Select Page

Íslensk stjórnvöld hafa gengið á bak orða sinna um réttarbót fyrir þolendur launaþjófnaðar og brotastarfsemi á vinnumarkaði með gagnslausum lagasetningarhugmyndum þar sem sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar eru virt að vettugi.

Í frumvarpi sem Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur sent frá sér eru þolendur launaþjófnaðar skikkaðir til að hætta eigin atvinnuöryggi áður en Vinnumálastofnun veitir þeim áheyrn í nýju og gríðarlega flóknu málsmeðferðarferli, þar sem í hverju skrefi hallar á brotaþola. Er brotaþolum meðal annars gert að undirgangast niðurlægjandi samningaviðræður um endurgreiðslu á stolnum launum við brotlegan atvinnurekanda.

Atvinnurekendur fá fullt sjálfdæmi um eigin sök í „samráðsnefnd“ og fá sjálfir að ákveða hvort sérstakur gerðardómur fjalli um mál þeirra. Lagasetningin er í algjörum sérflokki í því að fara með silkihönskum um gerendur, og gefur þeim enn ríkari undankomuleiðir en í núverandi launakröfuferli stéttarfélaganna.

Brot á fullgildum ráðningarkjörum meirihluta launafólks á almennum vinnumarkaði eru alfarið undanskilin lagasetningunni þar eð hún tekur aðeins til brota á lágmarkskjörum kjarasamninga en ekki til brota á ráðningarsamningum.

Málsmeðferðarskilyrði leggja afar litlar skyldur á Vinnumálastofnun, til að mynda varðandi athugun á heildartilhögun launamála á vinnustað þar sem grunur leikur á um brotastarfsemi, og setja þess í stað alla ábyrgð á herðar einstaks launamanns og takmarka viðurlög við mál hans eins.

Í frumvarpinu er engin bótaregla eða févíti, líkt og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir, sem tryggt gæti afleiðingar fyrir algengustu framkvæmd launaþjófnaðar á íslenskum vinnumarkaði. Þess í stað er boðið upp á áðurnefnda samráðsnefnd þar sem brotlegur atvinnurekandi fær sjálfur að ákveða hvort hann endurgreiðir þau laun sem hann skuldar, jafnvel þótt launasvik séu staðfest.

Frumvarpið fellur því á eigin prófi um að ná því markmiði sem lýst er í greinargerð, að „sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði“. Hefur félags- og barnamálaráðherra og ríkisstjórnin auk þess svikið eigin loforð sem gefin voru út í yfirlýsingu í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í apríl 2019 og sem hafa verið ítrekuð við önnur tækifæri, til að mynda á fundi með formönnum aðildarfélaga ASÍ þann 25. ágúst síðastliðinn.

Margítrekuðum óskum Eflingar um að fá kynningu á efni frumvarpsins áður en það yrði sent úr félagsmálaráðuneytinu var hafnað eða þær hunsaðar. Í athugasemdum Eflingar við frumvarpið er spurt hvort höfundar þess skilji í raun þann vanda sem frumvarpinu er ætlað að leysa.

„Þeir ranghalar af vanvirðingu og niðurlægingu sem þolendur launaþjófnaðar yrðu dregnir inn í með lögfestingu þessa frumvarps eru sannarlega ævintýralegir, svo ekki sé minnst á ríkulegt hlaðborð nýstárlega undankomuleiða fyrir brotlega atvinnurekendur. Þarna hefur hugmyndaflug Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra fengið lausan tauminn án þess að raunveruleiki verka- og láglaunafólks hafi þvælst fyrir á nokkru stigi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Athugasemdir Eflingar í heild sinni.

Frumvarp til starfskjaralaga.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere