirans og lítt skattlagðra fjármagnstekna hefur verið í vaxandi hlutdeild hinna ríkustu í tekjum og eignum þjóðarbúsins skv. rannsóknum Stefáns. Mikilvægt að vinna saman Á föstudag áttu sér stað frekari umræður meðal formanna og varaformanna í tilefni af komandi kjarasamningavetri. Við það tækifæri hélt Sólveig Anna tölu þar sem hún lagði mikla áherslu á baráttuna gegn ójöfnuði. Hún bar fram þá uppástungu að mögulega mætti hugsa sér eins konar ójafnaðarvísitölu byggða á þeirri aðferðafræði sem Stefán hefur þróað og að setja skilmála um ákveðna hámarkshækkun slíkrar vísitölu inn í kjarasamninga, sem forsenduákvæði. Þá ræddi Sólveig um þörfina á kerfisbreytingum á hinum samtengdu sviðum lífeyris- og húsnæðismála. Sólveig Anna nefndi sérstaklega að nú þegar íslenskur almenningar bæri miklar vonir til verkalýðshreyfingarinnar væri mikilvægt að vinna saman á grundvelli hugmyndafræðilegs samhljóms og að umræður um markmið og samfélagssýn ættu að vera málefnalegar en snúast ekki um persónur eða klíkur. Hún þakkaði formönnum og varaformönnum innan SGS fyrir ánægjuleg samskipti á fundinum og óskaði eftir fleiri tækifærum til að halda áfram að dýpka þau tengsl á forsendum sameiginlegra áherslna.

Stóru málin: Fundaröð Eflingar um nýjar áherslur í vinnumarkaðsmálum

–English below Efling – stéttarfélag boðar til fundaraðar þar sem fjallað verður um stórar spurningar varðandi vinnumarkaðsmál og tengd efni. Tilgangur fundaraðarinnar er að hvetja til opinnar umræðu um vinnumarkaðsmál út frá hagsmunum félagsmanna Eflingar, ekki síst með hliðsjón af komandi kjarasamningavetri. Þá er fundaröðin einnig hugsuð sem innlegg til umræðu um markmið og samfélagssýn verkalýðshreyfingarinnar, en hreyfingin hefur undirgengist talverða endurnýjun á síðustu misserum og þörfin fyrir hugmyndafræðilega endurskoðun er brýn. Fundirnir eru allir með því sniði að fyrirlesari með sérþekkingu á tiltekinni hlið vinnumarkaðsmála flytur upphafserindi og að því búnu verður boðið til pallborðsumræðu undir stjórn fundarstjóra og boðið upp á fyrirspurnir úr sal. Fundirnir verða allir á mánudögum í júní og hefjast klukkan 16:30. Þeir eru haldnir á Grand Hótel Reykjavík í Sigtúni, í salnum Hvammi á jarðhæð, og eru opnir öllum án aðgangseyris. Fundunum verður streymt í gegnum samfélagsmiðla Eflingar og verður túlkur á staðnum sem þýðir það sem fram fer með texta á skjá. Kaffi og létt snarl verður í boði án endurgjalds. Á fyrsta fundinum í röðinni, þann 4. júní, mun Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði halda fyrirlestur undir yfirskriftinni Þjóðarsáttin og þróun ójöfnuðar á Íslandi. Í fyrirlestrinum mun Stefán gera grein fyrir helstu niðurstöðum rannsóknar sinnar Ójöfnuður á Íslandi en um leið svara þeirri spurningu hvaða áhrif Þjóðarsáttarsamningarnir 1990 höfðu á þróun ójöfnuðar. Um er að málefni sem hefur verið talsvert í umræðunni í tengslum við málflutning ASÍ um Þjóðarsáttina og ólíkar nálganir á kjarasamingagerð. Frekari upplýsingar um fundinn má sjá
hér.  Á öðrum fundinum, sem haldinn verður 11. júní, mun breski hagfræðingurinn Özlem Onaran flytja fyrirlestur undir heitinu Equality-led development and the role of trade unions eða Hagþróun á forsendum jöfnuðar og hlutverk verkalýðsfélaga. Onaran hefur unnið úttektir fyrir Alþjóða vinnumálastofnunina og birt fjölda greina um efnahagslegan ávinning þess að auka hlut launa í þjóðarframleiðslu. Fundurinn verður á ensku en verður túlkaður á íslensku með texta á skjá. Frekari upplýsingar um fundinn má sjá hér. Þriðji fundurinn, þann 18. júní, er skipulagður í kringum erindi Ólafs Margeirssonar sem nefnist Geta lífeyrissjóðir byggt upp húsnæðisleigumarkað á Íslandi? Framkvæmd, fjárhagsleg tækifæri og þjóðhagsleg áhrif. Í erindinu ræðir Ólafur um hvernig nýta mætti íslenska lífeyrissjóðakerfið til að bregðast við ástandinu  á leigumarkaði og mun hann m.a. greina frá samanburði við Sviss. Frekari upplýsingar um fundinn koma síðar. The Big Picture: Efling presents a series of meetings focusing on new priorities in labour market issues. Efling trade-union invites you to a series of Monday meetings in June. The topics will relate to the big questions we currently face regarding the labour market and other related issues. All meetings will take place in Grand Hótel and will start at 16:30. June 4th – National Consensus and the Development of Inequality in Iceland – Stefán Ólafsson, Professor of Sociology June 11th – Equality-led development and the role of trade unions – Özlem Onaran, Professor of Economics at the University of Greenwich – The meeting will be in English but simultaneous on-screen translation will be provided. June 19th – Can the Pension Funds Develop a Rental Market in Iceland? Execution, Financial Opportunities and Effect on the National Economy. – Ólafur Margeirsson, economist Each talk will be followed by a panel discussion, where the moderator will take questions from the room. The meetings are open to everyone, free of charge. The meetings will be streamed live on Efling’s Facebook page.

Laun hækka á almennum vinnumarkaði

Þann 1. maí sl. hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 3%. Þá hækkaði líka lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu í 300.000 kr. sem jafngildir 1.731 kr./klst. m.v. 173,33 klst. á mánuði. Hækkunin kemur til útborgunar nú um mánaðamótin maí/júní.

Þjóðarsáttin og þróun ójöfnuðar á Íslandi

Opinn fyrirlestur og pallborð í boði Eflingar- stéttarfélags Efling-stéttarfélag efnir til opins fundar fyrir félagsmenn og allan almenning undir yfirskriftinni Þjóðarsáttin og þróun ójöfnuðar á Íslandi. Á fundinum, sem haldinn verður 4. júní næstkomandi, mun Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði flytja erindi og að því búnu verður boðið til pallborðsumræðna. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Stóra myndin þar sem Efling býður til umræðna um vinnumarkaðstengd málefni sem kunna að skipta sköpum á komandi kjarasamningavetri. Á fundinum gefst tækifæri til að fá aðgengilega kynningu á rannsóknum Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar á ójöfnuði en þær birtust í bókinni Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi fyrr í vetur. Um leið er fundinum ætlað að skapa gagnrýna umræðu um arfleifð Þjóðarsáttarinnar, en í nýlegu kynningarefni Alþýðusambands Íslands hefur því verið haldið fram að lægstu laun hafi hækkað hlutfallslega meira en önnur laun síðan í Þjóðarsáttarsamningunum 1990. Rannsóknir Stefáns og Arnaldar draga upp allt aðra mynd, líkt og Stefán mun fjalla sérstaklega um í erindi sínu. Í pallborði að loknu erindi Stefáns sitja eftirtalin: Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í hagsögu Margrét Valdimarsdóttir, félags- og afbrotafræðingur sem m.a. hefur fjallað um áhrif ójöfnuðar á samfélög í rannsóknum sínum Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og höfundur fjölda ítarlegra úttekta um innlend og erlend efnahagsmál Fundarstjóri er Þórhildur Ólafsdóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og umsjónarmaður Samfélagsins. Fundurinn er haldinn á Grand Hótel (Sigrúni 38, 105 Reykjavík) í salnum Hvammi á jarðhæð og hefst klukkan 16:30. Efni fundarins verður þýtt jafnóðum á enskan texta og varpað á skjá. Boðið verður upp á kaffi og létt meðlæti. Fundurinn er öllum opinn og ókeypis inn en honum verður einnig streymt í gegnum samfélagsmiðlasíður Eflingar.

Formaður fundar með leiðtogum hreyfingarinnar

Sólveig Anna Jónsdóttir ásamt Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, formanni AFLs starfsgreinafélags Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, átti í dag góðan fund með Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur formanni AFLs starfsgreinafélags. Sólveig hefur auk þess átt fjölda funda með leiðtogum innan verkalýðshreyfingarinnar síðan hún tók til starfa þann 27. apríl síðastliðinn. Á þessum fundum hefur verið rætt um verkalýðsmál, jöfnuð og samfélagslegt réttlæti, stöðuna í kjarabaráttu einstakra hópa og sameiginlegar áherslur og samstarfsmöguleika innan heildarsamtaka verkalýðshreyfingarinnar. Sólveig Anna átti fund þann 8. maí með Kristjáni Gunnarssyni formanni Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og Kolbeini Gunnarssyni formanni Hlífar, en þessi félög hafa ásamt Eflingu myndað hið svokallaða Flóabandalag. Flóabandalagið hefur m.a. gert sameiginlega kjarasamninga og starfrækir fræðslusjóðinn Starfsafl. Þann 11. maí fundaði Sólveig Anna með Gylfa Arnbjörnssyni formanni og Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra ASÍ, en þar var m.a. farið yfir áheyrnaraðild Sólveigar að miðstjórn ASÍ. Sólveig Anna átti svo fund þann 14. maí með Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR og Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness. Þann 23. maí átti hún aftur fund með þeim ásamt Aðalsteini Árna Baldurssyni formanni Framsýnar. Þessir formenn hafa oft talað á svipuðum nótum um sínar áherslur í kjarabaráttu. Sólveig Anna átti góðan fund þann 16. maí með Birni Snæbjörnssyni formanni Starfsgreinasambandsins, en þar var rætt um sameiginleg hagsmunamál félaganna sem mynda sambandið og áherslur í komandi samningaviðræðum. Sólveig Anna hefur sérstaklega sóst eftir því að funda með formönnum aðildarfélaga SGS landið um kring, en þann 22. maí fundaði hún með Guðrúnu Elínu Pálsdóttur formanni Verkalýðsfélags Suðurlands og þann 24. maí með Sigurði A. Guðmundssyni formanni Verkalýðsfélags Snæfellinga. Auk þess hefur Sólveig Anna átt nokkra fundi með Drífu Snædal framkvæmdastjóra SGS. Sólveig Anna hefur einnig leitast við að kynnast forystumönnun annarra aðildarfélaga og landssambanda ASÍ en þann 28. maí fundaði hún með Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni formanni Rafiðnaðarsambands Íslands og Borgþóri Hjörvarssyni formanni Félags íslenskra rafvirkja og varaformanni Rafiðnaðarsambandsins.  Stéttarfélög utan ASÍ hafa einnig verið á dagskrá og átti Sólveig Anna fund þann 25. maí með Elínu Björg Jónasdóttur formanni og Helgu Jónsdóttur framkvæmdastjóra BSRB. Þann 8. maí hitti Sólveig Anna einnig Harald Frey Gíslason, formann Félags leikskólakennara. Á öllum þessum fundum hefur nýjum formanni Eflingar gefist dýrmætt tækifæri til að mynda tengsl við aðra leiðtoga verkalýðshreyfingarinar og stéttarfélaga og leggja grunn að áframhaldandi samstarfi í kjarabaráttu og um önnur hagsmunamál félagsmanna.

Fundur með frambjóðendum í Reykjavík - Láglaunaborgin Reykjavík?

Það var sjóðandi heit borgarpólitíkin á fundi sem Efling, VR, SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar héldu með frambjóðendum til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. 15 af 16 framboðum mættu. Upptöku af fundinum má nálgast
hér.  

Láglaunaborgin Reykjavík?

Framboðsfundur á vegum stéttarfélaga í Reykjavík, fimmtudaginn 24. maí kl. 17 -19. Efling, VR, SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar — stærstu stéttarfélögin innan ASÍ og BSRB með starfssvæði í Reykjavík — efna til sameiginlegs opins fundar með fulltrúum framboðanna í Reykjavík, til að ræða um þau brýnu kjaramál sem brenna á starfsfólki Reykjavíkurborgar og öðru launafólki í borginni. Áherslumál fundarins eru launa- og húsnæðismál. Hvað getur Reykjavíkurborg gert til að bæta launakjör, auka jöfnuð og vinna gegn stéttskiptingu? Hvað getur Reykjavíkurborg gert til að bregðast við því óboðlega ástandi sem nú ríkir á leigumarkaði? Fundurinn er opinn öllum en félögin hvetja félagsmenn sína sérstaklega til að mæta. Fundurinn verður haldinn á Grand hótel í salnum Hvammi, fimmtudaginn 24. maí kl. 17-19. Fundarstjórar verða Sigmar Guðmundsson og Sigríður Dögg Auðunsdóttir. Fundinum verður streymt á
Facebook síðu viðburðarins. Fundurinn verður textatúlkaður á ensku. Gos, kaffi og létt snarl í boði.    

Bjarg íbúðafélag hefur opnað fyrir skráningu

Bjarg íbúðafélag hefur opnað fyrir skráningu á biðlista. Reiknað er með afhendingu fyrstu íbúða í júní 2019. Skráðu þig á
www.bjargibudafelag.is  Skráningar sem berast fyrir 31. júlí 2018 fara í pott og verður þeim sem þá hafa skráð sig raðað í númeraröð með úrdrætti. Íbúðir Bjargs eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir skilgreindum tekju- og eignamörkum og eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB. Nánari upplýsingar um Bjarg íbúðafélag og hverjir eiga rétt á úthlutun má finna á heimasíðu félagsins www.bjargibudafelag.is Um Bjarg íbúðafélag Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarfélag, stofnað af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og því er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgang að íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd; „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.

Leikskólinn Hof styttir vinnuvikuna

Leikskólinn Hof hefur frá haustinu 2016 tekið þátt í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar en verkefnið fór af stað hjá borginni 2015 og hefur gefist vel og haft jákvæð áhrif á starfsfólk á þeim vinnustöðum sem hafa tekið þátt. Blaðamaður Eflingar hitti fyrir starfsmenn á leikskólanum ásamt aðstoðarleikskólastjóra og fékk að heyra meira um verkefnið og hvaða áhrif það hefði haft á vinnuna og starfsfólkið. Jákvæð áhrif á starfsandann Allir eru ánægðari -segja Sigurbjörg Auður Jónsdóttir og Helena Einarsdóttir Við erum ánægðar með þetta vinnufyrirkomulag, segja þær Sigurbjörg og Helena sem báðar vinna á leikskólanum Hofi. Sigurbjörg hefur unnið á leikskólanum í 13 ár og er jafnframt trúnaðarmaður á vinnustaðnum en Helena byrjaði á leikskólanum í lok ágúst 2017. Foreldrar fá að kynnast fleiri starfsmönnum Ég fer heim fyrr á miðvikudögum og einu sinni í mánuði get ég farið fyrr heim á föstudegi í stað miðvikudags sem mér finnst frábært, segir Sigurbjörg. Hún var áður í 80% vinnu og vann til klukkan tvö en er nú komin í 100% vinnu. Það kemur vel út fyrir mig. Helena fer heim fyrr á fimmtudögum en er með fastan föstudag í mánuði þar sem hún fer fyrr heim. Ég get þá farið fyrr í helgarfrí sem er æðislegt, segir hún. Mér finnst þessi breyting hafa haft jákvæð áhrif á starfsandann, segir Sigurbjörg og Helena tekur undir. Sérstaklega hjá þeim sem þurftu alltaf að loka á hverjum degi en nú skiptist starfsfólk á. Maður fékk innsýn í verkefni annarra og gat sett í sig í spor þeirra. Það er einnig jákvætt að nú fá foreldrar tækifæri að kynnast öllu starfsfólki deildarinnar þegar það sækir börnin sín en hittir ekki alltaf sama starfsfólkið eins og var. Það er bara þannig að á morgnana hafa foreldrar venjulega ekki tíma til að spjalla þar sem þeir eru að drífa sig til vinnu en fá nú tækifæri að tala við fleiri starfsmenn en áður. Foreldrum finnst þetta mikill munur og starfsmenn kynnast betur foreldrum. Léttir heimilislífið Helena byrjaði eftir að vinnuvikan var stytt og segir að það hafi heillað hana að fá að hætta fyrr en halda fullum launum. Það hafði áhrif á að ég vildi sækja um starf hér. Ég nýti þennan tíma vel. Ég sé ekkert annað en jákvætt í þessu, það léttir á heimilislífi, Ég get sótt barnið mitt fyrr eða nýtt tímann í alls kyns útréttingar. Sigurbjörg er á sama máli en hún á ömmubarn á leikskólanum sem hún segir að sé alveg með á hreinu hvenær hún sé búin klukkan eitt. Hún fer eiginlega alltaf með mér þá daga sem ég er búin fyrr nema þegar ég þarf að snattast. Að geta labbað út klukkan eitt einu sinni í viku er æðislegt. Þegar þessar breytingar voru gerðar voru nokkrir sem vildu ekki breyta vinnutímanum hjá sér og það voru tvær sem fóru en meirihlutinn vildi breyta, segir Sigurbjörg. Hún segist hafa skilning á því að það geti verið erfitt fyrir fólk sem hafi haft sama vinnutímann í mörg ár og hætt klukkan tvö alla daga til dæmis að hverfa frá því. Það örlaði fyrir örlítilli hræðslu hjá mér í byrjun en ég ákvað að vera jákvæð gagnvart þessu og gefa þessu séns. Það reyndist ekki vera neitt mál og allir eru ánægðari. Það er minna um skrepp hjá starfsfólkinu og minna um veikindi eftir að þetta verkefni hófst. Helena segir að álagið á starfsfólk hafi minnkað við styttinguna og á meðan lokað sé hjá öðrum leikskólum vegna manneklu hafi gengið vel að manna stöður hjá Hofi og það sé eftirsóttur vinnustaður. Stytting vinnuvikunnar hefur gengið vel og við vonum að hún sé komin til að vera, segja þær Sigurbjörg og Helena að lokum. Jákvæð breyting  -segir Stella Marteinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Hofi Stytting vinnuvikunnar hefur haft jákvæð áhrif á starfsandann hér og starfsfólkið er jákvætt fyrir þessari breytingu á vinnutíma, segir Stella Marteinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Hofi. Hún segir að leikskólinn hafi ákveðið taka þátt í verkefninu eftir símhringingu frá sviðinu. Við fengum símhringingu frá Helga Grímssyni, sviðstjóra skólaog frístundasviðs, sem bauð leikskólanum að taka þátt. Það voru allir jákvæðir hér og við slógum til. Í fyrstu var vinnuvikan stytt í 36 stundir á viku og starfsmenn fóru þá heim klukkan 12.00 einu sinni í viku en þegar verkefnið var framlengt 11. febrúar sl. varð vinnuvikan 37 stundir og starfsmenn fara heim klukkan 13.00 einu sinni í viku. Stella segir að það henti betur þar sem þá fari starfsmenn heim þegar hvíldin er búin. Það skiptir máli að hafa gott skipulag þar sem starfsmenn eru nú á fjögurra vikna vaktaplani en við þurftum að breyta vinnutímanum hjá öllum og því að segja upp fyrra vinnufyrirkomulagi. Það fylgir ekkert fjármagn þessum breytingum og því enn mikilvægara að skipulagið sé í lagi en ég vonast til að þessi stytting sé komin til að vera. Hún hefur gefist vel og auðveldara er að ráða starfsfólk inn á leikskólann. Ég veit að margir leikskólar hafa efasemdir um styttingu vinnuvikunnar en ég tel að það sé hluti af því að margir eru hræddir við breytingar. Í okkar tilviki var það algjör óþarfi því styttingin hefur reynst okkur vel.

Þráinn Hallgrímsson lætur af störfum hjá Eflingu-stéttarfélagi

Þráinn Hallgrímsson, skrifstofustjóri, hefur látið af störfum hjá Eflingu-stéttarfélagi. Þráinn hefur starfað hjá Eflingu frá stofnun félagsins. Hann réð sig upphaflega hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún vorið 1996 en Halldór Björnsson, þáverandi formaður bauð honum starf skrifstofustjóra hjá Dagsbrún og hann varð síðan skrifstofustjóri í gegnum allar sameiningar félaganna sem urðu að Eflingu-stéttarfélagi. Þráinn hefur starfað að verkalýðsmálum síðan 1983 þegar honum var boðið starf hjá MFA, fræðslustofnun ASÍ á þeim tíma. Þráinn hefur gengt allmörgum  trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni en mest hefur hann sinnt störfum fyrir ASÍ og stofnanir sambandsins hálfan fjórða áratug. Hann réð sig fyrst sem fræðslufulltrúi MFA árið 1983 og starfaði að fræðslumálum til 1988 þegar hann tók við skrifstofustjórastarfi á Alþýðusambandinu þar sem hann vann til ársins 1992 þegar hann tók við starfi skólastjóra Tómstundaskólans sem varð Mímir Tómstundaskólinn á starfstíma hans. Hann vann við fræðslustörf þar til hann tók við skrifstofustjórastöðu hjá Dagsbrún árið 1996. Hjá Eflingu-stéttarfélagi hefur Þráinn komið að fjölmörgum verkefnum og stjórnun skrifstofu Eflingar. Hann hefur tekið þátt í kjarasamningsgerð allan þann tíma sem hann hefur starfað hjá félaginu og unnið með samninganefnd Eflingar og Flóafélaganna allan þennan tíma. Þá hefur hann verið ritstjóri Fréttablaðs Eflingar, komið að stjórnun allra helstu útgáfuverkefna félagsins og að vinnu við heimasíðu og aðra fjölmiðlun. Hann hefur unnið með stjórn og trúnaðarráði félagsins og haldið utan um starf að fundum félagsins allan starfstíma sinn. Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað síðan hann var ráðinn til Dagsbrúnar en þá voru átta starfsmenn á Dagsbrún í um 5000 manna félagi. Í dag eru starfandi um 40 starfsmenn á Eflingu og um 30000 manns eru í félaginu.

Vilja að konur klæðist kjólum - Efling mótmælir harðlega

Efling-stéttarfélag berst gegn hvers kyns misrétti á vinnumarkaði og tekur allar ábendingar og kvartanir um mismunun alvarlega, segir Leifur Gunnarsson lögfræðingur á kjaramálasviði Eflingar. Þann 8. maí bárust félaginu kvartanir frá félagsmönnum þess hjá Hard Rock Cafe í Reykjavík. Tilefni þessara kvartana voru breytingar á reglum fyrirtækisins um klæðaburð kvenna á vinnustaðnum. Hingað til hafa konur á vinnustaðnum klæðst skyrtum og buxum, líkt og karlar, en nú krefst fyrirtækið þess að þær klæðist kjólum í stað skyrtna og buxna. Leifur segir að þetta hafi mætt andstöðu starfsmanna fyrirtækisins. Þær konur sem kvörtuðu til félagsins vildu áfram klæðast skyrtum og buxum á vinnutíma og jafnframt kom fram að kjólarnir sem þær áttu að klæðast væru bæði óþægilegir og ósmekklegir. Efling mótmælir harðlega Í bréfi sem Leifur Gunnarsson sendi fyrirtækinu bréfleiðis og í tölvupósti fyrr í dag er þess krafist að fyrirtækið láti tafarlaust af umræddum áformum. Leifur segir að í bréfinu sé áréttað að gæta skuli jafnræðis milli kynja á vinnumarkaði og að fyrirætlanirnar samræmist ekki jafnréttissjónarmiðum. Starfsmenn skuli njóta virðingar í starfi sínu og eðlilegt er að taka tillit til óska þeirra og athugasemda varðandi einkennisklæðnað á vinnustað. Það á ávallt að vera undir starfsfólkinu sjálfu komið hvort það ákveði að klæðast skyrtu og buxum, eins og allir starfsmenn hafa gert hingað til eða kjólum.

Yfirlýsing vegna auglýsinga ASÍ

Það hefur varla farið fram hjá mörgum að kjarasamningavetur stendur fyrir dyrum. Verka- og láglaunafólk bindur nú vonir við að loksins sé komið að þeim. Að þau fái loksins að njóta hlutdeildar í því mikla góðæri sem ríkir um þessar mundir en hingað til hefur það þurft að sætta sig við mylsnu á meðan aðrir skammta sjálfum sér óhóflega af veisluborðinu, aftur og aftur. Á Stór-Reykjavíkursvæðinu ríkir hússnæðiskreppa sem hefur gert það að verkum að óvenju grimmileg útgáfa af lögmálinu um framboð og eftirspurn ræður lífi fjölda fólks sem nauðbeygt þarf að leigja húsnæði af fjármagnseigendum og leigufélögum. Á hverjum degi berast sögur af algjörlega fráleitum upphæðum sem fólki er gert að greiða fyrir þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa aðgang að húsnæði. Samkvæmt nýjum tölum frá Íbúðalánasjóði hefur húsaleiga hækkað um 82% frá árinu 2011 og þau sem tilheyra lágtekjuhópum greiða nú um helming ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu. Aðflutt verkafólk þarf að sætta sig við að búa í ósamþykktu íbúðarhúsnæði, kytrum og gámum, jafnvel fjölskyldufólk, en greiða þó stórar upphæðir fyrir. Við búum í samfélagi gríðarlegrar stéttaskiptingar. Láglaunafólki er gert að sætta sig við ráðstöfunartekjur sem ekki duga til að láta hlutina ganga upp frá einum mánaðarmótum til næstu og þarf því m.a. að leita á náðir smálánafyrirtækja til að eiga fyrir nauðsynjum. Á sama tíma fá þau sem tilheyra hátekjuhópum úthlutað trylltum launahækkunum, jafnvel afturvirkum um mörg ár. Stórir hópar sem tilheyra hefðbundnum kvennastéttum þjást vegna svívirðilegrar láglaunastefnu sveitarfélaganna sem gerir það að verkum að til þess eins að komast af þurfa þessar konur að vinna hrikalega langa daga, oft í fleiri en einni vinnu. Það er staðreynd í íslensku samfélagi að sífellt stækkandi hópur fólks gengur fram af sér með vinnu, vegna þess að það einfaldlega hefur ekki val um annað. Stór hópur kvenna er sendur í endurhæfingu á ári hverju vegna álags og vinnuþrældóms. Einnig benda nýjar rannsóknir til þess að stéttaskipting fari vaxandi innan skólakerfisins, þar sem börn úr verkamannafjölskyldum geta ekki notið áhyggjulausrar æsku, sem er auðvitað réttur allra barna. Þau upplifa mikinn aðstöðumun þegar kemur að möguleikum í námi sem og aðgengi að efnislegum gæðum. Samkvæmt rannsóknum Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar sem fjallað er um í bókinni Ójöfnuður á Íslandi kemur í ljós að efnahagsleg misskipting hefur aukist síðan á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar, þegar nýfrjálshyggjan hóf innreið sína í íslenskt þjóðfélag. Þessi samfélagslega óheillaþróun, sem stuttlega dró úr í kjölfar efnahagshrunsins, er aftur komin á kreik, enda hefur ekki ríkt pólitískur vilji til að stöðva hana. Þvert á móti. Í íslensku samfélagi er staðreyndin því þessi og þetta vita þau sem strita til að hafa í sig og á: Hin ríku verða ríkari á meðan þau sem tilheyra lægri stéttum skulu vinna alla ævi án þess þó að geta nokkru sinni um frjálst höfuð strokið þegar kemur að efnahagslegri afkomu. Nú hefur verka- og láglaunafólk fengið nóg. Það hefur tekið að láta í sér heyra. Það hefur kosið til forystu í sínum verkalýðsfélögum fólk sem hefur heitið því að láta kjör þess sig öllu varða í komandi kjarasamningum. Það hafa vaknað vonir um að loks sé komið tækifæri til að leiðrétta, með sjónarmið réttlætis og jöfnuðar að leiðarljósi, óásættanleg laun, óréttlátt skattkerfi og skelfilega vaxta- og skuldpíningu fjármálakerfisins, svo dæmi séu tekin af þeim málum sem helst brenna á íslenskri alþýðu. En þá bregður svo stórkostlega undarlega við að í stað þess að gleðjast og fylkja sér að baki kröfum um að reynt verði að vinna að efnahagslegu réttlæti á hinu stéttskipta Íslandi ákveður forysta ASÍ að taka afstöðu gegn öðrum talsmönnum verka- og láglaunafólks og senda frá sér áróðursefni sem augljóslega er beint gegn þeim háværu kröfum um jöfnuð sem hér hafa hljómað, áróðursefni sem dregur upp þá mynd að best sé fyrir allt þjóðfélagið að raddir þeirra sem tilheyra lægri stéttunum þagni alveg, áróðursefni sem málar þá mynd af samtímanum að krónur skipti ekki lengur neinu máli, aðeins svokallaður kaupmáttur, en skautar alveg fram hjá spurningunni sem augljóslega hlýtur að vakna hjá hinum vinnandi stéttum við áhorfið: Ef krónur skipta engu máli, hvernig stendur þá á því að hin auðugu virðast aldrei nokkurn tímann fá nóg og þurfa ótrúlegar hrúgur af þeim, svo stórar að þeim endist ekki ævin til að eyða þeim? Ef skynsemin hefur ráðið för í íslensku samfélagi, eins og haldið er fram í auglýsingu ASÍ, allt frá árinu 1990 (einhverskonar ári Núll samkvæmt áróðri auglýsingaarms Alþýðusambands Íslands, þegar launafólk hætti að koma öllu í efnahagslegt uppnám með reglulegu millibili með óábyrgri hegðun sinni og leyfði yfirburðagáfuðum útreiknurum loksins að ráða för) hvernig stendur þá á því að haustið 2008, fyrir rétt tæpum áratug síðan, hrundi hér efnahagskerfið, með skelfilegum afleiðingum fyrir launafólk og þau skuldugu, afleiðingum sem ekki enn hefur verið tekist á við með réttlátum hætti? Í kjölfar þess að hafa horft á þá skammarlega einfölduðu og yfirborðskenndu sýn á íslenskan veruleika sem boðið er uppá í auglýsingu ASÍ vaknar einnig þessi spurning: Hvernig er hægt að réttlæta það að forysta ASÍ noti fjármagn frá verkalýðsfélagi verka- og láglaunafólks, Eflingu, til þess að framleiða áróðursefni sem hefur þann augljósa tilgang að reyna að grafa undan og takmarka möguleikana á því að næsta vetur, þegar kemur að kjarasamningum, verði loksins hlustað á kröfur vinnuaflsins, að loksins verði tillit tekið til langana og þarfa okkar sem vinnum vinnuna á Íslandi, að kröfur okkar fái loksins að vega þyngra en kröfurnar um stöðugleika í lífi hinna ríku? Er svo komið að forysta ASÍ tekur án þess að skammast sín undir þær ómanneskjulegu kröfur sem auðstéttin gerir til lágtekjuhópanna, að hlutskipti þeirra sé eingöngu að vera þögult og stillt vinnuafl á útsöluverði, í samfélagi misskiptingar og sífellt vaxandi stéttskiptingar þar sem jafnvel hugmyndin um að eignast húsnæði er orðin að fjárlægri draumsýn? Þegar málflutningur ASÍ er farinn að ríma svo rækilega við málflutning forkólfa fjármagnseigenda og auðkýfinga að varla má greina í sundur hvor talar hverju sinni hlýtur verkafólk að hugleiða vel og lengi þá fráleitu staðreynd og spyrja í kjölfarið: Er það ætlun þeirra sem stjórna tilveru okkar að ASÍ og SA renni saman í eitt risavaxið samfélagslegt stjórnunar-fyrirbæri? Er ekki tímabært, þó ekki væri nema vegna hinna óboðlegu aðstæðna sem láglauna- og verkafólki er gert að lifa við í hinu stéttskipta íslenska samfélagi, að þau innan verkalýðshreyfingarinnar sem upplifa að sitt helsta hlutverk sé að grafa markvisst undan eðlilegum kröfum um góð lífskjör öllum til handa og samfélagi réttlætis og jöfnuðar, eitthvað sem eitt sinn var upphaf og endir baráttu verkafólks, líti í eigin barm og hugleiði hverra hagsmuna þau eru að gæta? Er ekki tímabært að forysta ASÍ sjái sóma sinn í því að halda sér til hlés þegar svo er komið að enginn samhljómur er lengur á milli hennar og verkafólks? Eða er virkilega ætlast til þess að verkafólk sætti sig við að búa í samfélagi þar sem ekki er augljóst hvor talar; forseti Alþýðusambands Íslands eða talsmaður Samtaka atvinnulífsins? Sólveig Anna Jónsdóttir Formaður Eflingar-stéttarfélags

Viðar Þorsteinsson er nýr framkvæmdastjóri Eflingar-stéttarfélags

Viðar Þorsteinsson hefur verið ráðinn í nýtt starf framkvæmdastjóra Eflingar-stéttarfélags. Viðar mun starfa náið með formanni, forystufólki og stjórn félagsins, einkum að mótun og framkvæmd stefnu gagnvart samnings- og samstarfsaðilum. Viðar hefur mikla reynslu af félagsstörfum og verkefnastjórnun innan félagasamtaka, en hann var m.a. einn af stofnendum Róttæka sumarháskólans. Viðar hefur víðtæka þekkingu á samfélagsmálum í gegnum rannsóknir og kennslu á háskólastigi, en hann er með doktorspróf frá Ohio State University og hefur m.a. starfað sem kannari við Háskólann á Bifröst, Endurmenntun Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Eftir Viðar liggur fjöldi greina og útgefinna rita um samfélagsmál auk þess sem hann hefur verið álitsgjafi og viðmælandi í fjölmiðlum um margra ára skeið. Viðar hefur sérstakan áhuga á skörun verkalýðsbaráttu við önnur jafnréttismál svo sem kvennabaráttu og innflytjendamál.

Starfsfólk verði ekki látið bíða stundinni lengur

Efling-stéttarfélag lýsir áhyggjum af þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd launaþróunartryggingar af hálfu aðildarfélaga Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Samið var um afturvirkar launahækkanir með samkomulagi dags. 21. september 2017 milli Alþýðusambands Íslands og ríkis og Reykjavíkurborgar, þar með talið stofnana sem starfa á grundvelli þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands. Því miður hafa hjúkrunarheimili og önnur fyrirtæki innan SFV dregið framkvæmd þessara launahækkana. Tafirnar ganga í berhögg við fyrrnefnt samkomulag og eru auk þess íþyngjandi og ósanngjarnar gagnvart félagsmönnum sem reiða sig á hraða og örugga greiðslu. Efling telur ljóst að þau fyrirtæki í velferðarþjónustu sem um ræðir geti ekki komið sér undan skjótri framkvæmd þeirra breytinga sem kveðið er á um, en ríkið og þar með taldir starfsmenn Landspítalans fengu þessar greiðslur fyrir tveimur mánuðum síðan. Efling kallar eftir því að vangoldnar afturvirkar hækkanir og önnur laun sem félagsmenn eiga skýlausan rétt á verði greidd þegar í stað og starfsfólk þeirra fyrirtækja sem um ræðir ekki látið bíða stundinni lengur. Fyrir hönd Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður

Vinnan - nýtt vefrit ASÍ

Vinnan er tímarit sem Alþýðusambandið gefur út en fyrsta tölublaðið kom út fyrir 75 árum. Í blaðinu sem kom út árið 1943, skrifuðu m.a. Halldór Laxness og Steinn Steinarr. Þessir jöfrar íslenskra bókmennta gáfu tóninn en síðan hafa margir mætir menn komið að útgáfunni sem hefur verið nær sleitulaus allan þennan tíma. Nú er hins vegar komið að tímamótum í sögu Vinnunnar sem breytist á þessu ári í vefrit. Með því er ASÍ að bregðast við nýjum tímum. Í þessari nýju Vinnu eru t.d. tvö sjónvarpsinnslög.
Hægt er að lesa tímaritið með því að smella hér. 

1. maí 2018 - ávarp formanns

Ávarp 1. maí, 2018. – Myndband af ávarpi Sólveigar er að finna hér fyrir neðan. Kæru félagar, ég sendi ykkur miklar og heitar upprisukveðjur á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Við verkafólk eigum þennan eina dag til þess að minnast sigra þeirra sem vörðuðu leiðina með stórkostlegu og innblásnu hugrekki sínu, arðrænd en upprisin, svo upprisin að þau tóku sér dag, þau fengu hann sannarlega ekki að gjöf, hvorki frá ríkisvaldinu né auðvaldinu, ekki frekar en neitt annað, þau tóku hann sjálf, til þess að leggja niður störf, til þess að sýna, með því að neita að vinna, algjört grundvallar mikilvægi sitt í þjóðfélaginu, með því að ganga burt frá vinnunni og ganga inní samstöðuna, með því að nota vinnuhendurnar sínar til bera fána og skilti með slagorðum og kröfum sem voru djarfar og stórhuga að við hljótum að komast við af aðdáun, með því að nota hjörtun sín til að sjá að samstaðan var allt og með því að hafna algjörlega og afdráttarlaust kröfu auðstéttarinnar um að aðeins hún mætti njóta afraksturs vinnunnar, án þess þó að hafa unnið handtak. Þess vegna er gengið í dag, með félögum hér og nú, félögum okkar um alla veröld og félögum okkar inní mannkynssögunni, til þess að minna hvort annað á að við fáum aldrei neitt að gjöf, að allir sigrar forvera okkar unnust vegna þess að þau ákváðu að taka sér það sem þeim hafði verið neitað um. Saga verkalýðsbaráttu, bæði hér og útí hinum stóra heimi, er saga baráttu sem er háð vegna knýjandi nauðsynjar, líkt og Ármann Jóhannsson, einn af stofnfélögum Dagsbrúnar í upphafi síðustu aldra orðaði það, knýjandi nauðsynjar vegna þess að verkafólki var ekki ætlað annað hlutskipti en að vinna myrkranna á milli, allt árið um kring, frá barnsaldri og fram í ellina, var ekki ætlað að hafa neitt að segja um eigið líf, var í raun ekki ætlað að fá að vera manneskjur í skelfilega grimmu samfélagi glæpsamlegrar stéttskiptingar. Kæru félagar. Í haust verða tíu ár liðin frá hruni efnahagskerfisin, sem varð vegna þess að kapítalistar höfðu með einbeittri og markvissri sérhagsmunabaráttu sinni náð tökum á efnahagslegum og pólitískum völdum, og skapað með algjöru skeytingarleysi fyrir velferð almennings, ástand sem var bókstaflega þess eðlis að ekkert annað en hrun gat átt sér stað. Fyrirvaralaust var fótunum kippt undan gríðarlegum fjölda fólks, sem missti vinnu og heimili, þrátt fyrir að hafa ekkert til saka unnið og við tók tími hrikalegra erfiðleika og uppnáms fyrir íslenskt alþýðu fólk. Ég nefni hér hrunið vegna þess að við skulum ekki gleyma orðræðuna í aðdraganda krísunnar, þegar hin efnahagslega yfirstétt var annars vegar gríðarlega upptekin við siðlaust verkefnið, þar sem hver spekingurinn á fætur öðrum var fenginn til að lýsa því yfir að hér væri ástandið eins og best væri hægt að hugsa sér og, þökk sé fjármagnseigendum, í raun ekki hægt að sjá fyrir sér merkilegra og stórfenglegra samfélag, og hins vegar svo sjúklega óforskömmuð að láta útsendara sína bjóða almenningi uppá þvaðrið um að stærsta ógnin í íslensku efnahagslífi væru kröfur almennings um launahækkanir. Nú, í hinu nýja góðæri, heyrist auðvitað þessi sami ámátlegi söngur á ný, að hófsemi launafólks sé lykillinn að margumræddum stöðugleika, á meðan, svo aðeins eitt vitfirrt dæmi sé nefnt, það tekur forstjóra Eimskipa einungis fimm klukkustundir að vinna sér inn mánaðarlaun þeirrar manneskju sem erfiðar á lágmarkslaunum og aðeins níu daga að vinna sér inn árslaun verkamanns eða konu á lágmarkslaunum. Meðal annars vegna þessara staðreynda úr íslensku samfélagi hvet ég ykkur til að gleyma því aldrei að efnahagsleg valdastétt svífst á endanum einskis til þess að tryggja að hún fái áfram óáreitt, þrátt fyrir nýliðna söguna, þrátt fyrir að bera ábyrgð á stórkostlegri kreppu sem ennþá er óuppgerð, að sölsa undir sig sífellt meiri eignir og fé, meðal annars með því að halda láglauna og verkafólki pikkföstu á réttum stað í stigveldinu. Kæru félagar. Við búum inní samfélagi nýfrjálshyggjunnar, þar sem óréttlæti og ójöfnuður þykja ekkert tiltökumál, þar sem þeim sem tilheyra efri lögum samfélagsins þykir sjálfsagt að einhver skuli ávallt lifa í fátækt, þar sem það þykir sjálfsagt að fólk þurfi að vera í tveimur vinnum til þess eins að komast af, þar sem það þykir sjálfsagt að húsnæðismarkaðurinn sé settur í hendur fjármagnseigenda, það sem það þykir sjálfsagt að spákaupmennska ráði för þegar kemur að því að ákveða hvað teljist eðlileg leiga, þar sem það þykir sjálfsagt að fólk af erlendum uppruna, sem hingað kemur til að vinna, sé látið búa í ósamþykktum iðnaðarhúsnæðum og verði fyrir allskyns ömurlegri og glæpsamlegri framkomu af hálfu atvinnurekanda, þar sem það þykir sjálfsagt að börn alþýðufólks þurfi að skuldsetja sig hrikalega til þess að mega mennta sig, þar sem það þykir sjálfsagt að konur sem starfa við að annast börn samfélagsins fái svo lítið útborgað að þær þurfi að þræla sér út í annarri vinnu, til þess að mega komast af, þar sem það þykir sjálfsagt að sum eigi allt og önnur ekkert, en það þykir til marks um offors og niðurrifsstarfsemi að krefjast þess að fólk fái greidd mannsæmandi laun fyrir unna vinnu. Kæru félagar, samfélag óréttlætis, stéttskiptingar og misskiptingar er auðvitað ekkert náttúrulögmál heldur einungis mannanna verk. Það að vinnuafl verkafólks sé verðlagt svo lágt sem raun ber vitni er ekkert náttúrulögmál heldur afleiðing pólitískra og efnahagslegra ákvarðana. Og það að innan úr sjálfri verkalýðshreyfingunni berist raddirnar um að mest og best hafi verið gert fyrir láglaunafólk, þegar ójöfnuður eykst, þegar láglaunafólki er gert að sætta sig við að eiga aldrei neitt annað í vændum en að rétt komast af, er satt best að segja óþolandi og til marks um stórkostlega undarlega sýn á samfélagið. Kæru félagar, tími verkafólks er kominn! Við munum ekki lengur sætta okkur við það að markaðslögmál stjórni tilveru okkar, við munum ekki lengur sætta okkur við það að vera svipt grundvallarmannréttindunum sem öruggt húsnæði er, við munum ekki lengur sætta okkur við það að vinna alla æfi og uppskera þó aldrei eins og við sáum, við munum ekki lengur sætta okkur við það að hér fari firrt yfirstétt með öll völd á meðan okkur er gert að bera ábyrgð á stöðugleika efnahagskerfisins, til þess eins að hin ríku geti orðið ríkari, á kostnað alls fjöldans, við munum einfaldlega ekki lengur sætta okkur við það að við höfum ekkert um gerð og þróun samfélagsins að segja, að okkur sé aðeins ætlað að vera ábyrgasta vinnuafl mannkynssögunnar. Við munum sameinuð, með félögum okkar í öðrum verkalýðs og stéttarfélögum, líkt og verkalýðsfélagi Akraness, VR og verkalýðsfélaginu Framsýn og svo öllum þeim innan hreyfingarinnar sem vilja standa með okkur verka og láglaunafólki í baráttunni, krefjast launahækkana, krefjast þess að skattkerfið verði sniðið að okkar þörfum, ekki þörfum þeirra sem þegar lifa eins og blóm í eggi, krefjast uppstokkunar í húsnæðismálum, svo að öllum verði tryggt gott og öruggt húsnæði á eðlilegum kjörum, krefjast þess að böndum verði komið á fjárplógsstarfsemi þá sem nú líðst á gróðavæddum húsnæðismarkaði, krefjast þess að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu samfélagslegra verkefna, í þágu fólks, ekki fjármagns og jafnframt krefjast þess að þeir starfi á lýðræðislegan máta og hætti að beita sér gegn vinnandi fólk, með gagnrýnislausri þátttöku í gróða bralli spákaupmennskunnar, krefjast þess, í krafti óumdeilanlegs mikilvægi okkar í íslensku þjóðfélagi, að við fáum loks að lifa eins og við sjálf kjósum að lifa, að samfélagið þróist með langanir og hagsmuni okkar í fyrirrúmi og að við fáum, í krafti samstöðu og baráttuvilja, að lifa í samfélagi sem byggir á okkar gildum og þar sem draumurinn um réttlæti og jöfnuð er ekki lengur aðeins draumur heldur samfélagslegur veruleiki. Kæra fólk, ég óska þess af öllu hjarta að við megum standa sameinuð í baráttunni og ég hlakka til að standa við hlið ykkar í dag á þessum stórkostlega degi og ég hlakka til að standa við hlið ykkar þegar við leggjum fram kröfur okkar um langþráð réttlæti í íslensku samfélagi. Takk fyrir.
Hægt er að sjá myndbandið með enskum texta hér. Hægt er að sjá myndbandið með pólskum texta hér. 

Sólveig tekur við formennsku í Eflingu

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar-stéttarfélags Sólveig Anna Jónsdóttir tók við formennsku í Eflingu-stéttarfélagi á aðalfundi  í gær þann 26. apríl. Hún tók við af Sigurði Bessasyni sem lætur af formennsku eftir átján ár í starfi en aldrei áður hefur verið kosið um nýjan formann eftir að stéttarfélögin sameinuðust í Eflingu á sínum tíma. Sólveig og listi hennar hlaut yfirburðasigur í stjórnarkosningunum í mars sl. og með henni tóku sæti í stjórn: Magda­lena Kwi­at­kowska hjá Café Par­is, Aðal­geir Björns­son, tækja­stjóri hjá Eim­skip, Anna Marta Mar­jan­kowska hjá Nátt­úru þrif­um, Daní­el Örn Arn­ars­son hjá Kerfi fyr­ir­tækjaþjón­ustu, Guðmund­ur Jónatan Bald­urs­son, bíl­stjóri hjá Snæ­land Gríms­son, Jamie McQuilk­in hjá Resource In­ternati­onal ehf. og Kol­brún Val­ves­dótt­ir, starfsmaður bú­setuþjón­ustu Reykja­vík­ur­borg­ar. Barátta fyrir efnahagslegu frelsi og betra samfélagi Á fundinum þakkaði Sólveig fráfarandi formanni fyrir störf sín og hversu vel hann hefði tekið á móti henni á þeim fundum sem þau hafi átt saman í aðdraganda þessara stundar. Hún sagði í ræðu sinni að það megi sjá í gegnum söguna að verkefni verkalýðsbaráttunnar snúist á endanum alltaf um sömu grundvallaratriðin, mannsæmandi laun og eðlilegan vinnutíma, gott og mannsæmandi húsnæði, jafnan rétt til náms og réttlátt og gott samfélag velferðar. Hún sagði nauðsynlegt að hækka lægstu launin og að breytingar á húsnæðiskerfinu væru algjört forgangsatriði fyrir félagsmenn Eflingar. Eins væri mikilvægt að verkafólk stæði saman, verkafólk fætt hér á Íslandi og aðflutt verkafólk, sem nú er helmingur félagsmanna Eflingar, í baráttunni fyrir mannsæmandi kjörum. Sólveigu varð tíðrætt um þjóðfélag nýfrjálshyggjunnar. Firring, blinda og græðgi þeirra sem aðhyllast þessa stórkostlega skaðvænlegu hugmyndafræði er ein stærsta ógn samtímans. En í baráttunni við þau sem meta okkur einskis eigum við sannarlega vopn og það er verkalýðsbaráttan, sagði Sólveig. Hlutverk okkar sem tilheyrum þessu risastóra verkalýðsfélagi og erum í framvarðasveit baráttunnar hlýtur að vera að verja hagsmuni þeirra okkar sem höllustum fæti standa hverju sinni, að blása baráttuanda og eldmóð í brjóst félaga okkar svo að við getum mætt viðsemjendum okkar með vissuna um samstöðu í átökunum. Jafnframt er það hlutverk okkar að krefjast þess að við höfum aðkomu að því að skipuleggja hvernig samfélag mótast hér. Sólveig sagði að það þurfi sannarlega að breyta um áherslur hjá lífeyrissjóðunum og tryggja að sjóðirnir beiti sér í þágu hinna raunverulegu eigenda, sem eru auðvitað við sjálf. Þá nefndi hún hækkun skatta á efri lög samfélagsins, bölið sem verðtryggingin er í lífi verkafólks og svo gríðarlega mikilvægt hagsmunamál þeirra sem vinna langa og erfiða vinnudaga en það er stytting vinnuvikunnar. Að lokum sagði Sólveig að barátta verkafólks væri barátta fyrir efnahagslegu frelsi en ekki síður baráttan fyrir því að samfélagið verði mótað að þörfum og löngunum okkar. Verkalýðsbaráttan er sú mikilvægasta í samfélaginu og saman muni stétt verkafólks heyja grundvallarbaráttuna í samfélaginu; baráttuna fyrir réttlæti, jöfnuði og því að við öll megum njóta uppskeru vinnu okkar í sátt og samlyndi hvert með öðru. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundi Eflingar: Ályktunin I Aðalfundur Eflingar haldinn 26. apríl 2018 fagnar tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar. Skorar fundurinn á aðra atvinnurekendur að feta í sömu spor og leggur áherslu á að í næstu kjarasamningum verði samið um almenna styttingu vinnuvikunnar án tekjuskerðingar. Ályktun II Aðalfundur Eflingar haldinn 26. apríl 2018 mótmælir harðlega að greiðslur úr lífeyrissjóðum skerði lífeyri frá almannatryggingum. Það er skoðun aðalfundar Eflingar að við stofnun lífeyrissjóða hafi verið gert ráð fyrir að lífeyrir úr þeim yrði til viðbótar lífeyri frá almannatryggingum og því eigi ekki að skerða þann lífeyri. Afnema eigi allt tekjutengingarkerfi almannatryggingakerfisins og auka sveigjanleika í starfslokum þannig að þeir sem kjósa að vinna skemur geti geti gert það án þess að eftirlaun þeira skerðist. Ályktun III Aðalfundur Eflingar haldinn 26. apríl 2018 telur það vera forgangsmál að samið verði um krónutöluhækkanir en ekki prósentuhækkanir. Aðalfundurinn beinir því til samninganefndar félagsins að ekki komi til greina undir neinum kringumstæðum að semja um prósentuhækkanir. Og hækkun á persónuafslætti sem kemur lægst launaða fólkinu best.  
Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar-stéttarfélags Sigurður Bessason lét af formannsembætti á aðalfundi Eflingar-stéttarfélags Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar-stéttarfélags ásamt Sigurrós Kristinsdóttur, varaformanni félagsins Sólveig Anna og Sigurður ræðast hér við Sigurður óskar Sólveigu velfarnaðar í nýju starfi Sigurður Bessason og Sólveig Anna Jónsdóttir Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags

1. maí 2018 - Sterkari saman í baráttunni

1. maí í Reykjavík Sterkari saman í baráttunni – ekki láta þig vanta Sýnum samstöðu okkar í verki og mætum á baráttufund þann 1. maí en yfirskrift fundarins í ár er Sterkari saman. Formleg dagskrá hefst á Ingólfstorgi laust eftir klukkan 14.00. Safnast verður saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00 en kröfugangan leggur af stað kl. 13:30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni og einnig á Ingólfstorgi. Gengið verður niður Laugaveginn, Bankastræti, Austurstræti og niður á Ingólfstorg. Útifundurinn á Ingólfstorgi hefst kl. 14.10 og lýkur um kl. 15.00. Ræðumenn á torginu verða þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. Fundarstjóri verður Þórarinn Eyfjörð en hann hefur stýrt fundinum síðustu ár. Skemmtiatriði verða í höndum Heimilistóna og Síðan skein sól. Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Kolbrún Völkudóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum. Þegar fundinum lýkur Kaffið býður þín í Valsheimilinu Að lokinni göngu og baráttufundinum á Ingólfstorgi býður Efling-stéttarfélag upp á kaffi í Valsheimilinu að Hlíðarenda í Vodafone höllinni.  Valsheimilið eða Valshöllin á Hlíðarenda er við Flugvallarveg og er ekið í áttina að Hótel Loftleiðum og beygt til hægri eftir vegaskilti sem sýnir Valsheimilið. Félagsmenn Eflingar eru hvattir til að fjölmenna í gönguna og taka þátt í hátíðarhöldunum. Síðan er alltaf fullt hús í höllinni þar sem við njótum þess að fá okkur kaffi hjá Eflingu og hitta vinnufélaga, vini og kunningja. ENGLISH Remember the march on May 1st The march starts from Hlemmur Bus Station at 13.30 and the meeting in Ingólfstorg starts around 14.00. 1´st of May is the International Labour Day, a day to remind all workers of the struggle of working people all around the world. Here in Iceland this day is a national holiday. Generally companies respect this day as a holiday. Most workers are not working except for those in hospitals and old people´s homes, and those working in hotels and restaurants where employees have to work as usual. Those who are working on Labour Day in this country get higher shift payments or overtime according to respective agreements. The unions in Reykjavík have organized a march in the center and an outdoor meeting for the last decades. This year they have as usual planned a march and a meeting in Reykjavík center. The march starts from Hlemmur Bus Station at 13.30 and the meeting in Ingólfstorg starts around 14.00. Artists take part in the meeting. This year it is Síðan skein sól and Heimilistónar. Efling-members are invited to Vodafone Hall After the meeting Efling invites all union members to a coffee and refreshments in the Vodafone Hall, a sports stadium of the Sports Club Valur, near Öskjuhlíð and Perlan. Efling-trade union extends a Labour day greetings to all members on the international Labour day and encourages everybody to join union members from different unions in the march to the meeting in the center of Reykjavík.   POLSKI Przypominamy o pochodzie 1- majowym Pochód rozpocznie się od Hlemmur zajezdni autobusowej o godzinie 13:30, spotkanie przy Ingólfstorg o godzinie 14:00. 1maja to międzynarodowy dzień ludzi pracy, dzień przypominający nam o walce o lepsze jutro na całym świecie. Tu na Islandii dzień tej należy do jednych ze świąt narodowych.. Ogólnie wszystkie zakłady pracy i przedsiębiorstwa respektują ten dzień jako święto. Prawie wszyscy pracownicy mają wolne, oprócz osób pracujących w szpitalach, domach opieki, jak również w hotelach i restauracjach. Ludzie, którzy muszą pracować tego dnia, powinni otrzymać wyższy dodatek zmianowy lub płatne godziny nadliczbowe, stosownie do obowiązujących umów zbiorowych. Związki zawodowe w Reykjaviku pochód 1 majowy organizują przez wiele lat, w tym roku nie będzie inaczej. Najpierw ulicami przejdzie pochód a następnie odbędzie się wiec w centrum Reykjaviku. Pochód rozpocznie się od Hlemmur zajezdni autobusowej o godzinie 13:30, spotkanie przy Ingólfstorg o godzinie 14:00. Artyści również wezmą udział w wiecu, w tym roku będą to  Síðan skein sól oraz Heimilistónar. Członkowie Eflingu zaproszeni zostają do Vodafone Hall Po zakończeniu wiecu w centrum Reykjaviku, zapraszamy wszystkich członków Eflingu na kawę i poczęstunek w Vodafone Hall, na stadionie sportowym klubu Valur, niedaleko Öskjuhlíð i Perlan. Związki zawodowe Efling składają swoim członkom życzenia  z okazji 1 maja, dnia ludzi pracy i zachęcają wszystkich do wzięcia udziału w pochodzie 1 majowym w centrum Reykjaviku, wraz z członkami innych związków zawodowych.

Samningur um sex hæfnigreiningar starfa

Nú í apríl undirrituðu Efling stéttarfélag og Starfsafl samning við Mími um hæfnigreiningu sex starfa. Við hæfnigreiningarnar er notuð aðferð samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem byggir á efni frá kanadíska ráðgjafafyrirtækinu Human Resource System Group. Greiningaraðferðin byggir á þrepaskiptum hæfniþáttum þar sem búið er að skilgreina á hlutlægan hátt þá persónulegu og faglegu hæfni sem skiptir megin máli á vinnumarkaði. Niðurstöður hæfnigreininga eru starfaprófílar en þeir innihalda skilgreiningu starfsins og hæfnikröfur sem  nýtast bæði sem viðmið í námskrám og í raunfærnimati. Þess utan geta hæfnigreiningar starfa nýst á margvíslegan máta svo sem við skipulag þjálfunar og gerð fræðsluáætlana, gerð starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlana og fleira. Þau störf sem verða hæfnigreind á árinu eru eftirfarandi: Almenn störf og vaktstjórn á skyndibitastöðum (2 störf) Hópferðabílstjórar sem fara með vaktstjórn Öryggis- og dyraverðir (2 störf) Smur- og dekkjaþjónusta Starfaprófíll - Störf við almenna umönnun á hjúkrunarheimilum Kjarni starfs Starfsmaður við almenna umönnun á hjúkrunarheimilum aðstoðar íbúa í þeim tilgangi að hámarka lífsgæði og viðhalda sjálfstæði og vellíðan þeirra. Starfsmaður vinnur undir leiðsögn og í samræmi við verklagsreglur. Næsti yfirmaður er deildarstjóri/hjúkrunarfræðingur. Starfsmaður aðstoðar íbúa við athafnir daglegs lífs (félagslegar, líkamlegar og andlegar) í samræmi við verklagsreglur en á sama tíma þarf hann að hafa frumkvæði að því að laga sig að breytilegum þörfum íbúa. Hann ber ábyrgð á að skipuleggja og sinna þeim viðfangsefnum sem honum eru falin og tekur þátt í aðlögun nýrra starfsmanna þegar það á við. Starfinu fylgja mikil samskipti við íbúa, aðstandendur þeirra og samstarfsfólk. Umhyggja og virðing á að endurspeglast í öllum þáttum starfsins. Á hjúkrunarheimilum er unnin vaktavinna, morgun-, kvöld- og næturvaktir. Starfsmaður þarf að gæta trúnaðar og fylgja öllum öryggisreglum. Hann þarf jafnframt stöðugt að sýna aðgæslu og athygli í starfi sínu. Viðfangsefni starfsins: Niðurstaða Aðhlynning Aðstoðar íbúa við athafnir daglegs lífs (ADL) samkvæmt verklýsingu Sinnir reglubundnu eftirliti og svarar bjöllum Fylgist með andlegum og líkamlegum þörfum íbúa og bregst við í samræmi við verklýsingu Gefur lyf (sem búið er að hafa til og skammta) Fylgjast með og aðstoðar við næringu og vökvainntekt Skráir í skema eins og við á (t.d. snúningsskema og vökvaskema) Hvetur og tekur þátt í daglegu lífi íbúa af nærgætni og umhyggju Fylgir íbúum í tómstundir og þjálfun Heimilisstörf Sinnir almennum heimilisstörfum Sér um að ganga frá og halda umhverfinu snyrtilegu Þvo og ganga frá þvotti Skipta um, þrífa og búa um rúm Frágangur og áfylling á skoli og líni Þrif á hjálpartækjum Samskipti Dagleg samskipti við íbúa í samræmi við þarfir þeirra og athafnir hverju sinni Dagleg samskipti við samstarfsfólk, upplýsingagjöf á vakt og á vaktaskiptum (rapport) Samskipti við aðstandendur íbúa, upplýsingagjöf o.fl. Önnur lykilatriði: Starfsmaður á hjúkrunarheimili þarf að gæta trúnaðar og skrifar undir ákvæði um þagnarskyldu þegar hann hefur störf.

Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags 26. apríl 2018

Aðalfundur  Eflingar-stéttarfélags 2018 verður haldinn á Grand Hótel fimmtudaginn 26. apríl  2018.  Fundurinn hefst kl. 20.00. Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf Önnur mál Endurskoðaðir reikningar félagsins liggja frammi á skrifstofunni að Sætúni 1/Guðrúnartúni 1 Reykjavík frá og með miðvikudeginum 18.apríl nk. Félagar mætið vel og stundvíslega. Stjórn Eflingar-stéttarfélags

Opnað fyrir bókanir í sumar

Við minnum á að mánudaginn 9. apríl kl. 8.15 opnast
bókunarvefurinn fyrir félagsmenn sem eiga 100 punkta og yfir og geta þeir bókað sig í þau hús sem laus eru í sumar. ATH ! félagsmenn bóka beint og greiða strax undir liðnum laus orlofshús Ekki er opið fyrir neinar umsóknir.  Fimmtudaginn 12. apríl opnast bókunarvefurinn  fyrir félagsmenn sem eiga 1 punkt eða meira. Við mælumst til að félagsmenn skoði bókunarvefinn vel til að þekkja umhverfið þegar kemur að því að bóka orlofshús, einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið orlofssjodur@efling.is eða hafa samband við skrifstofu í síma 510-7500 ef aðstoðar er þörf. Að lokum opnast bókunarvefurinn 17. apríl fyrir alla félagsmenn með réttindi, óháð punktastöðu,  til að bóka laus hús í sumar.

Pólverjar ánægðir að hafa pólskan starfsmann

Starfið er mjög gott hérna og ég er sjálf mjög hissa á því hve mikið starf er unnið hjá Eflingu. Ég hef unnið í margvíslegum störfum þar sem ég aðstoða fólk en starfið hérna er með öðrum hætti. Samfara aðstoðinni þurfum við að gæta þess vel að úrlausnarefnin hér eru öll meira eða minna tengd lögum, reglum og kjarasamningum. Þetta gerir það að verkum að við verðum að búa yfir mikilli þekkingu og kunnáttu. Ég er auðvitað að læra þetta allt saman.  En reynslan er samt dýrmætasta vegarnestið, segir Vera Wieslawa Lupinska sem hefur starfað sem túlkur og þjónustufulltrúi hjá Eflingu í nokkra mánuði en hefur lengi aðstoðað starfsmenn Eflingar við túlkanir og þýðingar á og af pólsku. Ég taldi mig vita töluvert um Eflingu og starfið hér. Ég hef um margra ára skeið aðstoðað Pólverja hér á Íslandi. Þegar þeir koma frá heimalandinu eiga þeir oft erfitt þar sem þeir tala oft litla sem enga íslensku. Menningarheimur þeirra fylgir þeim líka oft til Íslands. Þeir fylgjast oft mikið með fréttum frá heimalandinu eins og eðlilegt er en tungumálið er þröskuldurinn sem erfitt er að komast yfir. Þess vegna er það mjög gefandi að fá að vera í starfi þar sem hlutverkið er að hjálpa og aðstoða og fólk er oft mjög þakklátt fyrir vinnuna okkar hér. En þetta er í reynd mikill lærdómstími fyrir mig. Við erum hér með marga kjarasamninga og lög um vinnumarkaðinn og síðan túlkanir á þeim og margt af þessu er alveg nýtt fyrir mig. Jú, það gengur vel að læra þetta því hér er samhentur hópur sem vinnur vel saman. Það er líka almennt góður andi hér á skrifstofunni. En ég aðstoða við túlkanir og þýðingar á öllum sviðum ekki bara í kjaramálum, heldur líka í sjúkrasjóðum, starfsendurhæfingunni, fræðslumálum og orlofsmálum enda kemur það í ljós að pólskir félagsmenn eru mjög ánægðir að hafa hér pólskan starfsmann sem skilur vel það umhverfi sem þeir koma úr og getur talað við þá á þeirra eigin tungumáli. Það hefur komið mér á óvart hvað það er gríðarlega mikið að gera hér hjá Eflingu. Það má segja að verkefnin geti náð vel út fyrir vinnudaginn og fólk kemur hingað úr alls konar fyrirtækjum með mismunandi kjarasamninga en síðan leitar fólk sér alls konar upplýsinga fyrir utan kjarasamningana. Við reynum auðvitað að leysa úr þeim málum sem við getum. Á þessum vinnustað er reynslan dýrmætust en ekki síður að kunna kjarasamninga og lögin sem gilda um vinnumarkaðinn. Ef við ættum að bæta eitthvað hér á Eflingu, þá tel ég að við ættum að reyna að auka allt efni sem við framleiðum á pólsku. Það eru margir Pólverjar hérna sem tala litla eða enga íslensku og þess vegna er nauðsynlegt að hafa sem mest af þessu efni til á pólsku og geta rétt þeim efnið í bæklingum eða með öðrum hætti. Það skiptir mjög miklu máli, segir Vera. Mér líkar mjög vel á þessum vinnustað. Ég hef  oftast unnið sem túlkur á nokkrum vinnustöðum en þetta starf hér á Eflingu er mjög ólíkt því sem ég hef unnið hjá áður. Það er sérstaklega fjölbreytni mála og spurninga sem koma upp. En hér hjálpast fólkið að enda væri engin leið að læra þetta allt nema vegna þess að hér eru margir reynsluboltar sem alltaf eru reiðubúnir að aðstoða. Já, ég get ekki sagt annað en ég er ánægð hér og það eru forréttindi að fá að vera í mínu hlutverki að aðstoða landa mína eins og ég get, segir Vera að lokum.

Námskeið fyrir dyraverði og næturverði

Eflingarfélagar sem starfa sem dyraverðir eða hyggjast starfa sem slíkir eiga kost á að sækja dyravarðanámskeið hjá Mími þann 30. apríl n.k. Námið hentar einnig öðru starfsfólki á hótel og veitingahúsum t.d. þeim sem vinna næturvaktir. Þetta er starfsnám, ætlað til að efla þátttakendur í starfi. Mímir heldur námskeiðið í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg. Námið hefst 30. apríl til 16. maí 2018. Kennt er á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16:30–19:25. Þátttakendur sem lokið hafa þessu 24 kennslustunda námi geta fengið dyravarðaskírteini sem gildir í þrjú ár ef þeir uppfylla skilyrði til að starfa sem dyraverðir. Kennsla fer fram hjá Mími-símenntun, Höfðabakka 9. Nánari upplýsingar og skráningu má finna á
heimasíðu Mímis eða í síma 580 1800.  

ASÍ tekur ekki sæti í Þjóðhagsráði

Miðstjórn ASÍ ákvað á fundi sínum þann 21. mars að Alþýðusambandið myndi ekki taka sæti í Þjóðhagsráði, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að útvíkka erindi ráðsins og ræða félagslegan stöðugleika ásamt efnahagslegum stöðugleika. Það er mat miðstjórnar ASÍ að framundan séu átök um grundvallarmál eins og fjármögnun velferðarkerfisins, skattamál, launastefnu og jöfnuð. Umræða um þessi mál fer ekki fram í Þjóðhagsráði, að mati miðstjórnar, heldur í beinum tengslum við gerð nýrra kjarasamninga í haust. Ákvörðun um stofnun Þjóðhagsráðs var tekin árið 2015, m.a. að frumkvæði ASÍ. Tæp tvö ár eru síðan Þjóðhagsráð kom fyrst saman en það hefur hingað til starfað án samtaka launafólks. Frá upphafi gerðu bæði ASÍ og BSRB athugasemdir við að ráðið ætti einungis að fást við efnahagslegan stöðugleika út frá afar þröngri skilgreiningu en krafa ASÍ og BSRB var að það ætti einnig að fjalla um félagslegan stöðugleika.

Síðasta dagurinn til að sækja um orlofshús í sumar er í dag 22. mars

Orlofssjóður Eflingar minnir félagsmenn á að síðasti dagurinn til að sækja um orlofshús í sumar er í dag, fimmtudaginn 22. mars. Sótt er um rafrænt á 
bókunarvefnum. , undir liðnum umsóknir og verður úthlutun 26. mars og hafa félagsmenn greiðslufrest til 5. apríl. Félagsmenn sem eiga 200 punkta og meira geta sótt um og verður aðeins úthlutað einu sinni. Kerfið raðar umsóknum eftir punktaröð umsækjenda, og því hafa þeir forgang sem flesta punkta eiga og hafa greitt lengst til orlofssjóðs. Athugið að þegar niðurstaða úthlutunar liggur fyrir verða svör send með tölvupósti, og því er mikilvægt fyrir umsækjendur að gefa upp netföng, eða uppfæra þau á bókunarvef ef við á, undir liðnum stillingar. Eftir það verður opnað fyrir bókanir á vefnum í skrefum, í þau hús sem laus eru eftir úthlutun: Opið fyrir bókanir í 3 daga fyrir þá sem eiga 100 punkta og meira, 9. – 12. apríl. Ganga þarf frá greiðslu strax. Opið fyrir bókanir í 3 daga fyrir þá sem eiga 1 punkt og meira, 12. – 16. apríl. Ganga þarf frá greiðslu strax. Opið fyrir alla félagsmenn frá og með 17. apríl, óháð punktastöðu, þá gildir reglan fyrstur bókar fyrstur fær. Mikilvægt er að SKOÐA BÓKUNARVEFINN VEL og þekkja umhverfið þegar það kemur að skráningu umsókna fyrir sumarúthlutun.

Fáðu starfsreynslu þína metna

Efling stéttarfélag vekur athygli félagsmanna sinna sem starfa í leikskólum, grunnskólum og við umönnun að nú er að hefjast raunfærnimat fyrir þessi störf hjá Mími.  Með raunfærnimati fær starfsmaður staðfestingu á þeirri færni sem hann hefur öðlast í starfi og er hún metin til styttingar á námi og/eða til að bæta við sig einingum á framhaldsskólastigi. Til að taka þátt í raunfærnimatinu þarf viðkomandi að vera orðinn 23ja ára og hafa starfað  í ca.  3 ár (þarf þó ekki að vera samfellt).  Raunfærnimatið er þátttakendum að kostnaðarlausu.  Að mati loknu hafa  þátttakendur tækifæri til að ljúka námsáföngum sem upp á vantar til að ljúka námi á braut eða brú og/eða vinna með náms- og starfsráðgjafa í því að skoða hver væru góð næstu skref fyrir viðkomandi í námi eða starfi. Metið er á móti námi á: félagsliðabraut, leikskólaliðabraut, félags – og tómstundabraut og stuðningsfulltrúabraut (grunnskóli). Nánari upplýsingar um námsbrautirnar má finna á
www.mimir.is og www.bhs.is Áhugasamir félagsmenn geta haft samband við Mími í s. 580 1800.

Dagsbrúnarfyrirlestur 2018 - eftirlaun aldraðra

Hinn árlegi Dagsbrúnarfyrirlestur verður haldinn í hádeginu fimmtudaginn 22. mars næstkomandi, kl. 12:00 til 13:15. Að fyrirlestrinum standa auk Bókasafns Dagsbrúnar, Efling-stéttarfélag og ReykjavíkurAkademían. Dr. Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, mun fjalla um eftirlaun aldraðra hér á landi og þróunina í kjörum þeirra. Barátta verkalýðsfélaga fyrir auknum félagslegum réttindum á borð við lífeyrisréttindi er ekki eins sýnileg og baráttan fyrir hækkuðu kaupgjaldi. Af þessum sökum munu Dagsbrúnarfyrirlestrar RA til næstu ára beina sjónum að félagslegum réttindum launþega, þá ekki síst réttindum þeirra sem hverfa tímabundið eða ótímabundið af vinnumarkaði sökum aldurs eða heilsutjóns. Samkvæmt venju er fyrirlesturinn haldinn í fundarsal RA í Bókasafni Dagsbrúnar á fjórðu hæð að Þórunnartúni 2. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Léttar veitingar í boði. Bókasafn Dagsbrúnar var stofnað á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar þann 26. janúar 1956 þegar Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins Valdimarssonar, gaf félaginu bókasafn manns síns til minningar um hann. Safnið var fyrst til húsa í félagsheimili múrara og rafvirkja að Freyjugötu 27 en var svo á ýmsum stöðum í Reykjavík þar til það flutti í húsakynni ReykjavíkurAkademíunnar árið 2003. Meginstofn safnsins eru bókagjafir úr einkasöfnum einstaklinga.  

Engin lognmolla hjá Starfsafli

Það var engin lognmolla hjá Starfsafli í febrúar frekar en aðra mánuði ársins og fögnum við því. Við viljum sjá vöxt og við viljum sjá fyrirtæki leita til sjóðsins, þá er Starfsafl að skila sínu. Í febrúar bárust alls 40 umsóknir frá 25 fyrirtækjum. Styrkloforð voru alls 4.534.312 og þar af er búið að greiða 3.782.044,- Einhverjar umsóknir hafa ekki fengið afgreiðslu þar sem vantað hefur fylgigögn. Á bak við þessar tölur eru tæplega 700 einstaklingar, starfsmenn fyrirtækja sem hafa notið góðs af fræðslu á vegum fyrirtækisins og fyrirtækið nýtur góðs af aukinni þekkingu og hæfni sinna starfsmanna.  Þetta er eins og segir á góðri íslensku, win win. Ef litið er nánar á efnisþætti umsókna þá var ein umsókn vegna Fræðslustjóra að láni, 3 vegna eigin fræðslu, 5 vegna skyndihjálpar og 3 íslenskukennslu, svo dæmi séu tekin. 9 umsóknir voru vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra en í lögum segir að bílstjóri sem ekur stórri bifreið í ökuréttindaflokki D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokki C1 og C til vöruflutninga í atvinnuskyni skuli sækja 35 kennslustunda endurmenntun á 5 ára fresti. Fjöldi nemenda á bak við þær umsóknir sem bárust í febrúar vegna endurmenntunarinnar eru 283 talsins, kennslustundir 108 og heildarstyrkupphæð 1.933.373,- Fyrirtæki með starfsfólk innan Flóabandalagsins geta sótt til sjóðsins og hvetur Starfsafl fyrirtæki til að hafa samband og kanna hvaða leiðir eru mögulegar. Þá má finna nánari upplýsingar á vef Starfsafls www.starfsafl.is eða í síma 510 7550. Frétt af vef Starfsafls Starfsafl – starfsmennt Samtaka Atvinnulífsins og Flóabandalagsins varð til í tengslum við kjarasamninga vorið 2000. Þá var samið um stofnun sérstaks sjóðs sem ætlað er að byggja upp menntun almennra starfsmanna fyrirtækja.  Símenntun starfsmanna er lykill fyrirtækja að betra starfsumhverfi, aukinni framleiðni og styrkir samkeppnisstöðu þeirra. Fyrirtæki geta sótt um styrk til að vinna sérstök starfsmenntaverkefni sem hafa fræðslu að markmiði og einnig geta einstaklingar sótt styrki í sjóðinn vegna fræðslu.

Hvernig á að mæta nýjum áskorunum á vinnumarkaði?

Ingibjörg Hanna Björnsdóttir og Helga Lind Hjartardóttir, náms- og starfsráðgjafar hjá Mími – eftir Helgu Lind Hjartardóttur og Ingibjörgu Hönnu Björnsdóttur hjá Mími  Vinnumarkaðurinn í dag stendur frammi fyrir nýjum áskorunum og því þarf að hugsa til framtíðar. Það er talað um að fjórða iðnbyltingin sé hafin með breyttu starfsumhverfi sem hefur meðal annars þýtt fækkun starfa og auknar kröfur um tækniþekkingu. Eitt af hlutverki náms- og starfsráðgjafa er að hjálpa fólki að takast á við þessar nýju áskoranir. Að stefna að vellíðan og velgengni Það að stefna í átt að vellíðan og velgengni snýr oftar en ekki að tækifærum varðandi nám og störf. Oft eru þau tækifæri ekki mjög sýnileg og fólk getur vantað upplýsingar um möguleika og veit jafnvel ekki hvað það hefur fram að færa. Þar komum við til aðstoðar. Mikilvægt að taka ábyrgð Mikilvægt er að einstaklingar kortleggi þá færni sem telst eftirsóknarverð á 21. öldinni og vinni með hana. Náms- og starfsráðgjafar hafa á reiðum höndum verkfæri sem byggja brú yfir í framtíðina. Við getum veitt innsýn inn í atvinnulífið og tækifærin sem þar felast. Eitt af mikilvægustu skrefunum fyrir fólk er að taka ábyrgð á eigin starfsferli og starfsþróun. Færniskráning er mikilvægt fyrsta skref Í færniskráningu felst meðal annars að viðkomandi sest niður með ráðgjafa þar sem farið er yfir það sem hann hefur gert í gegnum tíðina. Færni einstaklings snýst ekki eingöngu um launað starf eða formlegt nám heldur er færni áunnin til dæmis í sjálfboðavinnu, félagsstörfum, tómstundanámskeiðum, vinnutengdum námskeiðum og hvers konar lífsreynslu sem fólk hefur- allt skiptir máli. Við kortleggjum þessa reynslu með fólki og gerum styrkleikana sýnilegri, byggjum á þeim og heimfærum yfir á önnur tækifæri á vinnumarkaði eða til eflingar í núverandi starfi. Fyrir þá sem eru að leita að nýjum tækifærum væri næsta skref gerð ferilskrár en góð ferilskrá getur skipt sköpum í til að mynda atvinnuleit eða með umsókn um nám. Sjálfsþekking skiptir miklu máli Kortlagning færni og reynslu er ekki síður mikilvægur undirbúningur þegar farið er í atvinnuviðtal því það miðast að því að geta komið þessum þáttum vel frá sér. Með því að styrkja sjálfan sig og bæta sjálfsþekkinguna eykst trúin á eigin getu. Þá verður auðveldara að segja upphátt og af sannfæringu: ég hef mikla reynslu af…….. ég ætti að fá starfið vegna þess að….. Þarf að líta til annars konar færni Þegar við aðstoðum fólk við að leita að nýjum tækifærum eða takast á við breytingar á náms- og starfsferli sínum erum við meðvitaðar um að efla þá færniþætti sem horft er til á 21. öldinni. Nánast allt sem við lesum og leitum okkur upplýsinga um varðandi vinnumarkað framtíðarinnar kemur alltaf fram mikilvægi hinna mjúku færniþátta (soft skills). Þar á meðal er samskipti og samvinna, sjálfsþekking, sveigjanleiki, aðlögunarhæfni og gagnrýnin hugsun. Einnig er talið að sköpunargleði og frumkvæði muni skipta mjög miklu máli ásamt því að hugsa lausnamiðað. Upplýsingalæsi og tæknifærni er að sama skapi mikilvægt til að takast á við verkefni í ýmsum störfum í dag og nýjum störfum í framtíðinni. Við þurfum að læra að nota tæknina og snjallheiminn til góðra verka. Þetta er að okkar mati eitt það mikilvægasta af þessu öllu saman og þarna þarf atvinnulífið ásamt þeim sem eru að skapa menntunartækifæri að vinna saman og skapa vettvang fyrir fólk til að efla sig í starfi eða til nýrra starfa. Af hverju erum við að leggja svona mikla áherslu á að skoða inn í framtíðina? Jú, því hún kallar á það að einstaklingar geti nýtt styrkleika sína í umhverfi sem breytist hraðar en við gerðum ráð fyrir. Því styrkari fótum sem hver og einn stendur því betur er hann í stakk búinn að takast á við hið óþekkta. Hvernig getum við hjálpað? Náms- og starfsráðgjafar Mímis veittu lesendum Fréttablaðs Eflingar góð ráð í 2.tbl. 2018 um hvernig fólk geti mætt nýjum áskorunum á vinnumarkaði. 

Sólveig Anna Jónsdóttir verður næsti formaður Eflingar-stéttarfélags

Sólveig Anna Jónsdóttir verður næsti formaður Eflingar-stéttarfélags og mun hún taka við af Sigurði Bessasyni, fráfarandi formanni, á aðalfundi félagsins þann 26. apríl nk. B listi Sólveigar Önnu fékk 2099 atkvæði en A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði. Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar. Úrslit kosninganna eru þannig: Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði. B listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk  2099 atkvæði. A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði. Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.

Félagsmenn Eflingar á opinbera markaðnum fá launaþróunartryggingu

Gildir afturvirkt frá 1. janúar 2018 Nú liggur fyrir niðurstaða hvernig laun þeirra opinberu hópa sem starfa hjá Eflingu hafa þróast í samanburði við laun á almennum markaði fyrir árið 2017. En samkvæmt
rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins um sameiginlega launastefnu frá 27. október 2015 var kveðið á um að þeir sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt það launaskrið sem verður á almenna vinnumarkaðnum umfram það sem kann að verða á opinbera markaðnum. Launatafla Reykjavíkurborgar hækkar afturvirkt um 1,4% frá 1. janúar 2018. Sambærileg hækkun gildir einnig fyrir félagsmenn Eflingar sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum, svo sem Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og Ölfus. Þá mun launatafla hjá ríkinu hækka afturvirkt frá 1. janúar 2018 um 0,5% en er þetta í annað sinn sem að niðurstöður í samræmi við rammasamkomulagið leiða til launahækkana hjá félagsmönnum Eflingar sem starfa á samningssviði ríkisins. Þannig hækkaði launataflan um 1% afturvirkt frá 1. janúar 2017, auk þess sem að lífaldursþrep voru felld út. Samningur við hjúkrunarheimili og aðrar sjálfseignarstofnanir Sú hækkun sem niðurstaða varð um gagnvart ríkinu mun einnig ná til hjúkrunarheimila og annarra sjálfseignarstofnana sem taka mið af kjarasamningi ríkisins og er því mikilvægt að félagsmenn fylgi því vel eftir að launahækkanir skili sér til samræmis við niðurstöður við ríkið. Einkareknir leikskólar og fyrirtæki á samningssviði Reykjavíkurborgar Undir samningssvið Reykjavíkurborgar falla einkareknir leikskólar og ýmis fyrirtæki svo sem Sorpa, Faxaflóahafnir og Ás styrktafélag. Einnig hér er mikilvægt að félagsmenn fylgi því eftir að launahækkanir skili sér til samræmis við þá launatöflu sem tók gildi 1. janúar 2018. Allar launatöflur á opinbera markaðnum hækka að nýju um 3% frá 1. júní 2018. Hægt er að nálgast nýjar launatöflur á heimasíðu Eflingar.

Umsóknartímabil sumarleigu er frá 1. - 22. mars

Félagsmenn athugið að umsóknartímabil fyrir sumarleigu orlofshúsa hefst 1. mars og stendur til og með 22. mars. Úthlutað verður 26. mars og eftir það opnast bókunarvefurinn í skrefum, nánari upplýsingar má finna
hér.

Efling vill segja upp kjarasamningum en samningar halda skv. niðurstöðu formannafundar

Efling vill segja upp kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins eins og fram kom í máli Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar á formannafundi aðildarfélaga ASÍ í dag. Niðurstaða fundarins var hins vegar sú að halda gildandi kjarasamningum við SA til áramóta. Á fundinum var leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um uppsögn kjarasamninga og þurfti bæði meirihluta þeirra fundarmanna, þ.e. formenn aðildarfélaga ASÍ sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Form­legt vald til að segja upp kjara­samn­ing­un­um er í hönd­um átta manna samn­inga­nefnd­ar ASÍ en nefnd­in ákvað það að fundi sín­um í morg­un að gera ákvörðun fund­ar formann­anna að sinni. Alls greiddu 49 atkvæði á fundinum en þeir voru með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig. Niðurstaða formanna: Já, vil segja upp 21 (42,9%) Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%) Vægiskosning: Já 52.890 (66,9%) Nei 26.172 (33,1%) Í atkvæðagreiðslunni þurfti bæði meirihluta fundarmanna sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Þar sem ekki náðist meirihluti fundarmanna var tillaga um uppsögn samninga felld. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til ársloka. Þeir sem vildu halda í samninginn töluðu m.a. um að aðeins væru 9 mánuðir eftir af samningnum og hann tryggði 3% almenna launahækkun 1. maí og rúmlega 7% hækkun lágmarkslauna. Nota ætti tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa næstu kjaraviðræður. Það var þungt hljóð í þeim sem vildu segja upp og sterk krafa um að verkalýðshreyfingin setti fótinn niður í samfélagi misskiptingar. Stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir að taka til sín ávinning af starfi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa, en stjórnvöld tekið að stórum hluta til baka með skerðingu bóta. Úrskurðir kjararáðs og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og Landsvirkjunar urðu auk þess mörgum fundarmönnum tilefni til gagnrýni.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere